Manitoba
er eitt sléttufylkja Kanada, mitt á milli Atlantshafsins og
Kyrrahafsins. Winnipegvatn er
eitt rúmlega 38.500 stöðuvatna fylkisins og 13. stærsta vatn jarðar. Rúmlega tveir fimmtungar lands fylkisins eru skógi vaxnir.
Norðan þess er Nunavuthérað, Hudsonflói til norðausturs,
Ontaríó til austurs, Norður-Dakóta og Minnisota (BNA) í suðri og
Saskatchewanfylki til vesturs. Höfuðborgin
Winnipeg er sjöunda stærsta borg landsins.
Nafn fylkisins er úr indíánamáli og þýðir „Hinn talandi guð”.
Manitoba
varð fimmta fylki Kanada árið 1870.
Það nær yfir hluta af innsléttunum og Mið-Kanada, sem eru víðast
vel fallið til landbúnaðar, og landslagið er svipað og í Alberta og
Saskatchewan. Líkt og í
Ontaríófylki byggir blanda þjóðerna afkomu sína á ýmsum
atvinnuvegum. Efnahagsleg þróun
hefur verið hæg og sígandi samtímis meiri uppgangi í fylkjunum í
vestri. Svipuð þróun hefur
verið á stjórnmálasviðinu, þar sem gætt er meiri hófsemi en víðast
annars staðar í landinu. Flatarmál
fylkisins er 649.950 km², þar af 101.590 km² stöðuvötn og ár.
Íbúafjöldinn 1991 var 1.091.942 og árið 1996, 1.145.200. |