Kongó sagan,
Flag of Congo, Democratic Republic of the


KONGÓ
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fríríkið Kongó var í upphafi evrópskra áhrifa einkaríki konugs Belgíu en varð síðan nýlendan Belgíska-Kongó.  Þegar landið fékk sjálfstæði hét það Lýðveldið Kongó (síðar Demókratíska lýðveldið Kongó, Zaire og aftur Lýðveldið Kongó).  Það er flókið samspil sögulegra atburða.  Suma þeirra má rekja til forsögulegra tíma, aðra til nýlendutímans og enn aðra til umrótsins, sem leiddi til sjálfstæðis.  Þeir hafa allir skilið eftir áþreifanleg mörk á samfélögum landsins.

Áður en hinar róttæku, félagslegu breytingar urðu á nýlendutímanum, höfðu samfélög landsins raskast gífurlega.  Allt frá 15. til 17. aldar mynduðust  mörg mikilvæg ríki á steppunum í suðurhluta landsvæðisins.  Hin mikilvægustu voru konungsríkið Kongó vestast og Luba og Lunda austast.  Í þeim þróuðust nokkuð skýr stjórnmálakerfi með konunginn trónandi á toppi pýramídans og herafla.  Völdin dreifðust út frá höfuðborgunum til skipaðra höfðingja eða ættarhöfðingja.  Baráttan um krúnuna leiddi oft til borgarastyrjalda og þrælaverzlunin olli auknum spenningi í stjórnmálunum.  Saga þjóðflokka Kongó á 16. öld snýst að mestu um hagsmuni höfðingjanna tengda þrælasölu til Atlantshafsstrandarinnar og aukinn vanmátt konungsríkjanna til að standast ásókn nágrannanna inn í þau.  Síðla á 16. öld varð konungsríkið Kongó fórnarlamb jaga-stríðsmanna, sem komu úr austri.  Tveimur öldum síðar réðust ýmsir þjóðflokkar inn í Lunda og Luba, meðal þeirra arabar og kynblendingar, sem vildu leggja undir sig verzlunina með þræla og fílabein.  Þegar Evrópumenn komu hófu nýlenduvæðinguna, bjuggu íbúarnir við stjórnmálaóreiðu og kúgun.

Umhverfisaðstæður í regnskógum hitabeltisins gerðu stofnun heildarríkis mjög erfiða.  Þar bjuggu smáhópar í þorpum undir eigin stjórn.  Samstjórn nokkurra skyldra og óskyldra samfélaga var algengasta stjórnarformið.  Milli slíkra stjórnsýslueininga fór fram verzlun og skipti á gjöfum.  Þessi samskipti urðu grundvöllur að menningarsamræmi milli áður ólíkra og sérstæðra siða og hefða, líkt og milli bantu-manna og dvergaþjóðflokka (pygmy).  Bantu-samfélögin blönduðust dvergaþjóðflokkunum með mægðum og hinir síðarnefndu tóku upp þekkingu og tækni hinna fyrrnefndu.  Gamlir siðir í þorpaskipulagi eru áberandi og algerlega andstæðir skipulagi og einkennum opinberra bygginga í konungsríkjunum á steppunum.

Í kjölfar grimmilegra árása ræningja og borgarastyrjalda á steppusvæðunum, þegar þrælaverzlunin hófst og barizt var með skotvopnum, gátu íbúarnir illa varizt utanaðkomandi áhrifum.  Evrópumönnum reyndist því auðvelt að beygja hin mismunandi og ólíku samfélög í Kongó undir sig á nýlendutímanum.

Fríríkið Kongó.  Aðalhvatamaður sameiningar þessa geysistóra landsvæðis, sem varð síðan persónulegt yfirráðasvæði hans, var Leopold II, konungur Belgíu.  Metnaður hans til stofnunar nýlendu var lítt dulinn.  Fyrir Vestur-Afríkuráðstefnunni í Berlín (1884-85) hafði hann þegar alþjóðlega viðurkenningu fyrir yfirráðunum í Kongó og var því sjálfkjörinn forystumaður nýlendustefnunnar.  Fríríkið Kongó (1885-1908) fékk að kenna á grimmdarlegum aðferðum sendiboða Leopolds II, sem fengu það verkefni, að siðmennta íbúana.  Brezki landkönnuðurinn og blaðamaðurinn Henry Morton Stanley, sem var umboðsmaður Leopolds II, sagði að Kongó væri einskis virði án járnbrauta.  Engin leið var að leggja járnbrautirnar nema með því að neyða íbúana til vinna að verkinu.  Leopold II veitti fjölda einkafyrirtækja ýmis sérréttindi til að laða þau til samstarfs í Kongó án þess að uppskera arð af þeim og uppreisnir í austurhlutanum urðu dýrkeyptar vegna kostnaðar við stofnun innlends hers í landinu.  Loks sá Leopold II engan annan leik á borði en að beita innfædda grimmilegri harðstjórn til að kreista sem mest út úr vinnuaflinu og náttúruauðæfum landsins.

Hann hélt áfram uppteknum hætti með stuðningi Belgíustjórnar til ársins 1908, þrátt fyrir háværa gagnrýni á alþjóðavettvangi.  Þá fyrst tók belgíska þingið af skarið og samþykkti innlimun Kongós í Belgíu.  Ástandið á fríríkisárunum brann samt lengi á íbúum Kongó og þeir gleymdu því ekki.  Því reyndist belgískum yfirvöldum erfitt að koma á öðru stjórnarfyrirkomulagi í landinu.  Íbúarnir báru hatur í brjósti gegn Vesturlandabúum og næstu kynslóðir þjóðernissinna nærðust á því.

Belgísk forræðishyggja og pólitísk refskák.  Nýlendustjórn Belga var keimlík aðferðum fyrri stjórnar Leopolds II.  Forræðishyggja þeirra byggðist á þeirri hugsun, að Afríkumenn væru eins og börn, sem þyrftu strangt uppeldi og jafnvel kúgun.  Grimmilegustu aðferðum stjórnar fríríkisins var þó ekki beitt, en belgísk stjórnvöld sýndu engan vilja til umbóta.  Þau lögðu áherzlu á vestræn siðgæðisgildi og félagslega aðstoð fremur en að innræta innfæddum félagslega ábyrgð, þannig að frumkvæði í stjórnmálum og sjálfsábyrgð var haldið í skefjum.

Belgíska stjórnin sinnti engum umbótum fyrr en 1957, þegar íbúar nýlendnanna í Afríku fengu fyrsta forsmekkinn af lýðræði.  Þá var fjöldi menntaðra Afríkumanna orðinn nægilegur til að beita þrýstingi.  Aukið frelsi og sjálfstjórn í nágrannanýlendum Frakka olli almennum óeirðum og þjóðernishyggjunni óx fiskur um hrygg.  Meginástæða hugarfarsbreytingar íbúa nýlendunnar var pólitísk stefnuyfirlýsing, þar sem krafizt var tafarlauss sjálfstæðis landsins.  Menntaðir Bakongo-menn í samtökunum ABAKO (Samtök Bakongo-manna) í Leopoldville (nú Kinshasa) sömdu yfirlýsinguna sem svar við hugmyndum ungs, belgísks prófessors, A.A.J. van Bilsen, um nýlendulöggjöf (Þrjátíuáraáætlun um pólitískt frelsi Belgísku-Afríku).  Í stefnuyfirlýsingu ABAKO kvað við annan tón:  Við ættum að fá heimastjórn strax í dag en ekki þurfa að bíða eftir frelsinu í þrjátíu ár.

ABAKO-samtökin urðu að öflugu afli í mótmælaaðgerðum gegn nýlendustefnunni undir forystu Jósefs Kasavubu.  Þjóðernishyggjan breiddist hratt út í hinum lægra liggjandi svæðum landsins og síðan smám saman til annarra landshluta.  Aðrar þjóðernishreyfingar spruttu upp í öllum hornum á örskömmum tíma.  Í öllu gerinu af stjórnmálaflokkum, sem þróaðist í kjölfar umbótanna, varð MNC (Þjóðarhreyfing Kongó) öflugasti þjóðernisflokkurinn.  Þessi flokkur var hinn eini af mörgum, sem þóttist berjast fyrir þjóðareiningu (ABAKO barðist fyrir hagsmunum Bakongo-manna), en þegar Patrice Lumumba kom til Leopoldville 1958, var hernaðararmur hans stofnaður.

Hinn 4. janúar 1959 kom til mikilla óeirða gegn Evrópumönnum í Leopoldville.  Þar féll fjöldi Afríkumanna fyrir öryggissveitum Belga.  Þessi atburður olli straumhvörfum í sjálfstæðisbaráttunni, því Belgíustjórn tilkynnti opinberlega hinn 13. janúar, að hún stefndi markvisst að sjálfstæði Kongó.  Þá var þjóðernisáróðurinn í Kongó kominn á það stig, að Belgíustjórn réði ekki við þróunina.  Í janúar 1960 efndi Belgíustjórn til hringborðsumræðna um Kongómálið með þátttöku fulltrúa fjölda þjóðernishreyfinga.  Markmiðið var að komast að samkomulagi um viðunandi leiðir til yfirfærslu valda en niðurstaðan varð sú, að Belgar létu af nýlendustjórninni strax.  Sex mánuður síðar var Kongó opinberlega sjálfstætt ríki, sem stefndi beinustu leið inn í skálmöld.

