Gamli
kjarni Gömlu-Delí er norðan Nýju-Delí handan samsíða gatnanna
Desh Bandhu Gupta Road og Asaf Ali Road.
Þar ríkir dæmigert indverskt líf.
Austurmörk Gömlu-Delí eru við Jamna-ána.
Á hægri árbakkanum, við Rauða virkið er staðurinn, þar
sem lík Mahatma Gandhi, Pandit Nehru, Lal Bahadur Shastri og Indira
Gandhi voru brennd.
Nokkur
merki um fyrri borgarmúra sjást enn þá.
Það eru hlutar 9 km langra, hringlaga borgarmúra, sem voru
byggðir utan um borgina Shajahana-bad, sem Shah Jahan stofnaði.
Ajmeri-hliðið og Delí-hliðið voru hlutar hans.
Mesta
byggingin innan múranna er mógúlhöllin, *Rauða virkið, sem Shah
Jahan lét reisa á árunum 1638-1648.
Upprunalega var það á bakka Jamnaárinnar en hún breytti
farvegi sínum síðan og færðist til vesturs.
Þess vegna virðist austurhluti virkisins fremur ótryggur til
varnar.
Rauða virkið er u.þ.b. einn km á lengd og 490 m breitt og
umkringt 16 m háum múr úr rauðum sandsteini, fjölda lágra turna og
tveimur frambyggðum hliðavirkjum.
Inngangurinn
í Rauða virkið er að vestanverðu um 'Lahore-hliðið' og 104 m löng
göng, þar sem einkabasar mógúlanna var haldinn fyrrum en núna er þar
fjöldi lítilla minjagripaverzlana.
Í beinu framhaldi ganganna er tón-listarsalur (Naubat Khana),
þar sem konunglegir tónlistarmenn léku fimm sinnum á dag.
Handan inngarðsins er móttökusalur (Dewan-i-Am), þar sem mógúlarnir
veittu áheyrnir, fögur bygging í hindústíl með 60 súlum úr rauðum
sandsteini, sem bera flatt þakið uppi.
Í bakveggnum er stórt útskot, þar sem hásætið, prýtt eðalsteinum,
stóð.
Handan hliðs á norðurhliðinni er annar grænn inngarður.
Þarna var bústaður mógúlanna og ríkissalir auk
Dewan-i-Khas, salarins fyrir einkaáheyrnir.
Þessi salur var í opnum garðskála úr hvítum marmara og var
eitt sinn aðallistaverk mógúltímans.
Þarna var hið stóra páfuglshásæti, sem var flutt til Persíu
sem herfang árið 1739.
Í aldanna rás var garðskálinn margeyðilagður og rændur en
samt gefur hann til kynna glæsileik fortíðarinnar.
Litla perlumoskan (Moti Masjid) norðan Dewan-i-Khas var byggð
árið 1659 (Aurangzeb).
Hljóm-
og ljósasýningar með söguskýringum Rauða virkisins eru haldnar frá
september til júlí.
Hið
breiða Chandni-stræti (Silfurstræti) er aðalumferðaræðin í
gegnum gamla borgarhlutann.
Fyrrum var þetta stræti frægt sem ríkasta gata heims og nú
er þar m.a. líflegur og skrautlegur basar (einkum silfur og fatnaður).
Strætið var nógu breitt til að rúma hinar miklu skrautsýningar
og göngur Shah Jahans.
Mörg gömlu borgarahúsanna standa enn þá.
Svalir eru utan um inngarða þeirra og einnig að utanverðu.
Inngangar þeirra eru litlir og mjóir.
Byggingarlag þeirra tryggir góða vernd gegn þrúgandi hita
sumarmánaðanna.
Nærliggjandi
gata, Dariba Kalan, er girt skartgripaverzlunum, sem falbjóða m.a. mjög
dýrar og afbragðsfallegar styttur úr fílabeini.
Sunnan
Chandni Chowk er **Jama Masjid, byggð á árunum 1650-1656 af Shah
Jahan sem stærsta moska hins islamska heims.
Þetta stórkostlega mannvirki var síðar stórskaðað með viðbyggingum
og breytingum.
Moskan stendur á 10 m háum sökkli og umgirt opnum bogagöngum
á þrjá vegu.
Stórar tröppur liggja upp að aðalinngöngunum.
Austasti inngangurinn var ætlaður stórmógúlnum.
Frá suðurmínarettunni er frábært *útsýni yfir Rauða virkið
og borgina. |