Jórdanía sagan II,
Flag of Jordan


JÓRDANÍA
 SAGAN II

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Jórdanía undir stjórn Husseins.  Saga Jórdaníu eftir 1953 mótaðist aðallega af stefnu konungs að tryggja völd sín og endurheimta Vesturbakkann frá hasemítaættinni.  Samband Jórdaníu og Ísraels á fyrsta áratugi Ísraelsríkis var ótryggt en þolanlegt, þótt báðir aðilar gerðu árásir á hina og stunduðu skæruhernað, sem jók á spennuna.  Afskipti Jórdaníu af málefnum Palestínumanna ollu miklum deilum við Egypta um framtíð Jórdaníu og um ófriðinn við Ísraelsmenn.  Jórdanía varð oft að leika jafnvægislistir vegna sambandsins við og milli arabaþjóðanna, Palestínumanna og Vesturlanda og Ísraels.  Almenn mótmæli, aðallega á Vesturbakkanum, og þrýstingur frá Egyptum komu í veg fyrir að Hússein undirritaðir Bagdadsamninginn 1955.  Þessi gagnkvæmi varnarsamningur , sem Bretar, Tyrkir, Íranar og Írakar höfðu komið til leiðar, var hliðhollur Vesturlöndum, kom til móts við almenningsálitið og virti tilraunir Egypta til að skipa sér í forystuhlutverk meðal arabaríkja.  Hussein rak brezka ráðgjafa sína 1956, þ.á.m. Glubb hershöfðingja og felldi úr gildi samninginn við Ísraela frá 1946.  Þegar Vesturbakkahermenn í þjóðvarðliðinu reyndu að gera hallarbyltingu í apríl 1957, naut konungur stuðninga bedúína á Austurbakkanum til að koma lögum yfir palestínska þjóðernissinna og öfgamenn, banna stjórnmálaflokka og koma á einræði til að lægja öldurnar heima fyrir.

Eftir að Egyptar og Sýrlendingar stofnuðu Sameinaða arabalýðveldið 1958 (UAR 1958-61), sannfærði Faysal II Hussein, frænda sinn, að taka þátt í samstarfinu við Írak.  Í júli létu Faysal og fjölskylda hans lífið í hallarbyltingu hersins í Írak, sem Gamal Abdel Nasser, Egyptalandsforseti, skipulagði.  Hussein gerði sér ljóst að veldi hans var í hættu og snéri sér til Breta og Bandaríkjamanna, sem voru hlynntir því að tryggja völd hans.  Bandaríkin samþykktu að veita hernaðar- og efnahagsaðstoð og Bretar komu fyrir fallhlífahermönnum til ársins 1958.  Þessar aðgerðir ollu því, að palestínskir andstæðingar konungs, sem nutu stuðning Nassers, forseta Egyptalands, treystu sér ekki til að velta konungnum úr sessi.  Í upphafi sjöunda áratugarins styrktu BNA Hussein með US$ 100 miljónum árlega.  Þetta fé liðkaði fyrir hagstæðri efnahagsþróun og tryggði völd konungs, þótt oft væri sótzt eftir lífi hans.

PLO og stríðið í júní 1967.  Upphaf PLO og skæruliðasamtökunum Fatah síðla á sjöunda áratugnum var talsverð ógnun við yfirráð Jórdana á Vesturbakkanum og Ísrael.  Snemma árs 1965 hóf Fatah blóðugan og eyðandi skæruhernað gegn Ísrael með stuðningi Egypta og róttæka Ba’th-flokksins í Sýrlandi.  Ísraelar snérust til varnar og gerðu árásir á Vesturbakkann til að koma í veg fyrir þessar aðgerðir.  Samband Jórdana við Sýrland, Egyptaland og Palestínumenn versnaði.  Hussein hélt áfram viðræðum við Ísraela um ógnirnar, sem steðjuðu að báðum löndum.  Síðla árs 1966 gerði Ísraelsher harða árás á þorpið As-Samu á Vesturbakkanum sunnan Hebron.  Hussein reyndi að stöðva palestínska skæruliða frá Sýrlandi á leið sinni um Jórdaníu til Ísraels og rauf loks stjórnmálasambandið við Sýrland.  Vorið 1967 jókst spenna milli Ísraels annars vegar og Egypta og Sýrlendinga hins vegar og Jórdanar undirrituðu varnarsamning við Egyptaland og Sýrland.  Herjum Jórdana og Ísraela lenti saman í Austur-Jerúsalem og Hussein lýsti yfir þriðja stríði araba og Ísraela með Egyptum og Sýrlendingum í júní 1967.

Þetta ár markaði tímamót í sögu Jórdaníu.  Innan 48 klst. höfðu hersveitir Ísraels náð undir sig öllu svæðinu vestan Jórdanár, þ.m.t. Betlehem, Hebron, Jeríkó, Nablus, Ram Allah, Janin og Jerúsalem.  Mannfall var mikið í liði Jórdana og þeir misstu þriðjung frjósamasta lands síns.  Óstöðugur efnahagur landsins leyfði ekki viðbót 200.000 flóttamanna.  Hussein hafði valið skárri kostinn af tveimur slæmum.  Hann trúði því, að Egyptar og Sýrlendingar hefðu aðstoðað Palestínumenn við að velta honum úr sessi, hefði hann ekki tekið þátt í stríðinu.  Hann kaus því heldur að missa Vesturbakkann og Jerúsalem en konungsríki sitt.

Sýrlendingar og Jórdanar stóðu frammi fyrir tregðu BNA til að birgja þá vopnum og samningi Egypta og Ísraela um Sínaískagann.  Því tóku löndin sig saman um sameiginlega stjórn herja landanna og samræmingu í stefnu í utanríkis- og hermálum til að ná stjórn á aðgerðum PLO.  Í marz 1977 hitti Hussein Arafat í Kaíró en þeir höfðu ekki hitzt síðan Hinn svarta september 1970.  Í júlí 1977 ræddu Hussein, Anwar el-Sadat forseti Egyptalands og Jimmi Carter forseti BNA möguleika á tengslum Jórdaníu og Palestínumanna en hinir PLO tók slíkt ekki í mál.

Sigur Likud-bandalagsins með Menachem Begin í fararbroddi í Ísrael í maí 1977 varð til þess, að það fjaraði undan sambandinu milli Ísraels og Jórdaníu.  Ísraelar nefndu Vesturbakkann Júdeu og Samaríu og Begin fyrirskipaði hraðar framkvæmdir við uppbyggingu gyðingabyggða þar og á Gaza-svæðinu.  Samkvæmt Camp David-samningunum frá 1978 hét Ísrael því, að veita Palestínumönnum heimastjórn og semja um framtíðarstöðu hernuminna svæða en Hussein hafnaði samningnum og sleit 15 ára löngum leynisamböndum við Ísrael.  Frá seinni hluta árs 1977 til 1984 var líðið um samneyti þessara þjóða.  Hussein var brugðið, þegar vinsældir hugmyndar um nýja Palestínu í Jórdaníu fengu góðan hljómgrunn í Ísrael.  Innrás Ísraela í Líbanon 1982 jók enn á óttann í Amman, þar sem álitið var að þarna væri stigið fyrsta skrefið til flutnings Palestínumanna til Austurbakkans.

Snemma árs 1980 reyndi Hussein að ná sáttum við Arafat og PLO eftir að samtökin höfðu verið hrakin frá Líbanon.  Þeir gerðu samkomulag til bráðabirgða en það stóð völtum fótum.  Árið 1984 leyfði Hussein þjóðarráði Palestínumanna að funda í Amman til að styrkja stöðu sína í augum þeirra.  Í febrúar 1985 undirritaði hann samkomulag við Arafat um samvinnu við PLO og samræmingu í friðarviðleitni.  Hussein áleit, að Arafat samþykkti sameiningu Austur- og Vesturbakkanna sem heimastjórnarsvæði Palestínumanna undir stjórn Jórdaníu.  Arafat hélt í vonina um sjálfstætt Palestínuríki á Vesturbakkanum, þótt hann væri hlynntur slíku sambandsríki.

Í febrúar 1986 var Hussein búinn að fá sig fullsaddan af tvískinnungi Arafats vegna dráttar á viðurkenningu Ísraelsríkis og fordæmingu hryðjuverka, sagði upp Amman-samkomulaginu við Arafat og hætti viðræðum við PLO.  Konungur gætti þess, að hrekja PLO ekki alveg frá Jórdaníu, þrátt fyrir sífjölgandi árásir skæruliða á Vesturbakkanum, en lét loka skrifstofum samtakanna í Amman.  Hann snéri frá stefnunni, sem hafði verið fylgt eftir leiðtogafund arabaríkjanna í Rabat 1974 og lýsti því yfir, að hann tæki persónulega ábyrgð á velferð Palestínumanna á Vesturbakkanum.  Þar að auki yrði Vesturbakkinn hluti af næstu fimmáraáætlun landsins og samþykkti að fjölga þingsætum Palestínumanna, þannig að þeir næðu helmingi þingliðsins.  Markmið hans var að koma á stjórn Jórdana, Palestínumanna og Ísraela á Vesturbakkanum, þannig að svæðið yrði óháð PLO og hægt væri að ná samkomulagi við Ísrael um einhver völd Jórdana þar.

Í apríl 1987 samþykktu Hussein og Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, að taka þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna með öllum, sem málið snerti, til að komast að varanlegu samkomulagi um frið.  Palestínumenn skyldu vera hluti jórdönsku sendinefndarinnar.  Bandaríkjamenn staðfestu tillöguna (Ronald Reagan) en forsætisráðherra Ísraels, Yitzhak Shamir, vildi takmarka ráðstefnuna við Jórdana eina og var andsnúinn hugmyndinni um ráðstefnu um varanlegan frið.  Hussein náði sér í rós í hnappagatið, þegar hann kallaði efndi til leiðtogafundar arabaríkja í Amman í nóvember, þar sem ákveðið var að endurvekja stjórnmálasamband við Egyptaland, sem hafði verið rofið í kjölfar Camp David-samkomulagsins.  Það var mikilvægt fyrir Hussein, að Palestínuvandinn var ekki aðalmál fundarins, heldur stríð Íraka og írana, sem hafði staðið í 8 ár.

Veður skipaðist geysilega í lofti í desember, þegar heilagt stríð (intifada) brauzt út á Vesturbakkanum.  Hussein gerði sér fljótlega ljóst, að uppreisninni var ekki síður beint gegn stjórn hans en Ísrael.  Viðbrögð hans voru að styðja intifada opinberlega og bjóða fórnarlömbum stríðsins aðstoð.  Leiðtogar intifada höfnuðu tillögum konungs og Arafat varð talsmaður uppreisnarinnar.  Intifada gerði að engu friðarviðleitni Ísraela og Jórdana.  Hussein nam fimmáraáætlunina fyrir Vesturbakkann úr gildi.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM