Á
nýlendutímanum og fram á síðari hluta 20. aldar bjó meirihluti íbúanna
í fjalllendinu (Sierra) en þá f´óru láglendissvæðin að
byggjast, einkum Costa. Þorp
og dreifðir bóndabæir á hálendinu eru tengdir ferköntuðum skikum,
þar sem er ræktaður maís, kartöflur, bygg, hveiti, baunir og lúpínur.
Akrarnir eru hvíldir reglulega og nýttir sem beitiland fyrir
sauðfé, sem er einnig beitt ofar í fjöllunum.
Hið hefðbundna húsnæði úr tágum og klíningi, með stráþaki
og leirveggjum, víkur smám saman fyrir húsum úr múrsteini eða
steypu með spæskum flísaþökum eða bárujánsþökum.
Fyrir 1960 bjuggu smábændur undir verndarvæng stórbýla
(hasiendas), sem réðu bezta landinu og úthaganum uppi í fjöllum.
Þá var stórbýlunum skipt í miðlungsstór býli, sem voru arðbærari.
Tekin var upp ræktun nýrra tegunda kartaflna, ávaxta og grænmetis.
Gömlu, spænsku húsin, sem stórbændurnir bjuggi í, standa
enn þá víða. Önnur
hafa verið yfirgefin eða breytt í hótel.
Fjallaþorpin og bæirnir voru oftast byggð eftir spænskum
fyrirmyndum á ferningslaga fleti umhverfis eitt eða fleiri torg, þar
sem stóðu kirkjur og opinberar byggingar.
Á
ströndinni stunda bændur blandaða ræktun á litlum skikum, s.s.
kassava, jarðhnetur, banana, kaffi, kakó og maís.
Þeir búa í staurakofum með bambusveggjum og stráþökum.
Stærri býli rækta mikið magn hrísgrjóna, kakós,banana og
afríska olíupálma. Búgarðarnir
einbeita sér að kjötframleiðslu með ræktun nautgripa.
Mestizos byggðu hluta strandhéraðanna um miðja 20. öldina,
einkum svæðin vestan og norðvestan Quito, kringum Santo Domingo de
los Cororados. Einangraðir
hópar indíána hafa orðið að víkja og búa við bág kjör.
Svipuð þróun átti og á sér stað í Oriente, þar sem olíusvæði
og nýir þjóðvegir gera hálendisindíánum og mestizos kleift að
flytjast inn á svæði Amsónindíána.
Við
manntalið árið 1982 kom í ljós, að helmingur þjóðarinnar var orðinn
borgarbúar og helmingur þeirra bjó í Guayaquil og Quito.
Aðrar borgir landsins eru mun minni en Esmeraldas, Manta,
Portoviejo og Machala eru mikilvægar landbúnaðar- og viðskiptaborgir
á ströndinni og Ambato og Cuence eru stærstu og athafnasömustu
borgirnar á hálendinu utan Quito.
Þjóðerni
og tungumál.
Meðal þjóðflokka Ekvador eru nokkrir ættbálkar indíána,
sem tala sína eigin tungu, negrar, mestizos (kynbl. hvítra og indíána),
hvítir menn og innflytjendur frá mörgum löndum, s.s. Líbanon, Kína,
Kóreu, Japan, Ítalíu og Þýzkalandi.
Í flestum tilfellum, þegar manntal hefur farið fram, hefur
ekki verið spurt um uppruna fólksins, þannig að tölur um fjölda
hvers þjóðernishóps eru ekki skráðar.
Lungi íbúanna er mestizos uppi á hálendinu og á láglendissvæðunum.
Um
miðjan níunda áratug 20. aldar voru líklega 700.000 manns mælandi
á tungum indíána, einkum quechua á hálendinu.
Skammt er síðan þeir fóru að samsama sig við ákveðna
hluta landsins, utan búsetustaða sinna, og nefna sig „runa” (fólk).
Negrarnir
í Ekvador eru afkomendur innfluttra þræla frá Afríku.
Þeir skiptast í tvo menningarhópa, hálendisnegra og láglendisnegra.
Flestir
íbúa landsins tala spænsku, sem er þjóðartungan.
Hún er notuð í viðskiptum og stjórnsýslu, þótt mismunar gæti
í mállýzkum íbúanna á hálendinu og láglendinu.
Líklega munu nokkur tungumála indíána halda velli, þar sem
mikill áhugi hefur vaknað fyrir varðveizlu upprunalegrar menningar meðal
þeirra.
Trúarbrögð.
Rúmlega 90% íbúanna játa rómversk-katólska trú.
Fylgi ýmissa trúflokka mótmælenda eykst tiltölulega hratt,
einkum meðal hinna lægst settu. Quito,
Ambato og Guayaquil hafa verið miðstöðvar þessara trúflokka og
margir indíánar í Oriente og á hálendinu hafa skipt um trú.
Í Quito er lítill hluti íbúanna gyðingar og þar búa einnig
nokkrir baháíar. |