Vanuatu
er eyjaklasi (u.þ.b. 80 eyjar; áður Nýju Hebrideseyjar) og sjálfstætt
lýðveldi í Suðaustur-Kyrrahafi.
Stærstu eyjarnar eru í röð eftir stærð:
Espíritu Santo, Malekula, Efate og Tanna.
Aðrar helztu eyjar eru: Epi,
Pentecost, Aoba, Maewo, Erromanga og Ambrym.
Heildarflatarmál Vanuatu er 14.763 km².
Alls eru 67 eyjar byggðar.
Íbúafjöldinn var 165 þúsund árið 1994 (11 manns á hvern
ferkílómetra). Höfuðborgin
Port Vila er á Efate (áætlaður íbúafjöldi 1989 var 19.400).
Nokkrar
eyjanna eru kórallaeyjar en flestar hafa byggzt upp í eldgosum. Þrjú eldfjöll eru virk.
Hæsti tindurinn, Tabwemasana (1811m), er á Espíritu Santo.
Flestar eyjanna eru vaxnar þéttum skógi og einungis 1% lands
er ræktað Hitabeltisloftslag
ríkir á eyjunum og meðalárshiti er 25°C.
Meðalársúrkoman er 3810 mm í norðurhlutanum og 2286 mm
í suðurhlutanum.
Íbúarnir
eru aðallega af melanesískum uppruna en einnig afkomendur Evrópumanna,
kínverja og Víetnama.
Tveir
þriðjungar þeirra búa á stærstu eyjunum fjórum.
Enska og franska eru opinber tungumál eyjaskeggja en bislama er
þjóðartungan, sem rúmlega 80% íbúanna talar.
Þar að auki eru mörg melanesísk tungumál töluð á eyjunum
(malæ-pólinesísk). Flestir
íbúanna eru kristnir (þriðjungur í öldungakirkjunni).
Hinn 27. nóvember 2005 hófst eldgos á hinni afskekktu
Ambae-eyju, sem tilheyrir Vanuatu. Þúsundir íbúar í
nágrenni eldfjallsins urðu að yfirgefa heimili sín vegna
hættu á aurskriðum og skip voru tilbúin til að flytja fólk
brott, ef ástandið versnaði. Gosið hófst í stöðuvatni
aðalgígsins.
Efnahagur
og stjórn.
Meðaltekjur á árunum 1992-94 voru US$ 1150.- á mann
á ári. Gjaldmiðill landsins er vatu.
Sjálfsþurftarbúskapur einkenndi efnahagslífið fram að lokum
20. aldar og landbúnaðurinn veitir enn þá flestum atvinnu.
Mest er ræktað af rótum (yams, taro) og banönum.
Helztu útflutningsvörur eru kókoshnetukjarnar, kakó og kaffi.
Fiskveiðar og nautgriparækt eru líka talsvert veigamiklar útflutningsgreinar.
Ferðaþjónusta er vaxandi.
Alþjóðaflugvellir eru við Port Vila og á Espíritu Santos.
Hagstæð fjármálalöggjöf hefur aukið
bankaviðskipti. Nú
byggjast u.þ.b. tveir þriðjungar vergra þjóðartekna á ferðaþjónustu
og fjármálastarfsemi. Eyjarnar tengjast með samgöngum á sjó og í lofti.
Vegakerfið er u.þ.b. 1130 km langt.
Járnbrautir hafa ekki verið lagðar á eyjunum.
Aðeins eitt ríkisrekið dagblað er gefið út.
Fjarskipti við umheiminn byggjast á gervitunglum og jarðstöð við
Port Vila.
Stjórnarfarið
á Vanuatu-eyjum byggist á stjórnarskrá frá 1980.
Æðsti maður ríkisins er forsetinn, sem er kjörinn til fimm
ára í senn. Framkvæmdavaldið
er í höndum ráðherraráðs, sem er undir stjórn forsætisráðherra.
Þingið kýs hann og síðan tilnefnir hann aðra ráðherra.
Löggjafarvaldið er í höndum 52 þingmanna, sem eru kosnir í
almennum kosningum til fjögurra ára í senn.
Sagan.
Melanesar hafa byggt eyjarnar síðan u.þ.b. 5000 f.Kr.
Portúgalski landkönnuðurinn Pedro de Queirós kom fyrstur auga
á þær árið 1606. Franski
sæfarinn Antoine de Bougainville heimsótti þær 1768 og brezki sæfarinn
James Cook, sem gaf þeim nafnið Nýju Hebrides-eyjar, kom þangað árið
1774. Bretar og Frakkar komu upp sameiginlegri herskipahöfn árið
1887 til að stjórna eyjunum. Árið
1906 urðu þær opinberlega brezk-franskt verndarsvæði.
Í síðari heimsstyrjöldinni (1942) komu Bandaríkjamenn upp
flugherstöð á Espíritu Santo. Í
júní 1980 hófst skammvinn bylting á Espíritu Santo, sem var kæfð
með aðstoð frá Papúa Nýju-Gíneu í ágúst, en eyjarnar fengu sjálfstæði
hinn 30. 1980. Vanuatu var
meðal fárra landa, sem fordæmdi ekki kjarnorkutilraunir Frakka í
Suður-Kyrrahafi. |