Kaupmannahöfn umhverfi Danmörk,
[Flag of Denmark]

SKOÐUNARVERT     GÖNGUFERÐIR um MIÐBORGINA

KAUPMANNAHÖFN UMHVERFI
DANMÖRK

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Suðausturhluti borgarinnar er á eyjunni Amager, sem er tengd Sjálandi með nokkrum brúm.  Þar er sýningarsvæðið Bella Center og alþjóðaflugvöllurinn Katstrup.  Á austurhluta eyjainnar er litla fiskiþorpið Dragør, sem er vinsæll baðstaður og státar af fallegum húsum frá 18. öld.  Þar eru skemmtilegar gönguleiðir.

Aki fólk eftir hraðbrautinni Lyngbyvej birtast brátt Kongens Lyngby, Sorgenfri með samnefndri höll, sem er hluti Þjóðminjasafnsins í Brede (skiptisýningar), og útisafnið (Frilandsmuseet), sem nær yfir 36 ha lands.  Þar eru gömul bændabýli, útihús og myllur víða að í Danmörku og líka frá Færeyjum.  Öll húsin voru endurreist með gömlum, viðeigandi verkfærum.

Óhætt er að mæla með skemmtigöngu norður eftir Østerbrogade og Strandvej fram hjá Tuborg verksmiðjunum og stærstu bjórflösku í heimi (26 m há; samsvarar innihaldi 1.425.000 bjórflaskna) og gegnum Hellerup og Charlottenlund (sædýrasafn með 3000 tegundum fiska víða að úr heiminum og brokkvöllur).  Þar tekur við Dýragarðurinn (Dyrehave), þar sem dádýr og hirtir eru á beit á stóru, afgirtu landi.  Gott er að fara þar um gangandi, á reiðhjóli eða með hestvögnum og litast um eftir sveppum á leiðinni.  Í þessum u.þ.b. 860 ha beykiskógi er höllin Eremitage.  Þaðan er gott útsýni yfir Eyrarsund til Svíþjóðar.  Við suðurjaðar skógarins er skemmtigarðurinn Bakken.  Aðeins austar er einbýlishúsasvæði og baðstaðurinn Klampenborg.  Lengra við Strandvej er ríkmannlegu einbýlishúsahverfin Skotsborg, Vedbæk og Rungsted auk listasafnsins Louisiana.

Sé haldið til suðurs frá Kaupmannahöfn á hraðbrautinni, blasa við íbúðahverfi með fjölbýlishúsum, s.s. Albertslund, Brøndby, Strand og Ishøj, og flatt og skóglaust svæði á leiðinni til Køge, sem er hafnarborg við Køgefjörð.  Þar eru mörg falleg bindingshús, hið elzta frá 1527, og kirkja hl. Nikulás.  Í henni er fallegur, útskorinn predikunarstóll og altari frá 1624.  Svolítið sunnar (7 km) er endurreisnarhöllin Valle, sem byrjað var að byggja árið 1586.  Þar var nunnuklaustur fyrir aðalbornar konur frá 1738.  Þetta er virðulegt, þriggja hæða hús með tveimur stórum turnum, annar er sívalur og hinn ferhyrndur.  Húsið brann árið 1893 og allt innanstokks eyðilagðist.  Húsið er umgirt breiðum virkisgröfum og fallegum lystigarði.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM