Hawaii meira Bandaríkin,
Flag of United States

Afþreying Skoðunarvert Sagan Merkisatburðir í hawaískri sögu

HAWAII
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landafræði.  Hawaiiríki er keðja ósléttra eyja, kóralrifja og kletta í Norður-Kyrrahafi.  Eyjaklasinn nær yfir allar eyjarnar nema Midwayeyjar (5 km²).  Hvarfbaugurinn liggur um eyjaklasann norðan-verðan.  Hawaii er í 3.860 km fjarlægð frá Vesturströnd meginlands BNA.  Eyjar, sem bera nafn, eru 132 talsins.  Eyjaklasinn liggur í sveig frá suðaustri til norðvesturs (2.451 km) og er 16.641 km² að flatarmáli.  Hawaii er fjórða minnsta ríkið að flatarmáli (Connecticut, Delaware og Rhode Island eru minni).

Eyjarnar eru veðraðir tindar geysistórra neðansjávarfjalla, sem skutust upp fyrir yfirborðið í miklum jarðhræringum og eldgosum fyrir milljónum ára.  Vegna þessa uppruna síns eru þær allt öðru vísi útlits en nokkurt annað ríki BNA.

Hawaii er fjalllent land.  Á stærri eyjunum eru einn eða fleiri fjallgarðar.  Hlíðar þeirra eyðast út í hallalitlar sléttur, sem ná allt til sjávar.  Strendurnar eru hvítar kóralstrendur eða svartur hraunsandur.  Inn til landsins eru nokkrir dalir, gil og gljúfur.  Sumir hlutar eyjanna rísa brattar úr hafi (pali).  Klettarnir eru sums staðar mörg hundruð metra háir.  Sumar eyjarnar eru svo lágar, að þær hverfa næstum á háflæði.


Loftslagið.  Hið jafna og milda loftslag Hawaiieyja er víðfrægt.  Hitabreytingar eru litlar allt árið og hafrænan sér um svala, þótt eyjaklasinn sé í hitabeltinu.  Fárviðri eru fátíð, þótt nefna megi  felli-bylinn „Iwa”, sem olli verulegu tjóni árið 1982, og risaflóðbylgjur (tsunami) árin 1946 og 1964.  Meðalárshitinn er 24°C á láglendi.

Úrkoma og sólskin hafa tiltölulega fastbundna ferla, sem hægt er að reiða sig á, en þeir eru mismunandi eftir stöðum, hæð yfir sjó og norðaustan farvindunum.  Hlémegin (vestan) fjalla Hawaii ríkir svipað loftslag og á grassléttum Suður-Ameríku (steppuloftslag).  Í Puako, þurrasta svæði Hawaiieyja, á Stórueyju er meðalúrkoman 250 mm á ári.


Í fjallahlíðunum áveðurs (norðaustan þeirra) er votviðrasamt og  regnskógar.  Þar rignir meira en með ströndum fram.  Waialeale á Kauai er einn úrkomumesti staður jarðar.  Meðalúrkoman þar er 11.280 mm á ári.

Náttúruauðlindir.  Jarðvegur eyjanna er meðal mestu náttúruauðæfa þeirra.  Aðeins 8% landsins eru nýtt til ræktunar, þótt landbúnaðurinn sé ein aðaltekjulind eyjanna.  Uppistaðan í jarðveginum er eldfjalla-aska og mjúkur sandsteinn.  Sums staðar hefur sykuruppskeran verið allt að 27 tonn á hektara, sem er heimsmet.  Ræktunartíminn er allt árið vegna hins milda loftslags, þannig að sykur- og ananas-ræktun er stunduð allt árið.

Vinnsla grjóts, sands, kalksteins og malar náði verðmætahámarki 1988.  Eldfjallaaska og hraungrýti er notað sem byggingarefni.  Rauðamöl finnst í miklu magni og er mikið notuð til skreyt-inga.

Vandamál tengd vatnsöflun eru helzt af landfræðilegum rótum.  Tæplega helmingi (46,2%) neyzluvatns er pumpað upp um borholur af grunnvatnsbirgðum.  Úrkomuvatni til áveitna er safnað af stórum svæðum og dreift um skurði og göng.


Gróður og dýralíf.  Landslag Hawaii minnir helzt á óslitna blómasýningu.  Hawaiirósir blómstra alls staðar og trén fella blóm meðfram götum.  Fjöldi blómstrandi jurtategunda er rúmlega 1.700.  Margar þeirra voru fluttar inn frá Asíu, Afríku, Ástralíu, Mexíkó, Brasilíu og Austur-Indíum og eru ekki til í öðrum sambandsríkjum BNA.

Villt dýr lifa á sex eyjanna, Hawaii, Maui, Oahu, Kauai, Molokai og Lanai.  Meðal þeirra eru dádýr, geitur og svín.  Aðeins ein tegund meinlausra snáka (mjög litlir) er til.  Einu skriðdýrin eru litlar eðlur, bláhali og gékkó.  Rúmlega 60% allra hinna 90 tegunda fugla og rúmlega helmingur 24 tegunda land- og sjávardýra eru í útrýmingarhættu eða útdauðar.

Íbúarnir.  Hawaii er á mótum austurs og vesturs.  Eyjarnar eru því náttúrleg miðja og menningar-deigla.  Íbúar þeirra rekja uppruna sinn til nærri allra helztu menningarsvæða heims.  Frumbyggjarnir voru líklega pólýnesar, sem sigldu frá Marquesaseyjum um og eftir 400 e.Kr.  Nú er u.þ.b. þriðjungur íbúanna af hvítum stofni, annar þriðjungur blandaður og hinir afkomendur frumbyggjanna, innfluttra kínverja, Spánverja, Þjóðverja, Kóreubúa, Puertóríkana, Filipseyinga, Indverja, Samóa, Víetnama og anglósaxa.

Íbúafjöldi eyjanna var 1.115.274 við manntal árið 1990. Fjölgunin frá 1980 var 150.583, eða 13,5%.  Stærstu kynþættirnir eru hvítir menn og Japanar, síðan koma innfæddir, Filipseyingar, og kínverjar.


Tungumálin.  Enskan er útbreiddasta tungumálið á eyjunum.  Margir tala tungu forfeðranna enn þá sín á milli og mörg hawaísk orð eru tíð í daglegu máli.  Hawaíska stafrófið hefur aðeins tólf stafi, sérhljóðana a, e, i, o og u og samhljóðana h, k, l, m, n, p og w (stundum borið fram sem v).  Sérhljóðarnir eru bornir fram sérstaklega.  „Pidgin”-enska, sem er frábrugðin venjulegri ensku í orðavali, orðanotkun og  beygingum, er líka töluð.

Þegar eyjaskeggjar segja til vegar nota þeir oft orðin „makai”, sem þýðir í átt til sjávar, og „mauka”, sem þýðir í átti til fjalla.  Næstum allar borgir og bæir og götur bera hawaiisk nöfn.


Borgir og framleiðsla.  Honolulu er höfuðborg og stærsta borg eyjanna.  Hún er miðstöð ferðaþjónustu og framleiðslu, með háreistum hótelum, klösum og þéttskipaðri Waikikiströndinni.  Næststærst er Perluborg (10% af stærð Honolulu).  Borgirnar eru báðar undir sömu stjórn.  Lahainahöfn á vesturströnd Maui var fyrrum miðstöð hvalveiða.

Flest framleiðslufyrirtæki eyjanna eru á Oahueyju.  Margar verksmiðjanna þar voru reistar í iðnaðarhverfum og á sérstökum svæðum á suðurhlutanum.  Iðnaðarhverfið myndar 32 km boga umhverfis Perluhöfn milli Hárskerahöfða og Mið-Honolulu.  Það er líka fjöldi verksmiðja í Hilo og Kahului.  Matvælaframleiðsla er höfuðiðja Hawaiieyja.  Prentun og útgáfustarfsemi og vefnaðar-iðnaður eru líka veigamiklar greinar.


