Þýskaland sagan 4,
Flag of Germany


ÞÝSKALAND
SAGAN 4

.

.

Utanríkisrnt.

Stofnun sambandslýðveldisins:
Snemmsumars 1948, þegar menn voru orðnir úrkula vonar um sameiginlega lausn Þýzkalandsmálsins, gáfu Vesturveldin leyfi til stofnunar vesturþýzks ríkis.  Þau stungu  upp á gerð stjórnarskrár, sem kjörin þjóðarsamkoma ynni að.  Flestir þýzkir stjórnmálamenn voru andsnúnir þessum tillögum, því að þeir óttuðust að styrkja frekar sundurlimun landsins með slíkum aðgerðum.  Eftir langt samningaþóf var afráðið, að fulltrúar ríkjaþinganna mynduðu þjóðarráð, sem skyldi semja grundvallarlög.  Val þessa orðalags átti að undirstrika, að ekki væri um endanlega stofnun sérstaks ríkis að ræða, heldur væri um tímabundna lausn að ræða. 

Þjóðarráðið kom fyrst saman 1. september 1948 í Bonn.  einn foringja kristilegra jafnaðarmanna (CDU), Konrad Adenauer, fyrrum borgarstjóri í Köln, var kosinn forseti ráðsins.  Á 7 mánuðum lauk ráðið gerð grundvallarlaga fyrir þýzka sambandslýðveldið.  Þau voru samþykkt í ráðinu með 53 atkvæðum gegn 12 8. maí 1949.  Á næstu vikum samþykktu 10 af 11 ríkjaþingum lögin og 23. maí tóku þau gildi.  Þingið í Bæjaralandi veigraði sér við að samþykkja þau, sökum þess, að það áleit of mikil völd falin sameiginlegu þjóð-þingi á kostnað ríkjanna.  Að lokinni atkvæðagreiðslu allra ríkjanna féllst Bæjaraland líka á þau.

Höfundar grundvallarlaganna lögðu mikla áherzlu á, að þau væru aðeins til bráðabirgða.  Í formála þeirra var tekið fram, að þau væru samþykkt til að færa lífið í réttar skorður á þessum millibilstíma og að þýzka þjóðin í vesturhlutanum hafi tekið þessar ákvarðanir fyrir hönd allrar þýzku þjóðarinnar.  Ennfremur var skorað á alla Þjóðverja að tryggja endanlega samhygð og frelsi í lýðræðislegum kosningum.

Síðasta grein grundvallarlaganna hljóðar svo: "Þessi lög falla úr gildi um leið og þýzka þjóðin samþykkir stjórnarskrá í frjálsum kosningum".

Æðsta stefnumark allra flokka var endursameining Þýzkalands.  Þeir voru fáir, sem voru svo bolsýnir að trúa því, að áratugum síðar yrði það markmið enn þá fjarlægari draumur en í upp-hafi.  Með gildistöku laganna fæddist Sambandslýðveldið Þýzkaland.  Fyrstu þingkosningarnar fóru fram 14. ágúst 1949.  Flokkarnir, sem stóðu að gerð grundvallarlaganna, voru sigurvegarar þeirra og þar með hlutu lögin lýðræðislega staðfestingu.

Í beinu framhaldi var sett á fót sú ríkisstarfsemi, sem kveðið var á um í lögunum og 15. september var Konrad Adenauer kjörinn fyrsti kanslari (forsætisráðherra) sambandslýðveldisins.  Sambandsstjórnin laut í fyrstu yfirstjórn Vesturveldanna en á næstu árum hvarf hún smám saman af sviðinu.  Þýzka sambandslýðveldið varð fullvalda 5. maí 1955.  Þýzkaland var orðið að fullgildum aðila í vestrænni samvinnu í stað þess, að vera undirokaður stríðsandstæðingur.