Kongókreppan.  Uppreisn hersins við Leopoldville 5. júlí, sem Belgar brugðust við með hersveitum fallhlífahermanna í því skyni að vernda belgíska borgara, var upphaf Kongókreppunnar.  Auk óreiðunnar við hrun hersins olli óleysanlegur, stjórnmálaágreiningur milli forsetans og forsætisráðherrans, sem lamaði ríkisstjórn landsins.  Kasavubu forseti afturkallaði skipun Lumumba í embætti forsætisráðherra, sem rak forsetann.  Samtímis þessum atburðum lýsti ríkasta hérað landsins, Katanga, yfir sjálfstæði undir forystu Moise Tshombe.  Stuðningurinn, sem Belgar veittu aðskilnaðarsinnum í Katanga, ýtti undir ásakanir Lumumba, að Belgar væru að reyna að ná undirtökunum í landinu á ný.  Hinn 12. júlí sendu Lumumba og Kasavubu Dag Hammarskjöld, ritara Sameinuðu þjóðanna, áskorun um aðstoð og íhlutun.

Koma friðargæzluliðs Sameinuðu þjóðanna, sem átti að koma á lögum og reglu í landinu, varð til þess að auka spennuna milli Kasavubu og Lumumba.  Kasavubu snérist öndverður gegn kröfu Lumumba um að friðargæzluliðið beitti vopnavaldi til að koma Katanga aftur undir stjórn Kongós.  Þá snéri Lumumba sér til Sovétríkjanna og bað um hernaðaraðstoð gegn Katanga og bætti þar með olíu á eld kalda stríðsins.

Aðskilnaðarferillinn, sem hófst með Katanga, breiddist út, þannig að landið skiptist loks í fjórar aðskildar einingar, Katanga, Kasai, Orientale og Leopoldville.  Formaður herráðsins, Jósef Mobutu (síðar Mobutu Sese Seko) tilkynnti 14. sept. 1960, að herinn tæki völdin í sínar hendur og myndaði ríkissrjórn.  Ógnin, sem nýju ríkisstjórninni stafaði af her Lumumba, dvínaði verulega, þegar hann var handsamaður eftir undraverðan flótta frá Leopoldville og Tshombe-stjórnin lét lífláta hann.  Kasavubu ljóstraði upp um íverustað Lumumba og bjóst við Katangamenn létu af aðskilnaðarhyggju sinni í staðinn.  Honum varð ekki að ósk sinni.  Í janúar 1963 kom til lokaátaka milli lögregluhers Katanga, sem hafði fengið evrópska þjálfun, og friðargæzluliðsins og Katanga var sameinað Kongó á ný.  Það tók eitt ár í viðbót að vinna síðasta vígi aðskilnaðarstefnunnar, Stanleyville, þar sem bjuggu fylgjendur Lumumbas.  Um þetta leyti kom saman þing í Leopoldville og Cyrille Adoula varð forsætisráðherra 2. ágúst 1961.

Vanmáttur Acoulas í baráttunni gegn aðskilnaðarsinnum síjók óvinsældir hans og ákvörðun hans að leysa upp þingið í sept. 1963 bætti þar um betur.  Aðgerðir hans leiddu til óeirða í dreifbýlinu, sem náðu til 5 héraða af 21, og hann stóð skyndilega frammi fyrir falli ríkisstjórnar sinnar.  Vegna slakrar stjórnar, lítils og dreifðs stuðnings, varð uppreisnarmönnum lítið ágengt hernaðarlega og tókst ekki að koma á fót traustvekjandi ríkisstjórn.  Þátttaka evrópskra málaliða í baráttu ríkisstjórnar landsins gegn uppreisnarmönnum réði úrslitum.  Það var einkum Moise Tshombe, sem tók við embætti forsætisráðherra af Adoula 10. júlí, að þakka, hve árangursríkar aðgerðir stjórnarinnar voru.  Ferill hans í stjórnmálunum var einstæður, því hann beið ósigur fyrir friðargæzlusveitum Sameinuðu þjóðanna í Katanga en var orðinn valdamesti maður landsins hálfu öðru ári síðar.

Valtatíð Mobutu.  Síðar hallarbylting Mobutu 24. nóvember 1965 varð við mjög svipaðar aðstæður og hin fyrri, þ.e. þegar Jósef Kasavubu, forseti, og forsætisráðherra hans, Moise Tshombe, áttu í innbyrðis valdabaráttu.  Tshombe tókst að komast frá þessari deilu án þess að landsmenn liðu fyrir hana, ólíkt því, sem gerðist, þegar Lumumba átti í hlut.  Orðrómur var uppi um áætlanir Tshombe um að brjótast aftur til valda úr útlegðinni á Spáni og hann varð að veruleika í júlí 1966, þegar 2000 fyrrum lögregluhermenn í Katanga með málaliða í broddi fylkingar, gerðu uppreisn í Kisangani (fyrrum Stanleyville).  Nákvæmlega ári eftir að fyrsta uppreisnin var bæld niður var efnt til annarrar.  Hún var afleiðing flugráns yfir Miðjarðarhafi, þar sem Tshombe var um borð, og flugvélinni var lent í Alsír, þar sem hann var fangelsaður.  Belginn Jean Schramme var leiðtogi síðari uppreisnarinnar.  Hann réði 100 manna lögregluherliði og 1000 óreyndum hermönnum.  Þeir stóðust árásir 32.000 manna þjóðarhersins fram í nóvember 1967, þegar þeir hörfuðu til Rwanda og gáfu sig á vald stjórnvalda þar.

Veikleikar stjórnar Mobutu komu aftur í ljós á árunum 1977 og 1978, þegar aðalstjórnarandstöðuhreyfingin, Þjóðfrelsishreyfing Kongó (FLNC) með aðalstöðvar í Angóla, gerði tvær stórinnrásir í Shaba (svo hét Katanga 1972-97).  Í báðum tilfellum komu vinveittar ríkisstjórnir til aðstoðar, aðallega Marokkó 1977 og Frakkland 1978, og drógu Mobutu að landi við mikið mannfall úr röðum beggja aðila.  Eftir að Kolwezi féll í maí 1978 var áætlað að 100 Evrópumenn hefðu fallið, að hluta fyrir uppreisnarmönnum og að hluta fyrir þjóðarhernum.  Bakgrunnur innrásanna í Shaba var mikil niðursveifla í efnahagsmálum Zaire eftir 1975 og auknar óvinsældir Mobutu meðal fátækra og atvinnulausra.

Þegar fyrsta Shaba-innrásin var gerð, voru liðin 11 ár frá stofnun Byltingarhreyfingarinnar (MPR).  Þá komu gallar einsflokkskerfisins og mobutuismans greinilega í ljós.  Þótt slagorð MPR hafi verið – pólitískt þjóðskipulag -, var hreyfingin illa skipulagt forsjárhyggukerfi.  Tilraunir Mobutu til að upphefja kosti og dyggðir Zaire léðu þær stjórnarháttum í landinu engan virðingarblæ.  Höfðinglegt yfirbragð stjórnar sinnar átti Mobutu gagnkvæmri hollustu við fylginauta sína að þakka.  Völd hans voru alger og dreifðust niður allan valdapýramídann.  Ákvörðun hans í apríl 1990 að leyfa flokka stjórnarandstæðinga fylgdu grimmilegar aðgerðir gegn stúdentamótmælum í háskólanum í Lubumbashi með þeim afleiðingum að 50-150 stúdentar voru drepnir samkvæmt tölum frá Amnesty International.  Hann lét öðrum eftir hluta valda sinna með semingi árið 1991 og samþykkti umbætur, sem komu fram í bráðabirgðastjórnarskránni 1994, en alvöruumbætur og kosningar, sem hafði verið lofað, urðu aldrei að veruleika.

Þrjátíuogfimm árum eftir að Zaire fékk sjálfstæði og nærri níu áratugum eftir grimmdina í fríríkinu, var árangurinn lítill, því enn þá ríkti stjórnunarstíll Leopolds II í gerðum mobutuista og stjórnarháttum.  Landinu var stjórnað eftir duttlungum eins manns og ævinlega var gripið til ofbeldis, þegar einvaldurinn áleit það nauðsynlegt.  Að lokum leystust tök Mobutu á landinu og uppreisnarmenn komu askvaðandi úr austri.  Mobutu sagði af sér í maí 1997, þegar uppreisnarmenn voru að nálgast Kinshasa.  Eftir að hann hvarf á braut, lýsti leiðtogi uppreisnarmanna yfir stofnun Demókratíska lýðveldisins Kongó.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM