Ekvador
býr yfir einhverri fjölbreyttustu náttúru landa heimsins og hefur
aukið verulega við þekkingu í náttúruvísindum. Fyrsti vísindaleiðangurinn á Amasónsvæðinu, undir stjórn
Charles-Marie de La Condamine, hófst í Ekvador. Hinir heimskunnu náttúrufræðingar Alexander von Humboldt
og Charles Darwin nýttu sér athuganir í Ekvador til grundvallar
kenningum um nútímalandafræði, vistkerfi og þróunarlíffræði. Menningarafleifð Ekvador á sér djúpar rætur.
Merki um fyrstu landbúnaðarþorp og leirmunagerð í Mið- og
Suður-Ameríku fundust á strandlengjunni, þar sem Ekvador er nú.
Quito varð höfuðborg inkaveldisins og þar með stærsta miðstöð
stjórnsýslu og stjórnmála fyrir daga Kólumbusar í Ameríku.
Efnahagur landsins byggðist á gerð Panamahatta (ranglega
nefndir), framleiðslu banana, kakós (súkkulaðis), rækjuvinnslu, olíu
og gulls. Ástandið í þessu suðurameríska lýðveldi hefur verið
tiltölulega stöðugt síðan 1979, þótt þjóðin hafi oft orðið
fyrir kröppum efnahagssveiflum, sem eru einkennandi fyrir áfluna.
Landslag.
Andesfjöllin skipta landinu í þrjú landfræðileg svæði,
strandsvæðið (Costa), hálendið (Sierra) og Oriente (austurhlutinn =
Amasón). Strandsvæðið
er láglendi, sem teygist til austurs frá Kyrrahafi að vesturjaðri
Andesfjalla og hækkar frá sjávarmáli í 500 m hæð yfir sjó.
Colonche-, Chindul- og Mache-fjöll, sem eru litlir
strandfjallagarðar, liggja frá norðri til suðurs og rísa í allt að
800 m hæð. Milli þessara
fjallgarða og Andesfjalla eru setfylltir og stallaðir dalir.
Um þá falla ár til Guayaquil-flóa.
Stærsta eyja landsins, Puna, er í þessum flóa.
Vestur-
og miðfjallagarðar Andesfjalla eru hæstu og óbrotnustu fjallakeðjur
landsins. Margir tindar eru
eldfjöll og snævi þaktir (Cayambe, 5790m; antisana, 5704m; Cotopaxi,
hæsta eldfjall heims, 5897m; Chimborazo, 6310m; Altar, 5319m; Sangay
5230m). Fjallgarðarnir
tveir eru tengdir eldvirkum þverfjallgörðum á köflum.
Milli þessara þverfjallagarða eru einangraðir dalir og lægðir
(hoyas).
Oriente-svæðið
hefst við austurjaðar miðfjallgarðsins, sem teygist að landamærum
Perú. Um þetta svæði
liggja austursprotar Andesfjalla, sem skiptast í þrennt, Cordillera de
Galeras með norðurfjöllunum og háum tindum eins og Reventador
(3465m) og Sumaco (3866m), Cordillera de Cutucú við jaðar
Upano-dalsins og Cordillera del Cóndor í suðri við jaðar
Zamora-dalsins. Handan
Austur-Cordillera, í austri, er Amasónlægðin, sem nær niður fyrir
270 m.y.s.
Vatnasvið.
Margar ár og sprænur myndast í leysingum og renna um dalina
(hoyas) í Sierra, annaðhvort til vesturs til Kyrrahafs eða austurs
til Amasónárinnar. Vatn
af strandsvæðinu rennur að mestu til Kyrrahafs um Guayas-lægðina.
Gyayas-áin tekur mest vatn frá þveránum Daule og Babahoyo.
Hún er skipgeng að mestu.
Aðrar ár, sem renna til Kyrrahafs eru m.a. Santiago, Cayapas,
Esmeraldas, Naranjal, Jubones og Santa Rosa.
Á hálendinu renna lyngnar ár, sem eru straumharðar uppi í fjöllum.
Þær eru ekki skipgengar.
Flestar
ár landsins falla um láglendi Oriente.
Þær eru vatnsmestar og skipgengastar.
Mikilvægasta áin er Napo með þveránum Coca og Aguarico o.fl.
Hún rennur til Amasónárinnar í Perú.
Jarðvegur.
Óvíða annars staðar í heiminum er fjölbreyttari jarðvegur
en í Ekvador. Eldvirknin uppi í Andesfjöllum hefur skapað frjósaman jarðveg
í hlíðum, dölum og á sléttunum.
Hann er dökkur á yfirborði og ríkulega blandaður lífrænum
efnum. Undir jarðveginum
eru hörð lög (cangahua), sem koma oft í ljós, þar sem er jarðvegseyðing,
s.s. í bröttum hlíðum og sléttum, sem ella væru tilvaldar til
landbúnaðar. Innfæddir hafa þróað áhrifaríka aðferð til að bera
á þennan jarðveg. Þeir
nota m.a. húsdýraáburð og leðju úr fráveituskurðum.
Þeir hækka akrana og nota áveituskurði.
Guayas
og aðrar ár hafa hlaðið upp frjósömu seti á flæðilendunum í
strandhéruðunum. Þessi
jarðvegur er mjög frjósamur en inniheldur oft leir, sem bógnar út eða
skreppur saman eftir veðráttu.
Jarðvegstegundirnar
í Amasónlægðinni hafa ekki verið rannsakaðar að fullu en engu að
síður virðast þær allfjölbreyttar. Þar er frjósamur árjarðvegur, lífrænn jarðvegur
(histosols) og veðraður hitabeltisjarðvegur (oxisols), sem hentar til
skiptiræktunar og/eða trjáræktar.
Loftslag.
Ekvador er á miðbaug og því er loftslagið heitt og rakt nema
á hálendinu. Óstöðugt sjávarloft hefur áhrif á loftslagið í
Oriente allt árið. Perústraumurinn
og ferðir lægða hafa áhrif á loftslagið í strandhéruðunum og
gera það nokkuð breytilegt. Uppi
í Andesfjöllum ræðst það af hitastigi og hitabreytingum.
Úrkoma
er stöðug og mikil í Oriente og hitastig er hátt.
Fyrri hluti ársins er venjulega úrkomusamur á ströndinni og
hinn seinni þurrari. Sum
ár safnast saman heitur sjór með ströndinni og veldur veðurskilyrðum,
sem kallast El Nino. Úrkoma
getur orðið gífurleg og valdið stórkostlegu tjóni á vistkerfinu
í strandhéruðunum og stundum uppi á hálendinu.
Mest rignir á hálendinu í kringum jafndægur og þurrviðratíminn
er frá júní til september. Stutt
þurrkatímabil er líka í desember og janúar.
Á
Santa Elena-skaganum er veðurfar mjög þurrt.
Í Guayaquil er úrkoman í kringum 1000 mm á ári en aðeins100
mm í Salinas. Uppi á hálendinu
er úrkoman á bilinu 250-500 mm. Aðrir
landshlutar eru rakir og njóta rúmlega 500 mm úrkomu á ári.
Suðurströndin og innlandið fær 750-2000 mm á ári.
Mesta úrkoman er á norðurströndinni og í Oriente, 3000-6000
mm á ári.
Strandhéruðin
og Oriente eru heitir landshlutar.
Þar gætir lítlsháttar mismunar milli árstíða en mun meiri
hitamunar gætir milli dags og nætur. Mesti hiti á daginn er á bilinu 29°C-33°C en á nóttinni
20°C-24°C. Með aukinni hæð
yfir sjó lækkar meðalhitinn um 5°C-6°C fyrir hverja 1000 metra.
Á hálendinu getur hiti farið niður fyrir frostmark á heiðskírum
nóttum á þurrkatímanum. Ofan
3800 m er erfitt að stunda landbúnað vegna stutts ræktunartíma og
aukinnar hættu á frosti og ofan 5000 m eru fjallatindar snævi þaktir.
Flóra.
Rök láglendi Oriente og norður- og suðausturhluta landsins
eru vaxin þéttum regnskógi með mörgum tegundum trjáa, vafningsviðar
og loftplantna. Regnskógurinn
er þéttastur, þar sem úrkoman er mest í 1200-1600 m hæð yfir sjó.
Í árdal Guayas vex balsaviður í regnskóginum.
Hann er nýttur vegna þess, hve léttur hann er. Í austurskógunum voru cinchona-trén nýtt til framleiðslu
kíníns. Skógar strandhéruðanna
eyðast hratt vegna ofnýtingar og í Oriente er eftirspurn eftir landi
undir plantekrur og nautgripabú mikil, þannig að þar eyðast skógar
líka hratt.
Á
ströndinni, milli Esmeraldas og Guayaquil-flóa, þar sem lofstlagið
er undir áhrifum Perústraumsins, hörfar regnskógurinn fyrir lauftrjám.
Þar vaxa pálmar á stangli.
Á þeim vaxa hinar ljóslituðu tagua-hnetur, sem eru notaðar
til tölugerðar. Trefjar
parudovica-pálmans eru notaðar í hattagerð (Panamahattar).
Fyrrum voru fenjasvæðin á ströndinni þakin fenjatrjám, sem
voru felld til að auka rækjuaflann.
Uppi
í fjöllum (Sierra) er náttúrulegur gróður á undanhaldi.
Í þurrum dölunum eru þyrnirunnar enn algengir en þeir hörfa
fyrir lágreistum, sígrænum skógum og hærra uppi taka við ýmsar
harðgerðar grastegundir. Á
hálendinu hefur náttúrulegum gróðri mjög víða verið rutt úr
vegi fyrir ræktun eða breytt með því að leggja eld að honum
reglulega.
Fána.
Fjöldi apategunda lifir í regnskógunum.
Þar eru líka kjötætur, jaguar, refir, víslar, otrar, skúnkar,
þvottabirnir og kinkajour (á ferli á næturnar).
Meðal hófdýra eru tapir, dádýr og villisvín.
Fjöldi nagdýra- og leðurblökutegunda lifir í skógunum.
Fugla-
og fiskafánan er mjög fjölbreytt. Þarna má finna í kringum 1500 tegundir fugla og Ekvador er
endastöð margra farfugla á veturna.
Fjölbreytni fiskategunda er svipuð og í Amasónánni en rafáll
og pírana eru ekki til í vesturhlutanum.
Flestar aðaltegundir skriðdýra finnast í Ekvador. |