Þýskaland sagan I,
Flag of Germany

SAGAN 2      

ÞÝSKALAND
SAGAN 1

.

.

Utanríkisrnt.

Strax á 20. öld þóttust menn vita nákvæmlega hvenær saga Þýzkalands hófst.  Það var árið 100 f.Kr, þegar Ariminius, fursti keruska, sigraði þrjú rómversk herfylki í Teutoburgerskógi.  Það er ekkert frekar vitað um Arminius, sem varð að fyrstu þýzku þjóðhetjunni.  Honum var reist risaminnismerki við Detmold í Nordrhein-Westfalen á árunum 1838-75.

Nú á tímum er dæmið ekki svona einfalt.  Upphaf þýzku þjóðarinnar var þróunarferill, sem tók margar aldir.  Orðið 'þýzkur' kom fyrst fram á 8. öld og náði þá því næst aðeins yfir tunguna, sem töluð var í austurhluta Frankaríkis.  Í þessu ríki, sem var valdamest á dögum Karls mikla, bjuggu þjóðflokkar, sem töluðu germanskar og rómverskar mállýzkur.  Eftir dauða Karls (814) leið það undir lok.  Eftir mismunandi og mörg erfðaskipti urðu til Vestur- og Austurríki, sem höfðu nokkuð glögg landamæri milli þýzku- og frönskumælandi fólks.  Smám saman þróaðist samkennd meðal íbúa Austurríkisins.  Skilgreiningin 'þýzkur' færðist af tungunni yfir á þá, sem töluðu málið, og að síðustu yfir á landssvæðið 'Þýzkaland'.

Vesturlandamærin festust brátt í sessi og héldust stöðug.  Austurlandamærin voru sífellt á reiki í aldaraðir.  Um 900 fylgdu þau ánum Elbe og Saale.  Á næstu öldum færðust þau langt til austurs, bæði á stríðs- og friðartímum.  Það var ekki fyrr en á 14. öld, að um hægðist og landamærin héldust óbreytt (milli Þjóðverja og slava) fram til síðari heimsstyrjaldarinnar.

Hámiðaldir:  Venjulega miðast upphaf Austur-Frankaríkis við árið 911, þegar Karolingerættin hvarf af sjónarsviðinu og Frankahertoginn Konrad I var krýndur konungur.  Hann telst fyrsti konungur Þýzkalands.  Hinn opinberi titill hans var 'Frankakonungur', sem varð síðar 'rómanski konungurinn' og ríkið var nefnt 'Rómanska ríkið' frá 11. öld en 'Hið heilaga rómanska' frá 13. öld og á 15. öld bættist við nafnið -hinnar þýzku þjóðar.  Ríkið var kjöreinveldi, háaðallinn kaus konunginn, sem varð að vera skyldur forvera sínum á valdastóli.  Þessi grundvallarregla var þó oft brotin og oft kom fyrir, að það þurfti að tvíkjósa. 

Á miðöldum var engin höfuðborg í ríkinu og konungurinn stjórnaði á flakki.  Skattar þekktust ekki og konungur lifði af ríkisjörðum, sem hann stjórnaði.  Vald hans byggðist á hernaðarmætti og stjórnmálastyrk, sem byggðist á því, hve virtur hann var af hinum valdamiklu hertogum smáríkjanna.  Fyrstu konungarnir, sem náðu hvoru tveggja, voru eftirmenn Konrads I, Saxahertoginn Hinrik I (919-936) og enn valdameiri varð sonur hans, Otto I (936-973).  Hann varð fyrsti raunverulegi drottnari ríkisins og hátindi valdaferils síns náði hann, þegar hann lét krýna sig keisara árið 962 í Róm.  Síðan áttu þýzku konungarnir tilkall til keisaranafnbótar, sem þeir urðu að sækja til páfans í Róm.  Þessi nafnbót gerði í raun tilkall til yfirráða yfir öllum Vesturlönd-um, sem varð þó aldrei.  Með þessari nafnbók hófst Ítalíupólitík þýzku konunganna, sem gátu í 300 ár varið yfirráð sín í Mið- og Norðvestur-Ítalíu en misstu jafnframt mikilvæg tengsl við Þýzkaland.  Þessu fylgdi afdrifaríkur afturkippur fyrir eftirmenn Ottós I í hásæti.

Nýr framfaratími fór í hönd undir handarjaðri Salierættarinnar.  Á tímum Hinriks III (1039-1056) stóð þýzka konungs- og keisaraveldið hæst.  Það varði fyrst og fremst yfirburði sína gagn-vart páfaveldinu.  Hinrik IV (1056-1106) tókst ekki að halda í horfinu.  Þrátt fyrir sigur sinn yfir Gregoriusi  VII páfa um réttindi til skipunar biskupa, varð yfirbótaganga hans til Canossa (1077) tign hans til mikils hnekkis.  Allt frá því stóðu páfi og keisari jafnir að tign og mannvirðingu.

Árið 1138 hófst öld Stauferættarinnar.  Friðrik I Barbarossa barðist við páfa, borgríkin á Norðvestur-Ítlaíu og aðalkeppinaut sinn, Saxahertogann Hinrik Löwen.  Samt tókst honum ekki að hindra klofning ríkisins, sem olli að lokum lömun stjórnar hans.  Þessi þróun hélt áfram undir stjórn Hinriks VI (1190-1197) og Friðriks II (1212-1250), þótt keisaranum væru sett öll völd í hendur.  Hinir andlegu og veraldlegu furstar urðu að hálfsjálfstæðum lénsherrum.  Þegar veldi Stauferættar leið undir lok (1268), hneig sól hins alþjóðlega keisaradæmis Vesturlands til viðar.  Hin stríðandi öfl innanlands stóðu í vegi fyrir sameiningu, þveröfugt við það, sem var að gerast í öðrum löngum Vestur-Evrópu á sama tíma.  Hér liggja því ástæður þess, að Þýzkaland varð svo seint samstæð þjóð.

Síðmiðaldir og nútími:  Rúdolf I (1273-1291) varð fyrsti þjóðhöfðinginn af ætt Habsborgara.  Fjárhagsleg undir-staða keisaradæmisins, ríkisjarðirnar, voru tapaðar, svo að eignir ríkjandi höfðingjaættar urðu að hrökkva til.  Innanríkispólitíkin átti allan hug keisaranna.  Hansaveldið varð til á 14. öld við strönd Norðursjávar.  Frá 1438 gengu ríkisyfirráðin í erfðir (Habsborgarar), þrátt fyrir að enn þá ætti að kjósa einvaldinn að nafninu til.  Maximilian I (1493-1519) varð fyrstur til að taka sér keisaranafn án milligöngu páfa.  Hann reyndi að koma á umbótum í ríkinu án mikils árangurs.  Umbæturnar, s.s. þingið, sýsluskipan og ríkisréttur, hindruðu ekki klofning.  Það skapaðist einfaldlega glögg skipting á milli keisara og ríkis.  Keisaramegin stóðu furstarnir og borgirnar en hins vegar þeir, sem hugðu meira að eigin hagsmunum og mátu keisaraveldið lítils.

Borgirnar urðu að miðstöðvum verzlunarveldisins.  Þær högnuðust á auknum viðskiptum.  Vefnaðar- og námuiðnaður blómstraði og stéttarfélög (gildi) iðnaðarmanna urðu til.  Verzlunarveldi miðaldanna skapaði auðvaldskerfið.  Samtímis breyttust andleg og menningarleg viðhorf, svo sem endurreisnar- og fornmenntastefnan (renaissance og humanismus).  Gagnrýnisraddir beindust helzt gegn göllum kirkjunnar.

Öld siðaskipta og gagnsóknar katólsku kirkjunnar:  Óánægjan, sem kraumaði undir niðri í trúmálum, brauzt út með mótmælum Marteins Lúters 1517 og siðbótin breiddist óðfluga út.  Áhrifa hennar gætti langt út fyrir trúmálin.  Þjóðfélagsgrunn-urinn nötraði.  Árin 1522-23 gerðu ríkisriddararnir uppreisn og árið 1525 varð bændauppreisnin, sem var mesta bylting í þýzkri sögu.  Báðar uppreisnirnar voru bældar niður með mikilli og blóðugri hörku.

Þeir, sem unnu mest við siðaskiptin, voru furstarnir.  Eftir mikla baráttu öðluðust þeir réttinn til að ákveða, hverrar trúar þegnar þeirra skyldu vera (Trúarbragðafriðurinn í Augsburg 1555).  Mótmælendur hlutu jafnrétti á við katólska.  Þar með var trúarklofningurinn staðfestur í Þýzkalandi.

Karl V sat á keisarastóli (1519-1556) á siðaskiptatímanum.  Hann erfði stærsta og mesta stórveldi hims á þeim tíma.  Eftir að hann hrökklaðist frá völdum var ríki hans skipt.

