Ekvador
er land gífurlegra efnahagslegra tækifæra.
Áherzla hefur verið lögð á landbúnað, sjávarútveg og málma
í jörðu en iðnaður hefur setið á hakanum.
Þessi þróun hefur valdið verulegum sveiflum í efnahagslífinu
og reynt er að auka fjölbreytni útflutningsafurða og afla nýrra
markaða. Lífsskilyrði
hafa batnað í landinu en enn þá ríkir mikill ójöfnuður vegna
misskiptingar fjármagns.
Náttúruauðæfi.
Jarðvegur landsins ásamt hæfilegri úrkomu og mismunandi
loftslagi gerir mjög fjölbreytta ræktun mögulega.
Frjósamasti jarðvegurinn er í Guayas og á öðrum árflæðilendum
á ströndinni, á sléttunum og í hlíðum eldfjallanna á hálendinu.
Enn
þá er ekki fullkannað, hve mikil auðæfi eru í jörðu í landinu.
Kunnugt er um gullbirgðir vítt og breytt um landið og olíulindir
í norðausturhluta Oriente.
Í Guayaquil-flóa hafa fundizt miklar birgðir náttúrugass, lággæða
kopars vestan Cuenca og silfurs, molybdenum, járngrýtis, gips, sinks
og blýs.
Skógar
landsins og fiskistofnar eru líka nýttir.
Hefðbundnir bústaðir manna á ströndinni eru úr bambus og
inni á hálendinu úr furu og tröllatrjáaplantekrur skaffa eldivið
og byggingarefni. Fiskveiðar
í smáum stíl eru stundaðar frá vesturströndum héraðanna Guayas
og Manabí. Mikilvægasti
aflinn er rækja úr fenjasvæðunum á ströndinni.
Eyðing fenjatrjánna er aðalógnunin við þessar veiðar auk
þess að of mikið er veitt af ungrækju, sem er líka tekin til ræktunar.
Uppi
í Andesfjöllum blasa við miklir möguleikar til virkjunar vatnsorku.
Bygging orkuvera, s.s. Agoyan og Paute, hefur aukið framboð
rafmagns en samtímis hafa skapazt vandræði vegna setmyndunar.
Ríkið er ábyrgt fyrir þróun og nýtingu í orkugeiranum.
Landbúnaðurinn
er vinnuaflsfrek atvinnugrein. Margir
landsmenn stunda sjálfsþurftarbúskap.
Þeir rækta m.a. maís, kartöflur, baunir og kassavarunna.
Innflutningur ódýrrar kornvöru frá BNA hefur dregið úr ræktun
heimafyrir og breytt neyzluvenjum þannig, að meira er neytt af
hveiti og hrísgrjónum nú og æ minna af maís.
Framleiðsla hitabeltisvöru eins og banana, kakó, hrísgrjóna
og kaffis hefur aflað mikils gjaldeyris.
Ræktun afríska olíupálmans hefur dregið úr innflutningi
jurtaolíu og jurtum eins og raps til ræktunar.
Kvikfjárrækt er víða stunduð.
Á láglendinu er talsverð nautakjötsframleiðsla og mjólkurframleiðsla
og sauðfjárrækt á hálendinu. Hænsni
eru fóðruð á maís og öðru korni, sem er ræktað á viðkomandi
svæðum. Svínaræktin er
smá í sniðum en mikilvæg á hálendinu.
Geitaræktin er mikilvæg vegna kjötframleiðslunnar í Loja-héraði
í suðurhluta landsins og tilraunasvín eru ræktuð til matar á hálendinu.
Lítill
hluti landsins er nýttur til landbúnaðar og skóglendi og önnur náttúruleg
svæði eru verðmæt vegna framtíðarnýtingar og dýralífs.
Tilbúinn áburður er mikið notaður til ræktunar korns í viðskiptatilgangi
en smábændur nota aðallega náttúrulegan áburð.
Ljóst er, að auka má uppskeru gífurlega með réttum aðferðum.
Áveitur hafa verið notaðar frá forsögulegum tímum á hálendinu
og rúmlega helmingur framleiðslunnar er frá áveitusvæðum.
Möguleikar til frekari nýtingar áveitna á hálendinu eru ekki
taldir miklir en áherzla er lögð á byggingu fleiri áveitna á láglendinu
við ströndina.
Námuvinnsla.
Olía og gull eru verðmætustu auðæfin í jörðu.
Gull hefur verið unnið í landinu um aldir og mestur hluti þess
er grafinn úr jörðu á afskekktum stöðum, s.s. Namgija í Zamora-héraði,
þar sem þúsundir fjölskyldna búa við frumstæð kjör og námuverkamennirnir
eru í stöðugri hættu í ótryggum námugöngum á þessu úrkomusama
svæði. Olíulindirnar eru
í norðausturhlutanum og þaðan er olíunni dælt yfir Andesfjöllin
um leiðslur. Olían er
mikilvægasta útflutningsafurð landsins.
Ríkisolíufélagið sér um olíuframleiðsluna í samstarfi við
erlend olíufyrirtæki.
Iðnþróunin
í landinu er enn þá á frumstigi.
Nokkuð er framleitt af sementi, sykri, sælgæti, bjór, pasta,
brauði og kaffi. Þá
hefur verið lögð áherzla á framleiðslu ýmissa vara til að draga
úr innflutningi, s.s. lyfja og hjólbarða og bílasamsetning er mikilvægur
iðnaður. Útflutningur
matvæla fer vaxandi til nágrannalandanna, s.s. niðursoðið kjöt og
ávaxtasafi. Handverk er
mikið stundað, s.s. ullarvefnaður og ullarfatnaður, tréskurður,
strávefnaður, leirmunagerð, leðurvara, útskornar hnetur (tagua) og
gerð panamahatta. Vefnaðariðnaðurinn
og fullvinnsla landbúnaðarafurða eru arðvænlegar atvinnugreinar, þegar
til langs tíma er litið.
Viðskipti.
Seðlabandi landsins og Þróunarbankinn eru báðir ríkisreknir
og eiga útibú í öllum héraðshöfuðborgum.
Einkareknir viðskiptabankar eru bæði innlendir og erlendir.
Helztu útflutningsvörur landsins eru hráolía og olíuvörur,
rækjur, bananar, kaffi og kakó. Mestur
hluti þessara vara er seldur til BNA, Þýzkalands, Singapúr, Panama
og Perú. Helztu innflutningsvörur eru vélbúnaður, ýmis hráefni,
farartæki, neyzluvörur, matvæli og efnavörur.
Mest er flutt inn frá BNA, Japan, Venesúela, Þýzkalandi,
Brasilíu og Mexíkó.
Samgöngur.
Hestar og múldýr voru notuð til flutninga á erfiðum leiðum
öldum saman og kanóar með ströndum fram og á Amasónsvæðinu.
Lagning og þróun járnbrauta var mjög erfið og samgöngur á
sporunum milli Quito og Guayaquil með hliðarspori til Cuenca eru mjög
hægar og truflast oft vegna flóða, skriðna og jarðskjálfta.
Ekki er ástandið betra á sporinu milli Quito og San Lorenzo um
Ibarra. Gjörbylting varð
í samgöngum í landinu, þegar Pan-American-hraðbrautin var malbikuð.
Hún er aðalþjóðbraut landsins og liggur um hálendið milli
landamæra Kólumbíu og Perú. Þessari
hraðbraut tengjast æ fleiri vegir með slitlagi til allra átta.
Enn þá liggja malarvegir til margra þorpa og þeir eru oftast
ófærir á regntímanum. Vegirnir
um Andesfjöllin eru líka annars flokks og erfiðið yfirferðar.
Óttast er, að frekari vegabætur leiði til eyðingar skóga og
dragi úr möguleikum einangraðra ættbálka indíána til að lifa sínu
lífi. Þessi sjónarmið
hafa ekki dregið úr framkvæmdum en þær hafa verið hægfara vegna
mikils kostnaðar.
Flutningur
vöru á markaði fer fram á vörubílum, í rútum eða á baki múldýra
eða gangandi kvenna eða á hjólbörum.
Mörg rútufyrirtæki bjóða ódýrar, tíðar og langar áætlunarferðir.
Samgöngur
í lofti hafa aukizt innanlands. Ríkisflugfélagið
Companía Ecuatoriana de Aviación sér um mestan hluta þessara
samgangna en erlend flugfélög fljúga líka til Guayaquil og Quito.
Smærri flugfélög annast samgöngur á sínum svæðum og til
Oriente.
Guayaquil
er aðalhafnarborg landsins. Þar
er nútímahöfn í Puerto Nuevo. Aðrar
mikilvægar hafnarborgir eru San Lorenzo, Esmeraldas, Manta og Puerto
Bolívar. Margar ár,
einkum í Guayas-lægðinni, eru notaðar til samgangna og flutninga. |