Kongó íbúarnir,
Flag of Congo, Democratic Republic of the


KONGÓ
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hefðbundin búsvæði landsmanna eru skógarnir, steppurnar og grasslétturnar.  Íbúar þessara svæða hafa búið þar svo lengi, að þeir hafa aðlagast aðstæðum vel og kunna að nýta umhverfi sitt.  Skógabúarnir (bambuti pygmear í Ituriskóginum) hafa sérhæft sig í veiðum og fiskveiðum en látið landbúnaðinn sitja á hakanum.

Íbúar skógasvæðanna á steppunum sameina ræktun og veiðar.  Á nokkrum stöðum í sunnanverðu landinu stunda íbúarnir kvikfjár- og hænsnarækt og vinna kopar, járngrýti og önnur efni úr jörðu.  Á grassléttunum er stundaður blandaður búskapur, ræktun og mikil kvikfjárrækt.

Meirihluti íbúanna býr í dreifðum þorpum í sveitunum.  Húsagerðin og íbúafjöldi hvers þorps er mismunandi eftir svæðum.  Þorp með 10-25 húsum er álitið lítið en séu þau 150-200 er það stórt.  Steppuskóglendin í miðsuðurhlutanum og hluti strandhéraðanna eru þéttbýlustu svæðin með 300-500 manna þorpum.  Á grasslétunum í austurhlutanum eru einangruð smáþorp og bændabýli.

Evrópumenn, sem komu til skjalanna á 16. öld, stofnuðu verzlunar- og stjórnsýslustaði eins og Banana, Vivi og Boma.  Flestar borgir eru ungar að árum.  Kinshasa, sem hét Léopoldville til 1966, er aðalstjórnsýslu- og viðskipta- og iðnaðarmiðstöð landsins.  Borgin er uppspretta tízku- og menningarstrauma.  Hraður vöxtur Kinshasa er nokkurs konar samnefnari fyrir margar aðrar borgir landsins.  Árið 1889 bjuggu þar 5000 manns, 28.000 árið 1925.  Árið 1950 var íbúafjöldinni orðinn 250.000, 1,5 miljónir árið 1971 og 4,7 miljónir um miðjan 10. áratuginn.


Níu aðrar stórborgir landsins eru miðstöðvar stjórnsýslu og/eða viðskipta nema Likasi, sem er aðallega iðnaðar- og námuborg.  Kananga er höfuðstaður Kasaï-Occidental (Vestur-Kasaï).  Lubumbashi (áður Elisabethville), miðstöð stjórnsýslu í Katangahéraði, er iðnvæddasta koparborg landsins.  Mbuji-Mayi er höfuðstaður Kasaï-Oriental (Austur Kasaï) og miðstöð demantanámanna.  Kisangani (áður Stanleyville) er endastöð siglinga á Kongófljóti frá Kinshasa og höfuðstaður Vesturhéraðs (Orientale).  Bukavu, höfuðstaður Suður-Kivu-héraðs, er mikill ferðamannastaður.  Matadi, höfuðstaður Neðra-Kongó, er aðalhafnarborg landsins.  Mbandaka er hafnarborg við Kongófljót og höfuðstaður Miðbaugshéraðs.

Allar þessar borgir þróuðust á nýlendutímanum, þegar Evrópumenn og Afríkumenn bjuggu aðskilið.  Stór hús með stórum görðum, breið og steinlögð stræti og nægt rafmagn einkenndi evrópsku hluta þeirra.  Hinir yfirsetnu afrísku hlutar borganna voru byggðir litlum húsum og kofum og garðar voru litlir.  Fólkið var fátækt og rétt dró fram lífið og rafvæðing var í lágmarki.  Þessi mynd hefur svosem ekki breytzt, þótt efnaðir Afríkumenn búi nú einnig í evrópsku hlutum borganna.

Nútímaafríkumenn vilja láta kalla sig Afríkumenn eða kenna sig við land sitt.  Engu að síður er hægt að skipa íbúum Kongó í fylkingar eftir uppruna, tungumálum eða menningu.  Bantufólkið er stór meirihlutahópur búsettur á svæðum, sem ná yfir rúmlega tvo þriðjunga landsins.  Það kom úr vestri og norðri á þessar slóðir á 10.-14. öld og stofnaði konungsríki, sem stóðu í blóma, þegar Evrópumenn fóru að gera sig heimakomna vítt og breitt um landið á 17. öldinni.  Helztu konungsríkin tilheyrðu kongó-, teke- (Bateke), luba-, pende-, yaka-, lunda-, songe, tetela og kubaættkvíslunum.  Stórir menningarklasar nútímans ná til mongo- (í miðu landi), kongó- (vesturhl.), luba- (miðsuðurhl.), lunda- (suðurhl.), bemba- (suðausturhl.) og kasaïfólkið (suðvesturhl.).  Bantuættkvíslir í norður- og norðausturhlutunum eru aðallega ngala, buja, bira, kuumu og lega (rega).


Talið er að pygmear hafi komið á þessar slóðir á síðsteinöld og að þeir séu elztu íbúar landsins.  Ættkvíslir þeirra, sem enn þá búa í landinu eru bambuti, twa og babinga.  Þær búa í skógum Kibali og Ituri og svæðum við stöðuvötnin Kivu og Tanganyika og við árnar Lualaba, Tshuapa, Sankuru og Ubangi.

Í landinu búa litlir hópar af öðrum uppruna en bantu.  Súdanskir hópar komu sér fyrir í norðurhlutanum (zande (azande), mangbetu, banda og barambu (abarambo)).  Nílarættkvíslir búa í norðausturhlutanum (alur, kakwa, bari, lugbara og logo).  Hamítar frá Norður-Afríku og Rúanda eru fáir.  Fólkið frá Rúanda er aðallega tutsi, sem býr á vatnasvæðinu.

Evrópu- og Asíumenn með fasta búsetu eru u.þ.b. helmingur aðfluttra úr öðrum álfum.  Flestur þeirra komu til Kongó til skammtímastarfa.  Aðrir aðfluttir eru að mestu frá öðrum Afríkulöndum af öðrum uppruna en landsmenn.

Rúmlega 200 tungumál og mállýzkur eru talaðar í Kongó.  Fjögur tungumál hafa gert hinum mismunandi þjóðernishópum kleift að skilja hvern annan (Swahili, tshiluba (kiluba), lingala og kikongo).  Franska er eina opinbera tungumálið, m.a. notað við kennslu, í viðskiptum, stjórnsýslu og aðþjóðaviðskiptum  Fyrstnefndu tungumálin fjögur eru notuð í viðskiptum innanlands og útsendingum ljósvakafjölmiðla.  Lingala breiðist hratt út.  Það er notað í hernum og útbreitt í Kinshasa, þar sem það er sungið með popptónlist.


Hefðbundnu trúarbrögðin, sem byggjast á trú á æðri máttarvöld, forfeðurna, náttúruanda og galdra, urðu fyrir miklu áfalli við boðun krisninnar.  Talsverður fjöldi íbúanna játar kristni en hinir halda sig við trúarbrögð forfeðranna eða eru trúlausir.  Meðal aðfluttra eru gyðingar, hindúar og múslimar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM