Samkvæmt
kenningum um hreyfingar jarðskorpunnar flýtur hún á bráðnu bergi
á mismunandi dýpi.
Þar sem plötunum lýstur saman hverfur önnur undir hina og
fellingafjöll myndast.
Annars staðar, s.s. á Íslandi, rekur plöturnar frá hvorri
annarri.
Flestar þessara brotalína eru neðansjávar en ein þeirra
liggur frá Jórdandal í norðri, um allt Rauðahaf, gegnum Eþíópíu,
Kenja, Tansaníu og Mósambík unz hún hverfur í hafið við óshólma Zambesi.
Þetta mikla misgengi er rúmlega 8700 km langt, u.þ.b. fjórðungur
ummáls jarðar.
Grein frá þessu misgengi liggur um mestan hluta Nílardalsins
um vesturhluta Úganda og Tansaníu og tengist aðalmisgenginu í suðurhluta
landsins á ný.
Önnur og minna þekkt grein liggur um Sambíu að Okavangomýrunum
í Botsvana.
Aðalmisgengið
hefur þegar ýtt Arabíu frá afríska meginlandinu og augljóst virðist
að það muni teygjast til Afríkuhornsins (Horn of Africa) í tímans
rás. Landsvæði
austan misgengisins munu færast lengra til austurs og sjór mun flæða
inn í það og ný eyja, lítið eitt stærri en Madagaskar, mun
myndast.
Sums
staðar rísa brúnir misgengisins ekki hærra en 30 m yfir botn
sigdalsins á milli þeirra en annars staðar teygja þverhníptir
klettaveggir sig upp í 1220 m hæð.
Misgengisdalurinn er samt hvergi augljósari í landslaginu en á
hálendi Kenja.
Þar er hann þekktur undir nafninu „Gregorian misgengið” og
fjöldi eldfjalla prýðir svæðið.
Fyrst þeirra að nefna er Shomboli á landamærum Kenja og
Tansaníu og Suswa, Longonot, Eburru, Menengai, Londiani, Kakorinyo og
Suður-, Mið- og Norðureyjarnar í Turkanavatni.
Eldfjöllin eru mjög mismunandi að stærð og aldri.
Sum þeirra, s.s. Shomboli, eru aðeins gígtappar, leifar miklu
umfangsmeiri og stærri gíga.
Önnur, s.s.Longonotfjall, eru keilulaga og jarðfræðilega ung.
Nokkur eru mjög ung með svörtum og gróðurlausum apalhraunum,
sem malast smám saman niður og blandast jarðvegi.
Yngsta eldstöðin, sem er varla meira en hola í jörðina, er
Teleki.
Þegar nafngjafi hennar, Teleki von Szek greifi, var þar árið
1887, var hraunið frá henni enn þá of heitt til að ganga á því.
Það er því ljóst, að á þessum slóðum er misgengið bráðlifandi,
eldvirkt svæði.
Vatnalandið.
Meðfram og í misgenginu í Kenja keðja sjö vatna.
Þau eru öll afrennslislaus á yfirborði en búskapur þeirra
byggist á úrkomu á nærliggjandi svæði.
Úrkoman er nokkuð jöfn uppgufuninni, þannig að yfirborð þeirra
er allstöðugt.
Vegna aðrennslisins safnast stöðugt meira af salti og öðrum
jarðefnum á vatnsbotnana, þannig að fimm vatnanna eru orðin svo sölt,
að vatnið er ódrekkandi.
Einn kostanna við þessa þróun er sá, að bein dýra og gróðurleifar
steingervast og varðveitast ótrúlega vel í ísúrum setlögunum.
Þess vegna hefur Misgengisdalurinn orðið að gósenlandi fyrir
fræðinga á ýmsum sviðum, s.s. mann- og dýrafræðinga, sem leita að
uppruna og þróun tegundanna.
Ísúrast þessara mýravatna er Magadivatnið, sem er allra syðst
í landinu.
Þangað er auðvelt að komast á rúmum klukkutíma frá Næróbí
á góðum vegi, sem liggur upp suðuraxlir Ngonghæðanna og niður
mikinn bratta misgengisins.
Frá hæstu stöðum leiðarinnar á heiðskírum degi má sjá
Kilimanjaro í rúmlega 300 km fjarlægð í suðaustri, bláleit
eldfjallabákn Norður-Tansaníu og trónandi Ngurumanbrotabeltið í
vesturhluta misgengisins.
Leiðin niður í misgengið liggur um bratt og svipmikið
landslag niður hitasvækju þurrlendisins fyrir neðan.
Það má sjá nýleg merki um jarðskorpuhreyfingar í þrepum
brotabeltisins, sem er ekið um.
Þetta líkist einna helzt vestralandslagi, þar sem fólk gæti
jafnvel búizt við að sjá skyndilega ríðandi eftirreiðarhópa með
lögreglustjóra í fararbroddi.
Magadivatnið er elzta námusvæði Kenja, þar sem bær hefur
byggzt í kringum námufélagið á tanga úti í vatninu.
Íbúarnir eru að mestu starfsmenn fyrirtækisins og bærinn er
að flestu leyti fyrirmyndarsamfélag.
Þar er jafnvel golfvöllur, sem er brúnn (mold) en ekki grænn
vegna þurrkanna.
Það er svo heitt á vellinum, að hann er ekki stundaður nema
eldsnemma á morgnana og seint síðdegis.
Í syðsta enda vatnsins, þar sem aðallindirnar eru, þrífast
margs konar smá- og örverur í ódrekkandi vatninu.
Þær laða til sín aragrúa fugla og fuglaskoðara.
Meðal hinna mörgu tegunda eru flamingóar og vaðfuglar, sem
koma frá Evrópu til vetursetu.
Naivasha
er næsta vatnið í röðinni til norðurs í misgenginu.
Það tekur rúman klukkutíma að aka þangað frá Næróbí
eftir Afríkubrautinni (Trans African Highway) til norðvesturs.
Útsýnið af austurbarmi misgengisins á þessari leið er ekki
síður mikilfenglegt en frá Ngonghæðum á Magadileiðinni.
Munurinn er sá, að misgengið líkist helzt Almannagjá á Þingvöllum
á báða bóga
í stað risaþrepa og brotalína í grennd við Magadivatn.
Vatnið er á dalbotninum í 1800 m hæð yfir sjó.
Flatarmál þess hefur verið mismikið í aldanna rás og er nú
u.þ.b. 170 km².
Skömmu eftir árið 1890 var það ekki stærra en smátjörn en
nokkrum árum síðar fyrir aldamótin hafði vatnsborðið hækkað um
15 m og það var orðið stærra en það er nú.
Vötnin Naivasha og Baringo skera sig úr vegna þess að þau
eru ósölt, þrátt fyrir að afrennsli séu ekki sjáanleg á yfirborði
jarðar.
Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um ástæður þessa en
engin þeirra er fullnægjandi.
Þó er talið líklegt, að vötnin hafi afrennsli neðanjarðar,
þannig að saltið safnist ekki fyrir í vatninu sjálfu.
Hvað sem öllu líður er vatnið vel til áveitu fallið og
mikið er ræktað af grænmeti og blómum, sem eru seld til Næróbí
og flutt úr landi.
Umhverfi vatnsins nýtur vaxandi vinsælda meðal íbúa Næróbí
sem afslöppunar- og afþreyingarstaður vegna nálægðarinnar.
Bátafólk á vatninu verður að gæta sín á hvössum vindum,
sem skella stundum á án mikillar viðvörunar og valda hættulegri ólgu.
Naivashavatnið
og umhverfi þess er draumaland fyrir fuglaskoðara og sagt er, að þar
finnist fleiri tegundir en á Bretlandseyjum.
Naivashasvæðið er í brennidepli náttúruverndarsinna, sem
flestir hverjir gera sér ekki grein fyrir því, hve það hefur
breytzt af mannavöldum í áranna rás.
Ýmsar aðfluttar plöntutegundir hafa verið gróðursettar og mörgum
tegundum fiska hefur verið sleppt í vatnið.
Sportveiði var hafin árið 1928 og síðar var farið að
stunda atvinnuveiðar á aðfluttum stofnum.
Coypu- eða nutriarottur sluppu úr búrum loðdýra-ræktenda og
lifa góðu lífi við vatnið.
Rauður mýrafiskur var fluttur alla leið frá Louisianafylki í
BNA árið 1972 og þrífst vel.
Umhverfissinnar eru mjög mótfallnir öllum þessum breytingum
en lítið er vitað um áhrif þeirra á upprunalegt lífríki.
Sveiflur í vatnsbúskapnum valda líka miklum breytingum og
jafnlítið er vitað um áhrif þeirra.
Elmenteita-
og Nakuruvötnin liggja í svipaðri hæð yfir sjó á u.þ.b. 80 km
norðurleið við Afríkubrautina.
Þau eru bæði mjög sölt.
Nafnið Nakuru kemur úr maasaimáli (en-akuro) og þýðir
„rykstrokkar”.
Þetta kann að virðast einkennilegt nafn á stöðuvatni en bæði
vötnin eiga það til að þorna alveg upp.
Þá verða eftir stórar saltsléttur og örfínn sallinn berst
vítt og breitt með vindinum.
Skömmu eftir 1940, þegar Nakuruvatnið þornaði upp, barst
saltsallinn 64 km leið upp eftir misgenginu og það kom alvarlega til
álita hætta frekari uppbyggingu Nakurubæjarins við vatnið.
Árið 1961var úrkoman næg til að fylla vatnsskálina á ný
og rykmekkirnir gleymdust fljótt.
Ísúrt vatnið í Nakuruvatni er gróðrarstía fyrir kísilgúr
og blágrænþörunga, sem flamíngóarnir lifa á.
Það er svo mikið af þörungum í vatninu, að fjöldi
fuglanna skiptir milljónum.
Þeir flytja sig milli vatnanna í sigdalnum í fæðuleit.
Bogoria-
Baringovötnin.
Norðan Nakuru lækkar landið og Afríkubrautin sveigir til
vesturs, út úr sigdalnum, en beina leiðin að næsta Bogoriavatni
hefur norðlægari stefnu.
Þetta vatn var þekkt undir nafninu Hennington-vatn á nýlendutímanum.
Hennington var biskup, sem var myrtur í Úganda.
Vatnið er mjótt og langt við rætur þverhníptra
klettaveggja.
Það er salt og á bökkum þess eru goshverir.
Þeir, sem halda áfram til norðurs, komast ekki hjá að sjá
hið ósalta Baringovatn.
Það er tvöfalt stærra en hitt ósalta vatnið, Naivasha.
Fisktegundirnar í vatninu eru vísbending um fyrri tengingu þess
við Níl, líklega um Turkanavatn.
Eldgos í Kakorinyo og jarðskorpuhreyfingar rufu þessi tengsl.
Turkanavatn
eða Jaðevatnið er stærsta stöðuvatnið í sigdalnum.
Síðan afrennsli þess til Nílar stíflaðist hefur það orðið
æ saltara.
Einhver stærsta á Austur-Afríku, Omoáin, brún og þykk af
framburði, rennur til þess frá hálendi Eþíópíu.
Seltunnar í vatninu gætir ekki mikið nema í suðurendanum, þar
sem það er alveg ódrekkandi.
Stærð vatnsins, sem er 290 km langt og 16-48 km breitt núna,
hefur ákvarðast af þróun sigdalsins með jarðskorpuhreyfingum á liðnum
3 milljónum árum.
Að lokinni síðustu ísöld dró úr rennsli stórfljótanna úr
suðri og norðri á þessum slóðum og vatnið minnkaði verulega
vegna aukinnar uppgufunar, þegar loftslagið varð heitara.
Loksins hvarfs afrennslið í mýraflæmi, sem myndast árstíðabundið,
og það endaði með því, að hægfara en stöðugt sig misgengisins
kom alveg í veg fyrir útrennsli úr vatninu til Nílar.
Það er mikið af fiski í Turkana-vatni en það er hættulegt,
þrátt fyrir seiðandi fegurð sína.
Suðurhlutinn er hættulegastur þeim, sem um vatnið fara, þegar
skyndilega brestur á rok og ölduhæðin verður allt að þremur
metrum.
Margir fiskimenn hafa týnt lífi við veiðar og auðlindir
vatnsins eru oft sýndar en ekki gefnar.
Samt sem áður hafa fiskveiðar og -verkun aukizt, einkum eftir
að stærri og betri bátar komu til sögunnar.
Sibiloiþjóðgarðurinn
er á norðausturströnd vatnsins.
Þar halda sig stórar hjarðir oryxantílópna, topi og
sebrahesta á mjórri strandlengjunni, þar sem þær nýta tiltölulega
lágvaxið graslendi til beitar.
Hvergi annars staðar í álfunni eru fleiri krókódílar saman
komnir en á þessu takmarkaða svæði.
Fjær vatninu er nokkur hundruð ferkílómetra stórt setlagasvæði,
sem myndaðist á ísöld.
Þar fundust og finnast enn þá steingervingar beina frummanna,
s.s. australopithecine.
Það má því segja, að Turkanavatn og umhverfi þess sé
vagga mannkyns. |