Efnahagslíf
landsins hefur tekið miklum breytingum síðan 1960. Landbúnaðurinn er enn þá leiðandi afl í atvinnulífinu
og aðaluppspretta atvinnu, þótt hlutur þess í vergri þjóðarframleiðslu
hafi minnkað við aukna iðnvæðingu.
Minna en þriðjungur landsins er ræktaður vegna þurrka og ófrjósams
jarðvegs. Algengustu
uppskerurnar eru hveiti og bygg. Miklar
sveiflur eru í framleiðslunni milli ára vegna mismunandi úrkomu og
það hefur valdið sveitafólkinu miklu harðræði.
Baðmull er verðmætasta uppskeran og var aðalútflutningur
landsins fram á miðjan áttunda áratug 20. aldar.
Talsvert er ræktað af grænmeti, sítrusávöxtum, ólífum, tóbaki
og sykurrófum. Geitum og
sauðfé er beitt víða. Á
þurrustu svæðunum er hirðingjabúskapur enn þá algengur, þótt stöðugt
dragi úr honum.
Iðnaðurinn
er víða byggður á landbúnaðinum, s.s. matvælaframleiðsla og textíliðnaður.
Á miðjum sjöunda áratugnum var stefna ríkisstjórnarinnar hröð
iðnvæðing, einkum í þungaiðnaði (járn, stál o.þ.h.).
Nú er iðnaðurinn orðinn allfjölbreyttur og landið framleiðir
m.a. traktora og sjónvarpstæki. Þessi hraða og mikla iðnvæðing hefur hvatt marga til að
flytja úr sveitum í borg.
Sýrland
er mikið olíuframleiðsluland. Olía
stendur undir 44% heildarútflutningsins og ýmiss konar olíuiðnaður
hefur sprottið upp í kringum aðalhreinsunarstöðvarnar. Gríðarstórt olíusvæði fannst á Deir ez Zor-svæðinu
um miðan níunda áratuginn. Víða
er að finna miklar birgðir af fosfati í jörðu.
Þær koma sér vel við vaxandi framleiðslu tilbúins áburðar.
Lögð hefur verið mikil áherzla á uppbyggingu góðs samgöngukerfis,
því að samgönguleysið var fyrrum aðaldragbíturinn á grózku í
efnahagslífinu. Nútímahafnir
hafa verið byggðar í Latakia og Tartus, þannig að nú fer útflutningur
landsins ekki um Beirut (Líbanon).
Aðalborgirnar eru tengdar með þjóðvegum og/eða járnbrautum. |