Lissabon Portúgal,
Flag of Portugal

Ferðaþjónusta, samgöngur o.fl. . Meira

LISSABON
PORTÚGAL

.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

Booking.com

Praça do Comércio - Commerce SquareLissabon er höfuð- og aðalhafnarborg Portúgals.  Hún er við 11 km breitt Palhavatn Tagusárinnar, sem rennur út í Atlantshafið.  Beggja vegna árinnar er landslag hæðótt.  Miðborgin, sem er Baixa á norðurbakkanum, var endurbyggð eftir mikla jarðskjálfta 1755 og margt sögulegt hefur verið varðveitt þar.  Leifar af varnarvirkjum mára sjást enn þá.  Gangstéttar Avenida da Liberdade, aðalgötu borgarinnar, eru enn þá lagðar bláu mósaíki í skugga pálma og lauftrjáa og gosbrunnar prýða umhverfið.  Við enda hennar er almenningsgarður og útikaffihús eru á hverju strái.  Flestar kirkjur borgarinnar, sem eru aðallega í barok, rokoko- eða rochaillestíl, voru endurbyggðar eða lagfærðar eftir ofangreinda jarðskjálfta.  Karmelkirkjan (14.öld) var látin standa óbreytt eftir þá og er nú hluti af fornminjum borgarinnar.  Kastali hl. Georgs stendur yfir borginni á hæðinni, þar sem borgin var fyrst stofnuð.  Belémturninn og Jerônimosklaustrið eru meðal byggingarlistaverka borgarinnar.

Borginni óx fiskur um hrygg í viðskiptum og ferðaþjónustu á 20. öldinni og í stað fjögurra hæða húsa við Avenida da Liberdade og hliðargötur eru komin 10 hæða nútímahús.  Úthverfi hafa sprottið upp norðan og vestan miðborgarinnar í áttina að Belém.  Aðaliðnaðarsvæði landsins eru á suðurbakka Tagos í Lissabon, þar sem mikið er framleitt af sementi, stáli, korki, plasti, sápu, hergögnum og eletrónískum tækjum.  Þar eru líka kornvörugeymslur og olíuhreinsunarstöðvar.

Lissabonháskóli (1288) er aðalmiðstöð æðri menntunar en tækniháskólar og háskólasjúkrahús eru líka mikilvæg.  Söfn borgarinnar hýsa marga merka gripi, bæði sögulega og nútímalega.  Almenningssamgöngur eru velskipulagðar með strætisvögnum, neðanjarðarlestum, járnbrautum og flug fer um alþjóðaflugvöllinn, sem er 7 km norðan borgarinnar.  Heildarflatarmál Lissabon er u.þ.b. 87 km² og íbúafjöldinn er innan við milljón.

Tagusáin hefur verið yrkisefni skálda í gegnum tíðina, enda borgarprýði og lífæð og marmaratröppur, sem liggja upp frá henni að súlnagöngum Verzlunartorgsins (Praça do Comércio), eru opinber inngangur í borgina.  Torgið er prýtt ljósgrænum og hvítum 18. aldar barokhúsum og á milli þeirra eru geysimikil súlnagöng (19.öld), sem liggja inn í miðborgina.  Á miðju torginu er bronzstytta af Jósef konungi I á hestbaki, sem er umkringd fjölda kyrrstæðra bíla á hverjum degi.  Enskir sjómenn kölluðu það Svartaklárstorg.  Það er í suðurjaðri gömlu miðborgarinnar, Cidade Baixa (Neðriborg), sem var algerlegar endurbyggð eftir 1755 undir eftirliti forsætisráðherra Jósefs I, Sebastião de Carvalho, síðar markgreifa af Pombal.  Göturnar mynda ferhyrninga og skipulagið er brotið upp með rúmgóðum torgum  Nöfn margra gatnanna eru dregin af fyrrum íbúum þeirra og starfsemi, s.s. Rua Áurea (Gullsmiðastræti).  Rossiotorgið iðar af lífi og þaðan liggur aðalgatan, Avenida da Liberdade.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM