Mikilvægasti
þátturinn í efnahagslífi landsins er nýting olíulinda og
framleiðsla benzíns. Venesúela
var mesta útflutningsland benzíns til 1970.
Hluti afrakstrar útflutnings olíuvara hefur verið nýttur til
nútímavæðingar aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Þessar aðgerðir hafa m.a. leitt til uppgötvunar mikilla birgða járns, nickels, kola og báxíts
í jörðu og nýtingar vatnsorku til rafmagnsframleiðslu.
Á
sjöunda áratugi 20. aldar var komið á verndartollum og niðurgreiðslum til
að efla iðnaðinn innanlands. Þetta
leiddi til aukins útflutnings og um miðjan áttunda áratuginn var olíuiðnaðurinn
þjóðnýttur til eflingar efnahags landsins.
Olíugróðinn minnkaði verulega síðla á áttunda áratugnum
vegna offramboðs á markaðnum og í kreppunni á árunum 1980-83.
Mikil verðbólga, óstjórn, spilling og skortur á faglærðu fólki
ollu líka efnahagsörðugleikum. Erlendar
skuldir hlóðust upp, atvinnuleysi jókst og ólöglegum innflytjendum
fjölgaði. Þrátt fyrir
þessa erfiðleika, urðu nokkrar framfarir.
Fjárfestingar í landbúnaði juku framleiðni, leiddu af sér
fjölbreyttari iðnað tengdan landbúnaði og flýttu fyrir nýtingu náttúruauðlinda
landsins. Samtímis þessum
framförum voru borgirnar CiudadGuayana og El Tablazo skipulagðar og
stofnaðar.
Auðlindir.
Stærstu olíulindir landsins eru á Maracaibo-láglendinu.
Einnig eru lindir í austurhluta Llanos, óshólmum Orinoco-árinnar
og úti fyrir ströndinni. Áður
en olíuvinnslan var þjóðnýtt 1976 var hún að mestu (80%) undir
stjórn nokkurra alþjóðlegra fyrirtækja.
Olíuhreinsun fór að mestu fram á eyjunum Aruba, Curacao og
öðrum Karíbaeyjum. Eftir
þjóðnýtinguna sá Petróleos de Venezuela S.A. um reksturinn en var
mjög háð erlendum olíufyrirtækjum um hreinsun, flutning og markaðssetningu
fyrir afurðirnar og náttúrugas og tækniaðstoð.
Miklar gasbirgðir fundust í jörðu norðan Paria-skagans og
mikil áherzla hefur verið lögð á nýtingu þeirra.
Flest
önnur náttúruauðæfi landins eru vannýtt, s.s. járn.
U.S. Steel og Bethlehem Steel gerðu samning við venesúelska ríkið
árið 1950 til 50 ára um námugröft og vinnslu járns úr námum í
Bolívar-fjalli og við El Pao. Árið
1975 var þessi rekstur þjóðnýttur og ríkið tók við rekstrinum.
Á
miðjum áttunda áratugnum fundust birgðir báxíts á Guiana-hálendinu.
Þetta hráefni var mjög hreint og tilvalið til framleiðslu áls
á Ciudad Guyana-svæðinu. Gull
og demantar finnast einnig í jörðu á Guuana-hálendinu, kol norðvestan
Maracaibo-vatns, salt á Araya-skaganum og dreifðar birgðir kalksteins
til iðnaðar. Meðal
annarra auðæfa í jörðu er nickel, fosfat, kopar, sink, blý, títaníum,
og magnesíum. Rannsóknir
hafa leitt í ljós talsverðar birgðir af úraníum og þóríum. Fiskistofnar í landhelginni og skógar landsins eru einnig
vannýttar auðlindir. Næststærsta
orkulind landsins eru fallvötnin.
Mestu vatnsorkuna er hægt að virkja í Caroní-ánni, sem er
ein þveráa Orinoco. Santo
Domingo-áin, einnig þverá Orinoco, sem á upptök í Mérida-fjallgarðinum
er næst í röðinni. Fjöldi annarra, styttri vatnsfalla úr Andesfjöllum býður
margar möguleika.
Landbúnaður
hefur frá fyrstu tíð verið vanræktasti hluti og veikasti hlekkur
efnahagslífsins. Hann er
stundaður á svæðum, sem eru minni en 5% heildarflatarmálsins.
Mestur hluti akuryrkjulandsins er í norðurfjöllunum.
Nautgriparækt er aðallega stunduð í Llanos og í minna mæli
á Maracaibo-láglendinu. Sunnan
Orinoco-árinnar er stundaður skiptibúskapur í skógunum.
Maís og hrísgrjón eru mikilvægar fæðuafurðir.
Stórir
búgarðar (fincas comerzializados), oftast stærri en 20 hektarar, nota
verkamenn, nokkurn vélbúnað, tilbúinn áburð og skordýraeitur.
Þessi búskapur hefur notið stuðnings ríkisins við lánastarfsemi
og hærra markaðsverðs innanlands og utan.
Þeir framleiða sykurreyr, baðmull og hrísgrjón.
Fjölskyldubú (conuco) eru langoftast á litlu leigulandi og
framleiða matvæli, s.s. maís og baunir, fyrir staðbundna markaði og
kaffi og/eða kakó fyrir þéttbýlið og til útflutnings.
Mikilvægasta landbúnaðarafurðin til útflutnings er kaffi.
Fjöldi fjölskyldubúa hefur bundizt samtökum og nota innflutt
vinnuafl frá Kólumbíu. Þriðja
gerðin af búskap er stórbúskapur með nautgripi (fincas granderas)
á landareignum í Llanos, sem eru a.m.k. 1200 hektarar að stærð.
Þær eru að mestu nýttar til beitar.
Þar er nautgripunum smalað árlega og þeir seldir á mörkuðum
(rodeos).
Áætlunum
um skiptingu lands var hrundið í framkvæmd síðla á sjötta áratugnum
til að bæta vinnubrögð í landbúnaðnum og koma honum upp úr stöðnuninni.
Þá gætti enn þá áhrifa frá nýlendutímanum, þegar 2%
landeigenda réði 80% lands og þrautpíndu leiguliða sína.
Flestir verkamanna á landsbyggðinni fengu ekki nægilega stórar
spildur fyrir sig til að framfleyta sér og sínum.
Einhverjar umbætur voru gerðar á svæðum við rætur
Andesfjalla og rúmlega hálf miljón fjölskyldna hafa fengið
einhverja úrlausn. Landbúnaðurinn
á enn þá á brattann að sækja eftir margra alda vanrækslu og smæðar
svæða, sem hann er stundaður á.
Almennt hefur framleiðni verið að aukast en enn þá þarf að
flytja inn ýmiss konar matvörur.
Fiskur
hefur aldrei verið eftirsótt matvara í landinu og fiskistofnar í
ferskvatni og sjó hafa verið vannýttir.
Á sjöunda áratugnum hóf ríkið aðgerðir til að þróa
fiskiðnaðinn og reka áróður fyrir aukinni fiskneyzlu, einkum meðal
hinna lægst launuðu. Mest
hefur veiðzt af ansjóvíu. Mestur
hluti sjávaraflans er seldur ferskur á heimamarkaði en hluti er
fluttur úr landi, einkum rækja. Skógarhögg
og timburvinnsla hefur þróazt hægt, þótt rúmlega 35% landsins séu
vaxin skógi. Aðalástæðan
er afskekkt lega skógarsvæðanna og samgönguleysi en einnig hafa lög
um náttúruvernd dregið úr fjárfestingu á þessu sviði.
Iðnaður.
Framleiðsluiðnaður landsins byggðist næstum eingöngu á
landbúnaðarafurðum fram yfir miðja 20. öldina.
Gríðarmiklar tekjur af olíu og lágir tollar ollu geyismiklum
innflutningi alls konar óþarfa. Á
sjöunda áratugnum varð stefnubreyting og ríkið studdi iðnvæðingu
á ýmsum nýjum sviðum. Grundvöllur
iðnaðarins byggist á miklum olíubirgðum, náttúrugasi og raforku,
ýmiss konar hráefnum, talsverðu rekstrarfjármagni innanlands og tiltölulega
mikilli kaupgetu almennings. Uppbygging
neyzluvöruiðnaðar og málmvinnslu tókst með verndartollum og takmörkunuðum
innflutningi. Olíutekjur ríkisins
jukust verulega, þegar olíuverð hækkaði á árunum 1973-74 og fjármagni
var veitt til nýtingar annarra hráefna (járn, stál, ál, samgöngutæki,
olíuvara, málmsteypa). Þegar
olíuverð lækkaði á ný, dró úr þessari þróun.
Hægt
er að skipta iðnaði landsins í þrjá flokka: Olíuhreinsun og vinnsla, s.s. við Morón í grennd við
Puerto Cabello og við El Tablazo við Maracaibo-vatn í Zulia-héraði.
Neyzluvöruiðnað, aðallega á Valencia-Maracay-Caracas-svæðunum
og samhliða uppbyggingu í Barzuisimeto.
Áherzla er lögð á framleiðslu vörutegunda, sem ella þyrfti
að flytja inn, s.s. vefnaðarvöru, leður, pappír, hjólbarða, tóbak,
útvarps- og sjónvarpstæki og þvottavélar. Verksmiðjur,sem setja saman bíla, standa traustum fótum en
framþróun þeirra hefur tekizt illa vegna óhagstæðra samninga við
alþjóðlegar bílaverksmiðjur og mikils kostnaðar við nútímavæðingu
þeirra. Þungaiðnaður er
í þróun og uppbygggingu við Ciudad Guayana á Orinoco-Caroní-svæðinu.
Mikill stáliðnaður við Matanzas í grennd við Puerto Ordaz nýtist
innanlandsmarkaðnum og vaxandi útflutningi.
Álframleiðslan óx úr engu snemma á 9. áratugnum og nú er
Venesúela meðal mestu álframleiðsluríkja heims.
Nú er mikið framleitt af hágæðaáli við mun lægri kostnað
en annars staðar í heiminum.
Viðskipti.
Ríkið er lykilaðili á fjármálamarkaði landsins.
Það stjórnar lánveitingum til langs tíma til að
fyrirbyggja, að lántakendur verði háðir erlendum lánardrottnum, og
það beinir olíugróðanum til arðbærra þátta í efnahagslífinu.
Seðlabankinn gegnir hefðbundnu hlutverki, annast seðlaútgáfu,
framboð gjaldmiðilsins og veitir viðskiptabönkunum lán.
Lög um bankastarfsemi og fjármálamarkað voru gefin út á áttunda
áratugnum til að stýra flæði peninga til uppbyggingar innanlands.
Á níunda áratugnum varð ríkið að þjóðnýta nokkra leiðandi
einkabanka. Vaxandi viðskiptahalla
gætti í landinu auk annarra vandamála á fjármálamarkaðnum. Gripið var til margra gengislækkana og annarra efnahagsaðgerða.
Fjármálaleg staða landsins byggist á sveiflukenndu verðlagi
á heimsmarkaði og stefnu OPEC-landa.
Venesúela var meðal stofnaðila OPEC, sem undirrituðu samning
árið 1960, sem leiddi til stofnunar samtakanna.
Rúmlega 400% hækkun samtakanna á olíuverði á árunum
1973-74 jók olíugróða landsins úr 2 miljörðum US$ 1972 í 14,5
miljarða 1983. Þetta gífurlega
fjármagn jók áhrif Venesúela meðal latnesk-amerískra landa.
Hagkvæmir samningar voru gerðir við nágrannalöndin um sölu
olíu og gas á föstu verði. Venesúela hefur einnig fjármagnað alþjóðleg stórfyrirtæki,
sem stunda banana- og kaffiframleiðslu og markaðssetningu vörunnar.
Venesúela er aðili að Fríverslunarsambandi latnesk-amerískra
ríkja (IAFTA) og landið gerðist aðili að Andes-samkomulaginu 1973.
Þrátt
fyrir lækkun olíuverðs og uppbyggingu annars iðnaðar í landinu, er
olían enn þá mikilvægasta útflutningsafurð landsins.
Landið er mjög háð Bandaríkjunum í viðskiptum, bæði út-
og innflutningi og erfitt hefur reynzt að beina þeim til annarra
landa. Viðskiptajöfnuður
landsins hefur oftast verið jákvæður.
Meðal annarra viðskiptalanda Venesúela eru Japan, Þýzkaland,
Frakkland, Ítalía, Brasilía, Kólumbía og Holland.
Samgöngur.
Samgöngukerfi landsins er velskipulagt, einkum í þéttbýlustu
landshlutunum norðan- og norðvestanlands.
Vegakerfið er mest notað til ferðalaga innanlands.
Iðnaðurinn notar að mestu skip til flutninga með ströndum
fram og um vatnaleiðir innanlands.
Flugleiðir eru notaðar til að komast til landshluta, sem eru
ótengdir vegakerfinu og vatnaleiðum.
Um
landið liggja þrír aðaþjóðvegir:
Hluti Pan-American-hraðbrautarinnar, sem liggur til suðvesturs
frá Caracas um Valencia og Barquisimeto til San Cristóbal og síðan
inn í Kólumbíu. Norðvestur-hraðbrautin,
sem liggur frá Vanencia til Coro og áfram til Maracaibo-vatns.
Llanos-hraðbrautin, sem liggur til austurs frá Caracas til
Barcelona, Cumaná og lengra. Í
Barcelona liggur vegur út frá henni yfir Llanos til Ciudad Bolívar.
Járnbrautir
til fólks- og vöruflutninga skipa tiltölulega veigalítinn sess í
samgöngukerfinu. Ein braut liggur til norðausturs frá Barquisimeto to Puerto
Cabello og þaðan til Caracas. Einkajárnbrautir
þjóna járn- og stálvinnslunni og tengja námurnar á Guiana-hálendinu
við Diudad Guayana.
Mestur
hluti inn- og útflutningsins fer um heimshöfin.
Sumar hafnanna eru alþjóðlegar og margar þjóna fiskiflota
landsins og strandsiglingum. Ríkið
rekur 8 hafnir, sem annast almenna vöruafgreiðslu.
Vatnaleiðir innanlands eru aðallega í kringum Maracaibo-vatnið
og um kerfi Orinoco-árinnar. Hafskip
geta siglt um skurð frá Venesúelaflóa upp í Maracaibo-vatn, til
Bobures og La Salina og einnig um skurð í gegnum óshólma Orinoco-árinnar
til Ciudad Guayana.
Millilandaflugfélög
nota alþjóðaflugvelli landsins til millilendinga.
Mesta umferðin er um Simón Bolívar-flugvöllinn, 17 km frá
Caracas. Um hann fer einnig
innanlandsflug. |