Valletta,
höfuðborg Möltu, er í 0-60 m hæð yfir sjó.
Í henni og kringum hana er þéttbýlasta svæði eyjarinnar með
u.þ.b. 120 þúsund íbúa.
Opinbert nafn borgarinnar er il-Beit Valletta og fyrrum La
Valetta.
Gamla borgin er umlukin öflugustu varnarmannvirkjum heimsins og
lega hennar uppi á 60 m háum Sciberrashöfðanum á norðurströnd
Möltu var hernaðarlega mjög mikilvæg.
Höfðinn er u.þ.b. 3 km langur og allt að 700 m breiður og
liggur á milli tveggja mikilvægustu hafna landsins, Marsamxett- og Stóruhafnar.
Þær eru við firði, sem liggja að Valletta að norðan, austan og
sunnan og eru meðal beztu náttúruhafna Evrópu.
Allt hafnarsvæðið í kringum Valletta er hálfhringlaga og
umhverfis það eru þéttbýlustu svæði landsins (u.þ.b. 7700 íbúar
á km²).
Sunnan Stóruhafnar eru bæirnir Kalkara, Vittoriosa, Cospicua,
Senglea, Paola og Marsa og meðfram Marsamxetthöfn eru hverfin
Floriana, Pietà, Msida, Ta’Xbiex, Gzira og Sliema.
Allar
meginstofnanir landsins eru í Valletta, s.s. þingið og hæstiréttur.
Borgin er líka menningar- og menntamiðstöð landsins.
Þar er biskupsetur og háskóli (1769), listaskóli, vísinda-
og tækniskóli, Menningarstofnun Möltu, Bændasamtökin, stjörnuathugunarstöð,
Þjóðminjasafnið og fjöldi annarra skóla.
Borgin er einnig mikilvægasta viðskiptamiðstöð landsins og
stærsti vinnuveitandinn er skipasmíðastöðin, sem Bretar létu
Maltverjum eftir árið 1958 og var í einkarekstri til 1968, þegar ríkið
tók við.
Þar vinna 5000 manns og þar eru byggð farþegaskip og allt að
300.000 tonna fragtskip tekin í klössun í fimm slippum,
Stórahöfn var endurnýjuð 1961.
Um hana fer mestur hluti farþegaflutninga á sjó og upp-, út-
og umskipun úr skipum, sem eru allt að 92.000 brúttótonn að stærð.
Korngeymslan við höfnina rúmar 12.500 tonn og a.m.k. 400.000
tonn af alls konar vöru fer um höfnina á ári.
Þegar
að brezki herinn yfirgaf herstöðina 1979 samkvæmt samningnum frá
1972, varð efnahagslíf landsmanna fyrir verulegu áfalli og
atvinnuleysi jókst gríðarlega.
Atvinnulífið við hafnirnar beið ekki mikinn skaða en
mikillar uppbyggingar í atvinnulífinu var þörf til að jafna leika
á ný.
Mikill fjöldi fólks flutti úr landi en smám saman tókst að
byggja upp mörg lítil iðnfyrirtæki á sviðum matvæla-, efnavöru-,
vefnaðar- og vélaframleiðslu.
Flestum þessara nýju fyrirtækja var komið fyrir í Marsa við
innanverða Stóruhöfn.
Flestir, sem stunduðu margs konar þjónustustörf fyrir Breta,
fengu smám saman störf við sitt hæfi í ört vaxandi ferðaþjónustunni. |