Landbúnaður.  Efnahagur eyjanna byggist að verulegu leyti á sykur- og ananasframleiðslu.  Sykurreyrs-framleiðslan er rúmlega 7 milljónir tonna á ári eða rúmlega 200 milljónir US$ að verðmæti.  Fyrstu innflytjendurnir fluttu líklega fyrsta sykurreyrinn með sér frá S.-Kyrrahafseyjum.  Iðnaður tengdur ræktun sykurreyrs hófst á Kauai árið 1835, þegar fólk frá Nýja-Englandi hóf ræktun á landi, sem Kamehameha konungur leigði því.  Árið 1874 voru rúmlega 13.000 tonn flutt út.  Nú rækta Hawaii-búar meiri sykurreyr en nokkurt annað sambandsríki, utan Flórída.  Hrásykur er sendur til megin-lands BNA, aðallega Kalíforníu, til fullvinnslu.

Snemma bar á vinnuaflsskorti á sykurekrunum og fólk var hvatt til að flytja til eyjanna.  Verkamenn komu frá Kína, Japan, Portúgal og Filipseyjum og margir ílentust.  Nú er framleiðslan mjög tæknivædd of færri verkamanna er þörf.  Þessi tæknivæðing hefur gert Hawaiibúum kleift að keppa við framleiðendur á láglaunasvæðum jarðar.  Um miðjan níunda áratuginn var uppskera maríjúana verðmeiri en sykurreyrsins.

Næstmikilvægasta ræktunin er ananas.  Trén bera ávöxt á mismunandi tímum árs til að uppskeran sé stöðug allt árið.  Mest er hún í júní, júlí og ágúst.  Rúmlega 600.000 tonn eru tínd árlega.  Ananas er ræktaður á Kauai, Oahu, Lanai og Maui.  Mestur hluti uppskerunnar er unninn í Hololulu en æ stærri hluti hennar er fluttur út ferskur.

Nautgriparækt er líka veruleg tekjulind, einkum á Hawaii.  Þar eru rúmlega 65% gripanna.  Þar er einn stærsti búgarður í einkaeign í BNA, Parker Ranch.

Nautgripa-, sauðfjár-, hesta- og svínabú eru vítt og breitt um eyjarnar.  U.þ.b. 24% lands eru notuð til beitar.  Árleg framleiðsla þessara búa nemur rúmlega 87 milljónum dollara.

Útflutningur makadamíahnetna, papæja og annarra ávaxta hefur aukizt hröðum skrefum.  Ýmiss konar grænmeti, melónur og taró er líka ræktað á eyjunum.  Úr taró er búið til „poi”, sem er deigkennd, meltanleg og sæt fæða.  Hawaii er eina ríkið í BNA, sem ræktar kaffi.  Þar er mest ræktað af brönugrösum í heiminum.  Ferðamenn eyða þar ríflega 9,2 milljörðum dollara á ári, þannig að ferðaþjónustan er mikilvægasti atvinnuvegurinn.  Í lok níunda áratugarins voru Hawaii-eyjar í þriðja sæti ríkja BNA hvað varðar fjölda ferðamanna (rúmlega 2 milljónir).  Fjármagnið, sem alríkisstjórnin eyðir til hervarna á Hawaii, er önnur mesta tekjulind eyjanna.

Samgöngur.  Hawaii er miðstöð mikils flutninganets, sem nær til alls Kyrrahafssvæðisins og vítt og breitt um heiminn.  Áfangastaðir eru flestar stórar hafnir og flugvellir á Kyrrahafi og umhverfis það.

Vöruflutningar milli eyja fara að mestu fram með skipum og flugvélum.  Honoluluhöfn er miðstöð flutninga innanlands og úr landi.  Ferðamenn nota innanlandsflugið hér um bil einvörðungu.  Góðar hraðbrautir tengja bæi og borgir hverrar eyju.  Járnbrautir eru tiltölulega stuttar, þar eð flutningabílar hafa víðast komið í þeirra stað.

Síðan 1957 hefur símasamband við meginland N.-Ameríku verið um sæstreng.  Árið 1964 var sams konar tengingu komið á við Japan.  Gervihnattasamband er líka komið í gagnið.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM