Saga
þessa heimshluta er mun lengri en frá landnámi Evrópumanna.
Þar hafa fundizt leirmunir og styttur allt frá 3000-2500 f.Kr.
Landið var að hluta framlína landnámsins, þar sem gætti áhrifa
frá Kólumbíu, Perú og Mexíkó.
Sumir álíta að eitthvert samband hafi verið á milli þess og
Japan. Þessi heimhluti var
engu að síður sérstakt menningarsvæði margra tungumálahópa, þ.m.t.
cara á hálendinu.
Í
kringum 1400 voru þar nokkur stríðandi ríki.
Snemma á 15. öld fór cara-þjóðin að breiða úr sér í
norður- og miðfjöllunum. Nokkurn
veginn samtímis fóru Shyri-höfðingjaættin á norðurströnd Perú
og hið vaxandi ríki inka að auka áhrif sín á Ekvadorsvæðinu.
Inkarnir,
undir forystu Topa Inca Yupanqui (við völd 1471-93), náðu Ekvador
undir sig og Huayna Capac (1493-1525) jók enn við ríki þeirra.
Hann bjó í Tomebamba í Ekvador síðari hluta ævinnar.
Menningaráhrif inka voru svæðisbundin.
Þeir kröfðust þess, að tunga þeirra yrði tekin upp sem þjóðartunga
og þar sem veldi þeirra mætti mestri andstöðu, fluttu þeir þúsundir
manna brott. Augljóst er,
að víða áttu inkar stuðningsmenn meðal indíánaþjóðflokka
Ekvador. Huayna Capac
skipti ríkinu milli löglegs erfingja sins, Huascar (Cuzco) og sonar,
sem hann átti með ekvadorískri cara-prinsessu, Atahuallpa.
Þessi ráðstöfun leiddi til deilna og Atahuallpa náði
yfirhendinni eftir stórorrustu við Riobamba 1532 um svipað leyti og
leiðangur Francisco Pizarro kom að ströndum landsins.
Atahuallpa var drepinn árið eftir, þegar landvinningar Spánverja
jukust. Víða í landinu höfðu
inkar aðeins ríkt í hálfa öld og mörg smáríkjanna í Ekvador
voru enn þá við lýði. Íbúar
þeirra og annarra ríkja, sem inkar höfðu kúgað, fögnuðu herjum
Sebastian de Belalcázar sem frelsurum, þegar þeir réðust inn í
landið frá Perú 1534. Annars
staðar mættu Spánverjar mikilli mótspyrnu og erfiðastur var
Ruminahui, sem þeir tóku höndum og drápu í Quito.
Nýlendutíminn.
Uppi í Andesfjöllum stofnuðu Spánverjar stóra búgarða, þar
sem indíánar unnu í þegnskylduvinnu.
Fólkið bjó í hálfsjálfstæðum indíánaþorpum eða í spænskum
og mestizo-samfélögum (Quito, Ambato og Cuenca).
Á ströndinni voru mun færri indíánar til að vinna verkin og
búseta þar var mjög óheilsusamleg þar til nútímalyf komu til.
Því var þessi landshluti vanræktur á nýlendutímanum, þótt
nokkuð væri um skipasmíðar og útflutning kakós frá höfninni í
Guayaquil. Litlu, blönduðu
samfélögin á ströndinni, sem höfðu gnægð lands en færri hendur
til verka, þróuðu með sér gjörólíka menningu miðað við
fjallafólkið.
Í
austurhlíðum Andesfjalla, niður að Amasónsvæðinu (Oriente) komu
indíánar og hitabeltisloftslagið í veg fyrir landnám og einu Spánverjarnir,
sem settust þar að, voru trúboðar. Síðarmeir olli þessi eyða í landnáminu miklum vandræðum.
Galápagoseyjar
voru lítið annað er sjóræningjahreiður á nýlendutímanum en á
19. öld urðu þær heimskunnar vegna uppgötvana Charles Darwin og
kenninga hans um uppruna tegundanna.
Íbúar
Quito státa sig af fyrstu tilraun Ekvadormanna til uppreisnar gegn Spánverjum
árið 1809. Herir Simón
Bolívar og José de Sucre réðust inn í landið frá Kólumbíu 1822
til aðstoðar uppreisnarmönnum og tryggðu sjálfstæði landsins með
því að sigra Spánverja í orrustu í fjallahlíðunum nærri Quito
24. maí.
1830-1925.
Fyrstu skref ekvadorísku þjóðarinnar voru hreinasta píslarganga.
Fyrstu átta árin voru í ríkjasambandinu Stóra-Kólumbía með
Venesúela og Kólumbíu. Árið
1830, eftir langvarandi samkeppni milli landsvæðanna, dró Ekvador sig
út úr sambandinu og varð að sjálfstæðu lýðveldi.
Aukinn
ágreiningur og ólík hugmyndafræði milli Íbúanna í Andesfjöllum
og á ströndinni var aðallega tengt aðalborgunum tveimur, Quito á hálendinu
og Guayaquil, aðalhafnarborgarinnar.
Quito var bústaður gömlu, spænsku aðalsættanna, sem byggðu
veldi sitt á nýlendutímanum á stórum búgörðum.
Þar var og er enn þá að mörgu leyti meiri íhaldsemi og
klerkaveldi. Guayaquil var
orðin mikil athafnaborg á 19. öld og alþjóðahöfn, sem nokkrir auðugir
kaupmenn stjórnuðu. Þeir
og aðrir borgarbúar voru frjálslyndir og áhugi þeirra á viðskiptum
gerði þá opna fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og stækkunar
markaða og sumir þeirra voru jafnvel andsnúnir klerkaveldinu.
Borgaraleg hugsun þeirra var alger andstaða viðhorfa hálendisaðalsins.
Þessi ágreiningur stafaði aðallega af hinu ólíka eðli
borganna. Íbúum
Guayaquil, sem voru fjárhagsleg undirstaða þjóðarinnar (iðnaður
og verzlun), fannst embættismenn í Quito fara illa með skattpeninga sína.
Íbúum Quito fannst að sér þrengt með því að þurfa að sæta
afarkostum milliliðanna í Guayaquil, sem lögðu verulega á verð útflutningsvaranna
frá hálendinu og rýra samkeppnishæfni sína á heimsmarkaðnum.
Metnaðarfullir
hershöfðingjar og stjórnmálamenn hafa löngum kynt undir þessum ágreiningi.
Á árunum 1830-45 tókust Juan José Flores og Vicente
Rocafuerte á um völdin. Flores
fékk mestan stuðning í Quito en Rocafuerte í Guayaquil.
Árekstarnir milli þeirra voru ekki stöðugir og um nokkurra ára
skeið urðu þeir ásáttir um að skipta forsetaembættinu milli sín.
Þeir voru ekki algerir eiginhagsmunaseggir. Rocafuerte hafði skilning á ríkisstjórn og gerði margt
til bóta í menntastofnunum aðalborgunum.
Báðir voru þó forhertir í valdabaráttunni og stundum bauð
Flores Spánverjum að koma aftur.
Á
árunum 1845-60 ríkti ringulreið í landinu.
Leiðtogarnir voru veikir, venjulega sjálfkrýndir frjálslyndismenn.
Þetta tímabil efldi tengslin, sem voru þó ærin fyrir, milli
hersins og ríkisstjórna.
García
Moreno 1860-75.
Næstu 15 árin fór fram sérkennilegasta einveldistilraun Suður-Ameríkuríkis
í forsetatíð García Moreno. Ungur
að árum varð hann vitni að ringulreiðinni í landinu og
eiginhagsmunapotinu í öllum hornum.
Hann varð líka vitni að byltingunni í Evrópu 1848 og fékk
viðbjóð á frjálshyggju og taumlausu ofbeldi.
Rækileg skoðun hans á evrópskum samfélögum leiddi til þeirrar
niðurstöðu, að ung þjóð yrði að eiga sér sameiningartákn.
Í hans heimahögum skorti sameiginlegar hefðir, hrepparígurinn
blómstraði og stéttaskiptingin var mikil og skörp.
Þjóðin hafði ekki einu sinni sameiginlegt tungumál.
García Moreno ályktaði, að trúin væri eina sameiningarleiðin
í gegnum katólsku kirkjuna. Hann
taldi, að þjóðernishyggjan kæmi síðar og samheldnin ykist við
hana, en fram að því, yrði þjóðin að búa við frið og styrka
stjórn. Þegar hann varð
forseti, byggði hann stjórn sína aðallega á tveimur stoðum, annars
vegar styrkri, persónulegri stjórn og katólsku kirkjunni.
Öll menntun og velferðarmál og talsverður hluti stefnumótunar
stjórnarinnar var falin klerkaveldinu og strangt var tekið á öðrum
trúarhópum. Öll andstaða
var miskunnarlaust barin niður og margir frjálslyndir leiðtogar voru
árum saman í útlegð.
Þetta
tímabil var fyrsta framfaraskeið þjóðarinnar, þótt margar aðgerðir
stjórnar García Moreno væru afturhaldssamar.
Vegir, skólar og sjúkrahús voru byggð og hafizt var handa um
lagningu járnbrautar milli Quito og Guayaquil.
García hvatti til ræktunar tröllatrjáa frá Ástralíu til að
koma í veg fyrir landeyðingu og uppblástur í fjöllunum, þar sem bláfátækir
indíánar höfðu höggvið skógana í brenni.
Fleiri umbætur juku landbúnaðarframleiðsluna smám saman. Í lok valdatíma Carcía var vöknuð sterk þjóðernistilfinning
í hjörtum íbúa borga landsins.
Á
19. öldinni virtist þessi einræðisstefna og klerkastjórn vera tímaskekkja
og frjálslyndum óx fiskur um hrygg, bæði heima og erlendis.
Þegar García var myrtur á tröppum stjórnarráðshallarinnar
1875, lýsti hinn útlægi, frjálslyndi menntamaður Juan Montalvo því
yfir, að penni hans hafi drepið García.
Frjálsræðisandi
(1875-97).
Dauða García fylgdi næstum algert stjórnleysi.
Íhaldsmenn og frjálslyndir tókust á um völdin.
Ekvador hafði skipað sér sess á heimsmarkaðnum, þannig að
mikilvægi strandhéraðanna jókst.
Frjálslyndir á þeim slóðum fengu þannig æ meiri yfirráð
yfir efnahagslífi landsins.
Ný
þjóðhetja spratt upp úr eymd fátæktarinnar sem málsvari íbúa
strandhéraðanna gegn íhaldssemi og klerkaveldinu á hálendinu.
Þetta var hershöfðinginn Eloy Alfaro, sem leiddi her sinn gegn
hálendisöflunum árið 1895, og ári síðar varð hann forseti samkvæmt
stjórnarskrá landsins. Hann
var forseti í tvö kjörtímabil, 1997-1901 og 1906-11.
Hann braut að mestu niður stjórnkerfi García.
Frjálslyndir fluttu menntunina smám saman frá kirkjunni, komu
á borgaralegu hjónabandi og útförum, lögbundu trúfrelsi, heimiluðu
skilnaði og drógu úr ritskoðun.
Tíundin var afnumin og margar stórar kirkjueignir voru þjóðnýttar
og sumar þeirra lentu í höndum leiðtoga frjálslyndra.
Þrátt
fyrir opinbera stefnu frjálslyndra, fóru þeir víða troðnar slóðir
fyrri tíma. Þeir héldu
áfram uppbyggingu vega- og járnbrautakerfanna. Quito-Guayaquil-járnbrautin var tilbúin 1908 á öðru kjörtímabili
Alfaro. Stjórnin var einræðisleg.
Alfaro var jafníhaldssamur, harðskeyttur og miskunnarlaus og
forverar hans Valdahlutföllin
milli hálendisins og strandhéraðanna voru óbreytt og umskiptin ollu
litlum breytingum til batnaðar fyrir fátæka indíána og smábændur.
Alfaro
sigldi sömu leið til glötunar og forverar hans, þegar hann reyndi að
tryggja sig í sessi til frambúðar.
Samstarf íhaldsmanna og öfgafullra frjálslyndra varð til þess,
að hann og klíka hans yfirgáfu landið í ágúst 1911.
Skömmu síðar dó forseti landsins og Alfaro snéri aftur og
reyndi að afla sér fyrri stuðnings.
Leiðtogar frjálslyndra höfnuðu honum og eftir nokkra bardaga
var hann handtekinn í Guayaquil. Hann og liðsforingjar hans voru sendir í fangelsi í Quito,
sem García Moreno hafði látið byggja.
Hinn 28. janúar 1928 réðist skríllinn inn í fangelsið, drap
fangana og brenndi líkin eftir að hafa dregið þau um götur
borgarinnar.
Vandamál
20. aldar.
Frjálslyndir héldu völdum en hið raunverulaga vald var enn
þá í höndum auðugra kaupmanna og fjármálaklíkunnar í Guayaquil.
Í fyrri heimsstyrjöldinni og skammvinnu blómaskeiði eftirstríðsáranna
jók þessi hópur áhrif sín og keypti mikið af eignum á ströndinni
til að ná yfirráðum í landbúnaðnum.
Kakó var aðalútflutningavara þessara héraða eins og á nýlendutímanum,
en sykur og hrísgrjón urðu æ mikilvægari.
Snemma
á þriðja áratugnum reið efnahagslægð yfir. Verðlag matvæla hækkaði og almennt dró úr útflutningi.
Gjaldmiðillinn, sucre, féll hratt og samtímis sýktust kakóplantekrurnar
vegna sveppa (nornasópur) og mikið dró úr framleiðslu.
Þessar hörmungar ollu mikilli óánægju í borgunum, stofnun
verkalýðsfélaga í Guayaquil, uppþotum og fjöldamorðum hersins.
Hundruð létu lífið í uppþotunum og féllu fyrir skotum
leyniskyttna í nóvember 1922.
Árið
1925 greip herinn inn í atburðarásina og lýsti því yfir, að hann
hygðist endurreisa þjóðareiningu og ásakaði kaup- og fjármálamennina
í Guayaquil fyrir ástandið. Líkt
og í öðrum suðuramerískum byltingum, færði þessi landsmönnum
engar umbætur.
Nútímasagan.
Tímabilið milli 1925 og 1948 var hið órólegasta í sögu
landsins. Aukin þátttaka
á heimsmarkaði og í heimsstjórnmálum olli því, að þjóðin átti
enga undankomuleið frá árekstrum, sem ýmiss konar hugmyndafræði í
heiminum olli. Sundurlyndi
innanlands kom engu að síður í veg fyrir nútímavæðingu,
skiptingu ræktarlands, framfarir í menntun, fjarskiptum og samgöngum.
Þetta gerði landið illa í stakk búið til að mæta kröfum
tímans.
Efnahagsþróun
og eftirgjöf lands á fimmta áratugnum. Landið flæktist í síðari heimsstyrjöldina áður en
efnahagskreppunni lauk. Stjórnin
skipaði sér í flokk bandamanna og leyfði byggingu herstöðvar
Bandaríkjamanna en tók að öðru leyti lítinn þátt í stríðinu.
Á valdatíma Carlos Arroyo del Río fékkst hátt verð fyrir hráefnin,
sem voru flutt úr landi vegna styrjaldarinnar, þannig að fyrstu ár
hennar voru hagsæl og tiltölulega róleg.
Síðari
heimsstyrjöldin hafði alvarleg, óbein áhrif á þjóðina.
Vegna mikils fjárskorts og lítils íbúafjölda, hafði engin
áherzla verið lögð á landnám Amasónsvæðisins.
Eftir marga, diplómatíska fundi og ítrekaðar landamæraskærur
réðist her Perú inn í landið og lagði undir sig mestan hluta svæðisins,
sem deilt var um, og lagði El Oro-hérað í rústir.
Illa vopnaður og vanþjálfaður her Ekvador stóðst her Perú
engan veginn sunning og Arroyo del Río var velt úr sessi.
Bandaríkjamenn og önnur stórveldi voru of upptekin í
heimsstyrjöldinni til að skipta sér af svona smáátökum og vildu
ekki valda truflun á streymi nauðsynlegra hráefna til stríðsins.
Á friðarráðstefnu í Río de Janeiro árið 1942 neyddis
Ekvador að láta af hendi mestan hluta lands á Amasónsvæðinu.
Síðar afneitaði stjórn Ekvador gildi þessa samnings vegna þrýstings,
sem hún var beitt í Río og lýsti nýju landamærin ógild.
Lýðskrumarar og öfgafullir þjóðernissinnar nýttu sér þessar
aðstæður til að beina athygli þjóðarinnar frá alvarlegum vandamálum
innanlands.
Velasco
Ibarra.
Mikilla mótsagna gætti í stjórnmálum og stjórn landsins kjölfar
síðari heimsstyrjaldarinnar. Landsmenn nutu langvarandi, lýðræðislegrar stjórnar og
tiltölulega frjálsra kosninga eftir að frjálslyndi leiðtoginn Galo
Plaza (1948-52) tók við forsetaembættinu.
Tvær herstjórnir tóku við inn á milli (1963-66 og 1972-79)
en tímabilið einkenndist af einum bezta leiðtoga Suður-Ameríku, José
María Vesasco Ibarra (†1979). Hann
varð fimm sinnum forseti landsins en lauk aðeins einu heilu kjörtímabili. Hann var svo vinsæll meðal fólksins, að hann virtist geta
sigrað í öllum kosningum en valdatími hans einkenndist af
skyndilegum stefnubreytingum, mótsagnakenndum efnahagsáætlunum, reiðiköstum,
tímabundnum skerðingum á frelsi almennings og íhlutun hersins. Margir gagnrýnendur sögðu, að hann fengi stuðning frá hópum
kommúnista og aðrir sögðu, að hann væri strengjabrúða voldugra
kaupmanna í Guayaquil. Hvert
sem sannleiksgildi þessara fullyrðinga var, gátu engir þrýstihópar
stjórnað hinum óútreiknanlega Velasco lengi.
Tilvera
Velasco Ibarra kann að hafa komið í veg fyrir þróun samstæðra stjórnmálaflokka
og áætlanir um breytingar á fornfálegu samfélagi og uppbyggingu
efnahagslífsins. Skírskotanir
hans lágu þvert á alla pólitík og hugmyndafræði.
Hefðbundnir flokkar, Frjálslyndir og Íhaldsmenn, féllu í
stafi fyrir óvæntum árásum hans og nýir flokkar, Sósíalistaflokkur
Ekvador og Kristilegi sósíalistaflokkurinn, misstu allan mátt.
Andstæðingar Ibarra héldu því fram, að hann gerði allar
efnahagsframfarir ómögulegar vegna þess, að hann snéri alltaf við
framfaraviðleitni fyrri stjórna, þegar hann tók við völdum inn á
milli.
Síðari
hluti 20. aldar.
Eftir að Velasco Ibarra hvar endanlega frá völdum 1972 tók við
sjö ára herstjórn, sem afhenti löglega kjörinni stjórn völdin 16.
júlí 1979. Borgaralegar
stjórnir og herstjórnir áttunda áratugarins voru ekki í stakk búnar
til að stjórna olíugróðanum á þessu tímabili.
Miðstéttirnar nutu mest góðs af honum.
Miklum peningum var veitt til vegagerðar, hafnargerðar,
lagningar olíuleiðsna og annarrar uppbyggingar innanlands, sem olli
mikilli verðbólgu. Engar
breytingar á undirstöðu þjóðfélagsins áttu sér stað og hinir fátæku
liðu fyrir verðbólguna.
Dauði
Ibarra og brotthvarf herforingjastjórnarinnar gerði þjóðinni kleift
að snúa sér að lýðræðislegum stjórnháttum og nýrri stjórnarskrá
1979. Jaime Roldós
Aguilera, undur sósíaldemókrati, var kosinn forseti.
Hann lofaði meira jafnræði í þjóðfélaginu og jafnari
dreifingu olíuauðsins en hann var ófær um að stýra löggjafanum og
lenti fljótlega upp á kant við eigin flokk.
Vinsældir hans jukust eftir landamærasklrur við Perú 1981 en
hann lézt í flugslysi síðar sama ár.
Eftirmaður hans var Osvaldo Hurtado Larrea úr Kristilega demókrataflokknum.
Efnahagnum hnignaði við lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu
og verðbólgan magnaðist og gengisfellingar urðu að daglegu brauði. León Febres Cordero, þingmaður frá Guayaquil, var kosinn
forseti 1984. Hann var
hlynntur hinur frjálsa markaðskerfi og Bandaríkjamönnum og treysti böndin
við þá í tíð Ronald Reagan, en var aldrei vinsæll forseti.
Oliuverðið hélt áfram að lækka og erfitt samneyti hans við
þingið og herinn leiddi til þess, að hann var oft beðinn um að
segja af sér og eitt sinn rændu liðsforingjar í flughernum honum í
hálfan dag, þar til hann lofaði að sleppa einum foringja þeirra.
Í marz 1987 hætti stjórn hans að greiða vaxti af 8,3 miljarðar
dollara erlendum skuldum.
Rodrigo
Borja Cevallos, vinstriandstæðingur León Febres, var kosinn forseti
í maí 1988, en hann virtist ekki hafa mörg ráð í pokahorninu til að
koma efnahagnum á réttan kjöl.
Aðalverkefni
Ekvadormanna nú er að koma skikk á efnahagsmálin.
Flestir íbúar landsins búa enn þá í strjálbýlinu, þótt
borgirnar stækki stöðugt og hratt.
Fæðingatíðni er fremur há, ólæsi er mikið, vannæring er
mikið vandamál og barnadauði er allt of hár.
Margir íbúanna, einkum á Andessvæðinu, halda dauðahaldi í
fornar hefðir og siði og taka lítinn eða engan þátt í efnahagslífinu.
Þetta fólk tekur engan þátt í stjórnmálalífinu og hefur
því ekki samlagast þjóðfélaginu.
Bilið milli ríkra og fátækra er gríðarlega stórt.
Stórir búgarðar byggjast á vinnu indíána eða verkamönnum.
Áætlanir um skiptingu landsins hafa aldrei komið til framkvæmda. Staða landsins á heimsmarkaðnumer volt og litlar
breytingar hafa orðið á efnahagsgrundvellinum, óstöðugir markaðir
fyrir olíu og banana. |