Árið 1555 voru 55% þýzku þjóðarinnar mótmælendur.  Baráttu kirkjudeildanna var samt ekki lokið.  Á næstu áratugum vann katólska kirkjan mikið á, m.s. með aðstoð Kristmunka (Ignatius Loyola) 1540.  Árið 1618 sauð upp úr í Bæheimi og 30 ára stríðið hófst.  Það dró að sér aðrar Evrópuþjóðir, Dani, Svía og Frakka, og Þýzkaland flakaði í sárum.  Þriðjungur þjóðarinnar var drepinn í stríðinu.  Vestfalski friðurinn 1648 olli því, að Þýzkaland missti stór landflæmi til Svía og Frakka og brotthvarf Sviss og Niðurlanda úr ríkjasambandinu var staðfest.  Alræði furstanna í löndum þeirra var staðfest og einnig réttur þeirra til samninga og bandalaga við erlend ríki.

Einveldistíminn:  Hin nýfullvalda ríki tóku upp einveldisformið að fyrirmynd Frakka.  Það færði þjóðhöfð-ingjum óskert alræðisvald og gerði jafnframt kleift að byggja upp sterka stjórn á traustum fjárhags-grundvelli og traustum her.  Margir furstanna áttu þá ósk heitasta að gera aðsetur sín að miðstöðv-um menningar.  Margir þeirra voru fulltrúar hins menntaða einveldis og studdu vísindi og endur-skoðunarstefnuna að því marki, að það ógnaði ekki veldi þeirra.  Viðskipti, sem voru í anda kaup-auðgistefnunnar, styrktu einnig fjárhag einræðisríkjanna.  Þannig urðu lönd, eins og Bæjaraland, Brandenburg (síðar Prússland), Sachsen og Hannover, að sjálfstæðum veldiseiningum.  Upp risu stórveldi, eins og Austurríki og Ungverjaland auk hluta hinna tyrknesku Balkanlanda, sem unnu styrjöldina við Tyrki.  Prússland varð skæður keppinautur Austurríkis undir stjórn Friðriks mikla (1740-86), sem gerði landið að hernaðarlegu stórveldi og færði landamæri ríkisins stöðugt út.  Þýzka ríkjasambandið var losaralegur hrærigrautur 1700 veldiseininga á 18. öld.  Það þurfti aðeins smáandvara til að fella þessa spilaborg.

Stjórnarbyltingin mikla 1789 og afleiðingar hennar:  Þessi andvari kom úr vestri í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789.  Borgarastéttin lagði aðals- og lénskipulagið að velli og lýsti yfir jöfnum rétti allra manna.  Prússum og Austur-ríkismönnum mistókst algerlega að endurreisa hið gamla skipulag með hervaldi í nágrannaríkjunum.  Þýzka ríkjasamsteypan molnaði undan árásum frönsku uppreisnarherjanna og herja arftaka bylting-arinnar, Napóleons.  Frakkar lögðu vestari bakka Rínar undir sig.  Nálægt 4 milljónir Þjóðverja fengu nýtt þjóðerni og stjórnendur, þegar Rínarsambandið var stofnað undir franskri stjórn (1806).  Franz II keisari sagði af sér sama ár og þar með leið Hið heilaga rómverska ríki hinnar þýzku þjóðar undir lok.

Stjórnarbyltingin í Frakklandi hafði engin varanleg áhrif í Þýzkalandi, þótt menntamenn þar vonuðu, að þetta yrði upphaf nýrra tíma.  Það kom víða til uppþota en að baki þeim bjó engin sterk þjóðareining.    Þýzkaland var hvorki félagslega né viðskiptalega reiðubúið til slíks uppgjörs.  Þar að auki voru hlutar landsins hernumdir af upphafsþjóð byltingarinnar.  Baráttan gegn Frökkum vegna hernámsins varð því einnig að hugmyndafræðilegu stríði.

Þjóðfélagshreyfingum í Evrópu óx fiskur um hrygg og stefndu alls staðar í lýðræðisátt, nema í Þýzkalandi.  Þar voru hugmyndir manna íhaldssamari og snérust í þjóðernisátt á 19. öld.

Samt sem áður gætti áhrifa byltingarinnar á ýmsum sviðum í Þýzkalandi.  Í Rínarbandalags-löndunum og Prússlandi reis upp frjáls borgarastétt og lénskipulagið hvarf.  Ánauð var aflétt, stétta-félög voru leyfð, borgir fengu meira sjálfstæði, menn urðu jafnir fyrir lögum og almenn herskylda komst á.  Vegna andstöðu aðalsins komust ekki allar endurbætur í höfn, t.d. fengu borgararnir ekki að taka þátt í löggjöf og stjórnarskrár fyrirfundust aðeins í fáum furstadæmum.

Þýzka ríkjasambandið:  Eftir sigurinn yfir Napóleon (1814) ákvað Vínarfundurinn (1814-15) nýja ríkjaskipan í Evrópu.  Vonir margra Þjóðverja um frjálst, sameinað þjóðríki brustu.  Þýzka ríkjasambandið, sem tók við af hinu gamla, var veikt samband fullvalda furstadæma.  Hið eina, sem þau áttu sameiginlegt, var þingið í Frankfurt.  Þar komu ekki saman réttkjörnir fulltrúar ríkjanna, heldur var þetta fulltrúaþing furstanna, sem réði engum málum til lykta, nema Prússland og Austurríki kæmust að sömu niðurstöðunni.  Aðalverkefni þess voru fyrstu áratugina að bæla niður hvers konar tilfinngar í sameiningar- og frelsisátt.  Dagblöð og útgáfustarfsemi var háð strangri ritskoðun.  Háskólanna var vel gætt.  Stjórnmálastarfsemi var svo til útilokuð.

Árið 1834 stofnuðu þýzku ríkin með sér tollabandalag, sem færði þau nær hverju öðru með vernduðum innanlandsmarkaði.  Árið 1835 var fyrsta þýzka járnbrautin tekin í notkun.  Iðnvæðingin hélt innreið sína og ný stétt, iðnverkafólk, kom fram.  Þetta fólk bjó við ákaflega bág kjör vegna offramboðs vinnuafls og öll lög um félagsleg réttindi skorti.  Árið 1844 gerðu vefarar í Slésíu uppreisn, sem var brotin á bak aftur af prússneskum her.  Um svipað leyti fóru fyrstu merki verka-lýðshreyfinga að gera vart við sig.

Byltingin 1848:  Andstætt byltingunni 1789 fékk byltingin 1848 strax sterkan hljómgrunn í Þýzkalandi.  Í marz kom til uppþota í öllum þýzku ríkjunum og furstarnir neyddust til að slaka á.  Í maí kom þjóð-þingið saman í Pálskirkjunni í Frankfurt.  Það kaus austurrískan erkihertogann Jóhann sem stjórn-anda ríkisins og stofnaði ríkisráðuneyti, sem var reyndar valdalaust og ávann sér engan myndugleika.  Sterkasta aflið á þjóðþinginu var frjálslynda miðjan, sem stefndi að stjórnarskrárbundnu einveldi með takmörkuðum kosningarétti.  Þeir óttuðust stjórnleysi og álitu, að vinstrisinnaðir lýð-ræðissinnar berðust fremur fyrir því en eflingu gömlu stjórnarháttanna.  Meirihluti þjóðþingsins var fylgjandi hugmyndum um sameiningu þýzkumælandi landa, líka hinna þýzku hluta Austurríkis, en þegar Austurríki vildi, að þeim yrði hrint í framkvæmd, höfðu hugmyndir um þýzkt ríki án Austurríkis náð yfirhöndinni.  Árið 1849 samþykkti þingið stjórnarskrá ríkisins, sem það hafði unnið að, og bauð Friðrik VilhelmIV keisaranafnbótina með erfðarétti.  Konungur færðist undan.  Hann vildi ekki taka við keisaratigninni sem afleiðingu byltingarinnar.  Í maí 1849 voru gerðar misheppnaðar uppreisnir í Saxen, Fals og Baden til að þvínga í gegn framkvæmd stjórnarskrárinnar.  Þar með má segja, að búið væri að bæla niður þýzku byltinguna.  Árangurs hennar gætti á afturhaldssaman hátt.  Árið 1850 var þýzka ríkjasambandið endurvakið.

Uppgangur Prússlands:  Sjötti áratugur 19. aldar var tímabil viðskiptablóma.  Þýzkaland varð iðnveldi, sem stóð Englandi lítt að baki og skaut því síðan aftur fyrir sig.  Þar réði þunga- og vélaiðnaður úrslitum.  Prússland stóð í fararbroddi þýzku ríkjanna á viðskiptasviðinu.  Hagvöxturinn efldi stjórnmálalega meðvitund borgaranna.  Árið 1861 var stofnaður fyrsti nútíma stjórnmálaflokkur Þýzkalands, fram-faraflokkurinn.  Hann varð sterkasti flokkurinn í Prússlandi og kom m.a. í veg fyrir, að ríkisstjórnin breytti hernum í afturhaldsátt.  Nýútnefndur forsætisráðherra, Otto von Bismarck (1862), stjórnaði árum saman án samráðs við þingið og hunzaði stjórnarskrána.  Framfaraflokkurinn hætti sér ekki út í mótmæli annars staðar en í þinginu.

Bismarck knúði innanríkisstefnu sína fram með góðum árangri í utanríkismálum.  Í þýzk-danska stríðinu 81864) neyddu Prússar og Austurríkismenn dani til að láta af hendi Slésíu og Holtsetaland.  Bismarck tók að sér stjórn þessara landa og gerði allt til að ögra Austurríki.  Það endaði með Þýzka stríðinu 1866, þar sem Austurríki laut í lægra haldi fyrir Prússum og hvarf af þýzka sviðinu.  Þýzka ríkjasambandið var léyst upp og nýtt samband ríkja norðan Main varð til undir stjórn Birsmarcks sem kanslara.

Bismarcktíminn:  Bismarck vann nú markvisst að sameiningu þýzku smáríkjanna og beitti til þess öllum tiltækum ráðum.  Hann braut andstöðu Frakka á bak aftur (þeir óttuðust alltaf of sterkan nágranna í austri) í þýzk-franska stríðinu 1870-71.  Stjórnmálalegur ágreiningur um ríkiserfðir á Spáni var notaður sem ástæða.  Hið sigraða Frakkland varð að skila Elsass-Lótringen og greiða háar stríðsskaðabætur.  Í þjóðernislegri hrifningu vegna sigursins gerðust suðurþýzku ríkin aðilar að norðurþýzka ríkjasambandinu og þar með hafði tekizt að sameina þýzkaland.  Vilhelm I, Prússakonungur, var krýndur þýzkalandskeisari á óvinagrund í Versölum 18. janúar 1871.  Sameiningin varð ekki vegna þjóðernishreyfingar, heldur fyrir samninga milli furstanna.  Veldi Prússa var yfirgnæfandi.  Mörgum fannst þeir búa í Stór-Prússlandi.  Stjórnarhættir voru stjórnarskrárlegir að nafninu til.  Að vísu voru kosningar til þingsins almennar og atkvæðisréttur jafn, en hann réði engu um myndun ríkisstjórna.  Valdamesta stofnunin var þjóðarráðið, þar sem furstarnir einir áttu fulltrúa.  Völd ríkiskanslarans voru mikil og hann þurfti ekki að svara þinginu fyrir gerðir sínar, heldur keisaranum beint.  Þannig urðu atkvæði hinna ríku og voldugu þyngri á metaskálunum en hinna almennu kjósenda.  Þrátt fyrir að þýzkaland væri hröðum skrefum að verða iðnaðarstórveldi, markaði aðall-inn stefnuna.

Bismark var ríkiskanslari í 19 ár.  Hann reyndi að treysta stöðu Þýzkalands meðal Evrópuríkja með stefnufastri friðar- og innanríkispólitík.  Hann stóð skilningsvana frammi fyrir lýðræðislegri viðleitni síns tíma og leit á alla andstöðu sem föðurlandssvik.  Hann varðist biturlega og loks árangurslaust gegn vinstri armi hinna frjálsu borgara, stjórnmálafylkingum katólskra og þó einkum gegn skipulögðum verkalýðshreyfingum, sem voru aðeins leyfðar í undantekningatilfellum.

Þrátt fyrir ýmsar lagasetningar í frelsisátt, jókst bilið á milli hinnar ört vaxandi verkalýðs-hreyfingar og ríkisins.  Bismarck marð að lokum fórnarlamb eigin kerfis, þegar hinn ungi keisari, Vilhelm II, leysti hann frá störfum árið 1890.  Vilhelm vildi stjórna sjálfur en brast til þess einurð, þekkingu og þol.   Honum tókst fremur í orði en í verki að skapa sér ímynd ógnvænlegs valdshöfð-ingja.  Undir stjórn hans reyndi Þýzkaland að fylgja heimsveldisstefnunni og árangurinn varð stöðugt meiri einangrun landsins.  Innanlandsstjórn hans einkenndist af afturhaldi.

SAGAN 2

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM