Lífrænar auðlindir. Flóra
og fána Kyrrahafsins er mjög margbreytileg og flókin. Blöndun heimshafanna er mun meiri á suðurhveli en á norðurhveli,
þannig að gróður og dýr berast hraðar á milli að sunnanverðu.
Lítil hætta er á því, að hluti lífríkis tempruðu- og
hitabelta heimshafanna berist á milli, því að fá eða engin dýr eða
gróður á þeim slóðum þrífast í kaldari sjó, sem þau yrðu
þá að ferðast um. Undan
klettóttum norðurströndum Norður-Ameríku og suðurströndum Suður-Ameríku
vex mikið af stórgerðum þarategundum úr brúnum þörungum (Laminaria).
Sumar þessara plantna verða á fjórða tug metra langar.
Í skjóli þeirra þrífst fjölbreytt dýralíf, bæði
hryggleysingjar og fiskar. Þar
sem er uppstreymi kaldsjávar eða láréttir straumar, berst mikið af
næringarefnum upp að yfirborði á þessum slóðum.
Þar þrífst fjöldi fisktegunda, sem nærist á svifi, s.s. ýmsar
tegundir síldar. Einnig má
nefna japanskar sardínur og ansjósu fyrir ströndum Perú, sem veiðast
í gífurlegu magni líkt og loðnan í Norður-Atlantshafi.
Í Norður-Kyrrahafi
skapa straumahringrás og afrennsli frá landi afbragsskilyrði fyrir
botnlægar tegundir lífvera, sem mikið er af á þessum slóðum. Lýri og lýsingur í Norður-Kyrrahafi eru áberandi
tegundir sem og fimm tegundir lax (Oncorhynchus).
Aðeins ein tegund finnst í Atlantshafi (Salmon salar).
Í hlýjum sjónum í hitabeltinu, milli straumakerfanna sunnan og norðan
miðbaugs er geysifjölbreytt lífríki, einkum í Vestur-Kyrrahafi (Indlandshafi),
þar sem hlýtt monsúnloftslag og margvíslegar landmyndanir hafa valdið
sérstöku þróunarferli. Þar er einnig að finna fjölbreytilegustu
kóralrif heims, sem laða til sín sexfaldan fjölda fisktegunda miðað
við Karíbahafið. Skeljategundirnar í Indlandshafi eru ekki
undanskildar tegundaauðginni, m.a. risaskeljar (Tridacna gigas), sem
eru einstakt fyrirbæri. Þarna eru líka sex tegundir af túnfiski
(ein finnst ekki annars staðar) og rúmlega helmingur túnfisksafla
heimsins fæst úr Indlandshafi.
Hvalir eru áberandi og sérstakur hluti lífríkis Kyrrahafsins.
Margar hvalategundir eru bundnar árstíðabundnu ferli. Sumar
synda langar leiðir til að komast í kaldari sjó á sumrin til að
afla sér fæðu en ala afkvæmi sín í hlýjum sjó á veturna.
Fiskveiðar.
Vegna fljöbreytni lífríkisins í mörgum hlutum Kyrrahafsins og hins
mikla mannfjölda, sem býr í löndunum í kringum það og á eyjum
þess, er meira dregið úr sjó en í öðrum heimshöfum, u.þ.b. 60%
heimsaflans. Japanar og Rússar eru mestu fiskveiðiþjóðirnar
í heimi miðað við afla en Kína, BNA, Perú, Síle, Suður-Kórea og
Indónesía eru líka stórfiskveiðiþjóðir. Fiskiðnaðurinn
í öllum þessum löndum er umsvifamikill og byggist a.m.k. að hluta
eða að mestu á fiskveiðum í Kyrrahafi. Meðal veigamestu
fisktegundanna, sem aflinn byggist á, eru sardínur, síld, ansjóvía,
lýri (Kyrrahafsufsi), lýsingur og rækjur. Stofnar þessara
tegunda eru víða ofnýttir.
Laxveiðar
í sjó eru mikilvæg atvinnugrein í BNA, Japan, Rússlandi og
Kanada en túnfiskveiðar eru mikilvægar fyrir ýmsar eyþjóðir.
Bandaríkjamenn, Japanar, Suður-Kóreumenn og Tævanar eru
tæknivæddastir. Margir túnfiskstofnar eru innan 200
mílna lögsögu ýmissa eyja í Kyrrahafinu, þannig að íbúar
þeirra selja erlendum fiskiskipum kvóta og annast vinnslu
aflans.
