Spánn sagan III,

SAGAN SAGAN II SAGAN IV .

SPÁNN
SAGAN III

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sjálfstæðisstríðið.  Spánverjar neituðu að viðurkenna Jósep sem konung og skipulögðu andspyrnu gegn Frökkum.  Brezk herdeild kom þeim til aðstoðar en í Bretlandi var þetta stríð kallað Skagastríðið, þar sem Portúgal var einnig aðili að því.  Þegar komið var fram í janúar 1810, höfðu Frakkar sigrað alla aðalheri Spánverja og lagt mestan hluta landsins undir sig.  Spænsku skæruliðarnir héldu uppi stöðugum árásum á Frakka og hindruðu þar með allsherjarhernám landsins og björguðu brezka hernum í Portúgal frá algerum ósigri.  Á þessu stigi gat þing komið saman í Cádiz (1810-13) og samþykkt stjórnarskrá, sem markaði lok einveldis, kom á fót þingbundinni stjórn, afnam rannsóknarréttinn, takmarkaði völd aðalsins og klerka og kom í gegn mörgum öðrum umbótum.  Þessi stjórnarskrá var framúrstefnuleg og mönnum varð lengi á eftir tíðrætt um hana í spænskum stjórnmálum.

Spánverjar börðust hetjulegri baráttu gegn herjum Napóleons og áttu veigamikinn þátt í falli hans í Evrópu.  Sex ára styrjöld olli miklum efnahagslegum skaða og smám saman fóru nýlendurnar að krefjast og fá sjálfstæði.  Árið 1826 voru aðeins Kúba og Puerto Rico eftir undir stjórn Spánverja.  Nýlendurnar á meginlandinu höfðu allar fengið sjálfstæði og náttúruauðæfi þeirra hættu að streyma til Spánar.

Konungleg kreppa.  Ferdinand VII snéri heim eftir ósigur Napóleons 1814.  Hann ógilti strax Gádiz-stjórnarskrána, endurreisti einveldið og beitti frjálslynda kúgunum.  Sex árum síðar var gerð bylting undir stjórn herforingja og tóku stjórnarskrána upp á ný en frjálslyndi voru ekki í stakk búnir til að mynda virka stjórn, þannig að þjóðin var klofin í tvær stjórnmálalegar fylkingar.  Meðlimir Helga bandalagsins óttuðust, að byltingin kynni að breiðast út í Evrópu, og sendu því franskar hersveitir til að koma koma frjálslyndu stjórninni fyrir kattarnef.  Að því loknu tók Ferdinand völdin á ný.

Karlistastríðið.  Árið 1831 lýsti Ferdinand Ísabellu dóttur sína á barnsaldri eftirmann sinn.  Karl bróðir hans var betri kostur að mati pólitískra öfgamanna, sem kröfðust þess árið 1833, að hann erfði krúnuna.  Þessi ágreiningur varð tilefni til borgarastyrjaldar milli Karlista og fylgjenda Ísabellu, Kristínos, sem voru nefndir eftir móður hennar, Maríu Kristínu, ríkjandi þjóðhöfðingja.

Karlistastríðið.  Árið 1831 lýsti Ferdinand Ísabellu dóttur sína á barnsaldri eftirmann sinn.  Karl bróðir hans var betri kostur að mati pólitískra öfgamanna, sem kröfðust þess árið 1833, að hann erfði krúnuna.  Þessi ágreiningur varð tilefni til borgarastyrjaldar milli Karlista og fylgjenda Ísabellu, Kristínos, sem voru nefndir eftir móður hennar, Maríu Kristínu, ríkjandi þjóðhöfðingja.

Árið 1834 gaf María út konunglega tilskipun í stað stjórnarskrárinnar til að vinna fylgi frjálslyndra.  Stuðningur Karlista var mestur í sveitunum fyrir norðan (Baskahéruðin og Katalónía), þar sem áhrif kirkjunnar voru mikil og fólkið var á móti miðstýringu.  Þróaðri hlutar landsins voru andstæðingar Karlista sem og Portúgal, Bretland og Frakkland, sem studdu Kiristínos.  Eftir langa baráttu voru aðalliðsveitir Karlista yfirbugaðar 1839.  Sigurinn va
r seinunninn, einkum vegna sundrungar og óeiningar í röðum andstæðinga Karlista.  María neyddist til að gera stjórnarskrána frjálslegri eftir byltingar vegna hennar 1837.  Mikið var um svik og undirferli við hirð hennar og hún reyndi að haga seglum eftir vindi og koma ár sinni fyrir borð.  Árið 1840 sagði hún af sér eftir byltingu hersins og kirkjunnar.  Hún fór úr landi og árið 1843 var Ísabella orðin nógu gömul til að taka við völdum.

Ágreiningur og kreppa.  Valtatíð Ísabellu einkenndist af baráttu milli framfarasinna og frjálslyndra íhaldsmanna.  Ísabella var hliðholl íhaldsmönnum og fól þeim stjórnina að mestu á árunum 1843-66.  Einveldistilburðir hennar og getuleysi sameinuðu andstæðar fylkingar, sem sameinuðust til að hrekja hana frá völdum í byltingu í september 1868.  Næsta ár var samþykkt lýðræðisleg stjórnarskrá en vandamálin hrönnuðust upp.  Kúbverjar gerðu uppreisn gegn Spánverjum og börðust í 10 ár.  Nokkrir erlendir prinsar neituðu að taka við spænsku krúnunni, þar til Amadeus, sonur Viktors Emmanuels, Ítalíukonungs, lét slag standa í desember 1870.  Karlistar komu upp á yfirborðið á ný og róttækum lýðveldissinnum óx fylgi.

Amadeus sagði af sér í febrúar 1873 vegna launráða hersins og stjórnmálamanna, almennrar andstöðu við hann, ástandsins á Kúbu og uppreisna Karlista.  Þar sem ekki var í önnur hús að venda, lýsti þingið yfir stofnun fyrsta spænska lýðveldisins og pólitískt stjórnleysi tók við.  Lýðræðissinnar, sem voru í minnihluta, voru margklofnir og róttæklingar reyndu að koma markmiðum sínum um afnám miðstýringar á með valid.  Herinn skarst í leikinn, þegar þörf var á, og tókst að halda nokkurs konar jafnvægi fram í desember 1874, þegar hópur hershöfðingja snérist gegn lýðveldinu og endurreisti konungsdæmið með Alfonso XII, syni Ísabellu, í hásæti.

Endurreisn konungdæmisins.  Ríkisstjórnin einhenti sér í leiðréttingar mistaka fyrri ára.  Nýja stjórnarskráin frá 1876 var sveigjanlegri en hinar fyrri.  Íhaldsmenn og frjálslyndir skiptust á um stjórn landsins og hirðing og herinn hættu afskiptum af stjórnmálum.  Við þessar aðstæður tókst að bæla uppreisnir Karlista (1876) og Kúbverja (1878) niður og næstu tvo áratugi nutu Spánverjar meiri stjórnmálalegs stöðugleika og efnahagsbata en hafði ríkt síðan á 18. öld.  Árið 1895 hófst önnur bylting á Kúbu.  Hún var víðtækari og naut stuðnings BNA og endaði með Spænsk-ameríska stríðsins.  Spánverjar biðu afgerandi ósigur og létu BNA Puerto Rico, Guam og Filipseyjar eftir.

Hreyfingum andkonungssinna óx fylgi eftir þessar hrakfarir.  Lýðveldisflokkar komu aftur fram á sjónarsviðið.  Stjórnleysingjar skutu rótum meðal landbúnaðarverkamanna í Andalúsíu og iðnverkamanna í Barcelona.  Lítill en þéttur kjarni sósíalista vann sér fylgi í verksmiðjum og námum Baskahéraðanna og í Asturias.  Katalónía krafðist sjálfstjórnar.  Árekstrar urðu einnig innan flokka aðalsmanna.  Íhaldsmaðurinn Antonio Maura tók við stjórnartaumunum og útilokaði frjálslynda með einræðislegum aðgerðum.  Árið 1909 sendi Maura herdeildir með nýliðum verkamanna frá Barcelona sem liðsauka til Marokkó.  Þetta leiddi til blóðugrar uppreisnar, sem endaði frama Maura og jók fjandskap milli stétta landsins.  Frjálslynd ríkisstjórn undir forystu José Canalejas y Méndez tók við en umbótaáætlanir hennar gengu lítt fram vegna morðs Canalejas í nóvember 1912.

Fyrri heimsstyrjöldin.  Spánverjar voru hlutlausir í styrjöldinni, þótt hart væri lagt að þeim að taka þátt í henni, og upplifðu efnahagslegt blómaskeið.  Verksmiðjur þeirra, námur og landbúnaðurinn blómstruðu sem aldrei fyrr á háu verði.  Samtímis óx verðbólga og verkamenn kröfðust hærri launa og betri vinnuskilyrða.  Herinn myndaði eigin stjórnir og krafðist hærri launa og umbóta.

Þjóðernissinar í Katalóníu ráku áróður fyrir heimastjór og lýðræðisflokkar efldu starfsemi sína um allt land.  Í upphafi 1917 ollu margar hreyfingar, m.a. samvinnumenn, oft kreppuástandi.  Mótmælaaðgerðir í Barcelona og öðrum borgum þróuðust til skæruaðgerða stjórnleysingja.  Kreppan reis hæst eftir 1919, þegar Marokkómenn hófu sjálfstæðisbaráttu sína.  Þessi barátta var Spánverjum óhemjudýr og varð mjög óvinsæl, þegar uppreisnarmenn gjörsigruðu heri þeirra við Annual í júlí 1921.

Einræði Primo de Rivera.  Hershöfðinginn Miguel Primo de Rivera leiddi hallarbyltingu hersins í sept. 1923, sem opnaði augu margra fyrir göllum þingbundinnar stjórnar.  Alfonso XIII, konungur, veitti hernum ekki viðnám og gerði Primo að forsætisráðherra.  Þingið (Cortes) var leyst upp og herstjórn tók völdin.  Lítið var um handtökur og yfirgang lögreglu og hers en stjórnmálaflokkar voru bannaðir.  Katalónía glataði takmarkaðri heimastjórn sinni og forréttindum.  Stéttarfélög sósíalista fengu að starfa áfram óáreitt og Primo tilkynnti, að herstjórnin væri aðeins til bráðabirgða.

Eitt aðalafreka herstjórnarinnar, með aðstoð Frakka, varð að leiða hið óhemjudýra stríð við Marokkómenn til lykta.  Efnahagsmálin urðu aðalviðfangsefni borgaralegu stjórnarinnar, sem Primo skipaði.  Viðamikið vegakerfi var skipilagt og byggt og sama má segja um áveitukerfi.  Andstaða við stjórnina jókst á árunum 1928-29, sumpart vegna eyðslustefnu.  Primo de Rivera sagði af sér í janúar 1930 en byrðar einveldisins höfðu veikt krúnuna, sem naut ekki lengur stuðnings íhaldsmanna.  Alfonso hafði svikið þá með því að samþykkja einræðið.  Sósíalistar, stjórnleysingjar, katalónsku þjóðernissinnarnir auk fjölda konungssinna og herforingja hófu samstarf við lýðveldissinna.

Tilraun til að steypa einræðinu í desember 1930 mistókst en frambjóðendur lýðræðissinna fengu svo mikinn meirihluta í sveitarstjórnarkosningum í apríl 1931, að Alfonso fór úr landi.  Annað spænska lýðveldið varð að veruleika og Niceto Alcalá Zamora y Torres varð forseti.

Annað spænska lýðveldið.  Nýja lýðveldið naut miklu meiri stuðnings en hið fyrra (1873-74) en sumir fyrstu stuðningsmanna þess væntu íhaldssams lýðræðis og aðrir væntu byltingarkenndra breytinga.  Til allrar óhamingju fæddist annað lýðveldið á sama tíma og heimskreppan var að dýpka og hugsjónaágreiningur í Evrópu var í hámarki.  Í upphafi hafði samsteypustjórn lýðveldissinna og sósíalista, með Manuel Azana í fararbroddi, á sér framfarablæ.  Óheiðarlegar kosningar konungsveldisins voru að baki, konur fengu kosningarétt, Katalónía fékk heimastjórn og liðkað var til fyrir Baskahéruðunum í þá átt.

Félagslegar umbætur voru hafnar, skattbyrði var jöfnuð og skipting lands milli bænda í suðurhluta landsins hófst árið 1932.  Áætlanir voru gerðar um byggingu áveitna og opinbera þjónustu.  Menntastofnanir urðu borgaralegar, regla jesúíta var leyst upp og skorið var á tengsl ríkis og kirkju.  Það var erfitt að framkvæma svona metnaðarfullar áætlanir og margir sérhópar, sem höfðu samþykkt lýðræðið, snérust gegn því.  Árið 1933 fór að hrikta í stoðum samsteypustjórnar  Azana.  Hófsamir álitu allt of hratt farið í sakirnar en sósíalistar töldu of hægt farið og meira þyrfti til.  Andstaða rómversk-katrólskra jókst vegna útilokunar kirkjunnar frá ýmsum verkefnum og róttækir, sem vildu umsvifalausa, félagslega byltingu, voru óánægðir.

Í kosningunum í nóvember 1933 fengu hægri og mið-hægri flokkar meirihluta atkvæða  Afleiðing var endurkoma hægri stefnu, breyting á stefnunni varðandi kirkjuna og íhaldssemi í skiptingu lands og félagslegum umbótum.  Vinstri menn voru rasandi vegna þessara breytinga.  Sósíalískir verkamenn í Asturias efndu til uppþota í október 1934 og Katalónía lýsti yfir sjálfstæði frá Madrid.  Eftir tveggja vikna blóðuga bardaga var byltingin í Asturias bæld niður.  Ríkisstjórnin sveigði enn lengra til hægri í neikvæðri stefnumörkun sinni, þannig að hún neyddist til að segja af sér síðla árs 1935.

Nýr vinstri flokkur, Þjóðarflokkurinn, náði naumum meirihluta í kosningunum í febrúar 1936.  Azana var einnig í forystu samsteypustjórnarinnar, sem var mynduð.  Hún var ekki eins hófsöm og hin fyrri vegna þess að sósíalistar voru orðnir róttækari og kommúnistar voru einnig með í ráðum.  Vinstri umbótarstefnan var endurvakin og Azana var kappsamur í framkvæmd hennar.  Spennan í landinu óx, þegar andstæðum fylkingum laust saman í borgum, bændur tóku undir sig land og verkföll breiddust út.  Emilio Mola, hershöfðingi, var í fararbroddi samsærismanna, sem vildu steypa ríkisstjórninni og í lok júlí nutu þeir stuðnings þúsunda herforingja.

SAGAN IV

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM