Tókíó meira Japan,
Flag of Japan

Umhverfi Tókíó

TÓKÍÓ MEIRA
JAPAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ginza (í Chuo-ku) er bezta verzlunarhverfið og þar er fjöldi veitingahúsa, bara, einkaklúbba og skemmtistaða.  Þar eru stóru vöruhúsin (Mitsukoshi, Matsuzakaya, Matsuya), sem bjóða ótrúlegt vöruúrval, og fjöldinn allur af minni sérverzlunum.  Litlar, áhugaverðar verzlanir er að finna í stuttu hliðargötunum.  Þegar rökkvar, ljá óteljandi ljósaskilti þessu verzlunarhverfi ævintýralegan blæ.

Þrjár neðanjarðarlesta borgarinnar skerast í Ginza, þannig að hægt er að komast þaðan til ýmissa áhugaverðra staða annars staðar í borginni.  Þar eru einnig stöðvarnar Higashi-Ginza (austurstöðin) og Nihon-bashi.

JNTO býður sérkort af Ginza-svæðinu, en kortið yfir miðborg Tókíó í 'Japan Visitor's Guide' er betra (útgefendur: Universal Publishers Co.).

Auk hágæða veitingahúsa eru þar líka bjórhallir og kaffihús.  Aðeins 1,5 km sunnar er Hamarikyu-garðurinn (garður keisarabústaðarins Hama), sem er algjör andstæða taugaspennunnar í miðborginni.

Aðalgata Ginza er Chuo-dori.  Sé henni fylgt til norðurs, birtast verzlanir og vöruhús Kyobashi-hverfisins áður en komið er til viðskiptahverfisins Nihonbashi (Japansbrú).  Brúin, sem hverfið tekur nafn af, var fyrrum upphaf leiðarinnar frá Tokyo til annarra hluta ríkisins.

Vestan Chuo-dori-götunnar í Kyobashi-hverfinu er aðalbrautarstöðin, sem er geysimikil bygging.  Þaðan bruna Shinkansen-lestirnar til Kíótó, Ósaka og Okayama og hægfara lestir, sem fara um stórborgarsvæðið.  Vestar og handan járnbrautanna er Marunouchi, enn eitt verzlunarhverfið.  Handan þess er keisarahöllin.

Í lýsingunni hér að framan, hefur verið farið um alla miðborgina.  Aðrir skoðunarverðir staðir eru utan þessa svæðis.  Þremur km sunnan miðborgarinnar er Tókíóturninn, 333 m hátt stálmannvirki.  Í góðu skyggni sést allt borgarsvæðið þaðan og alla leið til Fujifjalls.  Turninn sést vel tilsýndar alls staðar að úr borginni, þannig að auðvelt er að ganga að honum án þess að villast.  Einfaldast er að aka þangað með grænu Yamanote-lestunum frá þriðju stöð sunnan aðalbrautarstöðvar-innar og stíga af í Hamamatsucho-stöðinni.  Vestan Tókíóturnsins er skemmtanahverfið Roppongi.  Þangað kemst fólk frá Kamiyacho-stöðinni með neðanjarðarlestunum.

Einnig er hægt að ganga frá turninum í átt að Hamamatsucho-stöðinni og aka með lest frá Daimon-stöðinni til Sengakuji-stöðvarinnar.  Þaðan er örstutt að *Sengakuji-hofinu.  Þar eru grafir hinna frægu 47 Ronin, sem frömdu sjálfsmorð (Seppuku; Orðið harakiri er ekki notað í Japan) árið 1701 eftir að hafa hefnt herra síns, sem fallið hafði í ónáð við hirðina.  Þeir höfðu heitið honum órofa tryggð og urðu að standa við heit sín.  Kabuki-sjónleikurinn Kanadehon Chushingura fjallar um þessa atburði.

Tveimur brautarstöðvum sunnar er Gotanda, þaðan sem hægt er að aka með grænu Yamanote-lestunum í norðvestur til Shibuya-ku-hverfisins.  Í grennd við Harajuku-stöðina er Meiji-skrínið.  Það er helgað keisaranum Meiji og konu hans og stendur í mjög fallegum garði og í innri garðinum eru tjarnir og írísareitir.  Við  inngangana í garðinn eru hlið (Torii) úr kýprusviði, sem tekinn var úr görðum keisarans.  Norðvestan innri garðsins er **Sverðasafnið, þar sem ný og gömul lagvopn eru til sýnis.

Hálfum öðrum km norðan skrínsins er hverfið Shinjuku-ku með *skýjakljúfum, verslunum og skemmtistöðum.  Brautarstöðin er ein hinna þriggja stærstu í Tókíó og tengir neðanjarðarkerfið við landskerfið.  U.þ.b. 400 m vestan stöðvarinnar er Keio Plaza hótelið, 47 hæða bygging með útsýnisveitingastað, spilasölum, verzlunum og tilraunaleikhúsi.  Þótt Ginza sé stærsta skemmtanahverfið, er gaman að spóka sig í þessu hverfi á kvöldin.

Mörg stór vöruhús eru í Shinjuku (Keio, Odakyu, Mitsukoshi og Isetan).  Fari fólk með neðanjarðarlestinni frá Shinjuku í áttina að miðborginni og stígi út í Shinjuku-goyen-mae er Shinjuku-Goyen-garðurinn innan seilingar.  Þetta 58,5 ha svæði hafði keisarinn til afnota fram að seinni heimsstyrjöldinni, þegar það var opnað almenningi.  Garðurinn er að hluta í klassískum, japönskum stíl með blómstrandi kirsuberjatrjám í apríl og krísantemum í nóvember.  Hinir hlutarnir eru m.a. í frönskum og enskum stíl.  Í gróðurhúsum eru ræktaðar margar tegundir hitabeltisplantna.

Nær miðborginni er viðkomustaðurinn Akasaka-mitsuke í miðju skemmtanahverfinu Akasaka.  Þar eru nokkrir stórir kabarettar og margir litlir og oft dýrir barir, sem bjóða upp á lagskonur.

Efst uppi á hæðinni í Akasaka í grennd við Capitol Tokyu hótelið er hið fagra Hie-skríni og Yasukuni-skrínið, sem bæði gefa hugmynd útlit shinto-helgidóma.  Utan borgarinnar eru þó miklu meira hrífandi hof.

Í norðurhluta borgarinnar, í Bunkyo-ku-hverfinu, er grasagarðurinn Koishikawa, sem tilheyrir háskólanum (neðanjarðarlestarstöð: Myogadani) og enn norðar er Rikugien-garðurinn (Yamanote-lest eða neðanjarðarlest að Sugamo-stöð).  Austan þessara tveggja garða er

*Ueno-garðurinn (84 ha; Yamanote-lest að stóru Ueno-stöðinni).  Í garðinum og umhverfis hann eru nokkur merkilegustu safna Tókíó.  Garðurinn er sérstaklega fallegur, þegar kirsuberjatrén blómstra, en íbúar borgarinnar flykkjast þangað allt árið um helgar og á frídögum.  Nærliggjandi verzlunargötur eru lokaðar bílaumferð um helgar og þá úir og grúir þar af fólki.  Norðan við Ueno-garðinn er stærsta safn Japans, **Þjóðminjasafnið í gríðarstórri byggingu.  Það óx upp úr hinu svonefnda keisarasafni.  Skiptisýningar, helgaðar sögu og listasögu, er að finna í 25 sölum.  Sunnar er forngripasafnið (Tokyokan; menningarminjar frá Kína og Kóreu) og *Þjóðvísindasafnið (dýrafræði, grasafræði, landafræði, eðlis- og efnafræði, stjörnufræði, veðurfræði og haffræði).  Fyrir framan það er stytta af gerlafræðingnum Hideyo Noguchi (1876-1928).  Þjóðarsafnið fyrir vestræna list (úr járnbentri steinsteypu eftir Le Corbusier; 1959) hýsir safn vestrænna höggmynda og málverka, sem iðnjöfurinn Mtsukata Kojiro safnaði og verk eftir Cézanne, Degas, Monet, rodin og aðra.  Beint á móti safninu er hátíðarhöll borgarinnar (1961).  Vestan garðsins er dýragarðurinn og borgarlistasafnið fyrir fagurlist með skiptisýningum.  Sunnan dýragarðsins er Toshogu-hofið (1627) í fimm hæða pagódu.

Háskólasvæðið nær að garðinum vestanverðum.  Þar er athyglisvert, útskorið hlið, Rauða hliðið, og tjörnin Sanshiro.

Austan Ueno-garðsins er Asakusa-hverfið, sem þekkt er fyrir næturlíf sitt.  Þar eru ótal leikhús, fatafellustaðir og veitingahús, sem eru lítið eitt ódýrari en í öðrum skemmtanahverfum.  Þarna er líka hið stórkostlega *Asakusa-Kannon-hof, miðstöð búddatrúarflokksins Sho-Kannon, umkringt fjölda minjagripaverzlana.

Í grennd við ána Sumida, rúmlega 1,5 km sunnan Asakusa, er Kuramae-Kokugikan-Sumo-höllin, þar sem fara fram mestu Sumo-glímukeppnirnar (janúar, maí og september).  Þar er einnig lítið Sumo-safn.

Tíu km austan miðborgarinnar er skemmtigarðurinn Tokyo-Disneyland, sem hefur verið fjölsóttasta afþreying landsins síðan hann var opnaður árið 1983.  Þegar á fyrsta árinu komu rúmlega 10 milljónir gesta.  Þangað er hægt að komast alls staðar að, s.s. frá Urayasa-stöðinni með strætisvögnum Tozai-fyrirtækisins, sem aka beint til Disneylands.  Skemmtigarðurinn rekur sjálfur vagna, sem aka til og frá norðurinn-gangi aðalbrautarstöðvarinnar (aksturstími u.þ.b. 30 mín.).

Norðaustan Tókíó, við rætur hins 876 m háa fjalls Tsukuba, er hin nýstofnaða vísindaborg *Tsukuba Science City, ein stærsta vísindamiðstöð heims.  Þar er líka sýningarsvæði Expo '85, heimssýningarinnar, þar sem lögð var megináherzla á tölvutækni, sjálfvirkni og samgöngutæki, og 20 milljónir gesta sóttu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM