Prag skoðunarvert Tékkland,
Flag of Czech Republic


PRAG
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
TÉKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

AGNESARKLAUSTRIР Prag 1, Staré Mesto. Anezská ulice.  Strætó: 133, 144, 156, 197.  Opið:  Þriðjud. - sunnud. 10-18.
Klaustrið er notað til sýninga gripa Þjóðminjasafnsins og Listiðnaðarsafnsins.  Það er fyrsta snemmgotneska byggingin í Prag.  Þar var stofnað Fransiskuklaustur 1234.  Agnes varð síðar nunna og fyrsta abbadís þess.  Kirkjur heilagrar Barböru (1250-1280) og heilags Fransiskus (ca 1250) voru byggðar síðar og turninn er frá 14. öld.  Eftir að klausturlífi lauk 1782 (Jósef II) fór að sjá á byggingunum en þeim var bjargað með viðhaldi í tengslum við fornleifaathugunum á síðustu áratugum.

*RÁÐHÚSIÐ
með stjörnuklukkunni í gömlu miðborginni.  Prag 1, Staré Mesto, Staromestské námésti.  Brautarst.: Staroméstká.  Strætó: 5, 9, 17, 29. Opið: Marz til miðs oktober kl. 8-18 og síðan til febrúar kl. 8-17.
Gamla ráðhúsið er nú miðstöð alls konar menningar- og félagslegrar starfsemi.  Saga þess, sem hófst á 11. öld, nær yfir tilurð einstakra borgarahúsa og stöðugrar byggingarstarfsemi.

Jóhann konungur hinn blindi gaf íbúum gamla bæjarins leyfi til byggingar ráðhúss árið 1338.  Turninn er frá 1364 og karnapskirkjan var vígð 1381.  Hún skemmdist 1945 en var endurbyggð.  Í vegg hennar er kistill með jarðvegi úr Duklaskarði, þar sem Rússar og Tékkar hröktu Þjóðverja á brott 1944.  Við austurhlið kirkjunnar er minningartafla um hina 27 forsprakka mótmælenda, sem voru líflátnir 1621.  Stjörnuklukkan í turninum er frá upphafi 15. aldar.  Árið 1360 var krizhúsið keypt til viðbótar við ráðhúsið og áletrunin „Praga Caput Regni” (Prag, höfuðborg ríkisins) fyrir ofan renessansgluggann er frá 1520.  Þriðja húsinu, Mikeshúsinu, var bætt við 1458.  Það var endurbyggt í nýrenessansstíl 1878.  Í kjallar „Húss hanans” (U kohouta), sem var bætt við samstæðuna árið1830, er varðveittur rómverskur salur.  Renessansloft og veggjamálverk á annarri hæð eru líka skoðunarverð.  Seint á 19. öld var staðar numið með byggingarframkvæmdir og tveimur dögum fyrir lok síðari heimsstyrjaldarinnar skemmdist ráðhúsið verulega, þegar hörfandi herir Hitlers höfðu það að skotmarki.  Þá ónýttist skjalasafn borgarinnar og nýbyggðar austur- og norðurálmurnar, sem voru í nýgotneskum stíl.  Borgarráðssalurinn á þriðju hæð er enn þá upprunalegur (frá 1470) í gotneskum stíl.  Í stóra fundarsalnum hanga tvö málverk tékkneska sögumálarans Václav Brozik, Jan Hus fyrir Konstanzráðinu og kjör Georgs af Podébrad til konungs Bæheims.  Í krossgöngunum er listasafn Prag.   Útsýnið úr hinum 70 m háa turni ráðhússins er frábært.

Húsið, sem tengist samstæðunni sunnanverðri er með myndum úr biblíunni og þjóðsögum.  Það var endurbyggt í renessansstíl í kringum 1600.  Ljónsstyttan við hornið er frá 18. öld.  Í göngunum er gegnumgangur að Litla hring.

Stjörnuklukkan sýnir hreyfingar stjörnuhiminsins allt árið með mánuðum, dögum og klukkustundum, upprás og setur stjarna, lengsta og stytzta dag ársins, jafndægur, stjörnufestinguna allt árið, lengd dags og nætur, fullt tungl og ný og allt þar á milli og hina þrjá slátturtíma klukkunnar.  Þannig lýsti málarinn, koparstungumeistarinn og listaverkasalinn Merian klukkuskífunni um 1650 og fátt hefur breytzt síðast liðin 500 ár.  Upprunalega gerð klukkunnar má rekja til ársins 1410 en árið 1490 endursmíðaði Hanus, magister frá Karlsháskólanum hana.  Sagt var að borgarráðið hafi látið blinda Hanus eftir að verkinu var lokið til að hann gæti ekki smíðað aðra slíka fyrir aðrar borgir.  Skömmu fyrir dauða sinn fór hinn blindi upp í turninn og stöðvaði klukkuverkið áður en postulaprósessían fór af stað.  Klukkan fór ekki í gang aftur fyrr en Jan Táborský gerði við verkið á árunum 1552-1572.  Klukkuverkin eru þrjú, postulaprósessían, klukkuskífan og almanakið.  Mesta athygli vekur polstulaprósessían á hverjum heilum tíma.  Beinagrind dauðans þrífur annarri hendi snúru dauðaklukkunnar og lyftir stundaglasinu með hinni.  Gluggarnir opnast og Kristur og postularnir 12 renna framhjá.  Þegar gluggarnir lokast aftur, galar hani í veggskoti og baðar út vængjunum og klukkan slær á heila tímanum.  Þessu hermispili lýkur  með því að tyrkjastytta við klukkuna hristir höfuðið, stytta af ágjörnum manni starir á pyngju hans og hégómlegur maður skoðar sig í spegli.  Josef Mánes málaði almanakið og frummyndir þess hanga í stigagangi Borgarsafnsins.

ALTSTÄDTER  RING (Starométské námésti)

AM  GRABEN (Na prikopé)

TRJÁGARÐURINN (Stromovka)

BELVEDEREHÖLLIN (Královský letohrádek)

BETLEHEMKAPELLAN (Betlémská kaple)

GRASAGARÐURINN (Botanicka zahrada)

BREVNOVKLAUSTRIÐ (Bývalý benediktinský kláster)

CAROLINUM (Karolinum)

Fyrsti háskóli Mið-Evrópu (Karl IV; 1348).

CLEMENTINUM (Klementinum)

Jesúítaklaustur og nú Þjóðarbókhlaðan.

EMMAUSKLAUSTRIÐ (Emauzy; Kláster na Slovanech)

ERKIBISKUPSHÖLLIN

ÞJÓÐFRÆÐISAFNIÐ (Ethnography)

ÞINGHÚSIÐ

FRANSISKANAGARÐURINN (Frantiskánská zahrada)

SAFNAÐARHEIMILIÐ (Gemeindehaus)

STÓRÁBÓTAHÖLLIN (Palác malézského velkoprevora)

LISTAMANNAHÚSIÐ (Dum umélcú)

**HRADSCHIN  (Hradcany).  Hradschinkastali hefur verið bústaður forseta lýðveldisins síðan 1918.  Premyslidar stofnuðu þarna bæ í þremur hlutum á 9. öld og byggðu múra úr leir utan um hann.  Þar var aðsetur furstanna og frá 973 einnig setur biskupa hins nýstofnaða biskupsdæmis Prag.  Þegar Bretislav I var við völd lét hann gera 2 m þykka múra um bæinn árið 1042, turnar voru byggðir mót austri og vestri og síðar kom borgarhlið að sunnanverðu.  Eftir 1135 byggði Sobéslav I höll í rómönskum stíl.  Hinn 30 m hái „Svarti turn” var fangelsi.  Árið 1303 eyddi eldur flestum byggingunum og 1344 lét Karl IV hefja byggingarframkvæmdir að nýju.  Eftir lok hússítastríðanna voru mörg hús endurnýjuð undir stjórn Jagellona og konunganna Vladislav (frá 1471) og Lúðvíks II (frá 1516).  Þá komu fyrstu áhrif renessansstílsins fram í tengslum við síðgotneska stílinn.  Ferdinand I, keisari (frá 1527) og Rudolf II (frá 1575) prýddu kastalahæðina og nánasta umhverfi með skrautlegum renessanshúsum.  Árið 1614 lét Matthías keisari reisa fyrstu veraldlegu barokbygginguna í Prag, hinn frístandandi turn að vestanverðu.  Að ósk Maríu Theresíu varð þessi turn að miðdepli kastalatorgsins á 18. öld.  Að loknum mikilli endurbyggingu Hradschin varð kastalinn að einni heild, sem mikilverðasti og sérstakasti hluti Prag.  Eftir byltinguna árið 1918 og frelsun landsins úr klóm Þjóðverja árið 1945 varð kastalinn að sýningarmiðstöð.  Fólki er ráðlagt að ganga meðfram þessari margbrotnu kastalabyggingu utanverðri áður en það einbeitir sér að skoðun einstakra hluta hennar til að fá hugmynd um yfirgripið.

*Fyrsta kastalatorgið er líka nefnt heiðurstorgið.  Það er yngst hinna þriggja torga kastalasvæðisins.  Það er aðgengilegast frá Hradschintorgi um grindarhlið, sem er skreytt „hinum stríðandi risum” eftir Ignaz Platzers d.Ä. (1786).  Þetta torg var lagt á árunum 1756-1774 að undirlagi Maríu Theresíu eftir uppdráttum aðalhirðarkitektsins í Vín, Nikolaus Pacassi.  Umsjón með verkinu hafði Anselmo Lurago.  Sigurstytturnar á gluggaumgerðum húsanna eru frumverk Platzers.  Síðustu breytingar þessa torgs fóru fram á árunum 1920-1922 undir umsjón slóvenska arkitektsins Josip Plecnik.

*Mattíasarhliðið.  Mattías keisari lét byggja það árið 1614 sem frístandandi inngang að kastalanum (Giovanni Maria Philippi).  Árið 1760 var turninn tengdur nýbyggðri aðallhlið kastalans (N. Pacassi).  Frá hliðinu liggur stigi (1765; Pacassi) upp í sýningarsali kastalans:  Hásætissalinn, málverkasalinn (verk Václav Broziks), speglasalinn, tónlistar- og samkvæmissalinn.  Þarna er líka íbúð forseta lýðveldisins.

Fánastengurnar fyrir framan Mattíasarhliðið eru úr furu, sem var höggvin í landamæraskógum landsins að undirlagi arkitektsins J. Plecnik.

*Annað kastalatorgið.   Aðgangurinn að þessu torgi er um Mattíasarhliðið.  Á því miðju stendur barokbrunnur, sem var byggður eftir uppdráttum Francesco Torres árið 1686 og skreyttur myndum eftir Hieronymus kohl.  Skrautlegar smíðajárnsgrindurnar eru frá 1702.  Reynt var að bæta úr svipleysi þessa torgs með ljónabrunni V. Makovský og granítstyttum Jar. Frágner árið 1967.  Við norðurenda þessa torgs varð Plecniksalurinn til við endurbyggingu gamalla húsa á árunum 1927-1931.  Hann og tröppusalurinn mynda innganginn að spænska salnum og Rudolfsmálverkasalnum.  Frá torginu er gengið yfir Rykbrúna (hjartagryfjan), gegnum Maríumúrinn fram hjá konungsgarðinum (aðeins opið á vorin) og fyrrum dansleikjahúsinu að Belvederehöllinni.

*Þriðja kastalatorgið var fyrrum hjarta kastalalífsins.  Þaðan lá aðalleiðin út úr gömla slavneska bænum.  Norðurmörk torgsins er dómkirkja heilags Vitusar.  Sunnan hennar eru grunnmúrar rómanskrar biskupskapellu frá 1920-1928.  Á árabilinu 1750 - 1770 var reist forhlið á eldri byggingarnar (N. Pacassi), renessanshöll Rudolfs II, snemmbarok drottingarhöll og höll Maximilians II.  Neðan svalanna með ljósastyttunum eftir Ignaz Platzer er inngangurinn að skrifstofu forsetans.

*Gullnatröð, sem er líka kölluð Gullgerðartröðin (Alchemy), liggur á milli borgarmúrsins (Vladislav Jagello) og gömlu borgargreifaskrifstofunnar.  Fyrrum náði tröðin alla leið að klaustri heilags Georgs.  Varnargangur tengdi Hvíta turninn við Daliborkaturninn.  Norðurforhliðin hefur varðveitzt að hluta.  Þar eru mörg falleg smáhýsi, sem opnuðust inn í boga varnargangsins.  Rudolf II skipti þeim á milli hinna 24 kastalavarða og þar stunduðu þeir handverk í frítímum sínum.  Þjóðsagan segir, að þarna hafi gullgerðamenn Rudolfs II búið.  Síðar bjuggu þarna aðrir handverksmenn og fátæklingar.  Á árunum 1912-1914 vann Franz Kafka að kvæðum sínum í Gullnutröð.  Nú hýsir Gullnatröð list-, bóka- og minjagripaverzlanir.

*Suðausturhlutinn.  Gamla borgargreifaskrifstofan er nú Hús barna landsins.  Gangi fólk fram hjá Daliborka- og Svartaturni er farið yfir múrana (útsýni) og um gömlu kastalastigana út í sundið Pod Bruskou.  Sé haldið frá múrnum kemur kastalagarður með góðu útsýni.  Tveir einsteinungar standa þar sem hinir keisaralegu staðarhaldarar féllu niður í kastaladíkið í annarri byltingunni í Prag árið 1618 (upphaf 30 ára stríðsins).  Fyrir ofan nýju kastalastigana er Paradísargarðurinn með Mattíasarlaufskálanum.

*Kastalalistasafnið varð til árið 1965, þegar hesthúsunum í norðurálmunni og jarðhæðinni í vesturálmunni var breytt.  Þar hanga í sex sölum 70 málverk, sem prýddu áður Rudolfslistasafnið og síðar listasafn Ferdinands II.  Meðal merkilegustu verkanna eru:  Mynd af Mattíasi keisara eftir  Hans von Aachen frá 1612 í fyrsta sal; Unga konan að snyrta sig eftir Tizian; Hórdómskonan fyrir Jesúsi eftir Tintoretto, og Heilög Katrín með englinum eftir Veronese.  Í fjórða sal eru m.a. Samkoma Ólympíuguðanna eftir Peter Paul Rubens frá 1602).  Að auki eru mörg verk eftir bæheimska baroklistamenn (Jan Kupecký, Hohann Peter Brandl) og styttur eftir Adriaen de Vries (Tilbeiðsla konunganna) og Matthias Braun.

*Heilagskrosskapellan er í suðurhorni kastalagarðsins.  Síðan 1961 hefur hún verið dýrgripageymsla kirkju heilags Vitus.  Þar eru m.a. messuklæði, oblátubuðkur og helgir munir (keðjuhökull heilags Wenzels, sverð heilags Stefáns o.fl.).  Þessi kapella var reist 1753 eftir teikningum Anselmo Lurago.  Á tímum Biedermeirs var reynt að mýkja harða drætti endurreisnarstílsins við endurbyggingu hennar (1852-1858).  Árið 1854 gerði E. Max styttu af heilögum Jóhannesi frá Nepomuk, sem stendur inni í kapellunni, auk styttnanna af heilögum Pétri og Páli í skotunum.  Við há- og hliðaraltörin standa styttur eftir Ignaz Platzer.  Þar eru líka málverk eftir W. Kandler, J. Navratil og F.X. Palko.

*Gamli prófastsbústaðurinn stendur vestan kirkju heilags Vitus.  Þar var fyrrum rómanskur biskupsbústaður, sem var endurbyggður í barokstíl á 17. öld.  Johann Georg Bendl gerði styttuna af heilögum Wenzel (1662).  Einsteinungurinn úr Mrákotingraníti sunnan prófastsbústaðarins eftir J. Plecnik (1928) minnir á fórnarlömb fyrri heimsstyrjaldarinnar.  Riddarastyttan með heilögum Georg er verk myndhöggvaranna Georg og Martin af Klausenburg (1373).  Tomas Jaros lagfærði þessa snemmgotnesku styttu eftir kastalabrunann 1541.  Núverandi fótstallur er frá 1928 (J. Plecnik).

**Kirkja heilags Vitus er höfuðkirkja erkibiskupsdæmisins Prag.  Hún gnæfir á fornum grunni kringlóttrar kapellu, sem Wenzel hertogi lét reisa 925 til dýrðar heilögum Vitus.  Einni öld síðar byggði Spythihnév II hertogi rómanska dómkirkju með tveimur kórum.  Þegar Prag varð að erkibiskupssetri árið 1344, hóf Karl IV byggingu þessarar gotnesku dómkirkju.  Austurhlutann teiknaði franski byggingarmeistarinn Matthias af Arras með eldri gotneska stílinn í Frakklandi sem fyrirmynd (dómkirkjurnar í Narbonne og Toulouse).  Hann teiknaði hinn 74 m langa og 39 m háa kór, sem var ekki fullbyggður, þegar hans lézt árið 1352.  Þá tók við þýzki arkitektinn Peter Parler, sem innleiddi hin frjálsari form þýzka gotneska stílsins.  Að honum gengnum höfðu synir hans, Wenzel og Johann, umsjón með byggingunni (1399-1420).  Á þeim tíma reis allur kórinn og neðsta hæð aðalturnsins.  Eftir hússítastríðin lét Bonifaz Wohlmut setja renessansbrjóstvígi og yfirbyggingu á hinn 109 m háa turn og árið 1770 kom núverandi laukaþak eftir teikningum N. Pacassi.  Eftir 1883 byggðu Josef Mocker og Kamil Hilber hina nýgotnesku vesturhlið, skrautgafl, kirkjunnar, en byggingu þessa hluta lauk ekki fyrr en árið 1929.

Kirkja heilags Vitus er fegursta og stærsta kirkja Prag.  Hún er 124 m löng, 60 m breið og kirkjuskipið er 33 m hátt.  Í suðurturninum ægir saman gotneskum, barok og renessansáhrifum, sem er afar sjaldgæft að sjá á einum stað.  Auk hinna þriggja renessansklukkna í turninum er þar stærsta klukka Bæheims, Sigismundklukkan, sem var steypt úr bronsi árið 1549.

Suðurinngangur:  Það er hagstæðast að byrja heimsókn í kirkjuna um þennan inngang.  Efri hluti þessa inngangs, sem er líka kallaður „Gullna hliðið”, er prýddur myndum af Karli IV og Elísabetu af Pommern auk margviðgerðri mósaíkmynd frá 14. öld („Fyrsti dómstóllinn”).  Þar fyrir ofan er geysiflókinn steindur gluggi, samansettur úr 40.000 stykkjum eftir Max Svabinský (1934), sem sýnir hið sama og mósaíkmyndin.

Smáralistasafnið (Trifolium):  Bezt er að ganga fram hjá kapellunum til hægri og vinstri inn í miðja kirkjuna til að njóta áhrifa þessara stóru byggingar með 28 súlum og 21 kapellu.  Smárasafnið er ofan á bogagöngunum og undir kórgluggunum.  Innst í því, einkum ofan við orgelsvalirnar, eru brjóstmyndir byggingameistaranna, fjölskyldu Karls IV og annarra þekktra manna.

Orgelsvalirnar eru tvær, beint andspænis suðurinngangnum (Bonifaz Wohlmut; 1557-1561).  Eftir að lokið var byggingu dómkirkjunnar voru þær færðar frá vesturgaflinum í norðanvert þverskipið.  Orgelið er frá 1757 (6500 pípur).

Keisaralegsteinninn úr hvítum marmara er í miðjum kórnum fyrir háaltarinu.  Það er girt renessansgrindum eftir J. Schmidthammer (1589).  Vinna við hann var hafin í Innsbruck árið 1564 sem minnisvarða um Ferdinand I og konu hans Önnu Jagello, en Rudolf II lét breyta honum í legstein 1589.  Á honum sjást Anna Jagello, Ferdinand I í miðju og Maximilian II.  Skreytingarnar umhverfis sýna bæheimska konunga með konum sínum, sem eiga sinn hinzta samastað í grafhvelfingu kirkjunnar.

Grafhvelfingin.  Inngangurinn í hana er við hliðina á krosskapellunni.  Í göngum hennar eru forngripir frá rómverskum tíma til sýnis og á veggnum hangir uppdráttur að grunnfleti rómönsku kirkjunnar (925).  Í þessari hvelfingu hvíla:  Efri röð:  Georg Von Podébrad (1420-1471; til vinstri), Karl IV (1316-1378; í miðju), Ladislav Postumus (1440-1457; til hægri).  Í annarri röð eru kistur Wenzels IV (1361-1419), bróður hans, Jóhanns af Görlitz (†1396) og sameiginleg steinkista hinna fjögurra eiginkvenna Karls IV.  Í bakgrunni hvílir Maria Amalia, dóttir Maríu Theresíu.  Í renessanskistunni hvílir Rudolf II (1552-1612) og í neðri granítkistunni hvíla börn Karls IV.

Gamla skrúðhúsið. Upp úr grafhvelfingunni er haldið fram hjá kórskápunum.  Sé haldið til vinstri inn í kórinn, rekst maður á gamla skrúðhúsið, þar sem dýrgripir kirkjunnar voru geymdir áður en þeir voru fluttir út í Heilagskrosskapelluna.

Kapella heilagrar Önnu er bak við gamla skrúðhúsið.  Beint á móti henni er trélágmynd, sem talið er að sé eftir Caspar Bechterle frá Niedersonthofen.  Hún sýnir spellvirki, sem voru unnin á myndum í kirkjunni 1619 og í suðurhluta kórgangsins sést flótti vetrarkonungsins Friðriks V af Pfalz eftir orrustuna við Hvítafjall.  Það er einnig gaman að kíkja á borgarmyndina eins og hún leit út í kringum 1630.    Þarna er einnig bronsstytta hins krjúpandi kardínála Friðriks frá Svartafjalli (†1885), verk eftir Josef Václav Myslbek frá 1904.

Erkibiskupakapellan er beint á móti bronsstyttunni.  Þar hvíla erkibiskupar Prag.

Kapella Jóhannesar skírara er við hliðina á kapellu erkibiskupanna.  Þar liggja á báðar hendur legsteinar Bretislaws II (†1100) og Borivojs II (†1124).  Bronslamparnir til vinstri við altarið eru sagðir vera hluti herfangs Vladislavs II frá Friedrich Barbarossa.  Rómanskir stallar lampanna eru frá Rínarsvæði Þýzkalands.

Maríukapellan

Helgidómakapellan

Kapella Hl. Johannes von Nepomuk

Vladislav-tónlistarsalurinn (síðgotneskur)

Krosskapellan

Hl. Andreaskapellan

Hl. Wenzelskapellan

**Konungshöllin (Královský palác) er í þriðja kastalagarðinum og gefur glögga mynd af sögulegri þróun byggingarinnar.  Fram að lokum 16. aldar var hún bústaður konunga, en þegar Habsborgarar komust til valda, tóku þeir sér bústað vestar í ríkinu.  Höllin var notuð sem stjórnsýslumiðstöð og að hluta sem birgðageymsla.

Undir núverandi Vladislavsal er enn þá hægt að sjá hluta rómönsku hallarinnar á jarðhæð og í kjallara.  Predmysl Ottokar II, Karl IV og Wenzel IV byggðu nýju hallarhlutana ofan á henni.Vladislav Jagello lét bæta við hæð, þegar hluti hallarinnar var endurnýjaður og nýir hlutar hennar byggðir.  Þar er Vladislavsalurinn til mestrar prýði.  Inngangar hallarinnar eru við austanverðan kastalagarðinn.

Græna stofan

Vladislavsalurinn

Þingsalurinn

Riddaratröppurnar

Hallargarðurinn

*Lúðvíkshöllin

*Dómkirkja hl. Georgs

*Þjóðlistasafnið við hliðina á dómkirkju hl. Georgs í elzta klaustri Bæheims (benediktínar).

*Hradschintorg

Erkibiskupshöllin var endurbyggð úr renessansstíl í barokstíl 1669.  Núverandi rokokostíll er frá 1763-1764.

Martinitzhöll

Svartafjallshöll með hersögusafninu.

**GYÐINGASAFNIÐ í JOSEFSHVERFI  Prag 1, Staré Mésto. Jáchymova. Neðanjarðarstöð: Staroméstská. Strætó:  133, 144, 156, 197. Sporvagn:  17.

**KARLSBRÚIN (Kalúv most)Prag 1, Staré Mésto. Karlúv most.  Lestarst. Staroméstská.  Malostranská.  Strætó:  133, 144, 156, 197.  Sporvagnar:  12, 17, 22.

*KARLSTORG  Prag 1, Nové Mesto.  Karlovo námésti.  Strætó: 120, 128, 137, 176, 199.  Sporvagnar:  4, 14, 15, 16, 18, 19, 22, 24, 29.  Torgið er 530 m langt og 150 m breitt og þar með stærsta torg Prag.  Þarna var kvikfjármarkaður til 1848 en núna líkist torgið einna helzt skemmtigarði með styttum af ýmsum tékkneskum vísindamönnum og miklum gróðri.  Apótekið við sunnanvert torgið er almennt nefnt Fausthúsið og austan við það er kirkja hl. Ignatíusar.  Norðaustan torgsins er turn ráðhúss nýjabæjar.  Við Resslova ulice, vestan torgsins, eru fleiri skoðunarverðar kirkjur.

