mexíkóborg borgarmyndin,

SAGAN     SKOÐUNARVERT

MEXÍKÓBORG
BORGARMYNDIN

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Borginni er skipt í 16 stórhverfi (delegaciones).  Innan þeirra eru rúmlega 240 íbúðahverfi (colonias).  Götunöfn þeirra eru þemabundin, s.s. fræg vatnsföll, borgir Evrópu, heimspekingar o.þ.h.  Víða finnast sömu götunöfn í hinum mismunandi hverfum.  Rúmlega 100 götur voru skírðar eftir Emilio Zapata.  Það er því nauðsynlegt að fá upplýsingar um hverfin, ef götuleit á að vera árangursrík.

Spænskar nýlenduborgir voru allar skipulagðar eins og skákborð, en tímans tönn hefur breytt Mexíkóborg nægilega til þess, að ókunnugir eiga oft erfitt með að átta sig á henni.  Almenna reglan er sú, að götur, sem kallast „Avenidas”, liggja milli vesturs og austurs, en „Calles” milli norðurs og suðurs.  Auk þessara nafna eru líka „Bulewares”, „Calzadas” (fyrrum stífluvegir), „Callejones” (stígar), „Prolongaciones” (framlengingar), „Ejes Viales” (hraðbrautir) og borgarhraðbrautir.  Aðeins mikilvægustu umferðaræðar bera sama nafn frá upphafi til enda, s.s. Avenida de los Insurgentes og Paseo de la Reforma.  Þá eru einnig til hringstræti um miðborgina.

Árið 1980 var hið 15 ferkílómetra miðborgarsvæði með 1436 húsum friðlýst af sögulegum ástæðum.  Þar standa byggingar frá 16.-19. öld (Centro Histórico de la Ciudad).  Vesturmörk þess eru göturnar Abraham González og Paseo de la Reforma, austurmörkin Calle Anfora, norðurmörkin Bartholomé de las Casas og suðurmörkin José María Izazaga.  Æ fleiri þessara friðlýstu húsa eru gerð upp og allt frá árinu 1987 hefur verið dregið úr bílaumferð.

Skoðunarvert.
Ferðamenn, sem eiga kost á nokkurra daga dvöl í borginni, ættu að nota fyrsta daginn til kíkja fyrst á umhverfi „Zócalo” torgsins.  Dómkirkjan, Sagario þjóðarhöllin og Stórhofssafnið eru ærin verkefni.
Næsta degi er vel varið í Alameda-garðinum og á Avenida Juáres.  Þar eru m.a. Fagurlistahöllin, Latnesk-ameríski turninn, Azulejos-húsið og kirkja heilags Fransis.  Þá er hægt að finna afdrep frá hávaða og ys stórborgarinnar í Bosque de Chapultepec í grasa- og dýragörðunum og í Castillo de Chapultepec.
Heimsókn í Mannfræðisafnið tekur heilan dag.
Þá má ekki gleyma Nútímalistasafninu.
Á kvöldin er iðandi mannlíf á Garibaldi-torgi með spilandi Mariachi-kapellum.
Aðrir borgarhlutar eru líka athyglisverðir.  Göngutúr um Coyocán með Frida-Kahlo-safninu, Trotzkij-safninu, Ciudad Universitaria, bátsferð um flotgarða Xochimilico og Guadalupe-dómkirkjunni er góð hugmynd.
Þessi upptalning er aðeins lítið brot af áhugaverðum möguleikum í borginni og nágrenni hennar.
Nánar.

Samgöngur.
Umferðarmenningin í borginni er talsvert framandi og stundum ógnvekjandi fyrir fólk frá norðurslóðum.  Loftmengunin í borginni er líka mjög mikil og því er fólki fremur ráðið frá því að fá lánaða bíla hjá bílaleigum til að aka um hana.

Jarðlestin
.  Ódýrasti ferðamátinn er jarðlestin, sem flytur fólk til skoðunarverðustu staðanna.  Um þetta kerfi ferðast milljónir manna daglega og leiðakerfið er svo vel merkt, að ferðamenn, sem eru ólæsir á spænsku, eru í góðum málum.  Farþegum lestanna er óheimilt að ferðast með þungan farangur.  Farþegar jarðlestanna eru flestir til kl. 10:00 og eftir kl. 16:00.  Vasaþjófar eru iðnir við kolann í mannþröng!  Hlutar brautarpallanna eru ætlaðir konum og börnum á háálagstímum og einnig sumir vagnar lestanna.  Konur ættu ekki að nota jarðlestakerfið á nóttunni.

Strætisvagnar eru ekki hentugir þeim, sem eru ekki spænskumælandi og eiga erfitt með að halda áttum.  Þó er leið 76 milli Zócalo og Bosque de Chapultepec um Paseo de la Reforma einföld lausn fyrir ferðamenn.  Vasaþjófar eru á hverju strái í fjölmenni og ekki sízt í strætisvögnum.

Leigubílar eru margir og margvíslegir.  Peseros eru yfirleitt litlar volkswagenrútur, sem aka fastar leiðir og safna farþegum.  Hinir gulu „Taxis Libres”, litlir bílar, oft volkswagen bjöllur eru víða á ferðinni og sinna bendingum viðskiptavina.  Þeir eiga að fá greitt samkvæmt gjaldmæli.  Farþegar verða að gæta þess, að hafa áfangastað á hreinu, því sömu götuheiti koma fyrir í mörgum hverfum.  Hinir rauðu „Taxis de Sitio” eru á föstum stæðum og hægt er að panta þá til að sækja fólk.  Hinir stóru lúxusvagnar, „Turismos”, standa tilbúnir fyrir framan stærstu hótelin.  Þeir eru ekki búnir gjaldmælum, svo að semja verður um fargjaldið fyrirfram.  „Setta”-smárútur annast flutninga milli hótela og flugvallarins gegn föstu gjaldi.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM