Valetta Malta skoðunarvert,
[Malta]


VALETTA
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
MALTA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hallartorgið er miðpunktur Valletta.  Það er kennt við *Stórmeistarahöllina, sem Gerolamo Cassar byggði á árunum 1568-74 í endurreisnarstíl með tveimur inngöngum á fallegri forhliðinni.  Höllin hýsir nú þing landsins, skrifstofu forsetans og annarra embætta.  Í Neptúnusargarðinum stendur falleg bronzstytta sjávarguðsins og Prins Alfreðsgarðurinn er prýddur trjám og klukku með styttum í tyrkneskum klæðum, sem slá heila tímann með stórum hömrum.  Inni í höllinni er ráðssalurinn, prýddur dýrmætum glitvefnaði, sem Perellos y Roccaful (1697-1720), stórmeistari lét vefa í Frakklandi.  Myndirnar á teppunum eru frá þá lítt kunnum svæðum Karíbahafsins og Suður-Ameríku.  Aðrir salir og hæðir hallarinnar eru prýddar alls konar verðmætum listaverkum og gömlum vopnum og verjum.  Salur stórráðsins er prýddur dýrlegum freskum og sendiherrasalurinn olíumálverkum af mörgum konungum og stórriddurum og guli ríkissalurinn gulu rósasilki.  Vopnabúrið á stofuhæðinni er mjög áhugavert, enda meðal stærstu slíkra safna í heimi.  Þar er margt að sjá, þótt Frakkar færu um með ránshendi 1798-1800 og skildu lítið eftir.  Herklæði stórmeistarans Adrien de Wignacourt (1690-97), gerð í Mílanó, og Martin Garzes, gerð á verkstæði Siegismund Wolfs í Landshut, eru einstök.

Lífvarðahúsið er klassísk bygging með dórískum súlum beint á móti höllinni.  Þar bjuggu lífverðir stórriddaranna en núna eru menningarmiðstöðvar Lýbíu og Ítalíu í húsinu.  Norðaustan Hallartorgsins er Hostel de Verdelin frá 17. öld.  Þaðan liggur Lýðveldisgatan (900m) að göngugötunni, sem liggur beint að

St. Elmo-virkinu
úti á enda höfðans.  Spænski stórriddarinn, Juan de Homedes (1536-53) lét byggja það 1553 til varnar Stóruhöfn.  Þar stóð fyrir lítið miðaldavirki, sem Spánverjar létu reisa.  Áður stóð þar virki Normanna.  Um svipað leyti voru virkin St. Angelo og St. Michael handan hafnarinnar reist.  Þá var aðalsetur Möltu- eða Jóhannesarríddaranna í Birgu, sem nú heitir Vittoriosa.  Árið 1565, þegar Tyrkir sátu um vígi riddaranna, skemmdist St. Elmovirkið talsvert en var lagfært við uppbyggingu Valletta.  Í síðari heimsstyrjöldinni komu varnir borgarinnar sér vel, þegar þýzki sjóherinn gerði árangurslausa árás.  Nú er stríðssafn í neðri hluta virkisins.  Þar eru munir úr báðum heimsstyrjöldunum, þ.á.m. fræg orrustuflugvél.

Sjúkrahús Mölturiddaranna
er í suðurhlíðum Sciberrashöfðans, þar sem auðvelt var að koma sjúkum og særðum frá Stóruhöfn.  Jean l’Evêque de la Cassière, stórriddari (1572-81), lét óþekktan byggingarmeistara reisa það.  Í því er stór sjúkrasalur (60x15x10m).  Við Hl. Pálsgötu er 

Háskóli Möltu
.  Hann óx upp úr Collegium Melitense, sem var mikils metin menntastofnun Mölturiddaranna.  Hugues Loubenx de Verdalle, stórriddari (1581-95), stofnaði hana.  Í háskólanum stunda a.m.k. 1100 stúdentar nám í sjö deildum. Sömu megin við götuna, handan markaðshallarinnar, er

Kirkja hl. Páls hins skiprekna með stórfallegu innvolsi.  Þar er meistaraverk eftir Paladini (1544-1614), sem sýnir skipskaðann, sem postulinn lenti í við eyjuna.  Bak við kirkjuna liggja tröppur upp að

Mikla-Umsáturstorginu
, sem Lýðveldisgatan liggur um.  Á því miðju er minnismerki um umsátrið mikla eftir Antonio Sciortino. Norðvestan torgsins er er nýlegt dómshús, sem stendur á undirstöðum Auberge d’Auvergne, sem Gerolamo Cassar (1520-86) byggði.  Lítið eitt norðaustar tengist Drottingartorgið Umsáturstorginu.  Sunnan þess er yngsta bygging Mölturiddaranna (1796),

Þjóðarbókhlaðan, sem var stofnuð árið 1650 og var þá þegar meðal stærstu bókasafna heims.  Auk bóka og mynda af merkum mönnum, sem helguðu sig starfi safnsins, er mikið safn handrita um riddararegluna, m.a. undirrituð tilskipan Paschalis II páfa um stofnun reglu Jóhannesarriddaranna og lífstíðarlangur samningur milli Karls V og riddarareglunnar um eignarhald þeirra á Möltu.

Manoelleikhúsið er við Hallartorgið milli Gömlu bakaragötu og Gömlu myntgötu.  Það er kennt við stórriddarann Antonio Manoel de Vilhena og var byggt árið 1731.  Það er áhugavert og skrautlegt að innan með gullskreyttum stúkum og grænum, silkibólstruðum sætum.

Hin enska dómkirkja
Hl. Páls (1844) er við Vesturgötu og Sjálfstæðistorgið.  Englendingar byggðu hana, þar sem stóð áður bústaður þýzkra riddara (Auberge d’Allemagne).  Turnar kirkjunnar eru kennimerki Valletta.  Andspænis henni stendur

Auberge d’Aragon
, sem hýsir nú menningarráðuneytið.  Þetta er elzta bygging (1571), sem Gerolamo Cassar byggði sem riddarabústað og hin eina auk Auberge de Provence, sem er í upprunalegu ástandi.  Að innan er þetta óbrotna hús fagurlega skreytt í endurreisnarstíl.

Erkibiskupahöllin
(1624) er í næsta nágrenni við Auberge d’Aragon.

Frá Myntgötu er fallegt útsýni til Manoeleyjar og yfir Mmarxamxetthöfn til samnefnt virki.

Auberge de Bavière (1784) er beint á mót Jews Sally hliðinu.  Þetta er fyrrum höll regluriddara frá Bæjaralandi.

**Kirkja Hl. Páls
(1573-77) er sunnan Mikla-Umsáturstorgsins er meðal fegurstu guðshúsa í Evrópu.  Hún er meistaraverk Gerolamo Gassars, fyrsta byggingarmeistara Mölturiddaranna.  Franski stórriddarinn, Jean I’Evêque de la Cassière, lét byggja hana sem klausturskirkju fyrir Jóhannesarmunka fyrir eigið fé.  Píus VII, páfi, gerði hana að systurdómkirkju dómikirkjunnar í Mdina árið1816.  Beggja vegna forhliðar hennar eru ferhyrndir turnar, sem gefa henni tignarlegt yfirbragð, þótt hún sé einföld í sniðum.  Pallurinn fyrir framan hana, sem var notaður til að útnefna regluriddara, er líka yfirlætislaus.

Fáar kirkjur taka innviðum þessarar kirkju fram og allir gestir hennar verða steini lostnir, þegar þeir líta fegurðina.  Einkum eru hliðarkapellurnar, sem eru tileinkaðar hinum mismunandi þjóðernum riddaranna, tilkomumiklar, því að hinar mismunandi þjóðir kepptust um að gera þær sem bezt úr garði.  Mikill fjöldi málverka og styttna er áberandi.  Á gólfinu eru 400 marmaraskreyttir grafsteinar margra kynslóða háaðalsmanna úr riddarareglunni.  Raffael og Nicola Cotoner, stórriddarar, fólu ítlalska listamanninum Mattia Preti að mála 18 freskur, sem lýsa atburðum í lífi Jóhannesar postula, í hvelfinguna.  Hápunkturinn er þó meistaraverk Caravaggios (1608), sem sýnir líflát Jóhannesar, og er talið meðal tilkomumestu barokverka heimsins.  Háaltarið (1686) er prýtt mynd af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Lorenzo Gafà og marmarastyttum sem tákna skírn Krists eftir Guiseppe Mazzuoli.  Beggja vegna háaltarisins eru hásæti stórriddaranna og erkibiskups Möltu.  Í grafhvelfingunni eru kistur tólf stórriddara og grafsteinn Philippe Villiers de l’Isle Adam, sem leiddi riddarana frá Ródos til Möltu.  Þar er líka grafsteinn Jean Parisot de la Valette, sem stofnaði bæinn Valletta.  Vinstra megin aðalinngangsins í grafhvelfinguna eru dýrmæt málverk eftir Preti og gamlir höklar.  Í áheyrendasalnum við hliðina á kirkjunni eru líka þrjú málverk eftir Preti, Ecce Homo, Krossfestingin og Þyrnikrýningin.  Kirkjusafnið hýsir ómetanlega muni og listaverk, m.a. 14 veggteppi frá Belgíu, sem voru gerð eftir fyrirmyndum eftir Rubens og Poussin.

Heilagsjónsgata liggur frá kirkjunni að Stóruhöfn í gegnum Viktoríuhliðið og niður breiðar tröppur.  Á leiðinni er eru kirkjurnar St. Mary of Jesus og St. Barbara Bastion, verk Gassars.  Frá enda Liesse Hillgötu liggur leiðin um göng undir virkin að Tollhúsinu.  Þar eru júnkabátar í líkingu við goldóla, sem eru notaðir til skemmtiferða um höfnina og umhverfið.  Neðan við hornvirkið er hægt að fara með lyftu upp á *Efripall, þar sem er fallegur garður prýddur fjölda styttna (m.a. Churchill) og gríðargott útsýni yfir Stóruhöfn.

*Auberge de Castille
(et León) er nafngjafi Kastillutorgs.  Þetta hús er meðal skrautlegustu bygginga í Valletta og snýr forhliðinni að torginu.  Gerolamo Gassar byggði húsið en stórriddarinn Manoel Pinto de Fonseca lét Domenico Cachia breyta því í barkokstíl á árunum 1741-73.  Það skemmdis mikið í síðari heimsstyrjöldinni en var nosturslega endurbyggt.  Aðalinngangur hússins er mest áberandi með breiðri tröppu, fallbyssum á báðar hendur og brjósmynd af stórriddaranum.  Fyrrum var húsið m.a. stjórnsetur brezka hersins en nú er þar skrifstofa forsætisráðherrans.

Við Kaupmannagötu er fyrrum Palazzo Parisio (18.öld), þar sem utanríkisráðuneytið er til húsa.  Í þessu húsi bjó Napóleon Bónaparte um hríð eftir að hafa lagt Möltu undir sig 1798.  Beint á móti er

Auberge d’Italie, sem Gregorio Carafa, stórriddari (1680-90) lét breyta í lok 17. aldar.  Skjaldarmerki hans prýðir aðalinnganginn.  Við hliðina er fyrrum reglukirkjan Hl. Katrín, sem er núna sóknarkirkja.  Við hliðana á henni er Sigurtorgið og handan þess er önnur kirkja, Our Lady of Victories.  Þar var hornsteinn Valletta lagður árið 1566.

**Fornminjasafnið er á horni Suðurgötu og Lýðveldisgötu.  Þar er fjöldi minja og muna, sem eru einstæðir í heiminum.  Safnið er í húsi, sem var upprunalega byggt sem embættisbygging Mölturiddara, Auberge de Provence, árið 1571 (Gerolamo Cassar).

Forndeild safnsins er áhugaverðust, því að þar eru minjar frá nýsteinöld og hofum þess tíma.  Þar eru skartgripir og ölturu, kalkstyttur, leirmunir, trúarlegir munir o.fl. frá Ggantija á Gozoeyju, Hagar Qim, Mnaidra, Hal Taxien og Hypogäum.  Í sérsal eru sýnd fimm beztvarðveittu hofin frá tímum Föníka, Púna, Rómverja, araba og Mölturiddara.

Þjóðlistasafnið er á horni Suðurgötu og Skotagötu.  Það hýsir fjölda málverka innlendra listamanna, m.a. sjálfsmynd Giuseppe Grech (19.öld), mynd af konu eftir Giorgio Bonavia og gipsstyttuna „Arabahestana” eftir Antonio Sciortino.  Þeir, sem hafa áhuga á málverkum, ættu að leggja leið sína í deildina, sem hýsir málverk frá fyrra safni dýrgripa listamanna, sem voru undir áhrifum frá Spáni, Frakklandi og Bretlandi.  Þar bera hæst nöfn Mattia Preti (1613-99), Tiepolo (1727-1804), Palma Giovane, Matthias Stomer (1600-50) og Andrea Vaccaro (1598-1670).

Þegar haldið er frá Þjóðlistasafninu er mælt með göngu um Hastingsgarðinn, sem var nefndur eftir fyrrum landstjóra og markgreifa af Hastings (1824-26).  Lítið suðaustar er Borgarhliðið og Frelsistorgið, þar sem Lýðveldisgatan byrjar.  Utan hliðsins er stórt torg með Trintonbrunninum og umferðarmiðstöð borgainnar.  Þaðan leggja rútur og strætisvagnar af stað til flestra horna eyjarinnar.  Garðurinn handan torgsins er hluti Florianahverfisins, sem byggðist fyrst snemma á 18. öld til varnar Valletta eftir skipulagi Pietro Florianis.  Meðal áhugaverðra staða þar er virkið Porte des Bombes, kirkja Hl. Publius, fyrsta biskups Möltu, Sarriakirkjan og Lourdemeyjarkirkjan..  Florianasgarðurinn er líka áhugaverður.  Þar er fjöldi styttna og kaktusagarður.  Það er upplagt að fara í skoðunarferðir frá torginu til nærliggjandi staða meðfram ströndinni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM