Stokkhólmur Svíþjóð meira,
Sweden: Flag

SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR     UMHVERFI STOKKHÓLMS

STOKKHÓLMUR
MEIRA
SVÍÞJÓÐ

.

.

Utanríkisrnt.

View of Gamla Stan with Riddarholmskyrkan. Stockholm, Sweden*Riddarahólmskirkjan, sem hefur oft verið endurbyggð, er við torgið sunnanvert.  Fyrrum var hún hluti Fransiskusklausturs.  Steypujárnsspíra 90 m hás turnsins (1841) sést víða að.  Kirkjan hefur einungis verið notuð til jarðarfara og sem minningarkirkja síðan 1807.  Þar eru ekki fluttar messur lengur.  Fyrst og fremst er hún þekkt sem grafarkirkja sænskra konunga.  Innri veggir hennar eru skreyttir skjaldarmerkjum látinna riddara Serapinreglunnar, sem var stofnuð 1336.  Í loftinu og einstökum grafarkapellum eru fánar, riddaramerki og önnur sigurtákn úr sigursælum herleiðöngrum sænsku konunganna og á gólfinu eru grafarskildir. Í kórnum, framan við háaltarið (1679) eru grafsteinar konunganna Magnus Ladulås (†1290) og Karl Knutsson (†1470).  Hægra megin er grafarkapella Gustavs Adolfs, sem fell við Lützen árið 1632, með grænni marmarakistu.  Beint á móti er karólínska grafarkapellan (1671-743) með steinkistum Karls XII (†1718) og Friðriks I (†1751).  Við hliðina á grafarkapellu Gustavs Adolfs er grafarkapella Bernadotteættarinnar, byggð á árunum1858-60.  Í miðju þess er stór, rauð steinkista Karls XIV Jóhanns (†1844) og konu hans Desideria (†1860).  Þar að auki hvílir þarna Gustav V (1858-1950).  Í sunnanverðu hliðarskipinu er grafarkapella Vasaborgargreifanna og hershöfðingjans Johan Banér, sem fell 1641 við Halberstadt.  Í norðanverðu kirkjuskipinu, vinsta megin inngangsins er Torstensonskapellan.

Norrmalm er stórt hverfi í kringum Gustavs Adolfstorg, þar sem stendur riddarastytta af konungnum (1796) og erfðafurstahöllin (1783), sem utanríkisráðuneytið hefur haft til afnota síða 1906.  Þarna er líka Stokkhólmsóperan og Jakopskirkjan (1643; turninn frá 1735).  Konunglegi grasagarðurinn og styttur Karls XII og Karls VIII eru í garði, sem teygist frá vatninu í átt að borginni.

Suðaustan Gustavs Adolfstorgs er Blasiehólmur með *Þjóðminjasafninu.  Þar er merkilegasta listasafn Svíþjóðar.  Þar er að finna fjölda verka hollenzkra meistara, s.s. Næturvörðinn eftir Rembrandt, Rubens, *Frans Hals eldri o.fl. Þarna eru líka verk franskra listamanna frá 18. öld, s.s. *Fr. Boucher auk yngri verka sænskra listamanna.  Í garðinum norðvestan safnsins er höggmyndaverkið Bältespännare (1867), sem sýnir einvígi að víkingasið.  Sunnan safnsins liggur brú yfir á Skeppshólma, sem sjóherinn réði yfir fyrrum.  Þar er Skeppsholmskirkjan (1842), Austurasíusafnið og Nýlistarsafnið, þar sem einnig er að finna Ljósmyndasafnið.  Skólaseglskipið „af Chapman” liggur við festar í grenndinni og þjónar nú sem farfuglaheimili á sumrin.

Norðan konunglega grasagarðsins liggur Hafnargatan.  Útsýni er gott úr þakveitingahúsi NK (Nordiska Kompaniet).  Hús nr. 4 er Hallwyska ríkisgreifahöllin með spænskum forhliðum.  Þar er nú safn, sem sýnir innanstokksmuni frá aldamótunum 1900 og leikrit eru flutt þar líka.  Hið vinsæla Berns Salonger veitingahús er í Berzeliigarðinum, sem var nefndur eftir efnafræðingnum J. Berzelius.  Konunglega dramaleikhúsið við Nybroplan var opnað árið 1907.

Við vesturenda Hafnargötu er Sergelstorg með nýlegum, háum brunni og Menningarhúsinu (P. Celsing; 1974), þar sem eru lestrarsalir, bókasafn og leikhús.  Nýja þinghúsið, frá 1971, stendur þarna við torgið.  Sergelsgata er göngugata með verzlunum, bæði ofanjarðar og neðan.  Hún liigur að Hötorg, þar sem eru sumarmarkaðir undir beru lofti.  Við torgið vestanvert er Tónleikahöllin (1962), miðstöð fílharmoníusveitar Stokkhólms og vettvangur afhendingar Nóbelsverðlaunanna.  *Orfeusbrunnurinn eftir Miles (1936) stendur fyrir framan Tónleikahöllina.  Aðeins norðar er Kungsgata, ein aðalverzlunargata borgarinnar.  Þar er m.a. PUB vöruhúsið og konungsturnarnir tveir, 17 hæða háhýsi.  Breiður Sveavegurinn liggur frá Tónleikahöllinni til norðvesturs.  Vinstra megin er Adolf-Friðrikskirkjan (1774), sem hýsir styttur sænska myndhöggvarans J.T. Sergel. (†1814).  Þar eru líka eftirmæli franska heimsspekingsins Descartes, sem dó í Stokkhólmi 1650.  Lík hans var flutt til Parísar 1666.  Við norðanverðan Sveaveg er verzlunarskólinn, Borgarbókasafnið og Wenner-Gren-rannsóknarmiðstöðin (1961).  Herskólinn er í Karlsbergshöll við Karlsbergsvatn, sem auðvelt er að komast að eftir Karlsbergsvegi frá Borgarbókasafninu.

Drottningargata liggur samhliða Sveavegi.  Ágúst Strindberg skáld (1849-1912) bjó í húsi nr. 85, þar sem er nú safn.  Aðalbyggingar háskólans (1878) eru við enda götunnar og Klörukirkjan er þar vestar með 104 m háum turni.  Skáldið Bellman liggur þar grafinn í kirkjugarðinum.  Aðalbrautarstöðin er skammt undan og þar er safn með líkönum af járnbrautum.

Konungshólmi er skammt undan ströndinni.  Þar er auðkenni borgarinnar, *Ráðhúsið, sem Ragnar Östberg byggði á árunum 1911-23.  Turninn er 106 m há og efst á honum eru þrjár gylltar kórónur, sem prýða skjaldarmerki Svíþjóðar.  Lyfta flytur fólk, sem vill njóta frábærs útsýnis, upp í turninn.  Uppi í turninum er klukkuspilið Georg og drekinn auk spilverks, sem fer í gang kl. 12:00 og 18:00 á sumrin.  Undir súlnaþaki við austurvegg turnsins er minnismerki um stofnanda borgarinnar, Birgi jarl, eftir G. Sandberg.  Inni í ráðhúsinu eru hátíðar- og stjórnsýslusalir , þ.m.t. Blái salurinn, sem er yfirbyggður inngarður með súlnagöngum, Borgarráðssalurinn og Gyllti salurinn með skrautlegum mósaíkverkum.

Skammt vestan ráðhússins, við Hantverkargata, er Kungsholmkirkjan (17.öld).  Við Scheelegötu er enn eitt ráðhúsið (1911-1915), sem er nú setur embættisréttarins og rétt þar hjá er aðalsetur lögreglu borgarinnar.

Östermalm-hverfið er vestan Birgis jarlsgötu og sunnan Nybroviken.  Um það liggur einhver fegursta gata Stokkhólms, Strandvegurinn, þar sem er fjöldi sendiráða.  Við Riddaragötu er umfangsmikið hersafn með einkennisbúningum og vopnum.  Konunglega bókasafnið (1870-77), sem er Þjóðarbókhlaða Svíþjóðar, er í nærliggjandi Humlegården-garðinum.  Meðal fornra bóka í safninu er *Codex Aureus, latnesk þýðing á guðspjöllunum fjórum frá 8 öld.  Við Sturegötu 14, austan garðsins, er Nóbelstofnunin, sem efnafræðingurinn Alfred Nobel stofnaði árið 1900 og veitir viðurkenningar fyrir afrek á sviðum eðlis-, efna- og læknisfræði, bókmennta og eflingu friðar í heiminum.  Engelbrektskirkjan úr graníti og rauðum tígulsteini er við Karlaveg.  Lars Israel Wahlman reisti hana árið 1914.  Skammt austar, við Valhallarveg, er timburleikvangurinn, sem var byggður fyrir Ólympíuleikana 1912.  Þar norður af eru byggingar Tækniháskólans.

*Borgarsögusafnið er í sunnanverðu Östermalmhverfisins.  Það hýsir líka Konunglega myntsafnið.  Byggingar ríkisútvarpsins eru þar í grenndinni og Kvikmyndastofnunin er við Borgarveg.  Djurgårdsbrunnvegur, sem er framhald Strandvegarins, liggur þaðan til austurs.  Þar er Sjávarsögusafnið, Tæknisafnið og Þjóðfræðisafnið.  Norðaustan safnanna er hinn 155 m hái Kaknästurn með veitingahúsi og útsýnispalli.

Suðurhverfi borgarinnar heitir Södermalm.  Það stendur í fallegu klettalandslagi og er tengt gamla borgarhlutanum með tvíbreiðri brú yfir Söderström.  Frá Södermalmstorgi er lyftan Katarinahiss, sem flytur fólk upp í veitingahús 36 m upp á við, þaðan sem gamli bærinn blasir við.  Frá útsýnispallinum liggja járntröppur að Mosebacktorgi.

Sunnan Södermalmstorgs er gamla ráðhúsið (17.öld) með Borgarsafninu.  Lítið eitt sunnar, við Samborgaratorg (Medborgarplats), er samnefnt hús frá 1939, sem þjónar margvíslegum tilgangi.  Maríukirkjan (16. og 17.öld; turnþak 1825)) er við Hornsgötu.  Vestar er Adolf Friðrikstorg með nokkrum brunnum eftir Wissler, „Þór með miðgarðsormi”.

*Djurgården er á eyju, sem er aðgengileg frá Strandvegi yfir Djurgårdsbrúna.  Þessi garður var veiðilendur konunganna á 16.-18. öldum.  Rétt handan brúarinnar er *Norræna safnið, sem gefur hugmyndir um lífshætti norrænna manna.  Á jarðhæð er *Konunglega herklæðasafnið, sem bregður ljósi á líf háaðalsins.  Þar er líka deild helguð bændum.  Henni er skipt eftir héruðum landsins, s.s. menningardeild sama.  Sunnan Norræna safnsins er Líffræðisafnið.  Þar er stafkirkja úr timbri með fræðslu um fugal og villt spendýr á Norðurlöndum.  Skammt þaðan er Liljevalchs listahöllin með skiptisýningum.

**Vasasafnið er á vesturhluta eyjarinnar.  Þar er konungsskipið Vasa (1628), sem sökk í jómfrúarferð sinni og var lyft af sjávarbotni árið 1961 í allgóðu ástandi.  Árið 1956 fannst staðurinn, þar sem skipið sökk og þremur arum síðar hófst undirbúningur að björgun þess af 32 m dýpi.  Þessi aðgerð krafðist á margan hátt nýrra vinnuaðferða.  Vasaskipasmíðastöðin, þar sem skipið er nú, var byggð í þeim tilgangi að bjarga skipinu og dytta að því, þegar það var komið úr hinni votu gröf.  Þetta 62 m langa skip var endurnýjað að öllu leyti.  Margir munir, sem voru í skipinu, s.s. húsgögn, myntir og styttur, eru til sýnis á einum stað.

Austar er útisafnið (1891) *Skansinn í grennd við Norræna safnið.  Stofnandi útisafnsins var Artur Hazelius, sem vildi varðveita hluta af sögu Svíþjóðar, sem vaxandi iðnvæðing var stöðugt að breyta.  Þarna er m.a. kirkja, herragarður, samabústaður og selbýli, þurrabúð, bændabýli og heill borgarhluti með alls konar handverkshúsum.  Rúmlega 150 hús og byggingar hafa verið endurbyggðar á safnssvæðinu, þannig að það er orðið a.m.k. 10 sinnum stærra en það var upphaflega.  Ýmsar sýningar eru í gangi, s.s. smjör- og ostagerð, bakstur, vefnaður, körfugerð, prentverk, rennismíði og glerblástur.

Skansinn er ekki einungis listsögulegt safn.  Þar er líka dýragarður, þar sem fæst yfirlit yfir dýrategundir, sem lifa í Svíþjóð, s.s. geitur og nautgripi.  Brún- og hvítabirnir, vísundar, elgir og hreindýr eru sýnd í sérdeild.  Í deildinni, sem fjallar um erlendar dýrategundir, má finna apa, fíla, sæljón og mörgæsir.  Mörg smádýr og fuglar lifa villt á Skansinum.  Dýragarðurinn er opinn allt árið.  Í norðurhluta garðsins er útsýnisturninn Breiðablik og í suðurhlutanum veitingahúsið Solliden, sem býður líka gott útsýni.  Þarna eru haldnir tónleikar daglega á sumrin auk þjóðdansa og leikhópa.

Karl XIV Jóhann lét reisa Rosendalhöllina austan Skansins á árunum 1823-27 en hún hefur verið safn með hans nafni síðan 1913.  Hinum megin á eyjunni er fyrrum bústaður og Vinnustofa listmálarans Eugens prins (1865-1947) á Valdemarsudde með athyglisverðu safni málverka.  Villa Thiel hýsir einnig safn sænskra málverka frá 19. og 20. öld við austurenda Djurgården.  Olíumyllan (1785) er þar í næsta nágrenni og býður innsýn í þróun iðnaðarins.

Vísindahverfið (Vetenskapsstaden) er í norðurhluta borgarinnar.  Þar er Konunglega vísindaakademían auk *Náttúrugripasafns ríkisins með afbragðs sýningargripum.

Í einbýlishúsahverfinu Lidingö á samnefndri eyju er *Millesgård, fyrrum bústaður og vinnustofa sænska myndhöggvarans Carl Milles (1875-1955).  Þar er hluti verka hans til sýnis ásamt verkum erlendra meistara.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM