Slóvakía meira,
Flag of Slovakia

SAGAN . . AÐALSÍÐA

SLÓVAKÍA MEIRA


.

.

Utanríkisrnt.

RÆÐISMENN

Booking.com

Loftslagið.  Í landinu ríkir að mestu rakt meginlandsloftslag með heitum sumrum og köldum vetrum.  Uppi í Karpatafjöllum eru vetur harðari og úrkoma meiri en annars staðar í landinu.  Á sléttunni í austanverðu landinu eru sumrin hlýrri og úrkoma minni.  Meðalhiti janúar í Bratislava er –0,7°C og júlí 19,1°C.  Meðalársúrkoman er 650 mm.

Flóra og fána.  Greni og fura eru algengustu trjátegundirnar í skógum Slóvakíu, einkum með vaxandi hæð yfir sjávarmáli.  Á láglendissvæðum ber talsvert á eik, eski og hlyn og á óræktuðum svæðum vex smári, reyr og kústagras.  Villt dýr eru orðin sjaldgæf vegna mengunar og eyðingar skóga en úlfar, brúnbirnir, villisvín, villikettir, hvíternir, gemsur og refir þrífast enn þá uppi í Karpatafjöllum.  Grágæs og aðrir sund- og vaðfuglar (fiskiernir, skarfar og hegrar) eru algengir í mýrum og við ár á láglendinu.

Náttúruauðlindir.  Talsvert er nýtt af brúnkolum, surtarbrandi og steinkolum.  Námuvinnsla og kolanotkun hefur valdið verulegum náttúruspjöllum, mengað vatn og loft, og valdið mörgum íbúum landsins heilsutjóni.  Snemma á árinu 1993 hóf ríkisstjórnin baráttu gegn mengun með setningu laga til úrbóta.

Íbúarnir.  Slóvakar eru að mestu slavar (85%).  Í upphafi 10. aldar lögðu magyarar frá Ungverjalandi landsvæði Slóvakíu undir sig og landsmenn voru bændur næstu þúsund árin.  Þessi þróun olli spennu milli þeirra og Tékka, sem voru í ráðandi stöðum og litu á sig sem yfirstétt.  Í landinu búa u.þ.b. 600 þúsund Ungverjar (>10% íbúanna), 300 þúsund sígaunar og færri Pólverjar, Þjóðverjar, Rússar og Úkraínumenn.  Talsverð spenna ríkir milli slóvakska meirihlutans og ungverska minnihlutans.  Árið 1994 var áætlaður íbúafjöldi landsins 5,4 milljónir (110 íbúar á hvern km²) og 77% íbúanna búa í þéttbýli.  Vesturhlutar landsins eru þéttbýlastir og fremur strjálbýlt í suður- og austurhlutunum.  Tunga slóvaka er af vestur-slavískri grein indó-evrópska frummálsins og ritmálið er rómverskt.  Hún er aðeins frábrugðin tékknesku og flestir íbúarnir tala bæðin málin reiprennandi.  Ungverska, pólska, þýzka, úkraínska, rúmenska og rússneska eru töluð í minnihlutahópum.

Skipting landsins.  Landinu er skipt í fjórar stjórnsýslueiningar, þ.m.t. höfuðborging og umhverfi hennar.  Þessum svæðum er skipt í 38 sveitarfélög, sem eru ekki nákvæmlega skilgreind í stjórnarskrá landsins.  Þessi fjögur héruð eru Západoslovenský (V-Slóvakía; 1.712.181 íbúar 1991), Stredoslovenský (Mið-Slóvakía; 1.609.806) og Východoslovenský (A-Slóvakía; 1.505.495).  Höfuðborgin Bratislava er á 368 ferkílómetra svæði (442.197 íbúar 1991).  Aðrar helztu borgir eru Kosice, Nitra, Presov og Banska Bystrica.

Trúarbrögð.  Flestir Slóvakar eru kristnir, aðallega rómversk katólskir (>60%).  Mótmælendur eru aðallega kalvíns- og lúterstrúar.  Mikill minnihluti aðhyllist réttrúnaðarkirkjuna og aðra anga kristinnar truar.

Menntun er frí og skólaskylda nær til barna á aldrinum 6-14 ára.  Snemma á tíunda áratugi síðustu aldar var fjöldi skólabarna rúmlega 716 þúsund í 2415 barnaskólum og u.þ.b. 159 þúsund í 350 gatnfræða- og verkmenntaskólum.  Æðri menntastofnanir:  Comenius-háskólinn í Bratislava (1919) og Safárik-háskólinn (1959) í Kosice.  Snemma á tíunda áratugnum voru rúmlega 61 þúsund stúdentar við nám í æðri skólum.

Menning.  Slóvöksk menning hefur löngum verið í skugga hinnar tékknesku, þótt hún hafi lifað sjálfstæðu lífi, einkum í lýrískri ljóðagerð.  Þjóðsöngshefðin er sterk og mörg svæði landsins hafa efnt til kennslu í og fræðslu um tónsmíðar.  Þjóðarbókhlaða Slóvakíu er í borginni Martin en Þjóðminjasafnið og Þjóðlistarsafnið eru í Bratislava.

Efnahagsmál.  Slóvakía hefur verið vanþróaðra landsvæði en Tékkland um aldir og efnahagurinn var mun bágari en í Tékklandi, þegar alþjóðasamfélagið viðurkenndi það sem sjálfstætt ríki 1993.  Á meðan ríkin voru sameinuð stóð Slóvakía undir 10% af fjárlögum ríkisins og fjórðungu vergrar þjóðarframleiðslu.  Hluti skýringarinnar er síðbúin iðnvæðing (1948), sem var að mestu undir stjórn hersins.  Hún byggðist að verulegu leyti á Sovétríkjunum og öðrum Austantjaldslöndum og varð illa úti við hrun kommúnismans í kringum 1990.  Við aðskilnaðinn samþykktu Tékkland og Slóvakía að halda sama gjaldmiðli ásamt tollabandalagi og opnum landamærum.  Þrátt fyrir þetta samkomulag, var gjaldmiðlum þeirra breytt 8. febrúar 1993 og viðskipti milli landanna minnkuðu mikið.  Slóvakía fékk strax aðgang að Alþjóðabankanum og Þróunarbanka Evrópu við aðskilnaðinn frá Tékkum.  Reynt var að laða að erlenda fjárfesta með skattaívilnunum en óhjákvæmilegt var að þiggja aðstoð frá Alþjóðabankanum og ESB.  Á miðju ári 1994 var atvinnuleysi í kringum 15% og verðbólga 14%.  Aðalatvinnuvegir þjóðarinnar eru enn þá iðnaður og landbúnaður.

Stjórnmála-
og embættismenn þjóðarinnar voru ekki eins ginnkeyptir fyrir frjálsu markaðskerfi og Tékkar og voru ekki andstæðir þátttöku fyrrum meðlima kommúnistaflokksins í nýrri stjórn landsins.  Erlendir fjárfestar leituðu frekar hófanna í Tékklandi en Slóvakíu en bandarískir Slóvakar stofnuðu sjóð í Bratislava til að styrkja frumkvöðla á sviði atvinnusköpunar.  Fyrsta ríkisstjórn landsins lá undir miklu ámæli fyrir miðstýringarhvatir og hún féll snemma árs 1994.  Næsta ríkisstjórn tók mun meira afgerandi stefnu til umbóta í efnahagslífinu.  Verg þjóðarframleiðsla landsins var í kringum 10 milljarðar US$ árið 1992 (US$ 1.930.- á mann).  Fjárlögin árið 1994 gerðu ráð fyrir 4 milljarða US$ tekjum og 4,5 milljarðar US$ gjöldum.

Landbúnaður er stundaður á u.þ.b. þriðjungi landsins og skilar u.þ.b. 20% af vergri þjóðarframleiðslu.  Aðaluppskerurnar á frjósömum láglendissvæðunum eru hveiti, bygg, maís og sykurrófur en á hærra liggjandi svæðum er ræktaður rúgur, hafrar, hör, kartöflur og annað grænmeti auk sauðfjár.  Árið 1990 var fjöldi sauðfjár 530 þúsund, nautgripa 1,4 milljónir, svína 2,4 milljónir og hænsna 13,9 milljónir.  Skógarhögg er ekki svipur hjá sjón, einkum vegna mengunar og ofnýtingar.

Námugröftur.  Meðal náttúruauðæfa eru surtarbrandur, brúnkol, blý, sink, kopar, járn og magnesít.  Þrátt fyrir tilraunir til að draga úr loftmengun, eru kol og nýting þeirra til iðnaðar svo mikilvæg, að illa gengur að ná markmiðum á því sviði.  Á fyrri hluta níunda áratugarins var framleiðsla brúnkola í kringum 2,8 milljónir rúmmetra, surtarbrands 1,34 m/m³, járns 1,63 m/m³, kopars 25.273 m³ og sinks 811 m³.

Iðnaðarframleiðsla.  Hinn vanþróaði og vanhæfi þungaiðnaður Austantjaldsríkjanna, þ.m.t. stórar vopnaverksmiðjur, hafa dregið mjög úr vexti framleiðsluiðnaðar í landinu.  Á árunum 1991-92 minnkaði framleiðslan um helming.  Stál-, efna-, vefnaðar-, fata-, gler- og byggingavöruiðnaður eru uppistaðan í iðnaði landsins.

Orkuframleiðsla.  Undirstaða rafmagnsframleiðslunnar er vatnsorka.  Nýting hennar hefur valdið náttúruspjöllum og mótmælum á alþjóðavettvangi.  Gabcikovo-verkefnið, sem Ungverjar og Tékkóslóvakar hófu framkvæmdir við árið 1978, krafðist tveggja stíflna í Dóná og tilfærslu árinnar.  Ungverjar hættu samstarfinu 1989 en Tékkóslóvakía ákvað að ljúka sínum hluta verksins.  Áin var flutt til og við það lækkaði yfirborð hennar á stóru svæði og olli erfiðleikum í skipaumferð.  Ekki tókst að komast að samkomulagi um aðgerðir til að bæta úr þessu ástandi og málinu var vísað til Alþjóðadómstólsins í apríl 1993.  Kjarnorkuver eru líka mikilvæg til framleiðslu rafmagns (u.þ.b. 50%).  Snemma á níunda áratugnum var rafmagnsframleiðslan 22,7 milljarðar kílóvattstunda.

Fjármál.  Gjaldmiðill landsins er koruna = 100 halura.  Eftir skiptingu Tékkóslóvakíu 1993 komust löndin að samkomulagi um sameiginlegan gjaldmiðil en aðskilnaðurinn gekk hratt fyrir sig og spennan milli þessara nýju lýðvelda var svo mikil, að hvort land um sig ákvað að virða ekki samkomulagið og breyttu gjaldmiðlum sínum.  Báðir höfðu sama gildi í upphafi en gengi slóvöksku krónunnar var fellt um 10% í júlí 1993.  Seðlabanki landsins nýtur svipaðs sjálfstæðis og Þýzki ríkisbankinn.  Einkabankar hafa starfað síðan umbætur hófust í fyrrum Tékkóslóvakíu og nú starfa u.þ.b. 30 bankar í landinu.

Erlend viðskipti.  Efnahagur landsins byggist á viðskiptum, ekki sízt við fyrrum samlanda í Tékklandi.  Viðskipti milli landanna minnkuðu um þriðjung við aðskilnaðinn.  Í marz 1993 undirrituðu bæði ríkin GATT (General Agreement on Tariffs and Trade)-samninginn.  Þrátt fyrir fríverzlunarsamning við Pólland og Ungverjaland átti Slóvakía við vandamál að glíma á fyrri hluta ársins 1993.  Talsverður viðskiptahalli var á fyrri hluta tíunda áratugarins.  Helztu viðskiptalönd Slóvakíu eru Rússland, Þýzkaland, Pólland, Ungverjaland, Austurríki og Tékkland.  Aðalútflutningurinn byggist á hálf- og fullunnum vörum, vélbúnaði, efnavöru og matvælum.  Aðalinnflutningurinn er eldsneyti, vélbúnaður og flutingatæki, hráefni og efnavörur.

Samgöngur.  Samgöngukerfi landsins er fremur ófullkomið og umferð fremur lítil.  Járnbrautirnar eru u.þ.b. 3500 km langar og þriðjungur kerfisins rafvæddur.  Vegakerfið er tæplega 18 þúsund km langt, þar af u.þ.b. 200 km hraðbrautir.  Á fyrri hluta tíunda áratugarins voru rúmlega 900 þúsund fólksbílar og 110 þúsund vörubílar og rútur í landinu.  Ríkisflugfélagið Slov-Air annast loftflutninga og eini aðþjóðaflugvöllurinn er við Bratislava.

Fjölmiðlar.  Á annan tug dagblaða er gefinn út í landinu.  Hin stærstu er Novy Cas og Pravda.  Slóvakska sjónvarpið er aðalstöð landsins en auk hennar starfa nokkrar smærri einkastöðvar.  Í upphafi tíunda áratugarins voru rúmlega 1,3 milljónir sima, 1,1 milljónir útvarpa og 1,6 milljón sjónvarpstækja í landinu.

Vinnuafl landsins telur u.þ.b. 2,7 milljónir og flest vinnandi fólk er í verkalýðsfélögum.  Réttur verkalýðsfélaga er skýr í stjórnarskránni frá 1992.  Atvinnuleysi er alvarlegt vandamál.

Stjórnsýsla.  Slóvakía er stjórnarskrárbundið lýðveldi samkvæmt stjórnarskránni frá 1. sept. 1992, sem var samþykkt við aðskilnaðinn við fyrrum Tékkóslóvakíu.  Forsetinn er æðsti maður ríkisins.  Þingið kýs hann með a.m.k. 60% atkvæða til fimm ára í senn.  Hann skipar forsætisráðherra, sem stýrir framkvæmdavaldinu með ráðherraliði sínu.  Þingið starfar í einni deild.  Þar sitja 150 þingmenn, sem eru kosnir í beinum hlutfallskosningum til fjögurra ára og starfa eftir svipuðum reglum og giltu í þingi Tékkóslóvakíu.  Dómsvaldinu þjóna Stjórnarskrárréttur, sem hefur yfirumsjón með borgaralegum-, glæpa-, verzlunar- og framkvæmdalegum dómstólum.  Hinn síðastnefndi annast dómsmál gegn ríkisstofnunum.  Dómstólar eru í héruðum og sveitarfélögum.  Flestir dómar falla fyrir héraðsdómstólunum, þar sem fimm dómarar sitja í hverju máli.  Forsetinn skipar hina tíu dómara Stjórnarskrárréttarins til sjö ára í senn.  Sveitarstjórnir eru kosnar í almennum kosningum.

Stjórnmálaflokkar.  Stærstu stjórnmálaflokkar landsins eru Demókratar, Vinstri demókratar (arftaki kommúnistaflokksins), Kristilegir demókratar og Þjóðarflokkurinn.  Ríkisstjórnir landsin hafa verið samsteypustjórnir eftir hrun kommúnismans.  Fjöldi annarra smáflokka starfar í landinu, sumir á vegum ungverska minnihlutans eða annarra slíkra hópa og sérhagsmunahópa.

Heilbrigðismál.  Meðallífslíkur karla snemma á tíunda áratugnum voru 67 ár og kvenna 75.  Þá voru 16.100 læknar í landiu og 47.900 sjúkrarúm.  Tryggingastofnun ríkisins sér íbúunum fyrir frírri heilbrigðisþjónustu en talsvert skortir á þjónustuna í strjálbýli.

Hermál.  Slóvakski herinn var aðskilinn frá her Tékkóslóvakíu 1993 og taldi þá u.þ.b. 47 þúsund manns.  Þá voru 33 þúsund í landhernum og 14 þúsund í flughernum.  Herskylda er 18 mánuðir fyrir alla karlmenn 18 ára og eldri.  Konum er heimilt að skrá sig, ef þær kjósa.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM