Landið lýsti
yfir sjálfstæði 26. marz 1971 og þar er iðkað lýðræði á
sósíalísk-islömskum grunni.
Í landinu ríki herstjórn og stjórnmálaflokkar eru bannaðir.
Bengalaland er aðili að S.þ. og ýmsum sérstofnunum þeirra, Brezka
samveldinu, Colomboáætluninni og SARC.
Landinu er skipt í fjögur stjórnsýslusvæði og 19 sýslur, sem
skiptast í hreppa (Thanas).
Höfuðborgin er Dhaka (4 m).
Aðrar helztu borgir eru:
Chittagong (1,8 m), Khulna (750þ), Narayanganj (400þ), Mymensingh
(250þ), Rajshahi (220þ) og Barisal (190þ).
Lega.
Bangladesh
(Bangla Desh = Bengalaland) var Austur-Pakistan til 1971.
Landið nær yfir austurhluta hins gamla Bengalalands, sem er sundurskorinn af fljótum, árfarvegum og
skurðum, óshólma Ganges (Padma) og Brahmaputra (Jammu). Lega
landsins: 21°05' og 26°40'N
og 88°05' og 92°50'A. Landið
er hér um bil umlukið Indlandi (Vestur-Bengal, Assam, Meghalaya,
Tripura og Mizoram), en allrasuðaustast liggur það að Burma.
Sunnan þess er Bengalflói í Indlandshafi.
Landslagið
mótast að langmestu af vatnsflaumnum, sem streymir um það, aðallega
Ganges (vatnasvið 1.125.000 km²) og Brahmaputra (935.000 km²).
Frjósöm flæðilönd þessara fljóta liggja hæst 50 m yfir sjó
en lækkar smám saman til suðurs að óshólmasvæðinu Sundarban, sem
er þakið þéttum fenjaskógum, þar sem lifa ýmis villt dýr (tígrar,
krókódílar, hirtir). Í þessum landshluta valda síendurtekin flóð miklu mann-
og eignatjóni, breytingum á árfarvegum og miklum tilfærslum jarðvegs
og eyja. Landið smáhækkar
til norðvesturs. Í austri
og suðaustri ná skógivaxnar hæðir „Chittagong Hill Tracts” 1200
m hæð yfir sjó. Þær
eru vestustu álmur Himalajafjalla.
Loftslagið
er jaðartrópískt með mikilli úrkomu (5000 mm í fjallagrennd og
1500 mm í þurrustu landshlutunum).
Úrkoman er mest á tímabilinu frá maí til oktober (75% ársúrkomunnar). Hitastigið er svipað allt árið (meðalárshiti 32°C) og
loftraki mikill (84-90% á sumrin en 75-82% á veturna).
Á misserisvindatímanum geisa oft tortímandi fellibyljir.
Apríl og september eru heitustu mánuðirnir með 38°C hámarkshita.
Frá nóvember til marz er hitinn 22°C til 27°C á daginn en
hann getur farið niður í 10°C á næturnar.
Þetta
heitraka loftslag skapar góðar aðstæður fyrir sígrænan gróður,
.s.s regnskógana í Chittagonghæðunum, í Madhupur og á strandsvæðunum.
Villidýrafánan
hefur látið mikið á sjá. Nú
eru margir dýrastofnar í útrýmingarhættu, s.s. Bengal- eða
konungstígrar, fílar, hlébarðar, birnir o.fl.
Búseta.
Bengalaland
er meðal þéttbýlustu landa veraldar.
Íbúafjöldinn er nálægt 700 manns á km² og árleg fjölgun
er 2,6%. Bengalar eru 98%
þjóðarinnar. Þeir tala
bengali. Biharar komu frá
Biharhéraði í Indlandi árið 1947.
Þeir tala urdu. Í
Chittagonghæðunum eru nokkrir fámennir, mongólskir ættbálkar.
Trúarbrögð.
Langflestir
íbúanna eru múslimar (80%; flestir sunnítar).
Hindúatrúa aðhyllast 18%.
Buddhatrú átti sér djúpar rætur í landinu en hún varð
undan að láta. Flestir hinna fáu kristnu eru katólskir. Fámennir hópar eru andatrúar.
Menntakerfi
landsins er í uppbyggingu. Skólaskylda
hefur verið í gildi frá 1972, þótt ekki hafi verið hægt að
framkvæma hana enn þá (ólæsi 75%).
Landbúnaður:
Hrísgrjón, sykurreyr, hveiti, hampur, ávextir, tóbak, te.
Iðanaður:
Hamp- og baðmullarvinnsla, matvæli, efnaiðnaður.
Jarðefni:
Gas, kalk, kaólín, salt.
Innflutn.:
Matvæli, vélar, farartæki.
Útflutn.:
Hampur, vefnaðar- og leðurvörur, fiskur, te, froskalappir.
Brúttóþjóðarframleiðsla
(1987) 12 milljarðar US$. |