Opinbert
nafn landsins er Lýðveldið Hondúras.
Það er á milli Gvatemala og El Salvador í vestri og Nígaragva
í suðri. Löng norðurströndin
snýr að Karíbahafi og stutt suðurströndin að Kyrrahafi.
Heildarflatarmálið er 112.088 km² með Bayeyjum í Karíbahafi.
Höfuðborgin er Tegucigalpa (með Comayagüela). Ólíkt öðrum löndum Mið-Ameríku á það sér aðra
jafnmikilvæga borg, San Pedro Sula, sem er þó aðeins hálfdrættingur
í íbúafjölda.
Meirihluti
íbúanna lifir fremur einangruðu lífi í fjallendinu í miðju
landsins. Þessi
búsetuskilyrði gera það e.t.v. að verkum, að þjóðin sker sig
úr í samskiptum
við aðrar þjóðir Latnesku-Ameríku og rekur aðra stefnu en þau.
Hondúras er, eins og nágrannaríkin, meðal þróunarríkja
heimsins. Efnahagsmálin eru erfið og flókin vegna landslagsins og
ofsafenginna veðurskilyrða, s.s. fellibylja (Mitch 1998), sem skilja
eftir sig slóð eyðileggingar og dauða. |