Fausthúsið

Kirkja hl. Ignatíusar

Nýjabæjarráðhúsið.

*KARLSTEINKASTALI er 28 km suðvestan borgarinnar.  Útileiksýningar maí - ágúst/september á laugard. og sunnud. kl. 19-23.  Bygging kastalans hófst 1348-1357.  Breytt og endurbyggður á 15. og 16. öld og líka á árunum 1888-1904.

*LORETO (Lorerohelgidómurinn og kapúsínaklaustrið).  Prag 1, Hradschin.  Sporvagnar:  22, 23.  Reist á árunum 1669-1697.  Helgidómurinn er þekktasti pílagrímsstaður Bæheims.  Byggðir voru u.þ.b. 50 pílagrímsstaðir í Bæheimi á tímum gagnsiðbótarinnar með miðítalska Loretohelgidóminn sem fyrirmynd.  Forhlið Loreto er frá 1721.  Fyrsta kapusínaklaustrið var reist 1600-1602.

*ÞJÓÐMINJASAFNIР Prag 1, Nové Mésto.  Lestarst.: Muzeum.  Sporvagn: 11.
Stofnað 1818.  Elzta safn Tékklands.

*ÞJÓÐLEIKHÚSIР Prag 1, Nové Mésto.  Strætó: 197.  Sporvagnar:  5, 9, 17, 22.
Frá 1868-1881.

*PÚÐURTURNINN  Prag 1, Staré Mésto.  Lestarst.: Mústek.  Sporv.: 3, 5, 9, 10, 26, 29.  Opinn: ld, sd, föd kl. 10-18 maí til sept. og 10-17 oktober til apríl.
Bygging hófst 1475 á stað þar sem var hlið í gömlu borgarmúrunum.

*TÆKNISAFNIР Prag 7, Holesovice.  Strætó: 119, 125.  Opið:  þd - sd kl. 10-17.

*TEYNKIRKJAN  Prag 1, Staré Mésto.  Inngangur frá Celetná ulice 5.  Lestarst.:  Staroméstská, Mústek.  Sporv.: 5, 9, 29.

Þessi gotneska kirkja er kennimerki gamla borgarhlutans í Prag.  Var í byggingu frá 1365 á stað, þar sem stóð áður rómönsk kirkja.  Kórnum var lokið 1380, forhliðinni 1460.

*WENZELTORG  Prag 1, Nové Mésto.  Lestarst.: Muzeum.  Sporv.: 11.

Wenzelminnismerkið (Josef Václav Myslbek; 1912-1913) stendur fyrir framan Þjóðminjasafnið við suðausturenda torgsins. 

Wenzel varð hertogi Bæheims 921.  Bróðir hans, Boleslav I, myrti hann annaðhvort 829 eða 935.  Ýmsar sögur um kraftaverk honum tengd ollu því, að hann var gerður að verndardýrlingi Bæheims (hátíð 28. sept.).  Þótt rekja megi morð hans til valdabaráttu saxa og bæjara í Bæheimi, var og er Wenzel dýrkaður sem píslarvottur.  Umhverfis styttuna eru fjórir aðrir verndardýrlingar.  Hægra megin við framanverða styttuna er hl. Ludmilla, amma Wenzels.  Heiðnir andstæðingar hennar myrtu hana og hún varð fyrsti verndardýrlingur Bæheims.  Vinstra megin er hl Prokop og aftantil hl. Agnes og hl. Adalbert af Prag.  Aðrar styttur af Wenzel eru á Krossherratorgi og Vysehrad.

Wenzeltorg er 680 m langt og 60 m breitt og líkist fremur breiðgötu en torgi.  Það er miðja hinna nýju Prag, umlukt kvikmyndahúsum, háhýsum, þekktum hótelum, veitingastöðum og kaffistöðum.   Karl IV lét gera torgið við stofnun nýja borgarhlutans og árið 1848 fékk það núverandi nafn sitt.

Mynd:  Sankti Vituskirkjan.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM