Náttúrufar.
Dominica er fjöllóttasta eyjan í hinum eldvirka innri boga
Antilleyjanna. Hún er á
milli 15°12' og 15°40' N og 61°15' og 61°30' V, miðleiðis á milli
frönsku eyjanna Guadeloupe og Martinique.
Eyjan
er mjög fjöllótt og fögur, sundurskorin af meira en 350 vatnsföllum
og víða erfið yfirferðar. Hæsta
fjall hennar er Morne Diablotin, 1447 m. Hún er griðland margra jurta- og dýrategunda, sem horfnar
eru á öðrum eyjum. Þar
er að finna urmul af gufuhverum, vatnshverum og brennisteinsaugum en þekktast
er Boiling Lake. Þessi jarðhiti
gefur greinilega til kynna, að eldvirkni er ekki úr sögunni á þessari
úrkomusömu eyju, sem er að mestu
leyti þakin sígrænum hitabeltisskógi.
Regnskógur er á hæstu svæðum en á þurrari svæðum hlémegin
eru aðrar tegundir trjáa. Þeim
megin er líka þéttbýlast. Fjöllin
eru sæbrött á móti Atlantshafinu (áveðurs megin) og flugvöllur
eyjarinnar er á norðurhlutanum. Strendur
eru dökkar við árósa og í skjólsælum víkum, þar sem eru líka góð
skipalægi.
Stjórnarfar.
Á þingi landsins sitja 31 þingmenn.
Þar af er 21 kosinn í almennum þingkosningum, 9 eru tilnefndir
í öldungadeild og einn óháður.
Þingmenn velja forseta landsins til fimm ára en forsætisráðherrann
og leiðtogi stjórnarandstöðunnar hafa rétt til að stinga upp á
frambjóðendum. Stjórnin
byggist á forsætisráðherra og fimm öðrum ráðherrum.
Landinu er skipt í tvær borgir og 25 sýslur.
Íbúarnir.
Mikill meirihluti íbúanna eru svertingjar og múlattar. Hvítir menn og fólk af asískum uppruna auk þeldökkra
kynblendinga af indíánastofni (karíbar; 2500 talsins) eru í miklum
minnihluta. Óblandaðir
indíánar eru aðeins nokkur hundruð.
Íbúafjöldinn er u.þ.b. 112 á hvern km² og fólksfjölgunin
er í nánd við 1% á ári. Vegna bættrar heilsugæzlu lengjast lífslíkur stöðugt og
ungbarnadauði minnkar. Það
er ekki langt síðan meðallífslíkur voru undir 60 árum.
Nú eru u.þ.b. 45% íbúanna undir 14 ára aldri.
Trúarbrögð.
Meirihluti íbúanna er rómversk-katólskur en einnig eru
nokkrir kröftugir söfnuðir mótmælenda.
Atvinnulífið
Landbúnaður
er veigamesta atvinnugrein landsins, þótt aðeins fimmtungur landsins
sé nýttur í þeim tilgangi. Á
19.öld var kaffi mikilvægasta útflutningsvaran en plöntusjúkdómar
ollu því, að skipta varð yfir í sítrónuræktun.
Notkun sítróna við litun vefnaðarvöru og sem meðals gegn
skyrbjúgi í brezka hernum gerði Dominica að stórframleiðanda sítrónusafa.
Síðan á fjórða ára-tugnum hefur ræktun banana aukizt á
kostnað sítrónuframleiðslunnar, þannig að nú er útflutningur
banana orðinn þýðingarmestur. Aðrar
mikilvægar landbúnaðarafurðir eru kókosolía, kakó, tóbak og lárberjaolía.
Fyrir skömmu hófst aftur ræktun kaffis, mangó og sítrusávaxta.
Víða er enn þá farið með eldi um akra til að flýta fyrir
endurnýjun jarðvegs. Tjón,
sem fellibyljir hafa valdið í skógum landsins, hafa komið af stað
smátimburiðnaði.
Ferðaþjónustan
er von margra eyjarskeggja um betri tíð og blóm í haga.
Vonast er til þess, að ríkisstjórning og erlendir fjárfestar
leggi fram meira fé til uppbyggingar þessa atvinnuvegar, sem vissulega
á mikla framtíð fyrir sér. Árið
1987 komu rúmlega 28.000 ferðamenn til Dominica.
Flestir þeirra komu með skemmtiferðaskipum eða í sérferðum
frá Martinique eða Guadeloupe. Einnig
koma stöðugt fleiri áhugamenn um köfun til að verða fyrstir til að
rannsaka hafið umhverfis eyjuna.
Viðskiptavandamálin
eru mörg. Brúttóþjóðarframleiðslan er u.þ.b. 1.300.- US$ á mann
á ári, þannig að Dominica er ekki meðal alfátækustu þróunarlandanna.
Viðskiptahalli landsins er mikill og ekki er hægt að jafna
hann með útflutningi banana og kókosolíu.
Atvinnuleysi meðal yngra fólksins er mikið enn þá, þrátt
fyrir mikla uppbyggingu atvinnuveganna. Þess vegna gerast margir farandverkamenn á nágrannaeyjunum
og vinna sér inn lúsarlaun og margir fara þangað með landbúnaðarafurðir
sínar, ávexti og grænmeti og heimilisiðnað sinn til að selja á mörkuðum. |