Rínardalurinn,
Flag of Germany

 

RÍN RÍNARFOSSAR . .

RÍNARDALURINN
.

.

Utanríkisrnt.

Rín er ein mikilvægasta samgönguæð Evrópu auk þess sem hún rennur um einhver fegurstu svæði álfunnar.  Upptök þessarar 1.320 km löngu móðu eru í svissnesku kantónunni Graubünden.  Hún streymir um Bodenvatn, myndar síðan Rínarfossana við Schaffhausen og tekur svo stefnu til Basel.  Þar tekur hún norðlæga stefnu og rennur um Rínarsléttuna.  Milli Mainz og Bingen stefnir hún í vestur og síðan í norðvestur um Rínargljúfrin í Hellufjöllum (Rheinische Schiefergebirge)  Á láglendinu kvíslast hún og hverfur í Norðursjó.

Rínarsléttan er jarðfall (sig), allt að 40 km breitt, sem takmarkast að austan af Svartaskógi, Kraichgau og Odenwald, en að vestan af Vogesafjöllum, Haardt og Norðurfalska fjalllendinu.  Framburður árinnar myndar mjög frjósöm ávaxta- og vínræktarsvæði, s.s. Markgreifaland, Ortenau, Þýzku vínleiðina og fjallaleiðina.

Siglingarleiðin um Rínargljúfrin er varasöm, þrátt fyrir ýmsar lagfæringar og siglingamerki.  Flúðir, straumkast og þrengsli eru enn þá fyrir hendi og stundum verða slys og óhöpp.  Nefna má Bingenþrengslin og Lóreleiklettinn, þar sem áin rennur hvað þrengst.  Meðfram Rínargljúfrunum eru margir riddarakastalar frá miðöldum.

Vatnsborð Rínar er jafnast allra þýzkra fljóta.  Það er sjaldgæft, að ónóg vatn sé til siglinga.  Það gerist helzt í september/oktober.  Hinar fjölmörgu þverár eru nægileg vatnsmiðlun.  Hin stærsta þeirra er Main, sem er skipgeng um skipaskurði.  Rín hefur verið tengd við Dóná um skurð, þannig að hægt er að sigla alla leið frá Norðursjó til Svartahafs.  Aðrar þverár Rínar eru m.a. Nahe, Lahn, Mosel og Neckar.

Síðustu áratugi hefur árvat mengast mjög í Þýzkalandi.  Fyrir nokkrum árum hófst baráttan gegn menguninni en enn þá (1994) er langt í land með að hreinsa ána.  Fiskur er að mestu horfinn úr aðalánum, m.a. lax úr Rín.  Fólki er ráðlagt að baða sig ekki í Rín.

Sjaldan er svo kalt, að Rín leggi, þótt jakaburður sé í ánni af og til.  Nokkuð víða eru flúðir í Rín, t.d. við Basel (250 m.y.s.), Mainz (80 m), Koblenz (60 m) og Emmerich (10 m).

Breidd Rínar er misjöfn.  Milli Mainz og Bingen er hún 400-800 m breið, Bingenþrengslin 250 m, milli Lórelei og St. Goar 90-150 m og við Köln 250 m.

Milli Bingen og St. Goar er hæðarmunur hvað mestur og siglingaleiðin hættulegust vegna þrenglsa og flúða.  Umferðaryfirvöld á ánni verða að sjá um leðjumokstur og sprengingar til að halda fljótinu skipgengu.  Stokkurinn, sem var sprengdur og siglt er um í Rínargljúfrunum, er rækilega leiðarmerktur með baujum, duflum, stöngum, ljósum, veifum, belgjum og þríhyrningum, bæði í ánni og uppi á landi.  Síðan 1831 eru allar merkingar alþjóðlegar.

Á bökkum Mið-Rínar eru bæði akvegir og járnbrautir.  Farþegaflutninga á ánni annast Köln-Düsseldorfer Deutsche Rheinschiffsfahrt AG., Frankenwerft 15, 5000 Köln 1, sími: 0221/20881.  Ferðir hefjast árlega um páska og standa yfir fram í miðjan október.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM