Saga
Sýrlands er einhver hin lengsta skráða saga landa heimsins.
Fornleifafundir í Ebla gefa til kynna stórt ríki á þessu svæði
á þriðju teinöld fyrir Krist og Damascus státar af því að vera
elzta borg í heimi, sem hefur verið í samfelldri byggð frá upphafi.
Vegna
hernaðarlega mikilvægrar legu landsins á krossgötum margra
menningarheima varð Sýrland oft fyrir innrásum.
Fyrstu drottnarar landsins voru Egyptar, hittítar, Assýríumenn,
Persar og Grikkir. Rómverjar
komu til skjalanna árið 64 f.Kr. og síðan Býsantíumenn.
Yfirráð múslima allt frá 7. öld mörkuðu dýpstu sporin í
sögu landsins og vöruðu lengst. Landsmönnum
var snúið til islamstrúar og menning araba gróf sér æ dýpri rætur.
Frá
miðri sjöundu öld til miðrar áttundu aldar var Damascus höfuðborg
hins stóra ríkis araba Umayyad. Þegar þetta ríki leið undir lok náðu abbasídar völdum
í landinu. Seljúkar,
Tyrkir, krossfarar, mamelúkar og mongólar skildu líka eftir sig spor
í sögunni. Frá 1516 til
fyrri heimsstyrjaldarinnar var Sýrland hluti Ottómanaveldisins.
Sýrlands nútímans varð ekki til fyrr en að lokinni fyrri
heimsstyrjöldinni, þótt landið hafi verið byggt allt frá fornöld.
Þá tóku Frakkar við stjórninni þar til landið fékk fullt
sjálfstæði árið 1946.
Eftir
sjálfstæðið hefur saga landsins verið stormasöm.
Stjórnarkreppur og hallarbyltingar voru tíðar á árunum
1949-63 og samtímis var lögð mikil áherzla á einingu araba.
Á árunum 1958-61 lögðust Sýrland og Egyptaland á eitt við
stofnun Sameinuðu arabísku lýðveldanna.
Óstððugleikinn í landinu stafaði aðallega af hrepparíg og
mismunandi hugmyndafræði en einnig af árekstrunum við Ísrael og
kalda stríðinu milli stórveldanna.
Árið
1963 kom hallarbylting sósíalistaflokknum pan-Arab Bath til valda.
Bath-stjórnin deildi út auði landsins og gróf undan hinum hefðbundnu
valdastéttum í landinu. Klofningur
innan stjórnarinnar olli pólistískum breytingum.
Árið 1966 komst róttæki armur flokksins með Salah Jadid í
fararbroddi til valda. Tap
Gólanhæðanna 1967 greiddi leið Hafiz al-Assad til valda árið 1970.
Assad var hófsamur Bath-maður og ráðríkur.
Hann lagði í fyrstu áherzlu á bætt samskipti við arabísku
nágrannaríkin til að bæta efnahagsástandið í landinu.
Það tókst og efnahagurinn blómstraði á fyrri hluta áttunda
áratugarins, einkum vegna hækkaðs olíuverðs.
Vinsældir Assads jukust í kjölfar stríðsins við Ísrael
1973, þar sem her Sýrlands stóð sig þokkalega.
Í vopnahléssamingum við Ísrael fékk Sýrland lítinn hluta Gólanhæða
til baka.
Vandræði
stjórnar Assads jukust eftir miðjan áratuginn. Sýrland
hafði mikil afskipti af borgarastríðinu í Líbanon 1976.
Ísraelar óttuðust mikinn fjölda Palestínumanna og pólitíska
óreiðu við norðurlandamæri landsins og gerðu innrás í Líbanon
árið 1982, þar sem Sýrlendingar lentu á ný í hernaðarátökum við
Ísraela.
Þátttaka
í hernaðarátökum í Líbanon og stöðug hernaðaruppbygging vegna
ógnarinnar frá Ísrael hefur verið gífurlega kostnaðarsöm fyrir
landið. Útgjöld til
varnarmála nema u.þ.b. 30% af fjárlögum, þrátt fyrir mikla fjárhagsaðstoð
frá öðrum arabalöndum.
Margir
sunnítar í minnihlutahópi Alawíta í ríkissjórninni lýstu reiði
sinni vegna ástandsins í efnahagsmálum.
Öfgasinnaðir múslimar hófu áróður fyrir sprengiárásum og
morðum leiðtoga Alavíta árið 1976. Þessar árásir kostuðu mörg hundruð Sýrlendinga lífið
og skiptu landslýðnum í hópa eftir trúarlínum.
Stjórnin brást við með hörðum aðgerðum, sem gerðu marga
hópa fráhverfa henni. Miklar
óeirðir brutust út í Aleppo-héraði árið 1980.
Árið 1982 var herinn sendur til að bæla niður uppreisn í
Hama. Talið er, að 25.000 borgarar hafi fallið í átökunum.
Vegur
landsins sem leiðandi ríki í arabaheiminum óx í valdatíð Assads.
Öflugur her hans var búinn sovézkum vopnum og viðskiptalífið
byggðist á góðu sambandi við Sovétríkin.
Sýrland studdi Íran í áttaárastríðinu við Írak.
Árið 1990 var grundvelli viðskipta við Sovétríkin kippt
undan viðskiptalífinu. Því
brá ríkisstjórn Sýrlands skjótt við, þegar Írakar réðust inn
í Kúveit sama ár og fordæmdi aðgerðinar.
Sýrlendingar skipuðu sér í lið BNA og bandamanna þeirra til
að frelsa Kúveit úr klóm Íraka. Árið 1991 samþykkti Assad líka að taka þátt í friðarviðræðunum
í Miðausturlöndum milli arabaríkja og Ísrael.
Sýrland fékk umbun fyrir þessa stefnu með nýjum þróunarlánum
frá ESB og öðrum ríkjum. |