Suriname atvinnulíf stjórn menning,
Flag of Suriname


SURINAME
 ATVINNULÍF - STJÓRN - MENNING

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lífskilyrði í Suriname eru betri en víða annars staðar í Latnesku-Ameríku.  Á níunda áratugnum hrakaði efnahagnum vegna lækkandi útflutningsverðs á báxíti og minnkandi þróunarstyrkja frá BNA og Hollendingum.  Verðbólga fylgdi þessari efnahagslægð, halli á fjárlögum varð meiri og atvinnuleysi jókst.  Ríkisútgjöld nema nálega helmingi allrar neyzlu í landinu og 45% vinnuaflsins eru bundin í opinberri þjónustu.

Landbúnaður
.
Innan við 1% landsins er ræktanlegt og aðeins helmingur þess er ræktaður.  Flest býli eru á Nýju strandsléttunni.  Þar er nauðsynlegt að ræsa landið mestan hluta árs vegna mikillar úrkomu.  Á þurrkatímanum er uppgufun meiri en úrkoman, þannig að áveitur eru nauðsynlegar.  Rúmlega helmingur ræktaðs lands er nýttur til ræktunar hrísgrjóna, sem eru undirstaða næringar landsmanna.  Hrísgrjónauppskerur eru tvær á ári, aðaluppskeran á vorin og minni á haustin.  Nokkuð er flutt út af hrísgrjónum auk banana, sítrusávaxta, kókoshnetna og pálmaolíu.  Sykur, kaffi og kakó eru aðallega seld á innanlandsmarkaði, þótt kakó hafi verið mikilvæg útflutningsafurð fyrrum.  Landið er mjög auðugt af viði en er óplægður akur á því sviði, þótt æ meira sé flutt út af borðviði og timbri.

Fistkveiðar
eru smáar í sniðum og aðallega stundaðar frá Paramaribo.  Rækjur eru fluttar út til Norður-Ameríku.

Iðnaður.
Á þessu sviði beinast kraftarnir aðallega að báxítnámunum og vinnslu hráefnisins.  Slíkar námur eru í grennd við Moengo, Paranam og Overdacht.  Álverksmiðjur eru í grennd við Paranam.  Brokopondo-stíflan og vatnsorkuverið við Suriname-ána veita rafmagni til báxítvinnslunnar í Paranam.  W.J. van Blommenstein-lónið er 1500 km² að flatarmáli.  Olíufélag ríkisins framleiðir takmarkað magn af olíu á Tambaredjo-svæðinu.  Annar iðnaður í landinu er fremur lítill og beinist aðallega að vörum, sem ella þyrfti að flytja inn.  Verksmiðjur, sem framleiða matvæli, fatnað, vindlinga og byggingarefni, selja afurðir sínar á innanlandsmarkaði.

Fjármál og viðskipti.
Bankar og tryggingarfélög eru að mestu útibú eða starfa með erlendum fyrirtækjum (hollenzkum og bandarískum).  Fjármálaráðherra landsins rekur stefnu landsins í fjármálum og stjórnarformaður seðlabankans (1957) er ábyrgur fyrir seðlaútgáfu.

Báxít- og álútflutningur nema u.þ.b. 75% alls útflutnings.  Innflutningurinn byggist aðallega á eldsneyti, matvælum, hráefnum, iðnaðarvörur og neyzluvörum.  Aðalviðskiptalönd Suriname eru BNA og Holland.


Samgöngur.
Samgönguleiðir landsins eru að mestu takmarkaðar við strandhéruðin.  Austur-vestur-þjóðvegurinn tengir Paramaribo og Albina við austurlandamærin og Nieuw Nickerie við vesturlandamærin.  Vegur liggur milli Paramaribo og Afobaka við Brokopondo-stífluna.  Aðeins fjórðungur vegakerfisins er með bundnu slitlagi.  Ár og skurðir eru mikilvægar vatnaleiðir.  Neðri hlutar stærri ánna eru gengar hafskipum.  Paramaribo er aðalhafnarborgin.  Millilandaflugvöllurinn í Zanderij var opnaður 1934.

Stjórnsýsla.
Samkvæmt stjórnarskránni frá 1987 kýs 51 manns þing þjóðarinnar forseta og varaforseta.  Þeir og þingmenn eru kosnir til fimm ára í senn.  Forsetinn stýrir skipuðu ríkisráði, sem herinn ræður að mestu og á að sjá um að aðgerðir ríkisstjórnar séu í samræmi við lög.  Dómskerfið byggist á aðaldómstóli og þremur héraðsdómum.

Menntun.
Skólakerfi landsins byggist á hollenzkri fyrirmynd og flæmska er notuð við kennsluna.  Skólaskylda ríkir fyrir börn að 12 ára aldri og skólagangan er frí.  Rúmlega 90% barna í strandhéruðunum sækja skóla.  Að barnaskóla loknum gefst þeim kostur á gagnfræðastigi, menntaskólum, kennaraskóla og tækniskólum.  Háskóli landsins í Paramaribo, stofnaður 1968, var endurskírður 1980, anton de Kom-háskólinn.  Hann býður upp á deildir í lög-, læknis-, félags-, viðskipta-, verk- og náttúrufræðum.

Heilbrigðismál.
Heilsa landsmanna er tiltölulega góð.  Tekizt hefur að ná tökum á flestum sjúkdómum hitabeltisins.  Inni í landi sér Sjúkrastarf evangelíska bræðralagsins um heilsugæzlu meðal negra og indíána.  Flestir íbúanna eru sjúkratryggðir í samningum milli stéttarfélaga og vinnuveitenda.  Atvinnulausir og verkamenn utan þeirra verða að afla sér vottorða um fátækt sína hjá hinu opinbera til að fá fría heilbrigðisþjónustu.  Atvinnuleysisbætur og önnur félagsleg þjónusta er tæpast til.

Menning.
Samskipti þjóðfélagshópa Suriname er að mestu takmarkað við atvinnu- og efnahagslífið, þannig að menningin þeirra er talsvert mismunandi.  Listmálarar og myndhöggvarar eru einkum af miðstétt og talsvert háðir vestrænum og hollenzkum áhrifum.

Fjölmiðlar.
Ríkisútvarpið rekur sjónvarps- (eina rás) og útvarpsstöð og nokkrar útvarpsstöðvar eru einkareknar.  Ríkið rekur einnig prentmiðla og tvö dagblöð eru einkarekin.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM