Leningarðurinn
er 700 ha stór skemmtigarður 20 km sunnan miðborgarinnar við
uppistöðulónið Presa Ejército Rebelde.
Þar er m.a. útileikhús, listaskáli, bókasafn,
leirkerasmíði, reiðskóli, ferskvatnsfiskasafn, ródeóvangur, útibíó,
lítil járnbraut og fjöldi veitingahúsa.
Las Ruinasveitingahúsið, eitt hið bezta á Kúbu, er í
fallega uppgerðri
sykurmyllu.
*Casa
Hemingway
(Hemingwayhúsið)
er í útborginni San Fransisco de Paula 17 km suðaustan miðborgarinnar í skrautlegum garði.
Þar dvaldi rithöfundurinn löngum stundum en nú er það safn.
Húsið er ekki opið, en hægt er að skoða fyrrum híbýli rithöfundarins í
gegnum opna glugga þess.
Úti í garðinum er fjöldi hundaleiða og báturinn Pilar.
Casablanca
er útborg austan hafnarkjaftsins.
Yfir henni gnæfir risastór Kriststytta, sem
Batista lét reisa til heiðurs konu sinnar 1958.
Habana
del Este
er
enn ein útborgin.
Þar er fjöldi háhýsa, sem byltingarstjórnin lét reisa.
Cojimar
er fiskiþorp frá 17.öld 8 km austan miðborgarinnar.
Það er þekkt vegna sögu Hemingways „Gamli maðurinn og hafið”.
Fyrirmynd aðalpersónu bókarinnar
„Gamli maðurinn og hafið”, Gregorio Fuentes, dó 104 ára í þorpinu
Cojimar 13. janúar 2002. Hann var skipstjóri á einkabáti Hemingways,
Pilar, á fjórða áratugi 20. aldar á meðan rithöfundurinn dvaldi á
Kúbu. Vinátta þeirra var mikil og þeir fóru oft saman í veiðiferðir.
Hann fór aldrei aftur á sjó eftir að Hemingway fór frá Kúbu og gaf
ríkinu bátinn. Gamli maðurinn var orðinn að aðdráttarafli fyrir
ferðamenn í þorpinu og fréttamenn vissu að þeir fengju viðtal fyrir
eina flösku af rommi. Karlinn var skýr í kollinum til hinztu stundar
en hulstrið var farið að láta á sjá.
Bacuranao
er þorp 15 km austan Havanna.
þar gengu Englendingar á land árið 1762.
Frá þorpinu
liggur 80 km langt baðstrandasvæði með góðum gististöðum,
tjaldstæðum og aðstöðu til alls konar vatnaíþrótta.
*Santa
María del Mar
er vinsæll baðstrandarbær 20 km austan Havanna.
Þar er rúmlega 10 km löng baðströnd girt furuskógi.
Aðeins austar er orlofsstaðurinn Guanabo með timburhúsum í plantekrustíl.
Jibacoa
er enn einn baðstrandarbærinn við fallega vík 65 km austan Havanna.
Guanbacoa
er
sögufrægur bær inni í landi 10 km suðaustan Havanna.
Þar bjuggu indiíánar fram á 16.öld.
Þar var reist ein fyrsta sykurmylla eyjarinnar.
Sögusafn bæjarins er skoðunarvert.
Þar er einstakt, afrókúbverskt safn.
Í kirkjunni Iglesia Major er fallegt, útskorið altari og mynd af himna-för
Maríu.
Í menningarmiðstöðinni eru þjóðlegar sýningar byggðar á
afrókúbverskri arfleifð.
Batabano
er 20.000 manna borg sunnan Havanna á suðurströndinni.
Þarna átti höfuðborg landsins að rísa.
Þaðan eru bátsferðir til Æskueyjarinnar og góðra köfunarstaða.
Mariel
er 30.000 manna borg 50 km vestan Havanna á norðurströndinni.
Hún var stofnuð á 18.öld og var lengi rólegt fiskiþorp.
Eftir byltinguna varð meira umleikis.
Þá voru reistar margar skipasmíðastöðvar varmaaflsvirkjun
og sementverksmiðja.
San
Francisco de Paula
er bær, þar sem Hemingway bjó í ellefu ár.
Húsið, sem
hann bjó í, Finca Vigía, hefur verið varðveitt sem safn, en því
miður er það ekki opið almenningi.
Það er þó hægt að kíkja inn um gluggana, skoða grafsteina
hunda Hemingways og ganga um garðinn.
Við húsið er báturinn Pilar, sem Hemingway þótti
svo vænt um. |