Eyjar Kyrrahafsins.
Eyjarnar í vesturhluta Kyrrahafs, m.a. Aleut-, Kúril- og
Ryukyuseyjar, Tævan, Filipseyjar, Indónesía, Nýja-Gínea og Nýja Sjáland,
eru skyldar nærliggjandi meginlöndum. Jarðfræðilega er þær að hluta úr seti en að
meginstofni líkjast þær strandfjöllum þeirra.
Mörkin milli slíkra eyja og fjölda annarra eyja í Kyrrahafinu
er „andesítlínan”, sem er mjög eldvirk og teygist frá Aleut-eyjum
í norðri suður til Yap- og Palau-boganna.
Þaðan heldur hún áfram til austurs um Bismarck-, Salómons-
og Santa Cruz-eyjar og aftur til suðurs um Samóa-, Tonga-, Chatham- og
Macquarie-eyjar til Suðurskautsins.
Innan þessa beltis eru eyjarnar úr blágrýti.
Eyjarnar liggja mjög dreift um Kyrrahafið en þó aðallega
milli hvarfbauganna og mikill fjöldi þeirra er í Vestur-Kyrrahafi.
Nyrztu eyjakeðjurnar eru tengdar Hawaii-hryggnum.
Hawaii-eyjaklasinn nær yfir u.þ.b. 2000 eyjar, þótt
nafngiftin nái aðeins yfir smáhluta þeirra allraaustast.
Hinn mikli fjöldi smáeyja
í Míkrónesíu er aðallega norðan miðbaugs og vestan 180°
lengdarbaugsins. Flestar þeirra
eru kóraleyjar og helztu eyjaklasarnir eru Mariana-, Marshall-, Karólínu-,
Kiribati- (Gilbertseyjar) og Tuvalu-eyjar (Ellice-eyjar).
Sunnan Míkrónesíu er Melanesía, sem nær að mestu yfir
litlar kóraleyjar. Stærstu eyjar Kyrrahafsins eru nokkurs konar meginlandseyjar,
s.s. Nýja-Gínea. Aðaleyjar
Melanesíu eru Bismarkeyjar, Salómonseyjar, Vanuatu (Nýju-Hebrides-eyjar),
Nýja-Kaledónía og Fiji-eyjar. Pólynesía
nær m.a. yfir Hawaii, Fönixeyjar, Samóa, tonga, Cook-eyjar, Félagseyjar,
Tuamotu og Marquesa-eyjar.
Jarðfræði. Niðurstöður margs konar rannsókna á jarðskjálftum,
eldsumbrotum, aðdráttarafli og segulmælingum benda til jarðskorpuhreyfinga
og flekareks. Eyjabogar
Kyrrahafsins eru taldir eiga uppruna sinn að rekja til reks Evrasíu-
og Ástralíuplatnanna yfir Kyrrahafsplötuna.
Gífurleg fellingamyndun og misgengi meðfram eldvirka beltinu í
Vestur-Kyrrahafi eru órækur vitnisburður mikilla jarðskorpuhreyfinga. Milli meginlands Asíu og eyjanna liggja djúpir álar í
fellingamynduninni og bogadregnir eyjaklasarnir eru hæstu brúnir
hennar. Þar er jarðskorpan
opnust og veikust og því eru flest virk eldfjöll á eyjunum eða í
grennd við þær á flekamótunum.
Kyrrahafsflekinn
hrekst til vesturs, þar sem hann hverfur undir meginlandsfleka Norður-
og Suður-Ameríku og myndar fellingafjöll meðfram jarðrinum (Klettafjöll,
Andesfjöll) og gífuleg brotabelti með jarðskjálftum (San Andreas).
Botn Norðaustur-Kyrrahafsins er sérstakur vegna austur-vestur
brotabeltanna.
Flattypptu
neðansjávareldfjöllin (guyots) og eyjar Kyrrahafsins eru meðal
athyglisverðustu jarðmyndana í heiminum.
Eyjarnar hafa að mestu myndast við upphleðslu kóralla.
Þrjár aðalmyndanir kóralrifja, þ.e. jaðarrifja, risarifja
og hringrifja, og flötu eldfjöllin á sjávarbotni norðan og sunnan
hitabeltisins eru skýrð í kenningum Darwins um hægfara sig og að
hluta til einnig með flekahreyfingum. |