Landslag
og loftslag. Þýzkaland liggur á milli Alpanna, Eystrasalts og
Norðursjávar. Milli
vesturs og austurs eru engin landslagseinkenni, sem skilja það frá nágrannalöndunum.
Austur- og vesturlandamærin hafa ætíð verið á flökti og
opnin fyrir fólksflutningum og menningarlegum, andlegum, viðskiptalegum
og þjóðfélagslegum áhrifum og hugmyndum, auk þess að vera stuðpúði
ólíkra stjórnmálalegra skoðana.
Landslag er mjög fjölbreytt
og hrífandi. Norðurþýzka
láglendið, Miðhálendið og For-alparnir með nyrzta hluta
Alpafjalla. Svartiskógur
liggur meðfram Efri-Rínarsléttunni, sem hefur hagstæðasta loftslagið
í landinu og liggur u.þ.b. 80 m yfir sjó.
Í Svartaskógi er hæsta fjallið Feldberg, 1.493 m, umkringt
alls konar heilsuhælum. Austur
frá Svartaskógi teygjast Svaba-Frankenfjöllin, 400 m há, þar sem hæst
ber. Austar er Bæjaraskógur í hálendi, sem liggur hæst 1.457
m. Í þröngum dal, milli
Bingen og Bonn, rennur aðalumferðaræð landsins, Rín, úr suðri til
norðurs í gegnum Hellufjöll, sem eru tilltölulega strjálbýl vegna
minni frjósemi jarðarinnar en skjól-góðir hliðardalir Rínardalsins.
Milli Rínarlandsins í vestri og Thüringen í austri teygist
hessneska miðhálendið, hæst 500-600 m, með dölum og lægðum.
Í þýzkalandi ríkir
kaldtemprað meginlandsloftslag og úrkomu gætir allt árið.
Norðvestur-hornið hefur úthafsloftslag og því fjær, sem
dregur ströndum verða meginlandsáhrifin meiri og hita-munur sumars og
vetrar eykst. Meðalhiti
kaldasta mánaðar, janúar, er 1,5°C nyrzt en -6°C á fjöllum syðst.
Heitasti mánuðurinn, júli, nyrzt, hefur 17-18°C en 20°C í
skjólgóðum Rínardölum. Meðalárshiti
er 9°C. Áhrifa hnjúkaþeys
frá Sviss gætir helzt í sunnanverðu landinu og þau valda hláku á
vetrum. Frosts getur gætt
í 205 daga á ári í Berlín, 212 daga í Wiesbaden og 250 daga á
Helgo-landi.
Byggðaþróun.
Byggðaþróun borga hófst
í vestur- og suðvesturhluta landsins á dögum Rómverja (Köln, Bonn,
Trier, Augsburg). Á miðöldum
byggðust borgir og bæir oft nærri biskupsstólum (Würzburg,
Hildesheim) og keisarahöllum (Aachen, Goslar).
Á baroktímanum voru byggðar glæsilegar höfuðborgir,
Karlsruhe og Mannheim. Styrjaldir
hafa stöðugt valdið breytingum á útliti borga vegna
enduruppbyggingar. Nýjar
tegundir útborga, íbúða- og svefnborga, risu í kjölfar síðari
heimsstyrj-aldarinnar á dreifbýlissvæðum og í útjöðrum stórborga.
Þjóðverjar.
Saga Þjóðverja nær yfir rúmlega 1000 ár og þjóðin
hefur breytzt mikið á þeim tíma.
Landamæri hafa færzt fram og tilbaka, skipulag ríkisins hefur
margbreytzt og samsetning þess líka.
Hlutar þess hafa losnað frá því og nýir bætzt við.
Þjóð er ekkert fastbundið fyrirbæri, engin skil-greind stærð,
heldur sögulegur viðburður.
Nú býr þýzka þjóðin
(u.þ.b. 79 milljónir) í sameinuðu ríki, sem var skipt í tvennt frá
lokum síðari heimsstyrjaldarinnar til ársins 1990.
Báðum megin járntjaldsins töldu menn sig til sömu þjóðar
og vildu sameiningu á ný.
Fjölmargir kynstofnar
mynda hina þýzku þjóð. Áður
en Þjóðverjar komu til sögunnar voru til Frankar, Saxar, Bæjarar og
Svabar og þessarar skiptingar verður enn þá vart, þótt þessir gömlu
stofnar séu í raun og veru ekki til lengur.
Hertogadæmi þessara þjóðflokka hurfu á fyrstu öldum hinnar
þýzku þjóðar og sögu. Lénskipulag
og héruð nefnd eftir gömlu þjóðflokkunum mynduðust og gamlir siðir
hvers einstaks heldust óbreyttir.
Þýzka þjóðin hefur
ætíð skipzt í margar stórar og smáar einingar.
Þessi staðreynd er eitt aðaleinkenna hinnar þýzku sögu og lýsir
sér enn þá, m.a. í sambandsríkjastefnu ríkisins og margbreytilegri
menningararfleifð. Þessi
skipting hefur bæði bjartar og dökkar hliðar.
Hvert þjóðarbrot
finnur glöggt til uppruna síns og lifir sínu eigin lífi, eins og
t.d. Bæjarar, Svabar og Frankar í Suður-Þýzkalandi, Rínlendingar,
Pfalzbúar og íbúar Hessen í Mið-Þýzkalandi, Vestfalir og Niðursaxar,
íbúar Slésvík og Holtsetalands og Frísar í Norður-Þýzkalandi.
Síðan skiptast þessir þjóðflokkar innbyrðis í fleiri,
t.d. Efri- og Neðri-Bæjara, og hafa hver sín einkenni.
Núverandi skipting
sambandsríkisins dregur ekki raunhæf mörk á milli þessara þjóðflokka,
enda komin til eftir síðari heimsstyrjöldina.
Bandamenn tóku lítið tillit til erfðavenja og sameinuðu ríki,
sem lítið áttu sameiginlegt, s.s. Bæjaraland, Franken og Svabaland.
Þar sem samkeppni
milli hinna ólíku þjóðflokka geta haft víðtækar stjórnmálalegar
afleiðingar, er þess vel gætt, að hver þeirra njóti jafnræðis á
hinu stjórnmálalega leiksviði.
Auk stjórnmálalegrar
aðgreiningar eru ýmsar fleygar sögur uppi um skapgerðareinkenni
hvers þjóðflokks: Rínlendingar
eru sagðir léttúðugir og fjörugir; Svabar sparsamir; Vestfalir nízkir
o.s.frv. Fyrir skemmstu
komst í tízku að segja Hafnarfjarðarbrandara um Austur-Frísa en nú
virðist æðið vera að hjaðna.
Vissulega má stundum finna eitthvað í fari einhvers þjóðflokks,
sem greinir hann frá öðrum, en það er ekki hægt að alhæfa með
ákveðnum formúlum.
Flóttamannastraumurinn
frá ríkjum austan járntjalds eftir 1945 skipti milljónum og olli því,
að fólk frá Slésíu, Austur-Prússlandi, Pommern, Brandenburg,
Sachsen og Thüringen settist að meðal hinna þjóðflokkanna.
Blöndunin jókst einnig við hina hreyfanlegu iðnvæðingu og
er því mun erfiðara að tala um einhver séreinkenni lengur.
Samt má enn þá finna áþreifanlegan mismun í byggingarstíl
og lífsvenjum ásamt þjóðbúningum.
Þennan mun má og finna í hinum mismunandi þjóðarréttum.
Tungumálið.
Hinar mismunandi mállýzkur
skilja áþreifanlegast milli þjóðarbrotanna.
Þær eru enn þá sprækar, þrátt fyrir blöndunina,
kennslu ríkismálsins og áhrif sjónvarps og útvarps.
Tali hver með sínu nefi, eiga jafnvel samlandar erfitt með að
skilja hvern annan.
Ræddu Efri-Bæjari og Niður-Saxi saman, hvor á sinni mállýzku, þyrftu
þeir túlk.
Áður en þýzka
tungan varð til talaði fólk franknesku, saxnesku, bæversku o.fl. Þýzkan var lengi framan af aðeins til sem mállýzka.
Ritmálið þróaðist smám saman á mjög flókinn hátt, þar
til það öðlaðist núverandi grundvöll á 18. öld.
Biblíuþýðing Marteins Lúters á 16. öld var mikilvægasti
og ef til vill eini áfanginn á þessari krókóttu braut tungunnar.
Fyrstu rituðu merki
þýzka málsins má finna í lítilli latnesk-þýzkri orðabók,
Abrogans, frá 770. Ritað
mál frá þessum fyrstu öldum fram til 1500 er núlifandi Þjóðverjum
óskiljanlegt. Þeir verða
að læra það sem annað tungumál, vilji þeir komast til botns í þróun
móðurmálsins.
Í núverandi mynd er
þýzkan móðurmál á annað hundrað milljóna manna.
Hún er ríkismál í
Þýzkalandi, Austurríki, Sviss og Lichtenstein.
Sem alþjóðamál kemur hún á eftir ensku, frönsku, rússnesku
og spænsku. Á
minningarsviðinu er þýzkan áhrifameiri, því að tíunda hver bók,
sem gefin er út, er á þýzku. Þýzkan er í þriðja sæti þeirra tungumála, sem þýtt
er úr, á eftir ensku og frönsku og flestar bækur, sem þýddar eru
á eitt tungumál, eru þýddar á þýzku.
Margir óttuðust, að
aðskilnaður þýzku ríkjanna leiddi til austur- og vesturþýzkra
tungna. Við nánari
athugun virtist sú hætta ekki vera fyrir hendi.
Stjórnmálalegur orðaforði ríkjanna var mismunandi en grunnorðaforðinn
og málfræðin var hin sama og rótföst í ritmálinu.
Þróunin varð frekar til að styrkja hina klofnu þjóð til að
halda sama tungumálinu í báðum ríkjunum. |