Lega,
vegalengdir o.fl.
Martinique
liggur á milli 14°23' og 14°53' N og á 61° V.
Hún er vinsælasti dvalarstaður evrópskra ferðamanna í Karíbahafi,
landslag er fagurt og fjölbreytt, franskar venjur eru í hávegum hafðar
og evrópsk þægindi án þess að þau hafi áhrif á hið suðræna
hitabeltisumhverfi.
Mesta
lengd eyjarinnar frá suðri til norðurs er 60 km, breiðust er hún u.þ.b.
30 km og mjóst er hún tæplega 10 km.
Hún er fjalllend og hæsta fjallið, eldfjallið Montagne Pelée,
sem er á norðurhlutanum, er 1.397 m hátt.
Austurströndin er mjög gljúfrótt með fjölda víkna en
vesturströndin er mun vinalegri, þótt góðar baðstrendur séu
hringinn í kringum eyjuna. Þær
eru einna beztar, og skjólsælastar á suður- og suðausturströndinni, því að brimið
fyrir norðurströndinni er hættulegt sundmönnum.
Þegar horft er á þessa þverhníptu eldfjallaeyju úr fjarska,
hefur hún ekki beinlínis á sér aðlaðandi yfirbragð, en þegar nær
er komið fara einstakir fagrir drættir hennar að koma í ljós.
Auk
eldfjallsins Mt. Pelée er að finna eldfjallið Piton du Carbet (1.196
m) á norðurhluta eyjarinnar í bakgrunni höfuðborgarinnar. Bæði eldfjöllin teygja sig til strandar og eru
sundurskorin af fjölda vatnsrása.
Framburður ánna hefur myndað og hleður enn þá upp flatlendi
í vogum og víkum, einkum Lamentinsléttuna langt inn í land frá
Fort-de-Francevíkinni.
Suðurhlutinn
er líka fjalllendur, þótt hann sé ekki eins hár og norðurhlutinn.
Þar rísa Mornes, sem eru fell með kúptum eða flötum toppum
og hlíðabrattar. Eldfjallið
Volcan du Vauclin er hið eina þeirra, sem nær 500 m. hæð yfir sjó.
Athyglisverðasti
staðurinn á Suðurlandinu er Savane des Pétrifications, þar sem er að
finna steinrunnin tré og hálfeðalsteina, einkum jaspís.
Furðulega
sköpuð kalklög frá tertíer mynda yzta suðausturhlutann.
Margar ár hafa myndað fallega fossa, gil og gljúfur á leið
sinni til sjávar og setlög við ósana. Gufuop og hverir bera vitni um eldvirknina.
Þessi náttúruundur, sem sýna andstæður höfuðskepnanna,
elds og vatns, ljá blómaeyjunni Martinique sérstakt yfirbragð.
Loftslag
er líkt því sem gerist á nærliggjandi eyjum, þar sem staðvindurinn
er ríkjandi. Hann gerir að
verkum, að veðurlag er mismunandi á vestur- og austurhlutum
eyjarinnar. Austurhlutinn, sem einnig er nefndur vindströndin, liggur á
móti honum. Þar er úrkomusamara
en á vesturströndinni, sem er nefnd hléströndin.
Í fjalllendi norðausturhlutans er sérstaklega mikill munur áveðurs-
og hlémegin. Þykk þokuský
og hellirigning, sem eykst með hæð, er algeng áveðurs.
Á
áveðursströndinni er árleg úrkoma að meðaltali 2.000 mm við sjávarmál
og eykst upp með hlíðum Mt. Pelée, þar sem hún verður allt að
10.000 mm. Yfir
vesturhlutanum streyma loftmassarnir niður á við aftur og hlýna.
Vestan megin er meðaltalsúrkoman 1.500 mm og enn þá minni í
suðvesturhlutanum.
Þurrkatíminn
(Carème = fasta) er frá janúar til apríl og frá júli til desember
er nokkurs konar regntími (Hivernage) en þá falla u.þ.b. 75% úrkomunnar.
Þurrasti mánuðurinn er marz en hinn votviðrasamasti er nóvember,
þó ekki beri að skilja, að það rigni stöðugt.
Þetta eru einkum stuttar og kröftugar síðdegisskúrir.
Rakastig loftsins er rúmlega 80%.
Stöðugur vindur gerir það að verkum, að fólk verður þess
minna vart. Hitabeltisfellibyljir
myndast helzt frá miðjum
júlí fram í miðjan oktober. Að
jafnaði valda þeir ekki skaða nema á tíu ára fresti.
Árið 1979 ollu fellibyljirnir Davíð og Friðrik geysilegu tjóni
og árið 1988 fór Gilbert hamförum.
Banana- og sykurreyrsekrur verða ævinlega illa úti í slíkum
óveðrum. Veðurstofa
eyjarinnar hefur komið á legg góðu viðvörunarkerfi, sem kemur í
veg fyrir manntjón nema í undantekningartilfellum.
Ársmeðalhitinn
er 25°C og munur á milli heitasta og kaldasta mánaðarins er vart
merkjan-legur. Þegar hlýjast
er á sumrin, fer hitinn vel yfir 30°C á daginn en fellur mikið á nóttinni
eða allt undir 18°C. Vetrarhitinn
fer stundum undir 18°C. Hitinn
fellur líka verulega með hæð og er að meðaltali 16°C uppi á Mt.
Pelée á ári.
Fjölbreytni loftslagsins
á Martinique er óvenjuleg fyrir jafnlitla eyju og hennar gætir líka í
gróðurfarinu. Ofan
ræktaða landsins, allt upp í 1.000 m hæð, er þéttur hitabeltisskógur.
Á austur-ströndinni liggur skógarlínan neðar en á vesturströndinni.
Þar fyrir ofan dregur úr vexti hans vegna meiri úrkomu. Á þurrari svæðum er meira um trjátegundir, sem þrífast
betur án mikillar úrkomu, og runnagróður eða steppur með kaktusum
og þyrnirunnum. Með ströndum
fram er enn þá að finna mangrovelundi.
Nafn
eyjarinnar.
Martinique mun vera komið frá indíánum.
Í þeirra munni hét hún 'Madinina' eða 'Madina', sem þýddi
á þeirra máli Blómaeyjan. Ekki
eru allir sammála um upprunann og telja, að Kólumbus eigi
nafngiftina. Hann kom fyrst
siglandi að eyjunni árið 1493 og taldi hana vera hin þjóðsagnakenndu
heimkynni amasónanna, Martinino, sem er skýringin á því, hvers
vegna hann steig þar ekki á land.
Líklegast er, að Kólumbus hafð nefnt eyjuna eftir dýrlingnum,
heilögum Martin, eins og siður var á þeim dögum.
Nafnið
Blómaeyjan á vel við, þótt gróðurinn taki ekki öðrum eyjum
fram. Martinique er þakin
orkideum, liljum, skriðrunnablómum og öðrum hitabeltisblómum, þar
sem ekki er skógur. Hann
er víða þéttvaxinn og talsvert er um innfluttar trjátegundir.
Algengustu tegundir eru: fenjatré, kókospálmar, burknapálmar,
bananatré, fjallabambus og mahónítré.
Allur þessi gróður kemur gestum fyrir sjónir eins og stór
garður.
Stjórnarfarið
er
hið sama og í Frakklandi. Héraðshöfuðsmaðurinn
situr í Fort-de-France. Undirsátar
hans sitja í Le Marin og La Trinité.
Héraðið á þrjá þingmenn í fulltrúadeild og tvo í öldungadeild
fransk Þingsins. Í þingi
eyjarinnar sitja 36 þingmenn úr sýslum og hreppum.
Íbúarnir
eru u.þ.b. 330.000
talsins. Flestir þeirra
eru blandaðir afkomendur afrískra negra, asíubúa og franskra
innflytjenda. Aðeins lítið
hlutfall þeirra er af hreinum evrópskum uppruna.
Hægt er að greina á milli sex þjóðfélagshópa:
1. Bekar eða hvítir menn, sem fæddir eru á eyjunni og Frakkar
kalla kreóla; 2. óblandaðir
negrar; 3. múlattar, sem
eru fjölmennastir íbúanna (hörundsljósari en á Guadeloupe);
4. indverjar; 5.
afkomendur arabískra innflytjenda, einkum frá Sýrlandi eða Líbanon;
6. hvítir Frakkar frá föðurlandinu, sem búa aðeins um tíma
á Martinique eða Guadeloupe og hafa lítil tengsl við þær.
Hörundslitur
og forfeður hafa engin áhrif á framkvæmd laga, þótt þeldökkir
kvarti oft yfir því, að hvítir hafi greiðari aðgang að stjórnunarstöðum.
Varla er hægt að tala um kynþáttafordóma og samkomulag þjóðfélagshópanna
er gott. Flokkar, sem hafa
heimastjórnun á stefnuskrá sinni, beita oft fyrir sig slagorðum um
mismunun, sem reyndar er lítt eða ekki fyrir hendi, en er vissulega
algeng aðferð í lýðræðisríkjum.
Jafnvel stjórnarandstaðan í Frakklandi ljær því aldrei máls,
að veita eyjunum sjálfstæði,
því að það yrði beinlínis banabiti þeirra og þýddi
efnahagslegt hrun, þar sem þær þiggja mikla og margs konar aðstoð
frá Frakklandi, bæði félagslega og í formi annarra styrkja.
Íbúafjöldi
á km² er u.þ.b. 300, en sé aðeins tekið tillit til byggilegs rýmis eru
560 á km². Sambærilegar
tölur á Íslandi eru 2,5 / 12,5 árið 1993.
Fæðingatíðni var svo há á sjötta og sjöunda áratugnum, að
54% íbúanna voru 20 ára og yngri árið 1967.
