Helztu landslagseinkenni Kongó eru
strandhéruðin, tvær miklar lægðir, hásléttur og þrír
fjallshryggir. Mjó
strandlengjan er alllág slétta upp frá Atlantshafinu að Kristalfjöllum.
Stærstur hluti landsins er Kongólægðin (eða Miðlægðin),
sem er gríðarstór, öldótt slétta í 515 m hæð yfir sjó að meðaltali.
Lægstu svæði hennar eru í 338 m hæð við Mai-Ndombe-vatnið
og hæstu svæðin eru í hæðum Mobavi-Mbongo (700m) í norðurhlutanum.
Þessi lægð kann að hafa verið innhaf en einu stöðuvötnin,
sem eftir eru, eru Albert, Edward, Kivu, Tanganyika og Mweru.
Háslétturnar liggja næstum alla
leið umhverfis ofangreinda lægð.
Í norðri eru Ubangi-Uele-slétturnar, sem mynda vatnaskil milli
Nílar og Kongófljóts. Slétturnar
eru í 900-1200 m hæð yfir sjó.
Þær skilja líka á milli stóru Miðlægðarinnar og sléttusvæðis
og vatnasviðs Chad-vatnsins. Sunnan
Miðlægðarinnar liggja háslétturnar að árdölum Lulua- og Lundaánna
og hækka smám saman til austurs.
Í suðaustri rísa hryggir Katangasléttnanna (Shaba) yfir allt
svæðið. Þar eru m.a.
Kundelungu (1600m), Mitumba (1500m) og Hakansson (1100m).
Katangaslétturnar teygjast að Lukugaánni í norðri og ná m.a.
yfir Manikasléttuna og Kibara- og Biafjöll og Marungusléttuna. Norðurhlíðar
Angólasléttunnar rísa í suðvestri.
Í vestri er strandsléttan, sem nær yfir hæðir Mayumbe og
Kristalfjöll. Ulafjall
(1050m) er hæsti tindur þeirra.
Austurhluti landsins er hæstur og
hrjúfastur. Þar eru
fagrir fjallgarðar, sem eru hluti af Austurafríska misgenginu.
Mitumbafjöll teygjast meðfram Vestur-Sigdalnum upp í 2970 m
yfir sjó. Snævi þaktir
tindar Ruwenzori-fjallgarðsins milli stöðuvatnanna Albert og Edward
á landamærunum að Úganda mynda hæstu staði landsins, s.s.
Margheritatind (5119m). Virungafjöll,
norðan Kivu-vatns, mynda eldvirkan hrygg þvert yfir Sigdalinn.
Kongófljótið, þ.m.t. stór hluti af tæplega 3,5 miljóna
ferkílómetra lægð hennar, er aðalfljót landsins. Fljótið á upptök sín á Katangahásléttunni, þar sem
það rennur til norðurs og bugðast síðan til suðurs og sker miðbauginn
tvisvar á leið sinni í stórum boga.
Neðri hluti fljótsins rennur til suðvesturs og hverfur í
Atlantshafið í grennd við Matadi.
Hluti þess rennur um áreyrar og fen og fær til sín vatn úr mörgum
stöðuvötnum og öðrum þverám. Helztu stöðuvötnin eru Mai-Ndombe og Tumba og helztu þverárnar
eru Lomami, Aruwimi, Ubangi og allt vatnasvið Kasaifljótsins.
Kongófljótið er einnig tengt Vestur-Sigdalnum um ána Lukuga. |