Þýzka alþýðulýðveldið DDR:
Tölulegar upplýsingar:
Flatarmál: 108.178 km², þar af 62.955 km² landbúnaðarsvæði.  Íbúafjöldi: u.þ.b. 17 milljónir.  Vinnuafl u.þ.b. 8 milljónir.  Höfuðborg Austur-Berlín.  Stórborgir: Austur-Berlín (1,1 m), Leipzig (574.000), Dresden (506.000), Karl-Marx-Stadt (Chemnitz; 302.000).  Landstjórn: 25 manna ráð með Erich Honecker í forsæti.  Ríkisstjórn: ráðherraráð.  Forseti þess Willi Stoph.  Þing valið á 5 ára fresti.  500 þingmenn.  Þingforseti Horst Sindermann.  Stjórnmálaflokkar:  SED, þjóð-ernislegur einingarflokkur jafnaðarmanna (u.þ.b. 2 milljónir flokksmanna).  Aðalritari Erich Honecker.  Þar að auki 4 aðrir flokkar og mörg fjöldasamtök, sem voru samtvinnuð SED í þjóðar-fylkingunni.

DDR var stofnað 7. oktober 1949 í Austur-Berlín.  Samkvæmt stjórnarskrá ríkisins var það þingræðislegt lýðræðisríki, þótt raunveruleikinn væri allur annar.  SED stjórnaði frá upphafi öllu stjórnmálalífi gegnum Politbüro.  Það ríkti í raun og veru einveldi.  Sumarið 1952 lýsti SED yfir átaki til uppbyggingar sósíalisma og breytingu á ríkis- og þjóðskipulagi í átt til kommúnisma.  Þeim var hrint fram án nokkurs dulbúnings.  Árið 1950 gerðist landið aðili að COMECON (samtök um gagnkvæma viðskiptaaðstoð).  Með aðild sinni að Varsjárbandalaginu 1955 var landið að fullu orðið hluti af Austurblokkinni.

Pólitískur þrýstingur og viðskiptaerfiðleikar ollu mikilli óánægju meðal íbúanna.  Uppreisn var gerð 17. júní 1953 og sovjezkur her bældi hana niður.  Á hverjum degi flúðu borgarar DDR til Vestur-Berlínar.  Til að koma í veg fyrir landauðn, reistu yfirvöld í DDR öflugar tálmanir með jarðsprengjum og gaddavírsgirðingum meðfram öllum sameiginlegum landamærum ríkjanna árið 1952.  Síðan hafa þessi landamæri verið hin bezt og mest vöktuðu í Evrópu.  Flóttafólkið átti þó um stund opna leið í gegnum Austur-Berlín til Vestur-Berlínar og þaðan með flugvélum til BDR.  til að loka þessari leið, reisti DDR Berlínarmúrinn 1961.  Fram að þeim tíma höfðu u.þ.b. 3,5 milljónir manna flúið vestur frá sovjezkum yfirráðasvæðum.  Þrátt fyrir mjög skerta möguleika til að sleppa með heilli há vestur yfir, reyndu mörg hundruð manns flótta á hverju ári.  Margir létu lífið fyrir byssu-kúlum eða tættust sundur, þegar þeir stigu á jarðsprengjur.

Fólksflótti skaðaði efnahagslíf DDR mjög vegna þess, hve margt menntamanna fór brott.  Eftir að þessi mikli fólksfjöldi var stöðvaður, komst nokkurt jafnvægi á og bata í efnahagslífinu fór að gæta.  Lífskjör bötnuðu greinilega, þótt DDR stæði BRD ætíð að baki hvað þau snerti.  DDR komst í annað sæti austantjaldslanda á eftir Sovjetríkjunum hvað iðnað og útflutning snerti.  Á alþjóðavettvangi óx vegur DDR einnig, einkum meðal landa þriðja heimsins, þar sem hugmyndafræði var svipuð.  Þrátt fyrir allan þennan árangur, þorði SED ekki að leyfa frjálsar kosningar.

Deilan um endursameiningu:
Frá 1949 voru tvö ríki í þýzku landi.  BRD lýsti því yfir, að það væri stofnað á grunni þýzka ríkisins.  Það gat með fullum rétti bent á, að þjóðin hefði staðfest það í frjálsum kosningum, sem áttu sér enga hliðstæðu í DDR.  Þess vegna var tillögum stjórnar DDR um sameiginlegt þýzkt ráð svarað með áskorun um frjálsar kosningar í Þýzkalandi öllu.  Alþýðulýðveldið var ekki tilbúið til slíks.  Samt lýstu bæði ríkin yfir, að æðsta markmið þeirra væri sameining Þýzkalands.

Menn voru ekki á eitt sáttir um leiðir að þessu marki.  Stjórn og stjórnarandstaða í BRD deildu mjög um þær.  BRD gerðist aðili að samtökum vestrænna ríkja, þegar Adenauer var kanslari.  Það var álit stjórnarinnar, að Sovjetríkin yrðu nauðbeygð til að slaka á taumunum og veita hinum kúguðu þjóðum sjálfsákvörðunarrétt, ef vesturveldin efldust.  Stjórnarandstaðan (SPD) taldi svo óhefta sambúð við vestrænar þjóðir vafasama, því að hún drægi úr möguleikunum til sameiningar.

Árið1952 virstust einhverjir möguleikar til slíkra viðræðna vera fyrir hendi.  Sovjetríkin lögðu fram uppkast að friðarsáttmála við Þýzkaland og skoraði á Vesturveldin að taka þátt í samningunum. Í viðræðum , sem fóru fram, gerðu Vesturveldin það að skilyrði, að frjálsar kosningar undir alþjóðlegu eftirliti færu fram til myndunar þýzkrar ríkisstjórnar áður en setzt yrði að samningaborðinu.  Allt fram á okkar daga hafa menn velt fyrir sér, hvort hafi vakað fyrir Sovétmönnum að sameina þýzku ríkin eða að koma í veg fyrir að BRD geerðist aðili að vestrænni samvinnu.

Árið 1955 gengu bæði þýzku ríkin í bandalag við Austurveldin annars vegar og Vesturveldin hins vegar.  Að því gerðu tóku mál þýzku ríkjanna á sig nýja mynd.  DDR féll frá sameiningarhugmyndinni og lagði til ríkjasamband.  BRD stóð fast á þeirri kröfu, að sameining væri bundin frjálsum kosningum og að BRD eitt hefði rétt til að vera málsvari þýzku þjóðarinnar.  BRD leit á það sem fjandsamlegt athæfi, að DDR væri fjarstýrt af þriðja aðila (Hallsteinkenningin frá 1955).  Þessi afstaða varð til þess, að ríki utan austurblokkarinnar tóku ekki upp stjórnmálasamband við DDR fyrr en á 7. áratugnum.  EFtir því sem tímar liðu varð sameiningarmálið erfiðara.  Þróun heimsmála vakt ekki miklar vonir um sameininguna og því var reynt að finna nýjan grundvöll fyrir sambandi ríkjanna.

Skilyrt sambýli:
Þetta verkefni tók ríkisstjórn Willy Brants að sér 1969.  Undanfarin 20 ár frá stofnun ríkjanna höfðu þau haft samvinnu um ýmis mál, s.s. um gagnkvæm viðskipti.  Aðstæður til samskipta höfðu breytzt við samninga austantjaldsríkjanna og Berlínarsamkomulagið, þannig að teknar voru upp viðræður milli ríkisstjórna landanna.  Hinn 17. desember 1971 var undirritaður samningur um samgöngur milli BRD og Vestur-Berlínar og 26. maí 1972 var gerður samningur um auðveldun ferðalaga milli ríkjanna.

Að loknum löngum og erfiðum viðræðum milli landanna var samningur um samband þeirra undirritaður 21. desember 1972.  Bæði ríkin skuldbundu sig til að stuðla að friðsamlegu sambýli, að löndin gripu ekki til bopna hvort gegn öðru og að virða gagnkvæmt sjálfstæði og sjálfræði hvors annars í innri og ytri málum.  Þessi grundvallarsamningur opnaði möguleika til aukinnar samvinnu landanna og frekari samninga á þrengri sviðum.  Síðar var samið um heilbrigðismál, samgöngumál, póst- og símamál.  Auk þess áttu bæði ríkin fulltrúa í stjórnarsetrum hvors annars.

Þrátt fyrir þennan árangur, var langur vegur frá eðlilegu samneyti þessara ríkja.  Landamærahindranir DDR breyttust ekki.  Þar var haldið áfram að skjóta fólk, sem reyndi að flýja.  Einföldun á ferðum fólks milli landanna var einhliða.  Íbúar BRD áttu auðveldara með ferðir til DDR og milljónir manna notfærðu sér það ár hvert.  Borgarar DDR fengu ekki að yfirgefa landið til ferðalaga fyrr en þeir voru komnir á eftirlaunaaldur.  DDR brynjaði sig gegn framandi hugmyndum og skoðunum.  Dagblöð og bækur frá BRD mátti ekki flytja inn fyrr en þær höfðu verið rannsakaðar rækilega.  Blaðamenn frá BRD voru litnir hornauga og áttu brottvísun yfir höfði sér, ef þeir fetuðu ekki þrönga veginn án hliðarspora.

Þjóðernisspurningin:
BRD stóð á því fastar en fótunum, að ein þjóð byggi bæði löndin og ekki að ástæðulausu.  40% íbúa BRD áttu ættingja eða vini í DDR.  Margir stjórnmálaforingjar í BRD voru fæddir þar, sem DDR var og öfugt.  Slíkur samtvinningur gæti ekki átt sér stað milli tveggja ólíkra þjóða.  Framar öllu fannst fólki í báðum löndunum það bundið sömu sögu, tungumáli o.fl. sameiginlegu, sem eigi varð litið fram hjá.  Af þessum ástæðum viðurkenndi BRD ekki, að DDR væri erlent ríki.  allir íbúar DDR voru samkvæmt grundvallarlögunum ríkisborgarar í BRD.  BRD hleypti öllum vörum frá DDR tollfrjálst inni í landið og fyrir póstsendingar til DDR var tekið innanlandsgjald.  Frá sjónarhóli BRD var samband ríkjanna mjhög sérstakt.  Þau voru bæði fullvalda og sjálfstæð en voru ekki erlend ríki í augum íbúa þeirra beggja.

Viðhorf DDR voru allt önnur.  Það viðurkenndi ekki þessi rök og leit á BRD sem hvert annað erlent ríki, þótt stjórnarskrá DDR frá 1968 hafi kveðið á um, að landið héti „Alþýðulýðveldi þýzku þjóðarinnar” og stefnt skyldi að sameiningu beggja þýzku þjóðarbrotanna.  Þessi ákvæði voru numin brott árið 1974 og þess getið í staðinn, að ríkin væru með öllu tvær óskildar þjóðir.  Þessi skyndilega breyting átti sér enga stoð í raunveruleikanum.

Þýzkalandsmálið var ekki lengur eins ofarlega á baugi í augum heimsins.  Fyrir Þjóðverjum var það sami sársaukafulli raunveruleikinn og var áfram á dagskrá, þar til allir þýzkir þegnar fengu sama rétt til sjálfsákvörðunar.

Berlín:
Höfuðborg ríkisins var hernumin af rússum á síðustu dögum heimsstyrjaldarinnar.  Áður höfðu bandamenn gert með sér samkomulag um stjórn hennar.  Sigurvegararnir skiput henni í 4 yfirráðasvæði og önnuðust sameiginlega stjórnina.  Hlutar Bandaríkjamanna, Breta og Frakka voru sameiginlega eins og eyja á hernámssvæði Rússa.  Upp úr þessum jarðvegi óx Berlínarvandamálið.

Því meiri sem ágreiningurinn milli austurs og vesturs varð, þeim mun stirðari varð samstjórn Berlínar.  Árið 1948 sauð upp úr.  Sovjetmenn slitu samstarfi við Vesturveldin og vildu bola þeim frá Berlín.  Þegar það tókst ekki, tóku þeir fyrir allar samgöngur til vesturhlutans.  Það átti að svelta fólkið til hlíðni.  Vesturveldin gáfu ekkert eftir og fluttu allar nauðsynjar fyrir 2 milljónir íbúa Vestur-Berlínar eftir loftbrúnni frægu í 10 mánuði.  Þá létu Rússar af banninu.  Árið 1958 settu Rússar Vesturveldunum þá úrslitakosti að yfirgefa borgina og hún yrði frjáls án hersetu.  Vesturveldin höfnuðu þessum kosti algerlega.  Þegar Sovjetmenn náðu ekki markmiði sínu á þennan hátt, snéru þeir sér að því að leysa vandamál, sem hafði lengi brunnið þeim á baki.  Mörkin milli borgarhlutanna voru opin og yfir þau flúðu árlega hundruð þúsunda íbúa DDR.  Austur-Þjóverjar lokuðu þeim algerlega 13. ágúst 1961 með aðstoð Sovjetmanna og reistu síðan múr, sem var vart fær öðrum en fuglinum fljúgandi.  Þar með var búið að kljúfa Berlín í tvennt.

Þegar DDR var stofnað árið 1949, lýstu Austur-Þjóðverjar því yfir, þvert ofan í gerða samninga, að Berlín væri höfuðborg DDR.  Þrátt fyrir að bandamenn slitu opinberlega samstarfi 1962, hefur Austur-Berlín enn þá talsverða sérstöðu innan DDR.  Samkvæmt grundvallarlögunum frá 1949 og stjórnarskrá Berlínar frá 1950 er Vestur-Berlín hluti af BRD.  Bandamenn féllust ekki á þessa niðurstöðu og héldu yfirstjórn borgarinnar í sínum höndum.  Þeir viðurkenndu samt, að Vestur-Berlín væri tengd BRD á þeim sviðum, sem snertu réttarfar, efnahagsmál, viðskipti, gengis-mál og þjóðfélagsmál.

Austurblokkin lét það mótmælalaust árum saman en að lokinni byggingu múrsins snérust þeir öndverðir gegn tengslum Vestur-Berlínar og BRD.  Allar aðgerðir BRD, sem snertu Berlín voru sagðar andstæðar samningum.  Vestur-Berlín átti að vera sjálfstæð stjórnmálaleg heild án nokkurra tengsla við BRD.  DDR greip ítrekað til truflana samgangna milli BRD og borgarinnar til að leggja áherzlu á þá skoðun.  Þeir, sem ferðuðust til og frá Berlín, urðu að sæta áreitni og geðþóttaákvörðunum austurþýzkra embættismanna.  Oft lá við að upp úr syði.

Í ljósi þess, að slökunarstefna væri óframkvæmanleg í Evrópu án lausnar Berlínarmálsins, hófust samningaviðræður fjórveldanna árið 1970.  Árangurinn var fjórveldasamningurinn 3. sept. 1971, sem tók gildi 3. júlí 1972.  Hér var ekki um endanlega lausn Berlínarmálsins að ræða, því að samningsaðilar gátu ekki einu sinni komið sér saman um landfræðilegt gildissvið samningsins.  Samkvæmt skilningi Vesturveldanna náði það til Berlínar allrar en aðeins til vestuhlutans samkvæmt skoðunum Sovjetmanna.  Samt sem áður fólst margt í samningnum, sem olli breytingum til hins betra fyrir vesturhlutann.  Sovjetríkin véfengdu ekki lengur rétt Vesturveldanna til veru í Vestur-Berlín.  Þau féllust í meginatriðum á tengsl borgarhlutans við BRD og að það komi fram fyrir hönd hans.  Umferð á landi, milli BRD og borgarinnar, var tryggð með þessum samningi auk sérsamnings milli BRD og DDR.  Íbúar Vestur-Berlínar fengu á ný að ferðast til austurhlutans og DDR.  Síma-sambandi milli borgarhlutanna var komið á á ný.

Samkvæmt óbreyttri afstöðu Vesturveldanna var Vestur-Berlín ekki hluti BRD og laut ekki stjórn þess.  Tengslum á sviði viðskipta, fjármála, réttarfars og menningarmálavar haldið við og þau styrkt.  Vestur-Berlín sendi þingmenn á sambandsþingið (Bundestag) í Bonn.  Þingmenn voru kosnir af borgarþinginu en ekki íbúunum beint.  Í sameinuðu þingi BRD höfðu þeir ekki atkvæðisrétt við lagasetningu og val kanslara.  Sama gilti fyrir fulltrúa Vestur-Berlínar í sambandsráðinu.  Fulltrúar borgarinnar höfðu fullan atkvæðisrétt í þing- og sambandsráðsnefndum og á fundum sambandsríkjanna tóku þeir þátt í kjöri forseta ríkisins.  Borgarstjóri Vestur-Berlínar var ásamt fulltrúum hinna sambandsríkjanna staðgengill forseta ríkisins.  Ríkissjóður styrkti rekstur borgarinnar.  Forseti ríkisins átti embættisbústað í Vestur-Berlín.  Rúmlega 60 stjórnarstofnanir með 22.000 starfsmönnum voru í Vestur-Berlín og eru þá ekki taldir með 25.000 embættismenn pósts og tolls.

Fjórveldasamningurinn ruddi ekki öllum ágreiningsefnum úr vegi og oft kom til til deilna við Sovjetríkin og DDR vegna ýmissa ákvarðana.  Þegar á heildina er litið, gerði samningurinn framtíð Berlínar mun öruggari.

Framtíðarhorfurnar voru mikið íhugunarefni.  Hlutverk Vestur-Berlínar var allt annað en þegar hún var höfuðborg eða aðalbitbeinið í kalda stríðinu.  Mörg verkefni voru óleyst á viðskipta-sviðinu, því að á því sviði staðnaði borgin á meðan áratugalangt óöryggi ríkti og þróaðist ekki sam-hliða BRD.  Margt ungt fólk yfirgaf borgina, svo að meðalaldur þar var mjög óhagstæður.  Bonnstjórnin reyndi að breyta þessu ástandi með því að hvetja til nýrra framkvæmda með styrkjum og skattaívilnunum til þess að fá ungt fólk til að setjast þar að.  Vestur-Berlín hélt áfram að vera þýðingarmikil menningarmiðja.  Þar eru leikhús, söfn og tónlistarlíf á heimsmælikvarða.  Berlínarbúar glötuðu ekki glettni sinni, þótt mikið dyndi á og búast mátti við því, að sá eiginleiki þeirra stuðlaði að lausn framtíðarvandamála.

Þýzka alþýðulýðveldið, DDR, í upplausn.
Oktober 1989:
Á fertugsafmæli alþýðulýðveldisins 7. oktober 1989 kom aðalritari og formaður sovézka kommúnistaflokksins, Michail Gorbatschow, í heimsókn til Austur-Berlínar.  Mótmæli risu þar og í  öðrum borgum landsins við heimsóknina.  Þrátt fyrir öfluga öryggisgæzlu, mótmæltu 50.000 manns friðslamlega 9. oktober allri vald-beitingu og létu í ljós það álit, að hægt væri að komast hjá borgarastyrjöld.  Erich Honecker var rekinn frá völdum og Egon Krenz, nýr formaður SED (18.10.), kom í hans stað.  Hinn 23. oktober höfðu 300.000 Leipzigbúar frammi friðsamleg mótmæli og kröfðust stjórnmálalegra umbóta.  Egon Krenz tilkynnti sakaruppgjöf til allra, sem höfðu flúið frá Austur-Þýzkalandi.

Nóvember 1989:
Fjöldi gamalla Politbüromanna sagði af sér.  Fallið var frá vegabréfsáritunum til Tékkóslóvakíu og það olli flóðbylgju Austur-Þjóðverja þangað.

4. nóv. krafðist rúmlega milljón mótmælenda stjórnarbóta í Berlín.

7. nóv. sagði stjórn Willi Stoph af sér og næsta dag gerði Politbüro hið sama.

9. nóv. var tilkynnt, að landamærin milli Austur- og Vestur-Berlínar og annars staðar milli þýzku ríkjanna hefðu verið opnuð.  Eftur kl. 22:00 um kvöldið voru allar landamæra stöðvar opnaðar.  Gífulegur skari Austur-Berlínarbúa flykktist til vesturhlutans og mikil gleði og fögnuður brauzt út.  Næstu helgi kom rúmlega milljón manna frá austurhlutanum til Vestur-Berlínar og sex ný hlið milli borgarhlutanna voru opnuð.

13. nóv. var Hans Modrow aðalritari SED í Dresden kjörinn ríkisleiðtogi og Günther Maleuda, formaður DBD varð forseti þingsins.

Eftir opnun fjölda nýrra landamærastöðva milli ríkjanna fór mikill fjöldi Austur-Þjóðverja í heimsókn til Vestur-Þýzkalands.  Hans Modrow tilkynnti nýja stjórn sína 17. nóv. og hið hataða öryggismálaráðuneyti (MfS, vulgo, 'Stasi') var lagt niður.

22. nóv. hóf SED viðræður við gömlu flokkana og fulltrúa andstöðuhópanna og daginn eftir byrjuðu landamæraverðir að taka niður tálmanir á landamærunum.

Desember 1989:  Þingið afnam ákvæði stjórnarskárinnar um forystuhlutverk SED (1.12).  Miðstjórn SED og Politbüro hvarf af sjónarsviðinu fyrir fullt og allt. (3.12).  Erich Honecker og fleiri gamlir ráðamenn reknir úr flokknum.  Manfred Gerlach (LDPD) tók við ríkisráðsforsæti af Egon Krenz.  SED endurskilgreinir stöðu sína og stefnu og kýs Gregor Gysi sem nýjan formann.  Hans Modrow, forsætisráðherra, hitti Helmut Kohl, kanslara, í Dresden 19.desember.

22. des. var Brandenburgarhliðið í Berlín opnað.

24. des. afnámu yfirvöld í Austur-Þýzkalandi vegabréfsáritanir fyrir íbúa Vestur-Þýzkalands og 3,8 milljónir Vestur-Þjóverja fóru í heimsóknir austuryfir fram að áramótunum.

Janúar 1990:  Afnám lágmarksskiptiskyldu gesta alþýðulýðveldisins á landamærastöðvum og gengi vesturþýska marksins ákveðið þrjú austurþýzk.

Marz 1990:  18. marz fóru fram fyrstu frjálsu kosningar í alþýðulýðveldinu.  CDU og CSU studdu 'þýzka bandalagið', sem fékk að vísu ekki hreinan meirihluta en kom bezt út úr kosningunum.  Eftir að SPD hafði fyrst hafnað tilboði um viðræður um stjórnarmyndun, snéru þeir við blaðinu og ákváðu að taka þátt í stjórnarmynduninni.  Vesturþýzku stjórnmálaflokkarnir tóku þátt í umræðum um viðskipta- og gjaldmiðilsbandalagi þýzku ríkjanna og sérstaklega var rætt um gengismál.

Það, sem eftir lifði af 1990:
1. júlí var vesturþýzka markið tekið upp sem gjaldmiðill í Austur-Þýzkalandi.

3. oktober á miðnætti sameinuðust þýzku ríkin að fullu.  Hinir 144 þingmenn austurhlutans tóku sæti á þingi landsins sem fulltrúar síns fólks fram að kosningum 2. desember.  Sameiningardagurinn hefur síðan verið þjóðhátíðardagur Þýzkalands í stað 17. júní, sem var til minningar um misheppnaða uppreisn í fyrrum Austur-Þýskalandi á sjötta áratugnum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM