Karíbahaf Martinique St Pierre,
Flag of Martinique

Booking.com


St. PIERRE
MARTINIQUE

.

.

Utanríkisrnt.

Rústir bæjarins, sem kallaður var París Antilleyja, eru við sjávarmál.  Íbúafjöldi er 5.000.  Gamla höfuðborgin, sem eyddist gjörsamlega í Peléegosinu árið 1902.

Morguninn 8. maí 1902 varð stórsprenging í eldfjallinu og bærinn hristist og skalf.  Glóandi gasský, yfir 2.000°C, hlaðið ösku og eimyrju, ruddist niður hlíðarnar og tortímdi öllu lífi á leið sinni til sjávar. Íbúarnir 30.000 fórust á nokkrum mínútum.  Aðeins einn maður, Siparis að nafni, komst af.  Hann var fangi í dýflissu neðanjarðar.  Síðar var hann náðaður og fékk starf í bandaríska Barnum sirkusnum sem eitt af undrum veraldar.

Þessar náttúruhamfarir voru ekki alveg óvæntar.  Um nokkurra ára skeið hafði orðið vart virkni í eldfjallinu.  Í fjórtán daga fyrir sprenginguna hafði mikillar gufuvirkni í tengslum við jarð-skjálfta orðið vart.  Hinn 25. apríl féll þunnt öskulag í nágrenni bæjarins og 30. apríl gerðist það aftur ásamt merkjanlegum hræringum og þungum drunum frá fjallinu.  Fyrstu dagana í maí féll fyrst aska í bænum.  Ár og lækir bólgnuðu meira en venjulega og fyrstu fórnarlömbin féllu.  Ýmis villt dýr, einkum fuglar, hurfu af svæðinu nokkrum dögum áður.  Bæjarbúar tóku ekki mark á þessum teiknum og allra sízt yfirvöld, sem voru upptekin við undirbúning kosninga hinn 5. maí, uppstign-ingardag.

Eftir gosið ávann bærinn sér aldrei aftur fyrra mikilvægi og allar tilraunir til þess mistókust.  Núna er hann bara stórt þorp með litlum húsum, kofum og rústum í stað skrautlegra nýlenduhúsa.

Í núverandi miðbæ eru tvær samhliða einstefnugötur og við enda þeirra stendur stytta af bandaríska eldfjallafræðingnum Frank A. Perret.  Við Rue Victor Hugo er dómkirkjan, sem byggð var eftir eldgosið, og bak við hana er lítill kirkjugarður, þar sem virtustu fjölskyldur bæjarins eru grafnar.  Hálfum km lengra er eldfjallasafnið með skjölum og myndum frá gamla bænum auk minja, sem hafa verið grafnar upp.  Ýmsir gripir gefa augljóslega til kynna orku sprengingarinnar, s.s. bráðnir munir úr gleri og fjöldi úra, sem öll stoppuðu á sama tíma.  Aðeins lengra eru rústir gamla leikhússins, sem byggt var skömmu fyrir aldamótin í sama stíl og leikhússinns í Bordeaux.  Enn þá standa nokkrir veggir, tröppur og hlutar leiksviðsins og bera glæsileika þess vott.  Norðan þess eru rústir Siparisfangelsisins.  Sé haldið áfram yfir steinbrú (18.öld), sem stendur enn þá,  er komið í virkishverfið.  Á vinstri árbakkanum er minnismerki Belain d'Esnambuc, stofnanda nýlendunnar, á nákvæmlega sama stað og hann lenti og lét reisa virki árið 1635.  Aðeins norðar eru rústir virkiskirkjunnar, fyrsta guðshússins á eyjunni, sem byggt var árið 1640.

Mt. Pelée er 1.397 m hátt.  Það er eina virka eldfjallið á Martinique, þótt það gefi ekkert slíkt til kynna.  Þar er ekkert gufustreymi, enginn reykur og engar drunur.  Í iðrum þess er glóandi hraun, þótt yfirborðið sé stirðnað og kalt.  Þegar þrýstingurinn neðanfrá vex, má vænta svipaðrar sprengingar aftur.

Göngu á fjallið er gott að hefja frá bílastæðinu fyrir ofan Petite Savane, t.d. frá fyrsta fjallaskálanum í 520 m hæð og frá sjónvarpsmastrinu.  Þaðan er farið upp fjallsöxl, sem er gróin, brött og þreytandi, að Aileron í 1.108 m hæð.  Þaðan er útsýni gott yfir Karíbahafið og Pitons du Carbet.  Síðan er gengið á gígbrúninni að Calvaire í 1.220 m hæð og áfram að öðrum skála og þaðan upp á keiluna, sem myndaðist í maí 1902 (1.360m).   Hálfum km vestar er skýli.  Hæsti tindurinn, Le Chinois, er klifinn úr norðri.  Þaðan er frábært útsýni til næstu eyjar í góðu skyggni.  Svo er haldið sömu leið til baka að bílastæðinu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM