Lissabon Portúgal meira,
Flag of Portugal


LISSABON
PORTÚGAL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Praça do Comércio - Commerce SquareFerðaþjónusta, verzlun og sjávarútvegur eru megingrunnur efnahagslífs borgarinnar á okkar dögum.  Ferðaþjónustan hefur jafnað viðskiptahalla landsins undanfarin ár.  Fólksfjölgun í borginni og fjölgun hótela, skrifstofu- og fjölbýlishúsa hefur aukið fjármálastarfsemi.  Verzlanir eru í þyrpingu við Rua Garrett og í Baixa auk verzlanamiðstöðva í nýju íbúðarhverfunum í áttina að flugvellinum.  Aðalmarkaður borgarinnar er á torgi á árbakkanum nærri Cais do Sodré brautarstöðinni.  Við löndunarbryggjurnar í Alcântara, vestan Baixa, eru frystigeymslur, sem eru nauðsynlegar til að taka við sardínu- og túnfiskafla togaranna.

Samgöngur.
  Járnbrautir teygjast næstum út í hvern krók og kima landsins og tengjast meginkerfum annarra Evrópulanda á meginlandinu.  Portela de Sacavém-flugvöllurinn (10 km frá borginni) tengir landið við umheiminn loftleiðis.  Brúin, sem kennd er við 25. apríl, hefur verið aðalumferðaræðin inn í borgina frá því hún var byggð um miðjan sjötta áratuginn.  Hún er hin fyrsta, sem byggð var yfir  Tagusfljótið (2277m) í 70 m hæð yfir vatnsborðinu.  Undir henni eru tvenn járnbrautarspor.

Stjórnsýsla.  Höfuðborgin er aðalstjórnsýslusetur landsins.  Margar opinberar byggingar eru í úthverfum og 18. aldar húsum við Verzlunartorgið.  Þinghúsið (17.öld), sem hýsir líka Þjóðskjalasafnið, er í vesturhluta Bairro Alto var fyrrum klaustrið São Bento da Saúde.  Vestar er Necessidadeshöllin (18.öld), sem var konungshöll, hýsir utanríkisráðuneytið.  Önnur konungshöll (1700) í Belém er opinbert setur forseta landsins.  Öll stjórnsýslusvæði landsins, 21 að tölu, þ.m.t. Lissabonhérað, hefur landstjóra, sem er aðalfulltrúi ríkisstjórnarinnar og starfsmaður innanríkisráðuneytisins.  Hverju slíku svæði er skipt í sveitarfélög (concelhos), sem skiptast í borgarhluta (bairros) og hreppa (freguesias).  Hreppsnefndir eru kosnar í almennum kosningum og þær annast framkvæmdir fyrir hreppana.  Í borgarstjórn Lissabon eru kjörnir fulltrúar, sem íbúar stjórnir borgarhlutanna og hreppa héraðsins kjósa.  Þeir annast löggjöf og velja framkvæmdastjórn borgarinnar.  Undir stjórn borgarinnar heyra m.a. vatnsveitan, gatnamál og hreinsunardeild.  Tekjustofnar borgarinnar eru beinir skattar og framlög ríkisins.

Heilbrigðismál.  Hvergi annars staðar í landinu er fleira starfsfólk við heilsugæzlu miðað við höfðatölu en í Lissabon.  Þar eru ríkis- og herspítalar og einkasjúkrahús.  Borgin rekur enga slíka stofnun og ríkisspítalarnir eiga erfitt um vik vegna takmarkaðra fjárveitinga frá ríkinu.  Þeir eru undirmannaðir og í sumum tilfellum vanbúnir tækjum til að sinna þeim verkum, sem krafizt er af þeim.  Enskir, franskir og hebreskir spítalar annast sína hópa.

Menntamál.  Lög um menntamál kveða á um skólaskyldu á milli 6 og 14 ára aldurs og að menntun sé frí.  Fjöldi almenningsskóla í Lissabon er ónógur fyrir íbúafjöldann.  Einkaskólar brúa bilið að einhverju leyti.  Lissabonháskóli (1290) var eini háskóli landsins fram á 16. öld.  Hann var fluttur fram og til baka milli Lissabon og Coimbra til 1537, þar til var ákveðið, að hann skyldi vera í Coimbra til frambúðar.  Þar með var höfuðborgin háskólalaus til 1911, þegar nýr háskóli var stofnaður.  Tækniháskólinn var stofnaður árið 1931 og þrír aðrir háskólar voru opnaðir á áttunda áratugnum.  Stefna stjórnvalda hefur löngum verið að gefa öllum þegnum landsins sömu tækifæri til menntunar en umsækjendur um háskólavist hafa ætíð verið fleiri en hægt er að afgreiða.

Menningarmál.  Calouste Gulbenkian stofnunin og safnið í Lissabon er listamiðstöð, sem var skírð í höfuð armeníska olíujöfursins Calouste Gulbenkian.  Hann lagði fram fé til stofnunar hennar.  Þar er tónlist, ballet og öðrum listgreinum gert hátt undir höfði.  Þar er líka fjölbreytt safn, sem Gulbenkian (bjó í Lissabon síðustu ár ævinnar 1942-55) gaf portúgölsku þjóðinni.  Fjöldi annarra safna í borginni veitir innsýn í fortíðina, trúabragðasögu, listir og sögu borgarinnar.  Azulejo- og Vagnasöfnin eru fyrir margt sérstök.  Hið fyrrnefnda er í Madre de Deus, nunnuklaustrinu.  Þar er stórt og fjölbreytt safn málaðra flísa (azulejos), sem íbúar Íberíuskagans eru frægir fyrir.  Vagnasafnið er í álmu forsetasetursins og státar af fjölda fagurra, útskorinna og gullhúðaðra vagna. Borgarhljómsveit Lissabon var stofnuð árið 1971.  Þjóðlistaskólinn býður nemendum sínum framhaldsnám í tónlist og leiklist.

São Carlos-leikhúsið (18.öld) og Dona Maria II-þjóðleikhúsið (1845) eru aðalleikhús borgarinnar.  Hið fyrrnefnda fagurlega skreytt og sporöskulagað innahúss og hið síðarnefnda státar af sex risasúlum, sem stóðu úr klausturkirkju hl. Francisco (hrundi í jarðskjálfta).  Innviðir þjóðleikhússins eyðilögðust í eldi 1966 og það var endurbyggt.  Hvorugar þessar byggingar eru eins leikrænar innandyra og sumar kirknanna, sem voru byggðar eða endurbyggðar eftir jarðskjálftana 1755.  Útskurður, marmari, flísar og gullskreytingar þeirra í barok-, rokoko- eða rocaillestílum eru stundum yfirþyrmandi.  São Roque-kirkjan (16.öld) er eitthvert glæsilegasta dæmið um fagrar flísaskreytingar, málmverk og mósaík með hálfeðalsteinum, þótt útlit hennar gefi það ekki til kynna.

Gamli, rauði nautaatsleikvangurinn úr múrsteini með márískum bogum og hvelfingum er enn þá vinsæll meðal áhorfenda.  Fyrsti andstæðingur nautsins í portúgölsku nautaati er annaðhvort riddarinn (cavaleiro) eða „toureiro” á tveimur jafnfljótum.  Frammistaða þeirra er dæmd eftir leikni þeirra, áræðni og nálægð við nautið.  Næst kemur hópur fimra einstaklinga (forcados), glímir við nautið með berum höndum og fellir það án þess að drepa það.

Víða um borgina eru ýmiss konar íþróttavellir og afþreyingarstarfsemi.  Helztu knattspyrnuleikir fara fram á þremur aðalvöllum borgarinnar og almenningsgarðar eru rúmlega 40 talsins.  Hinn stærsti þeirra, Monsanto, er tæplega 21 km² og býður fjölbreytta afþreyingu.  Hæðótt landslag hans prýtt skógi, sem var gróðursettur á þriðja áratugnum, til að mynda skjól í borginni.  Auk tveggja grasagarða er dýragarður í borginni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM