Þróun lýðræðisins í landinu hefur verið
einstæð meðal latnesk-amerískra þjóða hvað hraða, áfanga og
tímasetningu efnahagsbata og fólksfjölgunar
snertir. Tuttugasta öldin
var tímaskeið þróunar frá fátæku bændasamfélagi í hraðvaxandi
borgarþjóðfélag, sem nýting olíuauðlinda landsins olli.
Þessar breytingar höfðu í för með sér efnahagsvandamál og
svæðisbundinn ójöfnuð, sem olli pólitískum deilum um stefnuna
fyrir heildina. Ríkisstjórnin
stendur frammi fyrir miklum flutningum fólks úr dreifbýlinu til
borganna og miklu aðstreymi ólöglegra innflytjenda frá nágrannalöndunum.
Venesúela
byggði afkomu sína aðallega á útflutningi matvæla en verður nú að
flytja inn matvæli og neyzluvörur til að anna nýjum kröfum
og þörfum
sístækkandi markaða í borgum landsins. Olíupeningarnir streymdu inn í landið og lántökur
erlendis voru stjórnlausar. Erlendar
skuldir ollu vandræðum og ekki batnaði ástandið í olíukrísunni
á áttunda og níunda áratugnum.
Landsmenn hafa ekki farið varhluta af ofstjórnunartilhneigingum
stjórnvalda og spillingu í stjórnkerfinu, sem er reyndar litið á
sem sjálfsagðan hluti í Latnesku-Ameríku.
Engu að síður hefur lýðræðið í landinu og stjórnmálaástandið
verið í allgóðu jafnvægi frá því á sjötta áratugnum. |