Parque
de los Martires er vinsæll skrúðgarður
milli Castillo de la Punta og Castillo de la Real Fuerza.
Í norðvesturhorni hans er heiðursgrafhýsi stúdenta, sem
voru skotnir 1871. Þar er líka riddarastytta af Máximo Gómez.
Aðeins sunnar er Skjalasafnið, þar sem hægt er að grafa niður
að rótum kúbverskrar tónlistar.
Museo de la Revolución,
fyrrum forsetahöll, er suðvestan Mártires-skrúðgarðsins.
Þar er að finna mikið skjala- og bókasafn um síðari tíma
sögu landsins. Rétt þar
hjá er endursmíði af snekkjunni Granma, sem sigldi á frá Mexíkó
til Kúbu 1956.
Palacio
de Bellas Artes
er í grennd við Byltingarsafnið.
Þar eru til sýnis verk eftir gamla og nýja meistara.
Athyglisverðust eru verk eftir kúbverska málara frá 18.,
19. og 20. öldum.
Parque
Central er vinsæll skrúðgarður með
styttu af frelsishetjunni José Martí.
Lorcaleikhúsið
(1838) er við Parque Central vestanverðan.
Byggingin er prýdd fjórum hornturnum.
Þar eiga hæli hinn heimsfrægi kúbverski þjóðarballett og
ríkisóperan.
Capitolo
(fyrrum þinghús; 1929) var byggt eftir bandarískri fyrirmynd og
stendur við einu skrúðgötu borgarinnar, Prado.
Húsið er allt úr marmara að innanverðu.
Það hýsir nú Academia de Ciencias (kúbversku vísindaakademíuna)
og Felipe Poey-safnið (náttúrufræðisafn; jurta- og dýralíf Karíbasvæðisins;
eftirlíking af Punta del Este-hellunum, sem frumbyggjarnir bjuggu í
áður en Kólumbus kom til skjalanna).
Einnig er að finna stjörnuathugunarstöð í byggingunni.
Plaza de la Fraternidad
(Bræðralagstorgið) er sunnan við
Capitolo. þar er brunnur
úr hvítum marmara frá 1837. Nafn
torgsins er dregið af samamerískri ráðstefnu, sem haldin var í
Havana árið 1928. Sunnan
torgsins er Martíleikhúsið, sem reist var á 19.öld.
Paseo
José Martí (Prado).
Lagning þessarar breiðgötu var hafin árið 1770.
Hún liggur á milli Capitolo og Castillo de la Punta.
Hún er prýdd trjám, blómaskreytingum og ljónastyttum og
var eitt sinn lúxusverzlunargata.
Malecón
er fjölakreina gata meðfram ströndinni til vesturs frá Castillo de
la Punta. Kúbverski
verkfræðingurinn Albear sá um lagningu hennar og lauk verkinu í
byrjun 20.aldar. Brimúði
berst oft yfir götuna. Við
Malecón stendur sjúkrahús (hæsta bygging borgarinnar sem stendur)
og Maceo garðurinn, þar sem er riddarastytta af frelsishetjunni
Maceo. Havannabúar
flykkjast niður á ströndina um helgar til að synda, sóla sig og
slappa af, þrátt fyrir að ströndin
meðfram götunni sé ekki ætluð baðgestum..
Avenida
Caliano
byrjar við Deauville hótelið.
Hún er ein aðalverzlunargata borgarinnar.
VEDADO
borgarhlutinn er
vestan miðborgarinnar. Fyrir
seinni heimsstyrjöldina var hann íbúðarhverfi efnaða fólksins en
varð að skrifstofu- og viðskiptahverfi.
Göturnar eru skipulagðar að bandarískri fyrirmynd (með
Miami sem fyrirmynd). Síðla
á sjötta áratugnum réðu þar helzt ríkjum glæpamenn, viðskiptajöfrar,
pókerspilarar og vændiskonur.
Calle 23.
við Hótel Nacional er líflegasta verzlunargata Havana.
Neðri hluti hennar er kallaður La Rampa.
Þar standa í röð nokkur hótel, ráðuneyti og skrifstofur
ýmissa flugfélaga. Þar er líka hótelið Habana Libre (hét áður Habana
Hilton), aðalskrifstofa ferðaskrifstofu ríkisins Cubatur og ríkisrekna
útvarpsstöðin.
Háskólinn
var stofnaður 1928 og er á Arostequi-hæðinni.
Þetta er heimavistarháskóli í nýklassískum byggingum.
Minnismerkið við þrepin upp að aðalinnganginum inniheldur
öskuker Julio Antonio Mella, stúdentaleiðtoga, sem Machado-stjórnin
lét myrða. Austan háskólans
er Napoleónicosafnið með áhugaverðum gripum frá Napóleontímanum.
Montanesafnið er líka á skólalóðinni.
Þar er að finna mjög áhugaverðar minjar frá dögum
frumbyggjanna.
Castillo
del Principe-virkið,
sem Spánverjar reistu, stendur á hól ofan við háskólalóðina.
Museo
del Arte Decorativo
er við Calle 17.
Þar er að finna fallegar skreytingar frá 18. og 19.öld.
José
Martí-garðurinn
er líka við Malecón. Vestantil
í honum er minnismerki um Calixto Garcia hershöfðingja og Ameríkuhúsið
(Casa de las Américas) með fallegu málverkasafni.
La
Chorrera er
lítil vík aðeins vestar. Hún
er vöktuð úr varðskýli. Í
hana rennur áin Almendares og við hana stendur stórhótelið
'Habana Riviera'.
Almendares-garðurinn
er fallegur og liggur aðeins sunnar.
**Byltingartorgið (Plaza de la Revolución) er fyrir sunnan og neðan Castillo Principe.
Á því stendur risavaxið minnismerki um José Martí.
Það er stjörnulaga, 105 m há súla, sem kúbverski listamaðurinn
Sicre er höfundur að. Umhverfis
torgið standa stjórnarbyggingar Kastróstjórnarinnar s.s. stjórnarhöllin,
bygging miðstjórnar Kommúnistaflokks Kúbu, Þjóðarbókhlaðan (rúmlega
hálf milljón bóka), Þjóðleikhúsið,
varnarmála-, innanríkis, samgöngu-, byggingarmála- og póst- og símamálaráðuneytin.
Í hinu síðastnefnda er frímerkjasafn.
Einnig að þar COMECON-höllin.
Á torginu eru
haldnar allar mikilsverðustu hátíðir, s.s. 1. maí hátíðin og
hinar löngu ræður foringjans (Máximo Lider).
Nokkrum hundruðum
metrum austar er íþróttaleikvangurinn Estadio Latinoamericano, þar
sem fara oft fram mikilvægar íþróttakeppnir.
Cementerio
Colón
(kirkjugarðurinn) er ½ km vestan torgsins.
Hann er prýddur aragrúa frafhýsa og grafsteina úr marmara og er hinn
athyglisverðasti sinnar tegundar á Kúbu.
Cerro Palatino.
Ein skrautgatan í viðbót, Avenida Ranco Boyeros, prýdd upplýstum
gosbrunnum, liggur til suðvesturs í gegnum Cerro
Palatino-borgarhlutann og út á flugvöll.
Við borgarmörkin er grasa- og dýragarður.
Nacional
de Cuba Hotel og Riviera Hotel
voru
bæði byggð upp af bandarísku mafíunni. Þar voru spilavíti.
MIRAMAR
Tvenn
göng liggja undir ána Almendares inn í borgarhlutann Miramar, þar
sem eru eingöngu einbýlishús, sem flestir eigendurnir yfirgáfu
eftir byltinguna. Þar
eru nú dýrar verzlanir, sendiráð og þar búa erlendir
sendiherrar, t.d. við Quinta Avenida.
Sædýrasafnið
í Miramar var byggt samkvæmt ströngustu kröfum.
Það er aðeins opið fyrir hádegi.
Mariano-hverfið
er vestast í borginni. Það
var auðmannahverfi fyrir byltinguna. Mörg
húsanna þar tók stjórnin til sinna þarfa, þegar íbúarnir voru
flúnir og hún nýtir íþróttaaðstöðuna, sem var þar fyrir.
Tropicana
er einstakur næturklúbbur, sem á engan sinn líka í öllu Karíbahafinu.
Þangað flykkist skemmtanaþyrst fólk alls staðar að úr
heiminum.
Ciudad
Libertad
er skólabær, sem hefur byggzt upp síðan 1970 á svæði, sem var
áður herflugvöllur.
Palacio
de Congresos
er ráðstefnumiðstöð höfuðborgarinnar.
Hún var byggð í tilefni af ráðstefnu óháðra ríkja í
Havana og var tilbúin 1979.
Listaskólinn
(Escuela de Arte)
stendur á svæði, sem tilheyrði klúbbi ríka fólksins áður
fyrr. Ricardo Porro,
arkitekt, skipulagði þar fjölda misstórra kúpulbygginga með
yfirbyggðum tengigöngum.
Barlovento
er miðstöð vatnaíþrótta aðeins vestar.
Þar er nýgerð *smábátahöfn, sem kennd er við Hemingway.
Þar eru legur fyrir 100 snekkjur og skútur.
Í hótelinu, El Viejo y el Mar, hittist fólk alls staðar að
úr heiminu og þar er fjöldi verzlana og veitingahúsa.
Santa
Fé og Jaimanitas
eru falleg lítil fiskiþorp í grennd við Barlovento.
Höfnin.
Meðfram höfninni eru raðir vöruhúsa og lengra til suðausturs
er iðnaðarhverfið Luyano.
Castillo
de Atarés (18.öld). Þetta virki
stendur sunnan aðalbrautarstöðvarinnar.
Það var byggt til varnar vesturhluta hafnarinnar.
Safn
innanríkisráðuneytisins
(Museo del Ministerio de Interior) hýsir muni og minjar frá köldustu
tímum kalda stríðsins milli Kúbu og BNA.
Þar er m.a. að finna alls konar tól og tæki, sem átti að
nota til að koma Kastró fyrir kattarnef (sprengjuvindlar, sápudiskar
með plastsprengjum o.fl.). |