Spánn sagan IV,

SAGAN SAGAN II SAGAN III .

SPÁNN
SAGAN IV

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Spænska borgarastyrjöldin.  Uppreisn hersins hófst 18. júlí 1936.  Hún var bæld niður í Madrid, Barcelona, Valensía og nokkrum öðrum borgum í austan- og norðanverðu landinu.  Þannig skiptist landið milli þjóðernissinna (uppreisnarmanna), aðallega sveitirnar, og Lýðveldissinna í felstum borgum og iðnaðarsvæðum.  Í kjölfarið kom löng borgarastyrjöld.  Fyrst í stað varð þjóðernissinnum vel ágengt og komust m.a. að borgarmörkum Madrid í nóvember.  Ríkisstjórnin bjóst við falli höfuðborgarinnar og flúði til Valensía.  Madrid stóðst áhlaupin og lýðveldissinnar héldu baráttunni áfram.

Fylkingarnar fengu brátt erlenda aðstoð.  Ítalía fasista og Þýzkaland nasista sendu hersveitir, vopn og flugvélar til aðstoðar þjóðernissinnum.  Sovétríkin sáu lýðræðissinnum fyrir vopnum og ráðgjöfum og fjöldi sjálfboðaliða alls staðar að í Evrópu og Ameríku kom til aðstoðar.  Frakkland og Bretland voru hlutlaus.

Þjóðernissinar voru samheldnir og fengu brátt sterkan leiðtoga, Francisco Franco, hershöfðingja.  Lýðveldissinar voru ósamstæðari.  Herir þeirra byggðust á hófsömum og mjög róttækum sósíalistum, Katalönum og böskum auk kommúnista, sem urði æ áhrifameiri vegna skipulagshæfileika og aðstoðarinnar frá Sovétríkjunum.  Leiðtogi þeirra mestan hluta styrjaldarinnar var Juan Negrin, hófsamur sósíalisti.

Eftir misheppnaðar tilraunir til að ná Madrid hófst erfiður róður hjá þjóðernissinnum (apríl-október 1937) við að ná baskahéruðunum, Asturias og öðrum iðnaðarsvæðum í norðurhlutanum á sitt vald.  Þá var þýzkum sprengjuflugvélum beitt gegn Guernica.  Lýðræðissinnar hófu gagnsókn í desember við Teruel.  Þeim gekk vel í fyrstu en voru hraktir til baka í febrúar 1938.  Þá fóru þjóðernissinnar að sækja fram og náðu til Miðjarðarhafs um miðjan apríl og klufu þannig yfirráðasvæði lýðræðissinna í tvennt.  Lýðræðissinnar réðust aftan að herjum Francos við Ebróána og stöðvuðu framrás þeirra til Valensía í nokkra mánuði.  Her þeirra var úrvinda og illa vopnum búinn, þannig að þeir gátu ekki látið kné fylgja kviði.  Eftir að samningar við Þriðja ríkið voru undirritaðir í München gátu þeir ekki búist við aðstoð Breta og Frakka.  Þjóðernissinnar héldu framsókn sinni áfram í desember og lýðræðissinnar hörfuðu til Barcelona, sem féll 26. janúar 1939.  Þar með hafði þjóðernissinnum tekizt að reka marga fleyga milli lýðræðissinna, sem voru úrvinda og ófærir um frekari andspyrnu.  Madrid féll 28. marz og borgarastyrjöldinni lauk 1. apríl.

Francoeinveldið.  Blóðugur friður kom í kjölfar þessarar grimmilegu borgarastyrjaldar.  Franco gerði ekkert til að sætta landslýð.  Lýðræðissinnar voru hundeltir og drepnir og hundruðum þúsunda var stungið í fangelsi.  Fyrstu fjögur árin voru u.þ.b. 37.000 þeirra teknir af lífi.  Spænska þjóðin þjáðist vegna stríðsskemmda og efnahagsrústanna.  Flest lög, sem lýðræðissinnar höfðu sett til stuðnings verkamönnum og bændum voru afnumin.

Ráðandi stjórnmálaöfl þessa tíma voru herinn, kirkjan, sem hafði komið sér vel í mjúkinn hjá Franco í stríðinu, og Falangistar, lítill fasistaflokkur Spánverja, sem Franco gerði að opinberum flokki ríkisins árið 1937.  Herinn og Falangistar áttu ekki alltaf geð saman og á fyrstu árunum síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar Þýzkaland virtist ósigrandi, reyndu Falangistar að koma sér í mjúkinn hjá öxulveldunum til að ná yfirráðum heimafyrir.  Árið 1942 hafði Franco tekizt að há fullu valdi á hernum og Falangistum.  Áhrifa þessa valdamikla leiðtoga gætti einnig í utanríkismálum.  Þótt hann væri hliðhollur öxulveldunum og ætti þeim gjöf að gjalda í borgarastríðinu, tókst honum að humma fram af sér þrýsting frá Hitler, sem reyndi mjög að draga Spán inn í styrjöldina.

Franco, sem var varkár og ráðríkur, snérist á sveif með bandamönnum, þegar hann sá hvert stefndi.  Hann dró mjög úr fangelsunum og hætti aftökum næstum alveg eftir 1943.  Áhrif Falangista minnkuðu og stjórn landsins hætti að slá um sig undir merkjum fasista.  Árið 1947 var Spánn lýstur konungsríki, þótt ekki væri hægt að útnefna konung fyrr en Franco viki sæti.  Umbæturnar, sem hann stóð fyrir á Spáni, nægðu ekki til að lægja reiðiöldur bandamanna á eftirstríðsárunum.  Spánn var útilokaður frá aðild að Sameinuðu þjóðunum á árunum 1946-50 og fjöldi ríkja rauf stjórnmálasamband við landið.  Skæruliðum óx fiskur um hrygg í norðurhéruðunum með aðstoð Frakka.  Samtímis þessari óáran geisuðu miklir þurrkar, sem juku á eymdina og hungrið.

Aftur með í leiknum.  Þegar Kóreustríðið brauzt út í júní 1950, var farið að líta á Franco sem þýðingarmikinn bandamann í baráttunni gegn kommúnismanum.  Sameinuðu þjóðirnar afléttu banni sínu í nóvember, bandarískir bankar veittu lán til Spánar og Vatikanið viðurkenndi stjórn landsins opinberlega.  Í september 1953 veittu BNA Spánverjum hernaðar- og efnahagsaðstoð fyrir afnot spænskra herflug- og flotastöðvar.  Aðild Spánverja að Sameinuðu þjóðunum var samþykkt  í desember 1955.  Aðdragandi setu Francos í valdastóli var samt ekki gleymdur.  Fjöldi Evrópuríkja voru honum óvinveitt og meinuðu Spáni aðild að NATO.  Opinberum fjandskap linnti þó og Spánn var orðinn hluti af alþjóðasamfélaginu á ný. 

Heimafyrir varð daglegt líf smám saman eðlilegt.  Framleiðsla landbúnaðarins og iðnaðar komst á svipað stig og fyrir heimsstyrjöldina árið 1952.  Óeirðir stúdenta og verkamanna á árunum 1955-56 ollu minnkandi áhrifum Falangista og í febrúar 1957 var ríkisstjórnin endurskipulögð með meiri þátttöku fólks úr viðskiptalífinu og röðum verkamanna.  Mjög var dregið úr viðskiptahömlum, þegar stjórnvöld reyndu að aðlaga Spán að efnahagskerfi heimsins.  Eftir verkföll kolanámumanna í marz 1958 var létt á hömlum verkalýðsfélaga og þau fengu leyfi til að semja beint við vinnuveitendur um kaup og kjör.  Byggingu áveitna, sem hafði hafizt fyrir daga Francos, var haldið áfram og þær fóru að skila arði síðla á sjötta áratugnum.

Átök í nýlendum Spánar hefðu getað haft skaðleg áhrif á hagstæða þróun innanlands en ríkisstjórnin komst hjá slíku með því að kveðja hersveitir heim frá Spænska-Marokkó árið 1958.  Hæst reis endurreisnin með stöðugleikaáætluninni 1959.  Hún var lykillinn að stjórnun efnahagslífsins en leiddi engu að síður til alvarlegs, tímabundisns ástands meðal verkamanna og fjölda annarra.

Efnahagsundrið.  Dæmalausar félags- og efnahagslegar breytingar urðu eftir 1961.  Efnahagurinn dafnaði vegna hraðrar iðnvæðingar og mikillar fjölgunar ferðamanna, erlendra fjárfestinga og stöðugs innstreymis fjár frá spænskum verkamönnum erlendis.  Skortur á vinnuafli leiddi til hærri launa, stofnunar óopinberra verkalýðsfélaga og landbúnaðurinn var vélvæddur til að draga úr háum launakostnaði.  Aukin velmegun verkamanna olli hröðum flélagslegum breytingum.  Mikill fjöldi fólks flutti úr sveitunum í þéttbýlið, miðskóla- og háskólamenntun varð útbreiddari og æ fleiri nutu nútímalifnaðarhátta.  Francostjórnin, sem varð nútímalegri eftir 1957 markaði umgjörðina að þessari þróun.  Félagslega íbúðakerfið dró verulega úr kostnaði á þessu mikla breytingaskeiði.

Einveldið var þjakandi, þótt þessar félagslegu og efnahagslegu umbætur leiddu til nokkurs stjórnmálalegs frelsis.  Árið 1962 lýsti Franco yfir herlögum vegna verkfalla í Asturias og fundar stjórnarandstæðinga í München.  Árið 1970 reið yfir alvarleg efnahagslægð, þegar allmargir meðlimir hinnar nýju aðskilnaðarhreyfingar baska, Euzkadi ta Azkatasuna, voru dæmdir til dauða í Burgos.

Í þessu tilfelli lét stjórnin undan almenningsálitinu í heiminum.  Herlögum var aflýst fljótlega og dauðadómunum var breytt.  Aukið frelsi var tryggt með grundvallarlögum, sem voru samþykkt á árunum 1966-69.  Meðal þeirra voru lög um ritfrelsi, lög, sem efldu þingið (Cortes) og lög um konungsríkið Spán, sem tryggðu Juan Carlos, barnabarni Alfonso XIII, krúnuna að Franco látnum.  Þessara strauma gætti einnig erlendis, því nýlendan Spænska-Gínea fékk sjálfstæði sem Miðbaugsgínea árið 1968.  Sjö árum síðar samþykkti ríkisstjórnin að afhenda Marokkó og Máritaníu Spænsku-Sahara.

Síðustu ár Francos.  Minnkandi áþján einveldisins og velmegun komu ekki í veg fyrir stjórnmálalega ókyrrð.  Mörg verkföll urðu síðla á sjöunda og í upphafi áttunda áratugarins, þótt þau væru bönnuð með lögum.  Stúdentar mótmæltu þrengslum í skólum og afskiptum stjórnvalda.  Katalónskir þjóðernissinnar komu aftur fram á sjónarsviðið.  Alvarlegustu átökin áttu sér stað í baskahéruðunum, þar sem ETA hóf hryðjuverkaárásir á lögregluna og herinn.  Stjórnin brást við með mikilli grimmd og vítahringur voðaverka kom í kjölfarið á árunum 1969-75.

Þessir atburðir voru í ósamræmi við tiltölulega fá ofbeldisverk í samskiptum stjórnarinnar og andstæðingum hennar annars staðar í landinu.  Árið 1973 greiddi ETA stjórninni þungt högg með morði forsætisráðherrans Luis Carrero Blanco.  Nýi forsætisráðherrann, Carlos Arias Navarro, kynnti nýjar umbætur í frelsisátt, þ.á.m. áætlanir um starfsemi stjórnmálaflokka, sem hafði verið bönnuð síðan 1939, í stað þess að beita hefndaraðgerðum  Þessar aðgerðir leiddu til uppreisnar harðlínumanna í Falangistaflokknum, sem óskuðu einskis fremur en sterks og stöðugs einræðis.  Um skamma hríð leit út fyrir að þeim tækist að ná undirtökunum.  Umbætur Arias náðu ekki fram að ganga og lög um dauðarefsingu fyrir að myrða lögreglumenn tóku gildi.  Fimm hryðjuverkamenn voru teknir af lífi í sept. 1975.  Frekari möguleikar til harðari hægri stefnu hurfu við dauða Francos 20. nóvember 1975.

Endurreisn lýðræðisins.  Nokkra mánuði eftir dauða Francos og valdatöku Juan Carlos I, konungs, ríkti nokkur óvissa í stjórnmálum.  Nýi konungurinn vildi stuðla að fullu lýðræði en fjöldi voldugra áhrifahópa voru mótfallnir breytingum.  Umbæturnar, sem urðu á valdatíma Francos, voru ófullnægjandi í augum almennings.  Hnúturinn leystist árið 1976, þegar Navarro sagði af sér að ósk Juan Carlos, sem skipaði Adolfo Suárez González forsætisráðherra.

Suárez var hófsamur falangisti, sem var prímus mótor í breytingarferlinu til lýðræðis.  Hann fékk þingið til að afnema öll íþyngjandi lög, sem Franco hafði skilið eftir sig, og samþykkja umbótalögin, sem voru staðfest með þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 1976.  Hann leyfði starfsemi Kommúnistaflokksins með lögum í apríl 1977, þótt herinn mótmælti þeim harðlega.  Hinn nýi flokkur hans, Miðdemókrataflokkurinn, fékk 34% atkvæða með Sósíalistaflokkinn á hælum sér.  Öfgamenn til hægri og vinstri voru varla virtir viðlits í kosningunum.

Árið 1978 samþykkti þingið nýja, lýðræðislega stjórnarskrá, sem gerði ráð fyrir þingbundinni konungsstjórn, flokkafrelsi og heimastjórn héraða og nýlendna.  Flestir landsmenn tóku þessari stjórnarskrá feigns hendi en baskar fyrtust við tengslunum við Spán og studdu ETA, sem jók á hryðjuverkin.  Katalóníumenn kröfðust meiri sjálfstjórnar í eigin málum og meiri tungumálaréttinda.  Raddir þjóðernissinna hljómuðu hæst í Barcelona og næsta umhverfi.  Galisíumenn fjarlægðust stjórnina í Madrid, en þjóðernisbarátta þeirra var í engu eins mögnuð og í Katalóníu og baskahéruðunum.

Suárez stjórnaði með málamiðlunum og hafði samráð við alla flokka nema öfgamenn, þegar hann vann að frumdrögum stjórnarstefnunnar.  Katalónía og baskahéruðin fengu heimastjórn og tungum þeirra var gert jafnhátt undir höfði og spænsku.  Stjórnarskráin veitti 15 öðrum héruðum sama rétt.  Þannig var miðstýringarvaldinu frá dögum Ferdinands og Ísabellu 500 árum áður snúið við og ríkja- eða fylkjabandalag var stofnað.

Suárez, sem stóð sig bezt undir miklu álagi, var ekki eins hæfur stjórnandi, þegar spennan var minni.  Vandræði hófust eftir kosningarnar 1979, þegar hægri armur UDC, sem hafði verið haldið í skefjum, óx ásmegin.  Suáres hætti samráði við aðra flokka og það seig á ógæfulhliðina í efnahagsmálum.  Suárez sagði af sér í janúar liu1 og næsti forsætisráðherra varð Leopoldo Calvo Sotelo.

Tilraun til hallarbyltingar.  Langvarandi gremja innan hersins vegna hraðra breytinga leiddi til svikráða og 23. febrúar 1981 réðust vopnaðir hermenn inn í þingið til að hrifsa völdin.  Juan Carlos tókst naumlega að sannfæra herinn um að vera strjórninni hliðhollir.  Calvo Sotelo myndaði nýja stjórn, sem fékk mörg erfið mál til úrlausnar á kjörtímabilinu, þ.m.t. aðild að NATO 1982.  Óánægja kraumaði enn þá undir niðri í hernum, stjórnmálaágreiningur og erfitt efnahagsástand gerðu ástandið í landinu óstöðugt mánuðum saman.

Skömmu fyrir októberkosningarnar 1982 komst upp um samsæri hægri öfgamanna um hallarbyltingu hersins.  Fjórir herforingjar voru handteknir og þrír fangelsaðir.  Sósíalíski verkamannaflokkurinn undir forystu Felipe González Márquez vann afgerandi sigur.  Á fyrsta ári formennskutíðar hans kastaði flokkurinn Marxgrímunni 1979 og umbótum hans lauk á næstu árum.  Mótmælaaðgerðir gegn umbótum í menntakerfinu á árunum 1984-85, stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, aðildinni að NATO, atvinnuleysi og breytingum á almenna tryggingakerfinu.

Aðild að ESB.  Mikilvæg þjóðaratkvæðagreiðsla gerði Spáni kleift að halda í aðildina að NATO.  Jákvæð stefna sósíalista í viðskiptamálum, alþjóðlegum efnahagsbata og aðild að ESB 1986 efldu efnahaginn innanlands.  Hlutverk Spánar í ESB varð æ mikilvægara fyrir samtökin á mörgum sviðum, sem varð til þess að sjálfsvitund og stjálfstraust þjóðarinnar óx.

Spánn og BNA endurnýjuðu gagnkvæman varnarsamning árið 1988 og Bandaríkjamenn fengu áfram afnot af herstöðvum á Spáni næstu átta árin.  Gíbraltarmálið var enn óleyst milli Breta og Spánverja.  Afnám efnahagslegra hafta hélt áfram fram á tíunda áratuginn.  Einkaréttur margra ríkisfyrirtækja var afnuminn, lög um verkalýðsfélög voru rýmkuð og mönnum var gert auðveldara að stofna fyrirtæki.

Sósíalistar með González í fararbroddi unnu í kosningunum 1986 og 1989 en vaxandi óánægju gætti meðal iðnverkamanna vegna mikillar verðbólgu og atvinnuleysis.  Frá upphafi þessa áratugar varð uppvíst um nokkur spillingarmál, sem snertu opinbera embættismenn.  Ólympíuleikarnir voru haldnir í Barcelona árið 1992 og heimssýningin í Sevilla sama ár til minningar um för Kólumbusar til Ameríku 500 árum áður.  Eftir kosningarnar 1993 varð González forsætisráðherra samsteypustjórnar.  Sósíalistum tókst ekki að ná meirihluta en komu González engu að síður í erfiða stöðu í þinginu.

ETA.  Þjóðernisbarátta baska og Katalóníumanna hélt áfram.  Rúmlega 800 manns týndu lífi í hryðjuverkaárásum á árunum 1968 til 1993.  Í janúar 1994 náðu vaxandi friðarsamtök að sveigja almenningsálitið gegn ofbeldisaðgerðum ETA og leið virtist opnast til jákvæðra samningsviðræðna við ríkisstjórnina.  Í febrúar 1994 lagði formaður stærsta þjóðernisflokks Katalóníu, Jordi Pujol, fram kröfur Katalóníumanna um aukin völd héraðsins í eigin málum, þ.m.t. löggæzlu og samgöngum.  Almenningur í báðum landshlutum, baskahéruðunum og Katalóníu, óskaði eftir aukinni sjálfstjórn en ekki aðskilnaði frá Spáni.

Umhverfismál voru í brennidepli síðustu ár 20. aldar.  Loftmengun óx í Madrid og meðfram norðausturströndinni, svo og vatnsmengun á landbúnaðarsvæðum og í strandhéruðunum og jarðvegseyðing einnig.  Hröð þróun og stækkun byggða á ströndum Miðjarðarhafsins breytti landslagsásýndinni verulega.  González og sósíalistar náðu ekki að halda völdum eftir kosningarnar í marz 1996 eftir 13 ár við stjörnvölinn.  José Maria Aznar, formaður hins íhaldssama Þjóðarflokks, myndaði ríkisstjórn með nokkrum smáflokkum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM