Suriname meira,
Flag of Suriname

ÍBÚARNIR ATVINNULÍF, STJÓRN og MENNING TÖLFRÆÐI

SURINAME
MEIRA

Map of Suriname
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag og vatnasvið.  Strandlengja landsins er 364 km löng.  Hún er sendin og leirkennd og mynduð af haf- og sjávarfallastraumum frá mynni Amasónfljótsins.  Sunnan leireyranna er Nýja Strandlengjan.  Strandsvæðið nær yfir u.þ.b. 17.040 km² og þar er mikið um mýrar og fen.  Jarðvegurinn er að mestu leir með miklum mó.  Á milli leirsvæðanna eru sand- og malareyrar meðfram ströndinni.  Frjósamasti hluti landsins er á flæðilöndum Nýju strandsléttunnar, sem hefur verið ræstur fram með skurðum.  Sunnan sléttunnar er Gamla strandsléttan, sem nær yfir u.þ.b. 3800 km².  Hún er þakin fínum leir og sandi og þar er mikið um öldur, leirsléttur og fen.  Enn sunnar eru Zanderij-myndanirnar, 60 km breitt og hæðótt og hvítt sandbelti (kvarts).  Það er vaxið regnskógi og inn á milli eru steppur og fen.  Þá tekur við Miðhálendið, sem nær yfir u.þ.b. 80% landsins.  Það er að mestu vaxið regnskógi.  Í suðvesturhlutanum við brasilísku landamærin er Sipalivini-steppan.  Hæst tindur landsins, Julianatindur (1230m) er í Wilhelminafjöllum.

Helztu ár landins renna í norðurátt til Atlantshafsins.  Áin Courantyne, sem myndar hluta landamæranna að Brasilíu, Coppename, Suriname og Maroni, sem myndar hluta landamæranna að Frönsku Gíana, eru meðal þeirra.

Loftslagið í landinu er trópískt.  Byggð svæði í norðurhlutanum njóta fjögurra árstíða.  Þar er lítils háttar regntími frá byrjun desember til fyrstu daganna í febrúar, stuttur þurrkatími frá fyrri hluta febrúar til seinni hluta apríl, mikill regntími frá síðari hluta apríl til miðs ágústs og mikill þurrkatími frá miðjum ágúst til fyrstu daganna í desember.  Meðalhiti dagsins í Paramaribo er á milli 23°C og 31°C (27°C ársmeðalhiti).  Inni í landi getur hitamunurinn orðið 11°C.  Hitamunur heitustu og svölustu mánaðanna, september og janúar er aðeins 2°C.  Mest rignir í mið- og suðausturhlutum landsins.  Meðalársúrkoman er 1930 mm í vesturhlutanum og 2440 mm í Paramaribo.

Flóra strandsléttnanna er þekktari en plöntur inni landi.  Þar er að finna í kringum 4000 tegundir burkna og fræplantna auk fjölda mosa-, arfa og myglusveppategunda.  Regnskógar ná yfir u.þ.b. 90% landsins og þar eru rúmlega 100 tegundir trjáa.  Baboen-tréð, sem vex á strandlengjunni, er notað í borðvið.  Kapok-tréð nær tæplega 50 m hæð.

Fána.  Fjöldi villtra spendýrategunda er í kringum 150 (apar, villisvín, dádýr, manatí, jaguar, beltistír, letidýr og mauraætur).  Tapírinn er stærsta, villta spendýrið.  Meðal skriðdýra eru margs konar eðlur (kæman, ígvana og bóa kyrkislangan).  Strendur landsins eru hreiðurstæði friðaðra sjávarskjaldbakna.  Í kringum 650 tegundir fugla hafa verið taldar í landinu (kólibrí, gammar og páfagaukar).  Nálega 350 tegundir fiska finnast í sjónum og ferskvatni landsins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM