Havana
er á norðvesturströndinni
í 0-10 m hæð yfir sjó. Íbúafjöldinn
er 2.2 milljónir eða 2,7, ef útborgir eru taldar með.
Áætlunar- og
leiguflug frá Düssedorf, Köln, Frankfurt/Main, München, Berlín (Þýzkal.),
Prag (CSSR), París (Frakkl.), Madrid (Sp.), Mexíkóborg, Montreal og
Toronto (Kan.) til Havanna.
Einnig er flogið
til Kúbu um Barbados, Mexíkóborg, Cancún (Mexíkó), Kingston
(Jamaika), Port of Spain (Trinidad) og Miami (Florida).
Miðstöð
innanlandsflugs er í Havana. Þaðan
er flogið til Nueva Gerona (Æskueyjan), Varadero, Camagüey, Holguin
og Santiago. Skemmtiferðaskip
undir rússneskum fána hafa stanzað í marga daga í Havanna.
Hægt er að komast til og frá Kúbu með flutningaskipum, sem
sigla milli Kúbu og Rotterdam, Rostock, Antwerpen o.fl.staða á
meginlandi Evrópu.
Aðalbrautarstöðin
í Havana heitir Estación de Ferrocarriles.
Þaðan eru járnbrautarsamgöngur við Guane, Cienfuegos,
Nuevitas, Guantánamo og Santiago.
Höfuðborgin Havana
(La Habana á spænsku) stendur við skjólgóða og mengaða náttúruhöfn.
Hún er aðalmiðstöð viðskipta- og menningarlífs, ein aðalháskólaborg
Karíbasvæðisins og setur katólsks erkibiskups.
Þegar á spænska nýlendutímanum var hún orðin þýðingarmesta
borg Vestur-Indía. Að vísu
dró mjög úr viðskiptum, þegar Bandaríkin framfylgdu hafnbanni sínu
eftir byltinguna 1959. Það
kom þó ekki í veg fyrir áframhaldandi iðnrekstur og menningarlíf
borgarinnar er á heimsmæli-kvarða.
Margt minnir á spænska
nýlendutímann. Gömlu
virkin við hafnarkjaftinn, sem er mjór frá náttúrunnar hendi, en höfnin
breiðir síðan úr sér fyrir innan hann (23 km²), gömlu þröngu göturnar
með spænsku húsunum og nokkrar opinberar byggingar standa enn og
minna á fortíðina. Umhverfis
gamla borgarhlutann eru stór nútímahverfi með alls konar byggingarstílum
og fjöldi grænna svæða með hitabeltisgróðri.
Fátækrahverfin,
sem stækkuðu stöðugt fram að byltingunni, eru gjörsamlega horfin,
þannig að Havana sker sig úr að því leyti, þegar litið er til
annarra stórborga á Karíbasvæðinu.
Havana
var fyrrum talin vera „breiðgata nýja heimsins” og ein líflegasta
og fegursta hafnarborg á þeim ströndum Ameríku, þar sem dagur og nótt
eru jafnlöng. Þótt
borgin sé í niðurníðslu, verða gestir hennar, sem eru þar í
fyrsta sinn, ævinlega heillaðir af fölnuðu aðdráttarafli „Gömlu
Havana” með trjáprýddum torgum og breiðum strætum.
Skoðunarstaðirnir eru vítt og breitt um borgina, þannig að
það er ekki hægt að nota strætisvagna til að ferðast milli þeirra.
Bezta leiðin er að fara í skipulagðar hópferðir, nota
leigubíla eða bílaleigubíla.
Í Vedado er mikill
fjöldi ágætra og góðra hótela, s.s. Hotel Nacional (Graham Green:
Maður okkar í Havana; mafían). Í
„Gömlu Havana” er að finna ódýra gististaði og þar eru líka
flestir ódýru veitingastaðirnir, s.s. „paladares”, borðstofuveitingahúsin,
þar sem ferðamönnum eru boðnar ódýrar máltíðir (þriðjungi ódýrari
en á veitingastöðum). Lögum
samkvæmt mega ekki vera fleiri en 12 stólar í þessum einkareknu
„paladares”.
SKEMMTANALÍF
Tropicana
er bezti og stærsti næturklúbburinn í Havana.
Þar koma fram 100 léttklæddar stúlkur með mikinn og
skrautlegan höfuðbúnað á hverju kvöldi auk 100 annarra dansara,
sem dansa eftir hljómfalli risastórrar hljómsveitar og söngvara.
Þessi skrautsýning endar á ljósakrónudansinum, þar sem fjöldi
dansara, tengdir rafmagnssnúrum, sprangar um sviðið með
rafmagnslampa á höfðinu.
Það eru næturklúbbar
í öllum helztu hótelunum. Krár
og barir fyrir samkynhneigða voru með öllu bannaðir, en nú eru þeir
líka til, þótt hljótt fari.
Aðdáendur
Hemingways slá ekki hendinni á móti „daquiri” á kránni „La
Floridita”, sem hann sótti sem stífast, eða mohito á La
Bodeguita del
Medio, þar sem hann drakk líka.
Víða
um borgina er boðið upp á djasshljómleika, leikhús, kvikmyndir og
afrókúbverska dansa.
Dagana 23.-24. október 2005 fór
fellibylurinn Wilma yfir Kúbu og olli miklu tjóni, m.a.
talsveraðum flóðum í Havana.
|