Íbúafjölgun og þróun efnahagsmála og iðnaðar í mörgum
strandríkjum við Kyrrahaf hefur valdið ofveiði og eyðileggingar
fiskimiða vegna mengunar. Ræktun ýmissa tegunda, s.s.
perluskelja, lax, hafbríma, (mullet) o.fl. hefur tekizt vel og bætir
upp minnkandi afla þessara tegunda í sjó.
Á hitabeltissvæðum Kyrrahafsins hafa verðmætir kórallar löngum
verið dregnir upp af miklu dýpi. Bleikar tegundir koma aðallega
frá vesturhluta Hawaii-eyjaklasans og svartir frá vestlægari eyjum,
háum eldfjöllum á sjávarbotni
og hafsvæðum kringum Malasíu og Indónesíu.
Jarðefni eru unnin úr sjó, af sjávarbotni (möl, sandur)
eða á landgrunninu (málmar, málmleysingjar, olía, gas). Miklar birgðir verðmætra málma eru á og í hafsbotninum
víða í Kyrrahafi. Mikið
er víða unnið af ferskvatni úr sjó (Japan).
Málmar
unnir úr sjó og árseti.
Salt (sodium chloride) er mikilvægasta efnið, sem er unnið úr
sjó.
Þar er Mexíkó fremst í flokki Kyrrahafsþjóða og vinnslan
byggist aðallega á uppgufunaraðferðinni.
Bróm er einnig unnið úr sjó og notað í matvæli,
litunarefni, lyf og ljósmyndaiðnaði.
BNA og Japan standa fremst á því sviði.
Magnesium er unnið úr sjó með rafgreiningu og er mikið
notað til blöndunar við aðra málma (flugvélahreyflar), þó einkum
ál.
Sandi og möl er dælt upp af grunnsævi (Japan, Alaska, Hawaii
o.fl.).
Víða liggja þykk setlög af fosfati undan ströndum Perú,
Austur-Ástralíu, Kaliforníu og á Chatham-hryggnum austan
Nýja-Sjálands.
Minni setlög finnast einnig í lónum nokkurra Kyrrahafseyja.
Djúpsjávarmálmar. Í
setlögum á djúpsævi eru víða málmsúlföt í formi hnyðlinga og
setlaga, sem eru efnahagslega áhugaverð.
Á áttunda og níunda áratugi 20. aldar stóðu vonir til að
vinnsla hnyðlinga, sem innihalda manganese, járn, kopar, nickel,
titanium og kóbalt, gæti hafizt til hagsbóta fyrir þróunarlöndin.
Þróun útbúnaðar til að sækja þessi efni af sjávarbotni
var mjög dýr og fljótlega var þessari hugmynd skotið á frest.
Súlfatæðar á sjávarbotni með járni, kopar, kóbalti og
sínki auk minnan magns annarra málma finnast í umhverfi
neðansjávarhvera (Galapagos á Juan de Fuca- og Gorda-hryggjunum.
Kolefni
í sjávarbotninum.
Olíu- og gasbirgðir í sjávarbotninum eru verðmætustu efnin
fyrir efnahag heimsins eins og hann er nú.
Álitið er, að talsverðar birgðir séu undir grunnsævum
Suður- og Austur-Kínahafs.
Löndin, sem liggja að Kyrrahafi og úthöfum þess, leggja
mjög mismunandi áherzlu á nýtingu náttúruauðlinda af ofangreindu
tagi.
Helztu svæðin, sem hafa verið og verða könnuð með tilliti
til olíu og gas, eru undan ströndum Víetnams, Hai-naneyjar (Kína),
á landgrunninu norðvestan Palawaneyjar í Filipseyjaklasanum, undan
Natunaeyju og á nokkrum stöðum undan ströndum Súmötru (Indónesía).
Í Norðvestur-Kyrrahafi eru aðalsvæðin norðvestan Kyushu-eyjar
(Japan), suðurhluti Gulahafs og í Po Hai-flóa (Chihli-flóa) auk
svæða undan Sakhalin-eyju og Kamchatka-skaga.
Borað hefur verið eftir olíu og gasi í Beringsundi og á
svæðum undan suðurströnd Kaliforníu.
Í Suður-Kyrrahafi er Gippslandlægðin undan suðurströnd
Ástralíu talin vænleg.
Einnig er Cook-sundið við Nýja-Sjáland og botn Tasmanhafs og
undan Suðureyju.
Undan ströndum Fijieyja er talið að olía og gas leynist líka. |