Nú um stundir er u.þ.b. helmingur íbúa Martinique og
Guadeloupe undir tvítugu. Árleg
fjölgun íbúa eru í nánd við 2,3%.
Stöðugt batnandi hreinlæti og heilsugæzla veldur því að fólkið
verður æ eldra. Stjórnin
hefur staðið fyrir takmörkun barneigna og flutningi fólks til strjálbýlli
franskra yfirráðasvæða í Ameríku, s.s. til Frönsku Guyana í
S.-Ameríku. Margt fólk
hefur einnig flutzt af sjálfsdáðum til Evrópu.
Hundruð þúsunda brottfluttra íbúa Antilleyja býr í iðnaðarsamfélögum
Parísar, Lyons, Bordeaux, Mulhouse og Belfort.
Þessi
mikla samþjöppun íbúanna veldur einkum erfiðleikum á mestu þéttbýlisstöðunum
eins og Fort-de-France. U.þ.b.
þriðjungur íbúanna býr þar og flótti úr dreifbýlinu er mikill. Atvinnuleysi, einkum meðal hinna yngri, er mikið og veldur
óánægju, sem gott félagslegt kerfi og menntakerfi fá ekki breytt.
Stjórnin í París leggur mikið á sig til að komast fyrir rót
vandans en á erfitt um vik á meðan svipuð glíma er háð á evrópskum
vinnumarkaði.
Landbúnaður.
Fram
að lokum seinni heimsstyrjaldarinnar var landbúnaður mikilvægasta
atvinnugreinin og raunverulega eina tekjuöflunarleið íbúanna. Stór
hluti þeirra er enn þá háður honum.
Ræktun sykurreyrs var mikilvægur fyrrum, ekki sízt í tengslum
við rommframleiðsluna. Núna
er kreppa í þessari framleiðslu eins og á öðrum Karíbaeyjum vegna
þess, að niðurgreiddur sykur úr evrópskum sykurrófum gerir ræktunina
óarðbæra. Samt er
sykurreyr ræktaður enn þá á 7.500 ha lands og u.þ.b. 10% útflutningsins
er byggður á honum. Mikil
eftirspurn er eftir rommi frá Martinique, sem talið er hið bezta í
heimi, og undanfarin ár hefur framleiðslan, sem er að mestu flutt út,
verið í nánd við 100.000 hl.
Bananaekrur
taka mest pláss í landbúnaðnum nú á dögum.
Hægt er að rækta allt að 300.000 tonn í fellibylslausum árum.
Mestur hlutinn fer á franskan og evrópskan markað.
Ananasræktun
var aukin verulega eftir s.hst. Arawakar
þekktu þennan ávöxt áður en Kólumbus kom til eyjarinnar og hann
þykir bragðmikill og gómsætur frá Martinique.
Þess vegna er hann í hávegum hafður á evrópskum mörkuðum
og er þar í efsta sæti.
Grænmetisræktun
hefur hin síðari ár orðið æ mikilvægari.
Eggaldin og agúrkur eru fluttar út í auknum mæli.
Framleiðsla grænmetis mætir ekki enn þá innanlandsþörfinni.
Talsvert magn er flutt inn frá Evrópu og
Vestur-Afríku og selt á evrópsku verði.
Kvikfjárrækt
er ekki mikilvæg, þótt fjöldi nautgripa sé í nánd við 50.000 og
sauðfjár 5.000, þannig að talsvert verður að flytja inn af kjötmeti.
Fiskveiðar
eru aðeins stundaðar í litlum mæli umhverfis eyjuna. Veiðiaðferðirnar
eru fornlegar og úreltar og afli lítill.
Fiskur er fluttur inn frá Evrópu, t.d. frá Bretagne og Normandí.
Iðnaður
hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár, ekki sízt til að
draga úr atvinnuleysinu. Meðal
þess, sem hefur verið byggt upp, er olíuhreinsunarstöð, niðursuðuverksmiðja
og nokkrar verksmiðjur, sem framleiða neyzluvörur.
Aðaliðnaðarsvæðið er suðaustan Fort-de-France í grennd við
Le Lamentin.
Ferðaþjónustan
er orðin mikilvæg atvinnugrein. Nú
eru a.m.k. 3.500 gistirými fyrir hendi (1965 aðeins 400).
Mest áherzla hefur verið lögð á lúxushótel, sem höfða
einkum til ferðamanna frá N.-Ameríku.
Verðið var hátt og óaðlaðandi fyrir evrópska ferðamenn.
Síðan hefur margt breytzt og fjöldi ferðamanna kemur fljúgandi
beint frá Evrópu eða siglandi á snekkjum sínum alls staðar að. Nú er hægt að fá ódýrari gistingu í minni hótelum.
Tvö ferðamannaþorp, golfvöllur og annars konar íþróttaaðstaða
hefur verið byggð upp og fleira er í gangi. |