Prag
er á 50°05'N og 14°25'A í stórri lægð við Moldá. Hún er í u.þ.b. 180 m hæð yfir sjó en uppi á Hvítafjalli
nær hún 383 m hæð. Í
hinum sögulega miðhluta borgarinnar, sem er 8,5 km², bjuggu 160 þúsund
manns árið 1783. Á árunum
1883 - 1901 stækkaði borgin um Vysehrad, Holesovice-Bubny og Liben, eða
í 21 km², og íbúarnir urðu 216 þúsund.
Stór-Prag varð til árið 1922 (171 km²; 677 þús. íb.), þegar
37 úthverfi sameinuðust henni. Árið
1978 stækkaði hún enn og varð 497 km² með ca. 1,2
milljónir íbúa.
Borginni er skipt í 10 hluta með sérstjórn.
Í borgarhluta 1 er gamli miðbærinn með Jósefsborg (fyrrum gyðingabænum),
Stare Mesto, Nove Mesto, Mala Strana og Hradcany.
Frá
lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa íbúar borgainnar verið næstum
eingöngu Tékkar. Þýzkumælandi
íbúum hefur fækkað stöðugt frá upphafi 19. aldar og eru nú færri
en 5% borgarbúa.
Flestir
Tékkar, og þar með íbúar Prag, eru rómversk-katólskir en næstir
í röðinni koma hússítar.
Moldárhöfnin
við Holesovice er mikilvæg fyrir alls konar vöruflutninga á ánni og
viðskipti almennt. Áin er
ekki skipgeng ofan við borgina. Viðkomustaður
farþegaskipa er í Engelsbryggju (Nabrezi B. Engelse) í grennd við
Palackýbrú.
Ruzyneflughöfnin,
u.þ.b. 20 km norðan borgarmiðjunnar, er nýtízkuleg. Þaðan og þangað fljúga flugvélar tékkneska flugfélagsins
CSA til fjölda borga um allan heim og tugir erlendra flugfélaga hafa
Prag á áætlunum sínum.
Prag
er tengd járnbrautaneti Evrópu og aðalbrautarstöðin heitir Vitezného
února.
Stöðugt
er verið að lengja net neðanjarðarlesta í borginni. Skurðarpunktur A-lestanna (austur-vestur) og C-lestanna (suður-norðvestur)
er á Muzeumstöðinni. Borgarlestirnar
eru aðalsamgöngutækin og strætisvagnar aka í yztu úthverfi.
Prag
hefur verið ein meginmiðstöð menningar Evrópu um aldir.
Fyrsti háskóli Mið-Evrópu, Karlsháskólinn, var stofnaður
þar árið 1348. Í
borginni er fjöldi leikhúsa, tvö óperusvið, þrjár fílharmoníusveitir
og mörg tónlistarhús. A.m.k.
90 kirkjur og kapellur, fjöldi minnismerkja og gömul hús eru vernduð.
Starfrækt er vísindaakademía og fjöldi rannsóknarstofa auk
listaskóla og sönglistarskóla. Þar eru einnig mörg bókasöfn, 17 tæknisöfn og margar
menningarstofnanir. Stærstu
bókasöfnin eru Þjóðarbókhlaðan, Borgarbókasafnið, bókasafn Þjóðminjasafnsins
og Lækningabóksasafnið.
Prag
er aðalviðskipta- og iðnaðarborg landsins.
Þar er Verzlunarráð ríkisins, bankar og viðskiptastofnanir.
U.þ.b. 10% framleiðslufyrirtækja landsins eru í borginni.
Vélaframleiðsla er mikilvægur iðnaður auk framleiðslu
byggingarefna og viðarvinnslu. Efnaiðnaður
er talsverður og matvæla- og bjórframleiðsla einnig.
Vefnaðar-, fata- og skóiðnaður er talsverður. |