Íbúafjöldinn er
8,3 milljónir (>12 milljónir með útborgum; 1998).
Höfuðborgin er á suðurhluta austurstrandar Honshu.
Þrjár ár renna um höfuðborgarsvæðið, Sumida, Arakawa og
Tama, unz þær hverfa í Kyrrahafið í Tókíóflóa.
Tókíó, Kawasaki og Yokohama mynda stærsta iðnaðarsvæði
landsins, Keihin. Tókíó
og umhverfi er meðal þriggja stærstu þéttbýla heims með 25 milljónir
íbúa (Mexico City og Shanghai eru hin þéttbýlin).
Mælt
er með **Keisarahöllinni stórkostlegu í miðborginni sem
upphafsstað skoðunarferða um borgina.
Lítið sést af
höllinni sjálfri vegna hárra múra og virkisgrafa umhverfis hana. Hefjist
skoðunarferðin frá Hallarhótelinu (Palace Hotel), austan
hallarinnar, er bezt að reyna að fá yfirsýn yfir hallarsvæðið af
þaki hótelsins. Hallarsvæðið
er aðeins opið almenningi tvisvar á ári, 2. janúar og á afmælisdegi
keisarans. Erlendir gestir
geta fengið að skoða það á öðrum tímum með því að falast
eftir því við hinn keisaralega umsjónarmann.
JNTO annast milligöngu.
Við
suðausturhorn hallarsvæðisins er stórt torg, þar sem japanskir
gestir safnast saman. Þegar
inn er komið veitir hin merkilega Hijubashibrú aðgang að
austurhluta garðsins síðan 1968, en einnig eru inngangar að vestan-
og norðanverðu. Garðurinn
er opinn á þriðjudögum, miðvikudögum, laugardögum og sunnudögum
auk lögbundinna frídaga kl. 09:00-16:00 og eftir kl. 15:00 er engum
hleypt inn. Það borgar
sig að ganga um hallargarðinn og kíkja inn í borgarhverfin umhverfis
hann til að fá fyrstu hugmyndirnar um borgina.
Frá
norðurhliðinu í austurhluta garðsins liggur vel við að kíkja á
Kandahverfið skammt norðar. Þar
eru margar áhugaverðar bókaverzlanir og Meiji-háskólinn.
Sé haldið áfram sólarsinnis frá austurgarðinum, kemur
Kitanomaru-garðurinn í ljós beint norður af hallargarðinum.
Þar eru nýlistasafn þjóðarinnar, vísindasafnið og sýningar
og uppákomuhöllin Nippon Budokan, sem er lýsandi dæmi um hagnýta
byggingarlist. Við
Chidorigafuchiskurðinn er hægt að leigja árabáta til siglinga á
virkisgröfunum.
U.þ.b.
800 m norðan keisarahallarinnar er *Korakuenlystigarðurinn,
einn klassískasti garðurinn í borginni.
Auðvelt er að komast þangað með neðanjarðarlest frá
Ginza-stöðinni og stigið af henni í Korakuen-stöðinni.
Við garðinn stendur Kodokanjúdóhöllin.
Skammt
frá norðvesturhorni keisarahallarinnar er Yasukunihofið,
fagurt tákn Shintotrúarinnar og minnismerki þeirra, sem fallið hafa
í styrjöldum. Inngangur í það er um stærstu hlið (Torii) landsins.
Annað er úr graníti og hitt úr bronzi.
Meðfram
vesturhluta keisarahallarinnar er breiðasti skurðurinn með mikinn múr
á öðrum bakkanum. Í
grennd við suðvesturhorn hallargarðsins er áberandi, nýtízkulegt
leikhús og skammt sunnar er þinghúsið, granítbygging frá 1936.
Hægt er að fá að skoða það, þegar þingið er ekki saman
komið, ef haft er samband við umsjónarmenn þess fyrirfram.
Vilji fólk skoða það á meðan þingið er að störfum, verður að fá sérstakt aðgangskort hjá einhverjum þingmannanna
eða sendiráði sínu.
Sunnan
við keisarahöllina er fjöldi stjórnarbygginga auk Hibiyagarðsins
og síðan tekur við Ginza-hverfið litlu austar.
Þangað er haldið eftir götunni norðan garðsins undir járnbrautina. |