Lissabon Portúgal meira,
Flag of Portugal


LISSABON
MEIRA - PORTÚGAL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Praça do Comércio - Commerce SquareAustan Baixa er Alfama, elzti hluti borgarinnar, þar sem mjóar og bugðóttar götur liggja niður að ánni og Georgskastali gnæfir yfir.  Hann er af márískum uppruna, líkt og flestar aðrar byggingar þessa borgarhluta, og var nefndur eftir verndardýrlingi Englands í tilefni af bandalagi milli þjóðanna árið 1386.  Beint fyrir neðan kastalann, er hin hvíta og virðulega kirkja hl. Vincents utan múra.  Þjóðsagan segir, að jarðneskar leifar hans hafi komið til borgarinnar með skipi, sem tveir hrafnar vísuðu veginn, og þeir voru teknir upp í skjaldarmerki borgarinnar.

Hverfin vestan Baixa í átt til Belém bera hvert einkenni byggingarskeiða sinna.  Bairro Alto (Efriborg) var að mestu byggð á 17. öld og státar af beinum, mjóum og bröttum götum.  Sumar þeirra, einkum þær, sem liggja niður í Baixa, eru svo brattar, að gera þurfti tröppur, togbraut eða lyftu (úr járni eftir hönnun franska verkfræðingsins Gustav Eiffel).  Helztu einkenni borgarinnar, svalahús með útsýni, hafa varðveitzt, þrátt fyrir nýbyggingar og útþenslu hennar.  Miradouros, sem eru 17 útsýnishjallar í görðum borgarinnar, eru vinsælir meðal borgarbúa.  Nýjar hotel- og skrifstofubyggingar gefa borginni samt sem áður nýtt yfirbragð og eru smám saman að breyta heildarmynd borgarinnar.  Pastellituð húsin, sem voru allsráðandi á 19. öld, eru ekki eins áberandi ímynd borgarinnar og áður.  Lissabon er að verða að iðandi stórborg, þótt reynt sé að gæta hófs í breytingum eldri borgarhlutanna.  Nútímafjölbýlishús hafa risið í nýju borgarhverfunum en samt er enn þá skortur á húsnæði.  Fátækrahverfi hafa risið í jaðri borgarinnar og margar efnaðar fjölskyldur hafa flutt til Portúgölsku rívíerunnar á milli Lissabon og Estoril, 26 km vestar.

Íbúarnir.  Lissabonhérað nær yfir u.þ.b. 3% landsins og þar búa rúmlega 20% íbúanna.  Borgin sjálf tekur yfir u.þ.b. 3% af héraðinu og þar búa 40% íbúa þess.  Þetta svæði hefur löngum laðað til sín fólk úr dreifbýlinu og íbúarnir eru að langmestu leyti portúgalskir að uppruna og fólk af erlendum uppruna er aðallega sendiráðsstarfsmenn og kaupmenn, sem stunda inn- og útflutning.  Meðaltekjur íbúanna eru meðal hinna lægstu miðað við aðrar höfuðborgir í Vestur-Evrópu.  Öldum saman hafa íbúar Lissabonhéraðs verið meðvitaðir um skapgerðareinkenni sín, sem er bezt lýst með depurð og forlagatrú (saudade) og kemur fram í angurværum söng íbúa hverfanna Alfama og Bairro Alto.  Orðið „fado” þýðir örlög.  Melódískur söngurinn lýsir í flestum tilvikum erfiðleikum og slæmum örlögum.

Trúarbrögð.  Portúgal er hreinkatólskt land og Lissabon er einn þriggja staða í heiminum, þar sem æðstu menn kirkjunnar eru kallaðir patríarkar.  Norður-Portúgalar eru frómari en íbúar Lissabon og iðka trú sína með meiri ákafa og metnaði.  Portúgalar sækja helzt kirkju í tengslum við skírnir, giftingar og jarðarfarir.  Trúarlegar skrúðgöngur eru ekki eins skrautlegar og dramatískar og á Spáni.  Júníhátíðirnar, helgaðar dýrlingunum hl. Anthony, hl. John og hl. Pétri, eru undantekningar. Þá klæðast borgarbúar skrautlegum búningum, stökkva yfir bálkesti og dansa á götunum fram á rauðan morgun.  Þessi fjörlegu hátíðahöld, sem fara aðallega fram á þröngum götunum í grennd við Georgskastalann, bera enn þá yfirbragð heiðinna miðsumarshátíða.

Iðnaður borgarbúa byggist frá fornu fari á sápugerð, hergagna- og stálframleiðslu en ýmsis konar annar iðnaður hefur bætzt við, s.s. glergerð, framleiðsla elektrónískra tækja og demantaskurður.  Ríkisreknu olíuhreinsunarstöðvarnar hafa stækkað og aukið framleiðslu sína.  Iðnaðarsvæðið hefur teygzt út fyrir borgarmörkin á suðurbakka Tagusárinnar í áttina til Setúbal, sem er 41 km sunnar, og orðið hið mikilvægasta í landinu.  Einhver stærsta sementsverksmiðja heims er þar innan um kornfæribönd og hlöður, stál-, kork og plastverksmiðju.  Bryggjur Lissabonhafnar (31 km langar) eru velútbúnar til afgreiðslu gámaskipa og bílferja og það er stöðugt verið að bæta aðstöðuna.  Baðmull, korn og kol eru mikilvægar innflutingsvörur.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM