Líklega
var eyjan byggð arawökum fyrir 2000 árum eins og aðrar
Litlu-Antilleyjarnar. Þetta
var friðsamt fólk á tiltölulega háu menningarstigi eins og minjar sýna.
Þær er að finna í safni í Fort-de-France.
Hinir herskáu karíbar, sem lögðu eyjuna undir sig u.þ.b. 1000
árum síðar, eru taldir hafa komið öllum karlkyns arawökum
fyrir kattarnef og þyrmt öllum dugandi konum, sem þeir gerðu að
þrælum.
Kólumbus
kom til Litlu-Antilleyja í nóvember 1493.
Hann steig ekki á land á Martinique, þar eð hann óttaðist
innfædda, sem hann hélt að væru villtar amasónur.
Hann kom aftur í fjórðu ferð sinni árið 1502 og áræddi
þá að kanna eyjuna betur. Hinn
15. júní steig hann með mönnum sínum á Carbetströndina.
Hann á að hafa haft þau orð um eyjuna, að hún væri besta,
frjósamasta og vinalegasta land í heimi.
Hún er hið fegursta, sem ég hef nokkurn tíma séð og ég gæti
endalaust virt fyrir mér þennan dásamlega græna lit.
Þrátt
fyrir þessa yfirdrifnu lýsingu Genúamannsins, gleymdist eyjan á næstu
öld og aðeins fáir einstaklingar lentu þar á þeim tíma til að
birgja sig upp á leið sinni til annarra áfangastaða.
Árið
1624 fóru Frakkar að sýna eyjunni áhuga eftir að nokkrir
skipbrotsmenn voru fluttir þaðan og lýstu henni af mikilli hrifningu.
Fyrsti
landneminn á eyjunni árið 1635 var Belain d'Esnambuc.
Hann kom með nokkur hundruð manns og lenti líka á Carbetströndinni
og stofnaði Fort Saint-Pierre nokkrum km norðar.
Karíbarnir börðust með kjafti og klóm gegn innrásarmönnunum.
Þeim tókst þó ekki að vinna virkið og hrekja Frakkana
brott. Þeir urðu að
semja við komumennina og upp frá því var þróunin hröð.
Frændi d'Esnambuc, Normanninn Jacques du Parquet frá Pays de
Caux, var fyrsti landstjórinn á árunum 1637-1658 og er talinn hinn
raunverulegi stofnandi nýlendunnar.
Hann sótti fleiri landnema og tókst eftir ýmsar skærur að
semja frið við karíba. Í
framhaldi af því hóf hann ræktun, þ.á.m. ræktun sykurreyrs.
Í lok 17.aldar kom til átaka milli Frakka annars vegar og Breta
og Hollendinga hins vegar, þegar hinir síðarnefndu reyndu að leggja
eyjuna undir sig. Frökkum
tókst að verjast.
Árið
1667 varð Martinique miðstöð franskra yfirráðasvæðisins á Karíbahafi.
Guadeloupe var lengi stjórnað þaðan og árið 1669 var
Fort-Royal, síðar Fort-de-France, stofnað.
Um aldamótin jókst sykurframleiðslan gífurlega.
Kaffi og kakóræktun blómstruðu líka.
Arðsamur plantekrubúskapur krafðist mikils vinnuafls, sem var
aðallega afrískir negraþrælar og refsifangar af galeiðum.
Bretar
gerðu misheppnaða árás á eyjuna árið 1759 og aftur árið 1762 og
tókst þá land-ganga. Níu
mánuðum síðar, þegar Frakkar misstu tilkall til Kanada í friðarsamningunum
í París, drógu Bretar sig til baka og Martinique varð aftur stjórnsýslumiðstöð
Frakka í Karíbahafi.
Árið
1763 fæddist Joséphine Tascher de la Pagerie í Les Trois-Ilets sunnan
Fort-de-France. Árið 1796
varð hún eiginkona Napoleons Bonaparte og síðan (1804) keisaraynja
Frakklands. Napóleon skildi
við hana árið 1809 og hún dó í Malmaison við París árið 1814.
Áhrifa
frönsku stjórnarbyltingarinnar (1789) gætti á Martinique.
Íbúarnir klofnuðu í konungssinna og lýðræðissinna og það
kom til heiftarlegra átaka á milli þeirra.
Konungssinnum vegnaði betur með hjálp Breta, sem hernámu
eyjuna og sátu þar til 1802. Í friðarsamningunum í Amiens varð Martinique aftur frönsk
og í Parísarsamningunum árið 1814 fengust yfirráð Frakka þar
endanlega viðurkennd en fram að því hafði eyjan verið óopinberlega
verið undir brezkri stjórn.
Þrælahald var
afnumið árið 1848, en það hafði í raun og veru verið bannað
allt frá 1815. Victor
Schoelcher, ráðherra frá Elsaß, átti mikinn þátt í afnáminu og
hefur verið frelsishetja svartra íbúa eyjarinnar fram á þennan dag.
Rúmlega 70.000 þrælar fengu frelsi og flúðu strax kvalastaði
sína. Þetta skapaði
skort á vinnuafli og gripið var til þess ráðs að ráða indverska
og kínverska verkamenn til starfa.
Þessi ráðstöfun olli talsverðri spennu milli hinna
mismunandi þjóðfélagshópa.
Árið
1902 varð gríðarmikið gos í Mt. Pelée, sem jafnaði m.a. þáverandi
höfuðborg eyjar-innar, Saint-Pierre (París Antilleyja), við jörðu.
Hinir 30.000 íbúar borgarinnar, sem flestir voru hvítir, fórust
með nokkrum undantekningum. Fort-de-France
tók við höfuðborgarhlutverkinu.
Á
árum síðari heimsstyrjaldarinnar fylgdu íbúar Martinique og
Guadeloupe hinni nasista-sinnuðu Vichy-stjórn í Frakklandi að málum
og það olli því, að bandamenn settu hafnbann á eyjarnar. Árið 1943 snérist þeim hugur og studdu andþýzku
nefndina og hafnbanni var aflétt.
Árið
1945 varð Martinique franskt utanlandshérað og er nú ásamt öðrum
frönskum héruð-um hluti af evrópska efnahagssvæðinu.
Allir íbúar eyjarinnar, án tillits til hörunduslitar, eru
franskir ríkisborgarar með sömu réttindum og skyldum og samlandar þeirra
í Frakklandi. |