Stokkhólmur Svíþjóð umhverfi,
Sweden: Flag

SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR     Meira

STOKKHÓLMUR
UMHVERFI
SVÍÞJÓÐ

.

.

Utanríkisrnt.

View of Gamla Stan with Riddarholmskyrkan. Stockholm, SwedenÁ eyjunni Lovö, 11 km vestan Stokkhólms (45 mín. með báti), er sumarhöllin Drottingholm, sem er nú bústaður konungsfjölskyldunnar.  Eleonora drotting lét byggja hana eftir teikningum Tessins eldri, sem notaði franskar og hollenzkar fyrirmyndir.  Innanstokks eru m.a. málverk eftir David Klöker, styttur eftir Nicolaes Millich og Burchardt Precht.  Garðurinn umhverfis höllina er vel hirtur, stöllóttur og prýddur hlyngöngum.  Bronsstytturnar í honum eru herfang frá Danmörku og Bæheimi.  Árið 1744 fékk Luise Ulrike drottning, systir Friðriks mikla, Drottingholm í brúðargjöf.  Um það leyti byggðu Carl Hårleman og Carl Fredrik Adelcrantz nýja álmu við höllina með herbergjum í rokokostíl, m.a. bókasafn, sem telst vera hið fegursta.  Adelcrantz var líka byggingarmeistari leikhússins (1766), sem var bætt við síðar.  Það er enn þá notað við ýmsar uppfærslur með sömu aðferðum og tíðkuðust á tímum Gustavs III.  Skreytingar og búningar frá 18. öld eru til sýnis í aðliggjandi Leikhússafni.  Árið 1766 var kínverska lystihöllin byggð í garðinum fyrir Luise Ulrike drottningu.  Hún var sumardvalarstaður og innréttuð í blönduðum frönskum rokoko- og kínverskum stíl.  Við hliðina á höllinni eru verkamannabústaðir frá Kanton (1750-60).  Handverksmennirnir, sem bjuggu þar, smíðuðu húsgögnin og ófu teppin í höllina.

*Bjarkarey (Björkö) er u.þ.b. 28 km vestan Stokkhólms í Mälervatni.  Þar var verzlunarstaður á víkingatímanum og þar bjuggu allt að 1000 manns á 10. öld, þ.á.m. iðnaðarmenn, kaupmenn, bændur og þrælar.  Samtímis var þar trúboðsstöð, þar sem hl. Ansgar predíkaði í kringum 830.  Forngripir, sem hafa fundizt á eyjunni, gefa glögglega til kynna, hvernig lífið gekk til á þessum tímum.  Þarna eru húsarústir, tól og tæki og eldstæði.  Stærsta grafasvæði Svíþjóðar með u.þ.b. 2500 gröfum er utan byggðarinnar fornu.  Meðal þess, sem uppgötvaðist við forleifauppgröftinn, voru arabískir silfurpeningar, silki frá Kína, keramík frá Fríslandi, og glermunir frá Frakklandi.  Svæðið er þjóðarminnismerki.  Ansgarkapellan, sem var vígð árið 1930, er skammt frá.  Á sumrin eru reglulegar bátsferðir til eyjarinnar frá Stokkhólmi og Södertälje.

Södertälje er miðlungsstór iðnaðarborg, sem óx upp úr verzlunarstað víkinga milli Mälervatns og Eystrasalts.  Upphaflegt nafn bæjarins, Tälje, breyttist í Nordtälje og úr því í Södertälje, þegar bærinn fékk borgarréttindi.  Grunnur þróunar iðnaðar í borginni var skipaskurðir (1807-19) og lagning járnbrautarinnar milli Gautaborgar og Stokkhólms.  Kirkja hl. Ragnhildar er við Stóratorg.  Hún var endurbyggð á rúsum frá 13. öld.  Ráðhúsið er frá 1965.  Gamla ráðhúsið var flutt að skipaskurðinum.  Í útisafninu Östra Sörmlands Museet á Torrekällberg eru endurreist hús og verkstæði.  Sögusafn borgarinnar er í Strömstedska huset í útisafninu og þar er líka starfrækt gamalt bakarí, sem bakar hinar þekktu Sodertäljekringlur.  Rúmelga 2 km sunnan borgarinnar er baðstaðurinn Södertälje Havsbad.

Það er óhætt að mæla með 3 klst. bátsferð frá Stokkhólmi yfir Mälervatn til Mariefred, sem er friðsæll og unaðslegur smábær í grænu umhverfi.  Nafngift bæjarins er rakin til Karteusarklaustursins Pax Mariae, sem var stofnað 1493 og leið undir lok við upphaf siðaskiptanna.  Sautjándu aldar kirkja gnæfir yfir staðnum og neðan hennar er elzti hluti hans með gömlum timburhúsum við þröngar götur, sem liggja niður að Mälervatni.  Ráðhúsið (1784) við markaðstorgið er líka úr timbri (Upplýsingamiðstöð ferðamanna).  Sunnan og neðan við kirkjuna er byggðasafnið og við vesturjaðar bæjarins eru rústir Kärnbokirkjunnar. Vestan bæjarmiðjunnar er fallegt einbýlishúsahverfi og norðan þess er kirkjugarður með gröf þýzka rithöfundarins Kurt Tucholsky, sem bjó í bænum 1929, þegar hann var að safna efi í skáldsögu sína „Gripsholmhöllin”.

*Gripsholmhöll er þekktasta byggingin í Mariefred.  Hún stendur á smáeyju nærri landi í Mälervatni.  Nafn hennar er dregið af horfnu virki, sem ríkisdróttsetinn Bo Jonsson, kallaður Grip, lét reisa árið 1380.  Gustav Vasa lét reisa núverandi höll 1537-44 eftir teikningum Henriks von Göllen.  Karl XV var síðasti konungurinn, sem bjó þar (til 1864).  Gripsholm olli deilu milli sona Gustavs Vasa og var í umræðunni, þegar Gustav IV afsalaði sér völdum, en þá var höllin konunglegt fangelsi.  Þrátt fyrir endurbyggingu og viðbyggingar, halda turnar, múrar og varnarmannvirki hallarinnar miðaldarlegu yfirbragði.  Stóru bronsfallstykkin, sem standa á ótilhöggnum steinflögunum í virkisgarðinum, eru herfang frá Rússlandi frá tímum Jóhanns III.  Einn rúnasteinanna við vindubrúna segir frá för Ingvars víðförla til Rússlands.  Höllin er nú í eigu sænska ríkisins og 60 af 102 vistarverum hennar eru til sýnis, þ.á.m. kringlótti salurinn og fallega litla leikhúsið í aðalsmannaálmunni, sem Gustav II lét reisa á síðari hluta 18. aldar.  Málverkasafnið telur 2800 myndir af furstum og öðrum merkismönnum og er þar með eitthvert stærsta slíka safn í Evrópu.  Myndir af einstaklingum hafa verið varðveitt í viðbyggingu lýðháskólans frá 1809 til okkar daga.

Reglulegar skipsferðir eru reknar milli Stokkhólms og Mariefred.  Það er heillandi að aka með gömlu safnajárnbrautinni, sem er rekin af einkasamtökum.  Hún ekur á milli Mariefred og Läggesta á 40 mínútum.

Vaxholm er á eyjunni Vaxö, norðaustan Stokkhólms, þar sem stór fraktskip fara um til höfuðborgarinnar.  Gustav Vasa lét reisa vaktturna á henni og Rindö til að fylgjast með umferð.  Á 17. öld voru byggð virki í viðbót, fyrst á Vaxö, og öld síðar á Rindö.  Núverandi útlit varnarmannvirkjanna á Vaxö er frá 1838.  Þá kom í ljós, að virkið var ekki nógu traust til varnar, þannig að það skipti litlu máli, ef til átaka kæmi.  Nú er þar safn með munum frá mikilvægum tímum virkisins.  Allt fram að 1912 var bannað að byggja steinhús á Vaxö.  Á 19. öld var Vaxö vinsæll sumarútivistarstaður meðal Stokkhólmsbúa.

Saltsjöbaden er smábær og vinsæll baðstaður 20 km suðaustan Stokkhólms.  Þar er höfn fyrir skemmtisnekkjur, golf- og tennisvellir og þar er líka stjörnuathugunarstöð Stokkhólms.  Mælt er með siglingu um skerjagarðinn.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM